Eftirfarandi er ritgerð sem samin var fyrir námskeiðið Forsaga við Háskóla Íslands, á vormisseri 2012. Fjallar um þrjár greinar um tímatalsfræði:
- Gosden, Chris & Karola Kirsanow (2006) „Timescales“. Lock, Gary & Brian Leigh Molyneaux, Confronting Scales in Archaeology: Issues of Theory and Practice. New York: Springer, bls. 27-37
- Lucas, Gavin (2005) „Beyond Chronology“ í Archaeoogy of Time, London: Routledge, bls. 1-31.
- Rowley-Conwy, Peter (2007) „Chronologies in Conflict“ í From Genesis to Prehistory: The Archaeological Three Age System and its Contested Recetion in Denmark, Britain and Ireland, Oxford: Oxford University Press, bls. 1-20.
Tíminn er flóknara fyrirbæri en virðist.
Myndin sem fylgir er af verki spánska listamannsins Salvadors Dali, sem hefur verið nefndur faðir súrrealismans í myndlist. Það heitir „Persistence of Memory“ og viðfangsefni þess er tíminn.
Tímatalsfræði
Inngangur
Gavin Lucas spyr þeirrar sjálfsögðu spurningar á upphafssíðu bókar sinnar, hvers vegna tíminn sé fornleifafræðinni mikilvægur. Svar hans er jafn einfalt og það er stutt; fræðigreinin fjallar um hið liðna. En Lucas lengir svarið. Hann leitast við að skoða tímann sem kennilegt viðfangsefni og það hvernig skilningur og framkvæmd þess er í nútíma fornleifafræði. Þetta viðfangsefni er nýnema í faginu nauðsynlegt að ígrunda og öðlast skilning á, því hér er fengist við hugmyndir sem eru flestum trúlega nokkuð framandi. Þær þrjár fræðigreinar sem hér er rýnt í (sjá heimildaskrá), velta einkum fyrir sér spurningunni um það hvaða skilning má leggja í tímann og með hvaða aðferðum. Efnistökin eru mismunandi en þó með allnokkrum líkindum.
Í daglegu lífi er lítt fengist við árþúsund, hvað þá að rýnt sé í stærri kvarða, s.s. milljónir ára. Jafnvel í skólakerfinu er fremur lítið gruflað í viðfangsefni tímtalsfræðinnar samkvæmt reynslu þessa höfundar, nema þá á sérstökum fagsviðum innan háskólanna. Þessi ritgerð er öðrum þræði sjálfshjálp nýnema í þeirri viðleitni að öðlast dýpri skilning á hvort tveggja tímanum og tímatalsfræðinni en líka helstu aðferðum tímatalsfræðinnar og beitingu þeirra í íslensku samhengi. Höfundur hefur frá því að hann fór að velta fyrir sér tímanum í samhengi við fornleifar og löngu liðna tíð, sótt með sjálfum sér í samlíkingu sem hefur styrkst nokkuð við lestur greinanna sem hann fjallar hér um. Samlíkingin er við köfun þar sem yfirborð hafsins er núlíðandi stund en fjarlægð í tíma fær samsvörun í auknu dýpi. Með því að farið er niður á aukið dýpi, nýtur stöðugt minna ljóss, allt þar til komið er niður í algert myrkur. Um leið missir umhverfi, s.s. gróður og dýralíf smám saman lit. Því dýpra sem er farið, því meir minnkar einnig líkamleg og tæknileg geta kafarans um leið og dregur úr sýn hans. Úti á opnu hafi er einhver töluleg vissa um dýpi niður á botn en leiðin þangað niður er nær öll hulin sjónum. Svipaða tilfinningu má fá fyrir tímanum.
Þrjú sjónarhorn á tímann
Samkvæmt greininni Timescales horfir fornleifafræðin aftur um sex milljónir ára og reynt er að draga fram í huga lesandans þá staðreynd að ekkert sé í rauninnin langt né stutt nema í samhengi við eitthvað annað. Almennt er tímakvarði fornleifafræðinnar mjög langur, sé miðað við viðfangsefni flestra annarra fræðigreina, svo sem mannfræði og félagsfræði. Svo má á hinn bóginn líta til annarra fræðigreina sem hafa nokkra skörun við fornleifafræðina; jarðfræði og steingervingafræði, sú fyrrnefnda spannar alla jarðsöguna og þar með þúsundfalt lengri tíma (sé miðað við niðurstöður rannsókna sem viðurkenndar eru í dag).
