Inngangur

Í þessari ritgerð er leitast við að greina það hvað geti talist sérstaklega íslenskt eða einhvern veginn alíslenskt. Hvað það er sem benda má á og halda fram að séu einstök einkenni menningar Íslendinga sem hóps? Geri Íslendingum þannig kleift að aðgreina sig frá öðrum þjóðum heimsins út frá sérkennum og sérstökum eiginleikum, en ekki aðeins landfræðilega. Lagt var upp með hugmyndir að ákveðnum atriðum sem telja mætti séríslenskt ásamt því að líta í kringum sig í nærumhverfi og fjölmiðlum eftir séríslenskum einkennum. Fljótlega kom í ljós að rekja mætti uppruna mestan hluta þess eða í það minnsta hliðstæður til annarra landa. Af því leiddi að ritgerðin endar í raun sem tilraun til þess að sýna fram á að fátt ef nokkuð sé í raun algerlega séríslenskt og bent á dæmi um að það sem við okkur er gjarnt að telja til eiginda okkar eigin þjóðar eigi sér gjarnan fyrirmyndir eða samsvörun meðal annarra þjóða.

Í upphafi ritgerðarinnar er reynt að skilgreina og flokka það sem má telja séríslenskt og notið til þess aðstoðar Árna Björnssonar, þjóðháttafræðings. Umfjöllun og um leið kaflaskipting tekur mið af greiningu Árna. Út frá henni eru rakin nokkur dæmi sem leiða meira eða minna til þeirrar lokaniðurstöðu að fátt ef nokkuð standi undir því að nefnast séríslenskt. Flestir þættir menningar okkar eigi sér samsvörun annars staðar en mismikla. Þannig sé einkum um að ræða íslensk tilbrigði við fjölþjóðleg menningareinkenni. Oft er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni og mun kjarni þess meðal annars endurspeglast hér á eftir.

Hvað getur með réttu talist séríslenskt?

Þetta er ótrúlega erfið spurning og margt kemur upp ef maður lætur hugann reika um stund, þar af virðist sumt af því, í byrjun í það minnsta, afar sannfærandi sem algerlega einstætt og geta staðið sem einhvers konar merkimiði fyrir Ísland. Í umfjöllun fjölmiðla, fréttum, blaðagreinum og auglýsingum er algengt að rekast á stimpilinn „íslenskt“ og „þjóðlegt“ og þar sýnist jafnan sitt hverjum þó svo að sumt virðist óumdeilt. Stundum er þörf á merkimiðanum „íslenskt“ af beinum hagnýtum ástæðum eins og þegar verið er að selja ferðamönnum upplifun. Stundum hefur það annan tilgang eins og þegar almenningur er hvattur til að kaupa innlenda vöru af hagrænum ástæðum ef ekki þjóðræknilegum í bland. Það virðist höfða til margra því annars hefði stór framleiðandi og seljandi grænmetis ekki gripið til þess ráðs að svindla ofurlítið síðastliðið sumar þegar hann auglýsti: „Íslenskt grænmeti, þú veist hvaðan það kemur“, en afurðin reyndist innflutt.

Ég spurði eiginkonu mína um það hvaða eitt fyrirbæri hún teldi vera algerlega séríslenskt. Svarið kom strax: íslenska lopapeysan. Það má vel vera rétt, en hvað gerir íslensku lopapeysuna séríslenska? Peysa er alþjóðlegt fyrirbæri, lopi er ekki alveg ókunnur öðrum þjóðum, prjónatæknin ekki einstök en ef til vill eru litir og mynstur það sem er afgerandi Íslenskt. Dýpra þarf að kafa og affarasælast að leita á náðir fræðimanna til þess að komast nær umfjöllunarefninu. Vísindavefurinn birtir svar Árna Björnsonar við spurningu Diljár Ámundadóttur, um hvað sé séríslenskt. Þar kemur meðal annars þetta fram:

Þetta er snúin spurning. Þó má draga fram nokkur atriði sem gætu réttlætt þessa einkunn:

  • Eitthvað hefur orðið til á Íslandi og hvergi annars staðar.
  • Eitthvað hefur flust til Íslands og varðveist þar en horfið annars staðar.
  • Eitthvert fjölþjóðlegt fyrirbæri hefur fengið sérstætt snið á Íslandi.

