Fyrstu áratugir þyrlurekstrar
Haustið 2024 kom út bókin Til taks hjá bókaútgáfunni Hólum um þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar (https://holabok.is/til-taks-thyrlusaga-landhelgisgaeslu-islands-fyrstu-40-arin/). Í henni er fjallað ítarlega um aðdraganda fyrstu þyrlukaupa 1965 og framvinduna fyrstu fjóra áratugina eftir það. Sú saga er um framsýni, frumkvöðlastarf, baráttu og fórnir. Þar sem frásögninni lýkur er komin að mestu sú mynd á þyrluflotann og reksturinn sem við þekkjum enn í dag.
Höfundar bókarinnar eru Páll Halldórsson, Benóný Ásgrímsson og Júlíus Ó. Einarsson. Páll og Benóný eru fyrrum yfirflugstjórar og flugrekstrarstjórar Landhelgisgæslunnar.
Hér á eftir er tæpt á ýmsu í þeirri sögu og birtar myndir sem ekki eru í bókinni.
Forsaga – Fyrsta þyrlan á Íslandi
Íslendingar fylgdust vel með þróun þyrlna á þeim tíma sem þær þróuðust úr tilraunaloftförum yfir í nytsamleg verkfæri í þágu leitar og björgunar auk annarra verkefna, um og fyrir miðja síðustu öld. Áhugamenn voru bæði í röðum stjórnvalda og stofnana, og Slysavarnafélags Íslands. Menn sáu í hendi sér hve nytsamleg tæki þetta voru þá þegar og myndu síðar geta orðið eftir því sem þróun þyrlna vatt fram. Yfirburðir þessara tækja yfir önnur úrræði við tilteknar aðstæður voru augljósir.
Árið 1949 var fengin þyrla af gerðinni Bell 47D hingað til lands í nokkra mánuði, til reynslu. Tveir flugmenn og tveir flugvirkjar voru þjálfaðir í meðferð hennar og viðhaldi. Íslendingum bauðst vélin til kaups en ekki varð úr því og hún var send aftur til framleiðandans. Þyrlan fékk einkennisstafina TF-HET meðan hún var skráð hérlendis.

Myndin að ofan er frá kynningu 14. júní 1949 fyrir stjórnmálamenn, embættismenn og fleiri, sem stuðluðu að eða tengdust láni þyrlunnar til Íslands. Breskur flugmaður að nafni Youell fylgdi vélinni og sést hann hér við stjórnvölinn í ljósum jakkafötum. Youell kenndi tveimur íslenskum flugmönnum að stjórna vélinni, þeim Anton G. Axelssyni og Karli Eiríkssyni. Bandarískur flugvirki að nafni Finch tók þátt í útgerð TF-HET hérlendis um tíma, og þjálfaði hann flugvirkjana Jón N. Pálsson og Sigurð Ágústsson í viðhaldi hennar. Íslendingarnir voru allir starfsmenn Flugfélags Íslands, sem lagði verkefninu lið að ósk Slysavarnafélags Íslands.

Ekki er að finna heimildir um breytingar á útliti og eiginleikum TF-HET meðan hún var starfrækt hérlendis, aðrar en ljósmyndir. Á þessari mynd, sem er tekin á Reykjavíkurflugvelli, má sjá að flotholtum hefur verið skipt út fyrir hjólabúnað. Flotholt voru nýjung sem lendingarbúnaður á þyrlum og voru kynnt til sögunnar af flugher Bandaríkjanna þetta sumar. Önnur greinileg breyting á TF-HET frá flestum öðrum myndum af henni, er að málað hefur verið yfir breiða, dökka beltið á bómunni aftan við bolinn. Þarna er hún greinilega merkt umboðsaðila Bell hérlendis; Elding Trading Co.