Fram kemur að stærð er ekki allt, eða a.m.k. ekki allt og sumt, sem er í raun lykilatriði greinarinnar. Tímakvarðar er sagðir flóknir til skilnings, þar sem þeir séu ekki einn, heldur margir. Hvert fornleifafræðilegt gagn beri í sér mismunandi tímabil og aðferðir til mælinga á þeim. Fornleifafræðileg túlkun feli í sér að skjótast fram og til baka um mismunandi tímabil, en ekki á línulegan máta. Svo litið sé til hins flókna eðlis tímakvarða, er hann skoðaður út frá tíma og rúmi, því það virðist auðveldara að skilja rýmið en tímaþáttinn. Myndlíkingar sem notaðar eru til þess að skilja tímann eru oft með vísan til rýmis: okkur finnst framtíðin vera framundan okkur og fortíðin að baki (þó svo að Maoríar sjái þetta öfugt, þar sem þeim finnst þeir sjá fortíðina betur en framtíðina og því þykir þeim hún liggja framundan sér). Við tölum um fjarlæga fortíð og nálæga framtíð og vonumst til að þoka hlutum hratt fram á við. Það er því til þæginda að nota slíkar myndlíkingar um tímann en á endanum er það misvísandi, þar sem rými hefur þrjár víddir en tíminn er flóknari en svo. Það er því skoðun greinarhöfunda að því lengri tíma sem fræðigrein fæst við, verði tímaskalinn ekki beinlínis svo mjög langur, heldur samansafn ólíkra tímakvarða sem eru settir saman af mismunandi tímum sem erfitt sé að sjá fyrir sér í einni mynd. Í því skyni að útskýra rýmiskvarða úr fortíðinni, er mannslíkama stillt upp í landslagi. Með því er hægt að meta fjarlægðir, sjónsvið og nánd út frá mannslíkamanum og almennri getu hans. Sama á við um mannvirki í landslaginu, landamæri, kerfi og byggingar, sem allt er hægt að meta út frá vinnustundafjölda sem fór til byggingu þeirra og viðhalds.
Þar á móti er enginn einn tímakvarði, heldur margir og mælieiningar eru ekki alltaf augljósar. Einn þeirra gæti verið meðalævilengd manna. Þegar grannt er litið, þá er það ekki einhlítur kvarði. Nefnt er að mestu lífslíkur manna séu meðal japanskra kvenna, 85 ár, en ævilíkur að heimsmeðaltali sé 67 ár (2003). Í sumum Afríkuríkjum eru lífslíkur aðeins helmingur þess sem er hjá japönsku konunum. Þess utan ráða stétt og staða ásamt öðrum þáttum einnig nokkru. Síðan er velt vöngum yfir því að vesturlandabúar lifi almennt lengi og gefið til kynna að áhersla á eigið líf og eigið langlífi verði til þess að við missum samhengið við samfelluna í mannlífinu og sjáum okkur ekki sem hlekk í keðju kynslóðanna sem skilja eftir sig ummerki um tilvist sína allt í kringum okkur. Við upplifum samfelluna í samhengi við stærri hópa en ættir manna, þ.e. þjóðir, borgir eða stofnanir.
Þá er sagt að stærri vandi sé sá að einstaklingar og hópar kynni sig ekki til sögunnar með afgerandi hætti, fornleifafræðilega. Tekið er dæmi um að aldursgreiningaraðferð getur gefið vikmörk um aldur mannslíkama, sem séu lengri í tíma en ævilengd einstaklingsins sjálfs. Þannig sé ekki hægt að fá raunaldursgreiningu. Önnur aldursgreiningaraðferð mælir strontium í tönnum á vaxtartíma þeirra og hægt er að bera niðurstöður saman við gildi sem fást úr rannsókn beina. Með slíkum rannsóknum er ekki hægt að endurskapa ævi manneskjunnar, heldur fást með slíku aðeins leiftursýnir á einstaka þætti hennar. Því fleiri rannsóknir af því tagi sem unnt er að gera, því fíngerðara mynstur fæst í myndina af manneskjunni.