Áður en fjölþjóðleg viðskipti með framleiðsluvörur komu til sögunnar, einkum á 19. og 20. öld, urðu menn í hverju landi að laga tól sín og tæki, matvæli og húsakost að því sem umhverfið krafðist og bauð. Þannig urðu til sértækir brúkshlutir á hverjum stað. Náttúran mótaði einnig frumstæðar trúarhugmyndir fólks áður en fjölþjóðleg trúarbrögð héldu innreið sína, oft með valdboði. Líku gilti um tónsköpun, myndlist og skáldskap. (Árni Björnsson, 2007).

Þetta síðastnefnda er allrar athygli vert. Þarna virðist vísað til sameiginlegs grunns að mörgu leyti. Daglegar athafnir alþýðu manna í flestum samfélögum eru áreiðanlega um margt hinar sömu, bæði í dag og líka fyrir þúsund árum. Landnámsmenn tóku bæði með sér áhöld, verkfæri og aðra unna muni til landsins, og líka siði, venjur, átrúnað og tiltekinn hugmyndaheim – menningu. Þeir tóku líka með sér og fluttu síðar inn hráefni frá upprunalandinu til þess að vinna úr muni samskonar muni með samskonar aðferðum og þeir þekktu. Kléberg og munir úr því eru þar gott dæmi. Kristján Eldjárn lýsir því ágætlega:

Hlýtur þá að hafa verið allmikill innflutningur klébergs hingað til lands, sennilega mest unnar eða hálfunnar grýtur, en einnig óunnið kléberg í smærri hluti. Vottur þess er óunninn klébergssteinn frá Kotmúla í Fljótshlíð (335. mynd). Úr honum hafa verið söguð stykki eftir því sem með þurfti. (Kristján Eldjárn og Adolf Friðriksson, 2000: 404).

Í sömu heimild kemur fram að þessi háttur hafi verið hafður á í fáeinar aldir frá landnámi, það er innflutningur muna úr klébergi og steintegundarinnar sem hráefnis. Menn hagnýttu svo og unnu úr með þeim hætti sem þeir þekktu og höfðu vanist mann fram af manni, í umhverfi sem í það minnsta að einhverju leyti bar sömu nöfn og þau náttúrufyrirbrigði og kennileiti sem afmörkuðu heimkynni þeirra í upprunalandinu (nánar er fjallað um örnefni hér aftar). Að sama skapi hafa þeir flutt með sér sögur og kvæði, ævintýri og aðra munnlega geymd. Hið huglæga er svo því sama lögmáli selt sem það efnislega, að allt þróast í tímans rás ýmist í hægfara eða hraðri breytingu. Um leið hlýtur eitthvað að úreldast og falla í gleymskunnar dá.

Árni Björnsson telur í áður nefndu svari á Vísindavefnum upp nokkur dæmi, út frá þeim atriðum sem hann segir þurfi að eiga við um fyrirbæri til þess að þau megi kallast séríslensk. Þar nefnir hann meðal annars gamla íslenska tímatalið, öskupoka, mataraskinn og stuðlasetningu í kveðskap. Í nokkrum eftirfarandi köflum er gefinn nánari gaumur hverju þessara atriða sem Árni nefnir.

Á ritunartíma þessarar ritgerðar er auglýsingahrina frá Mjólkursamsölunni (MS) í gangi í fjölmiðlum. Nafni Gouda osts hefur nýskeð verið breytt í Góðost með tilheyrandi kynningu. Auglýsingar MS um Góðost sem birst hafa í sjónvarpi eru samhljóða þeim sem birst hafa í útvarpi og þær eru aðgengilegar á heimasíðu MS á Internetinu. Þar er líka að finna skýringu á nafnbreytingunni:

Mjólkursamsalan hefur um árabil hvatt þjóðina til að halda vörð um íslenska tungu undir slagorðunum íslenska er okkar mál. Markmiðið hefur verið að verja tungumálið fyrir erlendum áhrifum sem sífellt steðjar að lítilli þjóð í hringiðu alþjóðavæðingar. Hluti af íslenskuátaki fyrirtækisins er að velja íslensk nöfn á vörur þess og nafnið Góðostur er til þess fallið að aðgreina okkar ost frá þeim erlendu. Góðostur er upprunninn í íslenskri sveit og hefur nafnið sterka skírskotun til íslensks uppruna og gæða. (Góðostar á markað, 2012).

