(byggt á grein í Eldjárni, blaði nema í fornleifafræði við HÍ, árg. 2012).

Moche-þjóðin í Perú ca. 0-700 e. Kr.Jónas Hallgrímsson lýsir því í dagbókum sínum frá árinu 1839 að hann kom á bæinn Fjósakot í Eyjafirði, þar sem hann hafði frétt af því að bóndinn hefði fundið gamalt spjót nokkrum dögum fyrr á blásnum mel í fjallshlíð. Á spjótinu höfðu verið silfurhólkar, annan tókst Jónasi að fá keyptan af bóndanum en hinn hafði hann klippt sundur í smátt, „þar eð hann afréð að brúka hann til kveikinga“. Þá hafði hann hitað spjótsblaðið í eldi til þess að kanna ágæti járnsins.

Af frásögninni má ráða að Jónas er vel meðvitaður um mikilvægi fornminja og hann snuprar bóndann fyrir meðferðina á spjótshlutunum. Það er á hinn bóginn auðvelt að afsaka í huga sér búandkarlinn á 19. öld, sem sá einstaka hluta hins forna spjóts aðeins sem hráefni til smíða. En þetta virðingar- og andvaraleysi gagnvart menningarminjum er fjarri því að heyra til liðnum tíma. Það var t.a.m. komið framundir miðja 20. öld þegar gömlum og sögulegum innviðum Bessastaðakirkju á Álftanesi var hent út í móa sem hverju öðru drasli en ýmis nýrri dæmi má finna. Sú saga hefur heyrst af björgunaruppgreftri hérlendis að iðnaðarmönnum hafi þótt það bráðsniðugt að grafa í órannsakaðan hluta uppgraftarsvæðis þegar fornleifafræðingar sáu ekki til og koma fyrir teskeiðum úr plasti. Umgengni sem þessi er auðvitað ekki einskorðuð við Ísland. Í Danmörku voru t.d. mikilvæg 17. aldar hús jöfnuð við jörðu til þess að skapa rými fyrir 20. aldar stórverslanir eins og Illum og Magasin í Kaupmannahöfn, breskur fornleifafræðingur var nýlega gripinn glóðvolgur þar sem hann seldi fornmuni beint upp úr uppgreftri og svo mætti lengi telja. Þetta virðingarleysi gagnvart sögu og arfleifð er þó vonandi almennt á undanhaldi.

Er það mögulegt að besta leiðin til þess að draga úr minjaspjöllum sé kynning og fræðsla? Ekki þarf að efast um almennan áhuga á því að fá að heimsækja uppgrefti, en það sést meðal annars af grein Lilju Bjarkar Pálsdóttur, „Kynning fornleifarannsókna“ í bókinni „Upp á yfirborðið“. Um leið og fólk fær veður af fornleifarannsókn í nágrenni sínu, verður það forvitið og spyr spurninga. En það má ganga lengra en að bregðast aðeins við spurningum út frá tilfallandi áhuga. Hvers vegna ekki að leggja í það tíma og fyrirhöfn að bjóða skólanemum í skipulegar skoðunarferðir, útskýra tilgang og aðferðir fornleifafræðinnar, og sýna gripi og tækjabúnað? Þá mætti bjóða vistmönnum stofnana, félagasamtökum og ýmsum hópum upp á hið sama. Auðvitað eru aðstæður misgóðar til þess arna. Uppgraftarsvæði henta misvel, verkhraði, mannekla og fjárskortur geta hamlað, en verið getur að ef tækifærið er notað til skipulegrar fræðslu af þessu tagi, skili það fornleifafræðinni miklum ávinningi til lengri tíma litið. Almennur velvilji og skilningur á þýðingu fornleifa og rannsókna á þeim skiptir miklu máli – þar á meðal þegar sóst er eftir fjármagni til verkefna.

Önnur og jafnvel alvarlegri ógn en hirðuleysi og vangá steðjar að fornminjum, en það eru þjófnaðir og svartur sölumarkaður. Verslun með stolna listmuni og forngripi er sögð orðin fjórða ábatasamasta tegund alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Aðferðirnar, umfangið og eyðileggingin er hrollvekjandi. Fréttir síðustu ára af áhrifum stríða og byltinga á afdrif menningarverðmæta gefa átakanleg dæmi. Vandinn er af öðrum meiði í Perú, þar sem fornleifafræðingar hafa ekki komist að mikilvægum minjasvæðum til rannsókna en ræningjar fara eins og logi um akur, og stórmerkar fornleifar hverfa í greipar gírugra safnara og sagan sem þær kynnu að hafa að segja er útmáð að eilífu. Í Kína eru allt að 100.000 manns taldir hafa atvinnu af grafarránum, þar sem spillt er ómetanlegum verðmætum. Vandinn er stór og nýlega hefur það verið fullyrt að umfang fornleifaþjófnaða og grafarrána síðustu 20 ára í heiminum sé meira en næstu 800 ár þar á undan!

Að lokum má benda á spennandi bók sem gefur ágæta innsýn í þetta vandamál. Hún heitir „Priceless. How I Went Undercover to Rescue the World‘s Stolen Treasures“, og er eftir Robert K. Wittman. Fæst t.d. á Amazon, bæði á prenti og í Kindle-útgáfu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s