Næst er komið að erfiðleikunum við að tengja fólk við afurðir þess. Það kann að taka fáeinar klukkustundir að búa til hlut eins og öxi en hver einstakur atburður í mótun axarinnar getur tekið fáeinar sekúndur. Hluturinn kann að fara í notkun um skamma hríð og honum svo hent eða hann getur verið varðveittur og notaður um árhundruð eða árþúsundir. Þannig getur heildar líftími hlutar verið miklu skemmri eða miklu lengri en ein mannsævi. Meðferð fornleifa getur gefið okkur mikilvægar vísbendingar um þau menningaröfl sem réðu um hópamyndun einstaklinga. Fornleifar hafa eigin stóra tímakvarða, í þeim skilningi að hægt er að lýsa gerð tiltekinna tegunda muna með tilteknum sérkennum yfir tímabil sem geta spannað minna eða meira en mannsævi.
Í greininni eru gefin þrjú ágæt dæmi til nánari skýringar á því sem hún fjallar um; eitt frá Boxgrove í Englandi, annað frá Poundbury og hið þriðja af Ötztal ísmanninum. Hið fyrstnefnda er sagt sýna dæmi um mikið safn gagna um mjög skamma starfsemi (e.t.v. allt niður í 15 mínútur hvert), sem átti sér stað fyrir hálfri milljón ára á sjávarströnd í Suður-Englandi. Í Poundbury er að finna merki um mannvistarfasa sem byrja á Nýsteinöld og halda áfram framyfir miðaldir. Þar hefur í rannsóknum verið notast við ýmsar aðferðir aldursgreiningar, m.a. 14C til að nálgast nákvæman aldur en einnig gerðfræðilegar greiningar svo að sjá megi afstæðan aldur. Þá er því lýst að upplýsingar úr einni gröf megi bæði lesa á mismunandi vegu. Beinarannsókn geti lýst ástandi hins látna við dauða hans en munir sem grafnir eru (haugfé) geti spannað gripi úr eigu manneskjunnar frá öllu hennar æviskeiði. Um leið er vísað til annars dæmis um það hve flókin rannsókn á einum einstaklingi geti verið; Ötzi eða Ísmannsins. Náin tengsl eru milli mælikvarða í rúmi og tíma við rannsókn Ötzi, þar sem varpað hefur verið ljósi á uppruna hans og flutningum milli svæða með margvíslegum og flóknum athugunum.
Nákvæmar tímasetningaraðferðir gefa algildan kvarða, þannig að svæði, landslag eða gripasafn má staðsetja í tíma þannig að öllum skiljist. Þá vekur sérstæður og upplýsandi fundur eins og Ötzi hvarvetna áhuga vegna þess hve hann er vel varðveittur og hve víðtækar upplýsingar hann getur veitt, hann skiptir ekki aðeins máli í því rými sem hann finnst (Austurríki / Ítalíu). Fornleifarnar í Boxgrove vöktu mikinn áhug á sinni tíð og dagblað eitt vildi gera sköflungsbein úr manni að sönnun um „fyrsta Evrópumanninn“, sem var ekki aðeins rangt í þeim skilningi að hér var fráleitt um að ræða einhvern af fyrstu íbúum landfræðilegrar Evrópu, heldur er Evrópa ekki ýkja gamalt hugtak og álfan var sem slík ekki til við fyrsta landnám manna á svæðinu, auk þess sem efast má um gildi nákvæmlega þeirra upplýsinga hvenær menn komu fyrst innfyrir þau síðari tíma landfræðilegu mörk.