Forvitnilegt er að skoða listann yfir það sem starfsfólki MS eða viðkomandi auglýsingastofu þykir vera svo rammíslenskt að með samanburði við það kristallist hið íslenska í téðum osti. Í lok allra auglýsinganna er lesinn staðlaður frasi með mismunandi samlíkingum: „Góðostur – jafn íslenskur og leggur og skel“. „Góðostur – jafn íslenskur og Gísli, Eiríkur og Helgi“. „Góðostur – jafn íslenskur og nesti og nýir skór“. „Góðostur – jafn íslenskur og síðasta lag fyrir fréttir“. (Auglýsingar, 2012). Varla er hægt að tala um uppröðun dagskrárliða sem séríslenska, þó svo að hún haldist lítið eða ekki breytt um áratugi svo þessi skírskotun missir marks. Fljótt á litið má samþykkja að önnur þau fyrirbæri sem vísað er til, séu séríslensk en það er auðvelt að finna erlenda samsvörun, sumt kemur strax upp í hugann. Ef til vill er leikur barna áður fyrr með legg og skel eins íslenskt og verða má. Í það minnsta reyndist mér ekki auðfundið neitt á Internetinu sem kæmi heim og saman við þann sið. Nesti og nýir skór eru alþekkt minni úr ævintýrum en ekki er ljóst hvort þetta orðatiltæki hefur skilað sér inn í íslenskar þýðingar úr erlendum málum. En augljós hliðstæða við hálfbjánana þrjá, bræðurna Gísla, Eirík og Helga, eru Molbúarnir dönsku. Öll þeirra orð og gerðir ber heimsku órækt vitni, rétt eins og hjá íslensku sálufélögunum þeirra.

Eitthvað verður aðeins til á Íslandi

Fljótt á litið hlýtur það að teljast afar fátt sem hefur orðið til á Íslandi og hvergi annars staðar. Árni Björnsson segir að öskupokinn sé séríslenskt hátíðarbrigði sem stafi af sérstökum aðstæðum hérlendis og virðist með því eiga við að öskupokinn sem fyrirbæri hafi orðið til á Íslandi en ekki annars staðar. En er þetta svo þegar betur er að gáð? Öskudagurinn er forn í tímatali hins kristna heims. Manni þykir ósjálfrátt að siður eins og sá að hengja poka með ösku á fók á þessum degi geti ekki sprottið af engu. Er líklegt að það geti gerst án þess að hann hafi nokkra skírskotun eða þýðingu og vel að merkja, siðurinn tengist eins og áður er sagt við kirkjulegan dag í almanakinu. Við dálitla leit á Internetinu afhjúpast það að öskupokar eiga sér erlenda fyrirmynd og eru ekkert séríslenskari en öskudagurinn sjálfur. Öskupokar tíðkuðust í það minnsta frá 5. öld e. Kr. Þeir voru annað tveggja ytri tákna sem menn sýndu á öskudegi um að þeir iðruðust synda sinna. Hitt var að maka ösku á höfuð sitt eða enni, gjarnan með krossmarki. Þetta var upphaflega hluti af helgisiðum páskaföstunnar. (Customs & Traditions of Ash Wednesday). En vel að merkja; hér var um það að ræða að menn sýndu sjálfir á sér þessi ytri merki iðrunar, mökuðu á höfuð sitt ösku og hengdu á sig öskupoka. Ekki verður séð af grandskoðun vefsíðna á Internetinu að nokkurs staðar nema á Íslandi hafi siðurinn þróast á þann veg að hengja poka á annað fólk eins og af hrekk. Ekki er því úr vegi að ætla að þar hafi orðið til einhvers konar íslenskt tilbrigði við gamlan helgisið.