Í lok greinarinnar segir að næstum hvert einasta fornleifafræðilegt gagn geymi í sér og blandi saman upplýsingum um lengri og skemmri tíma og geti leitt af sér vangaveltur um staðbundna eða yfirgripsmeiri þýðingu. 14C aldursgreiningaraðferðin og aðrar sem gefa nákvæman aldur eru sagðar vera mönnum mjög til léttis, sem eru vanir því að mæla allt líf sitt við skiljanlega og vel kunna tímakvarða. Greininni lýkur á fremur heimspekilegum vangaveltum um tímann en hnykkt er á því að nákvæm aldursgreining fari aldrei niður á þann smáa skala sem lífshlaup manneskju er og að tíma megi líta á sem gæði, ekkert síður en magn einhvers.
Gavin Lucas útskýrir aldursgreiningar og aðferðir til þeirra ágætlega í bókarakaflanum Beyond Chronology. Hann nefnir að það sé einn þáttur sem greini á milli allra aðferða til aldursgreininga, en það sé skiptingin í nákvæman aldur annars vegar en afstæðan hins vegar. Hann útskýrir eðli þessara aðferða og tekur fram að nákvæm aldursgreining byggist á tímaákvörðunum sem séu óháðar gögnunum sem séu til rannsóknar. Hinar afstæðu byggi hins vegar á innra samspili gagnanna. Afstæðar aldursgreining eru hinar upprunalegu í fornleifafræði og þær hafa verið notaðar til þess að búa til annars stigs (e. Secondary) tímatalskerfi og sem dæmi um það er þriggja alda kerfið nefnt til sögunnar. Allar slíkar markanir í tímabil eru afstæðar aðferðir. Tæpt er á þróun nákvæmra tímatalsaðferða. Hin fyrsta í sögunni fólst í því að tímasetja út frá sögulegum heimildum, sem gat verið fólgið í því að tengja rannsóknarvettvang við tiltekinn sögulegan atburð eða með því að finna tímasettan grip, s.s. pening með ártali. Flest afstæð tímatalsfræði er fastsett við nákvæma tímatalsfræði.
Lucas fjallar framan af mjög nákvæmlega, tæknilega og sögulega um tímatalsfræðina og aðferðir hennar en Gosden og Kirsanow eru á heimspekilegri nótum að mestu. Þó gerir Lucas tímanum skil út frá sjónarhóli heimspekinnar undir lok kaflans. Lucas kemur inn á hugmyndir um að leggja megi til hliðar greininguna á milli afstæðra og nákvæmra tímasetninga, en horfa í staðinn á framsetningu tímans annars vegar sem línulegrar og kvarðaðrar mælistiku en hins vegar sem atburðaklasa eða framvindu sem þarf ekki að mælast alltaf í jafnlöngum bilum. Þó kunni slíkar vangaveltur að fjötra menn og Lucas tekur dæmi af tímasetningum fyrstu byggðar manna í Norður-Ameríku þar sem illa gengur að sætta niðurstöður þeirrar mælistiku sem nákvæm tímasetningaraðferð gefur og síðarnefndu tegundarinnar sem í því tilviki byggir m.a. á gripafræði. Tekið er fram að ekki steytir hér eingöngu á, því þessir megin flokkar aldursgreiningaraðferða eiga vitanlega sitthvað sameiginlegt. Lucas tíundar það nokkuð og stillir þeim upp saman. Bæði nákvæmar og afstæðar aðferðir til tímatals eru línulegar og þeim má skipta niður í tilteknar hluta. Flæði beggja ganga til sömu áttar og byggja á tilteknum einingum sem ekki skarast, s.s. tímabil eða ár. Einn megin munurinn er sá að skipting í tímabil með afstæðum tímatalsaðferðum (e. Periodization) er í mun stærri einingum en við nákvæmar tímatalsaðferðir. Lucas fjallar nokkuð um mismunandi hugmyndir fræðimanna um söguna og tímann. Athyglisverð er sú sem varar við því að sé notast við einn tiltekinn tímaás (tímatalsfræði), sem sé línulegur og markist af innbyrðis jafn stórum einingum. Því slík hugmynd um einsleitni leiði menn til ályktana um að sögunni sjálfri vindi fram á sama hátt. Öllu fremur sé engin ein tímasamfella eða fast viðmið, heldur taki innbyrðis ólíkir klasar atburða hver við af öðrum, sem söguleg innlegg í menningarlegri framvindu. Slík innlegg vara vitanlega mjög misjafnlega lengi. Þá er það rætt í framhaldi að mörgum fornleifafræðingum þyki ekkert athugavert við að draga upp og reyna að viðhalda heildstæðri mynd af fortíðinni (e. Grand narrative), þó svo að margir þeirra forðist það á hinn bóginn. Hugmyndin um heildarsýn á söguna er kennd við Upplýsinguna og spurningin er um það hvort fornleifafræðin geti haft svo einsleita sýn á söguna. Hvort heldur svo er eða ekki, bendir Lucas á að sá skilningur á tíma sem viðtekinn er með einfaldri tímatalsfræði eða með heildstæðri mynd eins og áður er lýst, sé takmarkaður. Hann heldur því ekki fram að menn verði að láta af slíkum skilningi, heldur gæta þess að hann sé ekki ríkjandi leið hjá okkur til þess að skilja fortíðina. Það eru nefnilega aðrar aðferðir tækar til þess að nálgast forsöguna.
Umfjöllun um tímakvarða og ólínuleg kerfi í fornleifafræði fá talsverða umfjöllun, þar á meðal Annales skólinn, sem kom fram á millistríðsárunum sem mjög gagnrýninn á þá aðferð sem hann sagði hafa tíðkast fram til þess í sagnfræðilegri ritun; að skrá einfalda atburðaröð. Helsti talsmaður fornleifafræði í Annales skólanum var Braudel, sem kom með svar við því, en það greining á milli þriggja gerða tímaskala; langtíma, millitíma og skammtíma. Hinn fyrstnefndi nær til hægfara ferla (svo sem umhverfisins), næsti til félagslegra og skipulagslegra þátta en sá síðast taldi tekur til atburða eða einstaklinga. Í augum Braudels, hefur hver tímaskali áhrif á framvindu hinna og þeir eru samþættir. Þessi hugmyndafræði hefur síðar notið nokkurrar hylli og aðrar hugmyndir keimlíkar komið fram, svo sem hjá Charles Cobb, sem nefnir til sögunnar tvo kvarða. Þessar hugmyndir og fleiri af slíkum meiði, eru fyrst og fremst samhljóða um að sögunnni vindur fram með mismunandi hraða þar sem tala má um þróun sem hægfara ferli en atburði sem hraðfara.
Greinin Chronologies in Conflict er á öðrum nótum en fyrrnefndar greinar og fjallar ekki almennt um tímatalsfræði, heldur einkum um tiltekið tímatal; þriggja alda kerfið, um það hvernig það varð til, þróaðist og varð að lokum almennt viðurkennt. Þetta kerfi er stöðugt undirliggjandi í fornleifafræði „gamla heimsins“. Hin venjubundna skipting í steinöld, bronsöld og járnöld heldur velli, þrátt fyrir að menn kunni að greina á um það hvort hún sé svo mjög afgerandi í félagslegri og menningarlegri framvindu eða hvort önnur mörk sem dregin eru innan þeirrar skiptingar hafi meiri þýðingu.
Þriggja alda kerfið var fyrst kynnt til sögunnar í Danmörku og fljótt viðtekið í fornleifafræði Skandinavíu. Á Bretlandseyjum hlaut kerfið litla athygli framan af og var meðtekið fremur seint. Þó er það þannig, að sögn höfunda, að nútíma fornleifafræðingar eiga erfitt með að meðtaka fjarlæga fortíð án hugmyndarinnar um þriggja alda kerfið. Raunar er því haldið fram að við búum við þá fötlun að sjá þriggja alda kerfið sem rétt, á huglægan máta. Þó að við máum ekki úr hugum okkar hugmyndina um þriggja alda kerfið, þá verðum við að skilja að þegar það var sett fram, keppti það við aðrar hugmyndir um það hvernig ræða ætti fjarlægari sögu mannsins. Hugmyndir um forsöguna voru allt aðrar svo seint sem á 19. öld en þær eru í dag. Menn töldu hana ekki ýkja langa né heldur þýðingarmikla (þ.e. sagan fyrir tíma Rómverja). Sú var að stóru leyti orsökin fyrir andstöðu við þriggja alda kerfið.