Eitthvað flyst til og varðveitist aðeins á Íslandi

Hugmyndin um eitthvað sem flyst til Íslands og varðveitist þar en ekki annars staðar er trúverðug. Þarf í því tilliti ekki annað en að horfa til tungumálsins. Segja má að sú tunga sem töluð var í vestanverðum Noregi á níundu öld hafi dagað uppi hérlendis að stóru leyti. Skyld því eru auðvitað allmörg ef ekki velfelst íslensk örnefni. Svo virðist sem íslenskir landnámsmenn sem komu frá Noregi hafi fært með sér örnefni úr sínu heimahéraði. Þannig hafa þeir tekið með sér menningarminjar frá gömlu heimaslóðunum líkt því sem við gerum þegar við flytjum í nýtt húsnæði og fyllum það persónulegum munum. Um þetta hefur Tryggvi Gunnarsson meðal annars skrifað og rekur ótalmörg dæmi, svo sem Arnarfjörður, Flatey, Herðubreið, Hvalfjörður, Kjós og Laxnes. Allt eru þetta ævagömul íslensk örnefni en þegar að er gáð, er fyrirmyndina að finna í Noregi en oftast í eilítið frábrugðinni orðmynd. Uppruninn er með öðrum orðum erlendur en íslensk orðmynd þessara örnefna er einstæð og má ef til vill kalla séríslenska. (Tryggvi Gíslason, 2006).

Íslensku húsdýrin er hæpið að kalla séríslensk. Um er að ræða dýrastofna sem fluttust hingað með landnámsmönnum, og hafa varðveitt tiltekin einkenni og þróað jafnvel með sér sérstaka eiginleika en vart er hægt í þeim skilningi sem hér er lagt upp með að kalla þessi dýr „séríslenskt“. Öðru máli gegndi um dýrategundir sem aðeins fyndust hérlendis. Jafnvel eru hinar fimm gangtegundir íslenska hestsins ekki einstakar í heiminum svo að sá eiginleiki getur ekki talist séríslenskur.

Fjölþjóðlegt fyrirbæri fær sérstætt snið á Íslandi

Það má á augabragði sjá fyrir sér ótalmörg dæmi þess að fjölþjóðleg fyrirbæri fá á sig séríslenskan blæ eða útgáfu. Ef við föllumst á að það geti talist séríslenskt sem fær á sig sérstakan, þjóðlegan blæ við það að vera tekið upp hérlendis að erlendri fyrirmynd, þá kemur tónlist fljótt upp í hugann. Aðeins þarf að líta til dægurtónlistar síðustu áratugina til þess að sannfærast um þetta. Ef lengra er litið aftur má vera að bæði rímnahefðin og kveðskaparhefðin með stuðlasetningu og öðrum ljóðareglum sé um margt séríslensk, án þess að það skuli fullyrt. Rapp er um þessar mundir afar vinsælt á Vesturlöndum og er Ísland ekki undantekning þar á. Það hefur þróast frá því að tónlistarstefnan kom fyrst fram og afbrigðin eru nokkur. Íslensk sérstaða er einkum sú að hér hafa textar að stóru leyti verið fluttir á íslensku. Eitt er það listform sem er sérstaklega áhugavert í rappinu, en það er svokallað „battl“ (e. Battle Rap). Af orðinu er leidd sögnin að „battla“ meðal íslenskra rappara. En battlið er sagt vera eitt form hip-hop menningar og notað til þess að skapa sér stöðu innan hennar eða síns kúltúrs.

Braggadocio is the crux of battle rap. Battle emcees focus on boastful lines and self-glorifying rhymes about one’s proficiency or level of success, accompanied by verbal insults hurled at the other party directly or subliminally. Battle rappers often go as far as researching the dirty past of an opponent in order to dig up some self-injuring facts. These are then incorporated into the rhymes to downgrade the opposing party. (Adaso).

Íslenskir rapparar komu nokkuð saman til þess að battla, í það minnsta á árum áður og oft bar það einkenni braggadocio þar sem menn raupuðu af kostum sínum og getu á ýmsum sviðum og hæddust að mótaðilanum.