Sigur þriggja alda kerfisins á öðrum hugmyndum um tímatal er í dag talinn hafa verið óhjákvæmilegur. Hann var þó ekki sjálfgefinn samkvæmt áliti margra þeirra sem um fjölluðu, um miðja 19. öld. Aðrar hugmyndir í tímatalsfræði voru uppi og voru jafn mjög til rökræðu og þriggja alda kerfið. Ýmsar ástæður voru að baki. Sagnfræði og þjóðfræði lögðu þar til málanna ásamt fornleifafræði. Fyrir vikið urðu mismunandi sjónarmið ofaná í mismunandi hlutum Bretlands, þar sem uppruni þjóðanna var ólíkur og saga þeirra frábrugðin hver annarri. Þau tímatöl sem menn hölluðust að, voru þannig ólík milli Englands, Skotlands og Írlands.
Niðurlag
Í inngangi ritgerðarinnar var tekin samlíking milli tímakvarða og hafdýpis. Eftir lestur þeirra greina sem hér er fjallað um, hefur höfundur fengið nýja sýn eða a.m.k. viðbót við fyrri upplifun sína þar um. Því að til viðbótar því að kafarinn er aðeins á vegferð eftir einum lóðréttum ási (tímanum), er hann hvarvetna á leið sinni í plani við vídd til allra átta út frá sér.
Það er í sjálfu sér flókið mál að skilja einföldum skilningi tímabil sem spanna meira en nokkrar aldir. Árþúsundir, svo ekki sé talað um tugþúsundir ára eða milljónir reyna allnokkuð á skynjun og skilning. Þær greinar sem þessi ritgerð tekur til, hafa svo enn aukið við flækjuna með því að fjalla um mjög svo mismunandi mælikvarða sem unnt er að setja á tímann og með því að sýna hve söguleg framvinda er mikið flóknari en svo að eingöngu sé hægt að notast við tiltekinn línulegan kvarða. En um leið og greinarnar gefa þessa flóknu mynd, má segja að þær einfaldi lesandanum það um leið að nálgast hið snúna viðfangsefni. Vísi honum til átta þegar lagt er á tímans djúp.
Síðasta greinin af þremur fjallar um hið afstæða þriggja alda kerfi aldursgreininga, sögu þess og það umhverfi sem kerfið spratt úr. Ljóst er af frásögninni að ekki var sjálfgefið að þriggja alda kerfið yrði ofan á, á tímum þegar menn voru að reyna að gera sér nothæfan kvarða á gífurlegar efnalegar, þjóðfélagslegar og menningarlegar breytingar sem urðu á tiltölulega litlum bút af allri sögu mannsins. Saga mannsins verður ekki sögð á einum línulegum kvarða, til þess er hún bæði of löng og of flókin. Mestu hlýtur að skipta að ná almennri fræðilegri samstöðu um tiltekin kerfi sem menn geta skilið sameiginlegum skilningi. Þau geta verið af mismunandi toga, misgagnleg og spanna mismunandi tímaskeið þau verða að leggja eitthvað til aukins skilnings á fornleifunum og sögunni í samhengi við tímann.
Allar greinarnar sem hér er fjallað um, fást við tímann á nokkuð mismunandi hátt og útskýra hann og tímatalsfræðin á misjafna vegu. Þær eru allar upplýsandi, hver frá sínum sjónarhóli, þar sem þær leitast við að fjalla um hið einfalda en þó um leið flókna fyrirbæri. Greinarnar eru ágætlega skýrar, að mati þessa höfundar og ekki er að sjá að þær greini nokkurs staðar á um viðfangsefni sitt. Þær eiga samhljóm í því að útskýra tímann sem flóknara fyrirbæri en manni er jafnan tamt að halda og upplifa. Þær spurningar sem þær vekja um skilning á tímanum, fá ágæta umfjöllun og leiða allar til þeirrar sömu niðurstöðu að skilningur á sögulegri framvindu sé nauðsynlegur en hann megi fá eftir ýmsum brautum. Mestu skiptir að hugmyndakerfi til að stuðla að tímalegum skilningi séu skýr, skiljanleg og e.t.v. um leið að þau njóti almennrar viðurkenningar.