Auðvitað er íslensk rappmenning spegilmynd af hinni bandarísku en við nánari skoðun liggja ræturnar samt allmikið dýpra. Í það minnsta finnst samsvörun í ýmissi annarri menningu á ýmsum tímaskeiðum. Eitt sérlega áhugavert dæmi er skráð á ofanverðri 18. öld. Árni Magnússon frá Geitastekk lýsir því nefnilega í ferðasögu sinni þegar hann var á Grænlandi árið 1755 og varð vitni að því er andstæðingar tókust á í kveðskap með taktundirslætti. Hann lýsir því þegar Grænlendingar úr þorpi sunnarlega á austurströndinni hitta fyrir norðlendinga á sameiginlegri veiðislóð hreindýra. Þar segir að eftir söng og dans sem fór hvort tveggja eftir gamalli venju, þá „fór hver að sýna öðrum sinn aðdrátt og ríkdóm“. Nokkru síðar kemur þessi lýsing:

Þessir aumingjar vita ei af betru að segja en sagt hefi, eru so vel ánægðir með hver annan utan kífs og haturs. En gamanvísur brúka þeir, hverjar þeir kveða á samkomum um ný tíðindi, so sem um giftingar, ef ungur maður á gamla konu eður gamall maður á unga konu, eður um þann, sem ei fangar gotselinn eður missir sín veiðarfæri af ógáti eður gleymir þeim. Þetta gefa þeir spilamanni til vitundar, sem slær það á trumbu sína, og allt kvenfólkið syngur undir, þegar vísurnar eru út lærðar. (Árni Magnússon, 1945: 44).

Þessi lýsing Árna Magnússonar er merkilega samhljóða hinni sem lýsir Braggadocio í rappi. Þrjú hliðstæð megin element er að finna í hvoru tveggja: a) menn miklast af sjálfs sín velgengni og fræknleik, b) grafist er fyrir um persónulegar upplýsingar um mótspilarann eða andstæðinginn, sem eru honum niðrandi eða sýna hann sem mannleysu, c) upplýsingarnar eru notaðar til að hæða andstæðinginn opinberlega í tali og tónum.

Ýmislegt í íslenskri matarmenningu er okkur gjarnt að telja séríslenskt, sem reynist svo ekki vera það við nánari skoðun. Nefna má slátur (einkum lifrarpylsu) en margir þekkja hið skoska haggis, sem segja má um að það ásamt íslenskri lifrarpylsu sé aðeins sitt hvort tilbrigðið við sömu matvöruna. Þó að hráefnið sé samkvæmt hefðinni dálítið frábrugðið, þá er framleiðsluaðferðin náskyld. Hvort tveggja er að stofni til gert af innmat úr sauðfé, sem er kurlaður niður, blandað saman og soðið í vömbum klukkustundum saman „Haggis is a savoury pudding containing sheep’s pluck (heart, liver and lungs); minced with onion, oatmeal, suet, spices, and salt, mixed with stock, and traditionally encased in the animal’s stomach and simmered for approximately three hours“ (Haggis). Soðið brauð eru djúpsteiktar deigkökur, ýmist með eða án kúmens. Það er upp og ofan hvort Íslendingar kannast við soðið brauð en eldri Norðlendingum er það að minnsta kosti vel kunnugt sem gamalgróin hefð í brauðgerð. Sjálfan rak mig í rogastans þegar ég var staddur í SA-Asíu á níunda áratug síðustu aldar og fékk þar brauð sem leit alveg eins út, var steikt í feiti og hafði ámóta bragð og hið íslenska (eða norðlenska) soðið brauð. Kleinur eru öllum kunnugar, þessir feitu, djúpsteiktu drellar úr snúnum deigbitum. Kleinur eru meðal annars kynntar ferðamönnum sem íslenskt kaffibrauð. Hið sanna er að þær eru jafnframt þekktar í Skandinavíu og eiga sér þar gamla og gróna hefð. En það sem er markverðara, að þær eru gerðar að ævagömlum sið í Rúmeníu líka. Ekki einasta er um að ræða samsvarandi uppskrift, heldur er deigið flatt út, skorið og fléttað á nákvæmlega sama hátt og hinar „rammíslensku“ kleinur. Þegar bornar eru saman uppskriftir á Internetinu fyrir íslenskar kleinur og rúmenskar, eru þær mjög líkar. Uppistaðan er hveiti, sykur, egg, smjör eða smjörlíki og svo önnur hráefni í mun smærri skömmtum. Þetta má sjá á fjölda vefsíðna með því að slá til dæmis inn leitarorðin „kleinur“ og „Romanian donut recipe“, og bera saman.

Niðurlag

Hér hefur verið leitast við að sýna fram á að við nánari skoðun standi fátt ef til vill eftir af því sem okkur kann að vera gjarnt að líta á sem séríslenskt. Rakin eru nokkur dæmi úr ólíkum áttum; úr matarmenningu, tónlist, ævintýrum og sögnum og fleira. Með dálítilli rannsókn virðist oft mega leiða í ljós erlendar hliðstæður sem gjarnan eiga sér langa og mikla hefð. Það kemur í ljós, líkt og segir í alkunnu kvæði Tómasar Guðmundssonar að hjörtum manna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu. Í því sambandi er ekki vitlaust að líta til þess að Íslendingar eiga sér ekki ýkja langa sögu sem þjóð í þessu landi. Rúm ellefu hundruð ár eru afskaplega lítill hluti mannkynssögunnar og Ísland byggðist rétt í lok járnaldar þegar háþróuðum samfélögum að tækni, menningu og siðum hefur fleygt stórlega fram árþúsundin þar á undan. Við landnám taka menn því með sér hingað gríðarlegan sjóð af reynslu, siðum og menningu sem þeir viðhalda eftir að hafa sest hér að. Þá var einangrun landsins aldrei alger því að á þjóðveldisöld voru viðskipti við erlendar þjóðir stunduð af kappi. Eftir að landið komst í konungssamband við Noreg og allar götur til lýðveldisstofnunar eru viðskipti og samskipti að stóru leyti miðstýrð og kerfisbundin. Hingað bárust erlendar vörur og erlend áhrif. Fráleitt er því að gera sér í hugarlund að einhver umtalsverð menningarfyrirbrigði gætu orðið hér til og dafnað að einhverju marki í einhvers konar tómarúmi.

Hér hefur verið reynt að finna erlendar samsvaranir við ýmis sérkenni í íslenskri menningu. Slík athugun verður vitanlega aldrei tæmandi, síst í örstuttri ritgerð. Vel má vera að finnist algerlega einstæð fyrirbæri sem eiga við á Íslandi en hvergi annars staðar. Hugsanlegt er að hvergi á jarðríki eti menn gasbrennd höfuð húsdýra sinna, spræni á hákarl til átu eða kvintsyngi rímur svo dæmi séu tekin. Vonandi hefur þó tekist í ritgerðinni að sýna fram á að víða leynast hliðstæður annars staðar á byggðu bóli við það sem okkur kann að þykja mjög þjóðlegt og sérstakt. Að við höfum einkum þróað með okkur séríslensk tilbrigði við menningu sem er í senn fjölþjóðleg og sammannleg.

Heimildir

Adaso, Henry. Battle Rap. Sótt 23. nóvember 2012 á: http://rap.about.com/od/genresstyles/p/BattleRap.htm.

Auglýsingar (2012). Sótt 23. nóvember 2012 á: http://www.ms.is/Auglysingar/.

Árni Björnsson (2007). Hvað er séríslenskt? Sótt 17. nóvember 2012 á: http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6590.

Árni Magnússon (1945). Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk 1753-1797. Reykjavík: Bókaútgáfan Heimdallur.

Customs & Traditions of Ash Wednesday. Sótt 22. nóvember 2012 á http://www.theholidayspot.com/ash_wednesday/customs_tradition.htm.

Góðostar á markað (2012). Sótt 23. nóvember 2012 á: http://www.ms.is/Vorur/nyjar-vorur-og-umbudir/825/default.aspx

Haggis. Sótt 24. nóvember 2012 á: http://en.wikipedia.org/wiki/Haggis

Hansen, Gunnar (1940). Molboerne. Nye og gamle Historier om Molboernes tapre Gerninger. Kaupmannahöfn: Rasmus Naver.

Kristján Eldjárn og Adolf Friðriksson (2000). Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi. Reykjavík: Mál og menning.

Romanian donuts. Sótt 24. nóvember 2012 á: http://www.dreamstime.com/stock-photo-romanian-donuts-image18861450.

Tryggvi Gíslason (2006). Norsk örnefni á Íslandi og torræð örnefni í Eyjafirði. Sótt 23. nóvember 2012 á: http://www.arnastofnun.is/page/arnastofnun_nafn_nefnir_TG.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s