BYLTING EÐA NARRASPIL (byggt á ritgerð í námskeiðinu Íslandssaga til 1815 í HÍ, vorið 2011)
Var byltingin 1809 misheppnuð tilraun breskra aðila til að innlima Ísland í Bretaveldi?
Inngangur
Í þessari samantekt minni reyni ég að
varpa einhverju ljósi á það, hvort það hafi verið vilji og ætlun svonefnds
Jörundar hundadagakóngs og annarra byltingarmanna um sumarið 1809 að Ísland
færi undir bresku krúnuna. Hvort þeir kunni að hafa viljað sýna fram á með
aðgerðum sínum að það væri auðgert með lítilli fyrirhöfn, og færa breska
konungsveldinu landið sem á silfurfati með þess gögnum og gæðum. Einkanlega er
hér litið á framkvæmd byltingarinnar, ef svo má segja, þ.e. hvaða ráðstafanir
voru gerðar og með hvaða tilstyrk. Valið er fremur þröngt sjónarhorn og litið
til þess hvaða hernaðarlegu burði gerendurnir höfðu til að fremja byltingu, og
til þess að verjast mögulegum gagnráðstöfunum. Reynt út frá því að átta sig á
því hvaða hvatar bjuggu helst að baki byltingunni og hvort hún hafi verið
einmitt það eða hvort hér var aðeins um að ræða ósvífið valdarán með
viðskiptalega hagsmuni að leiðarljósi.
Viljinn og getan
Spurning sú sem er undirtitill þessarar
samantektar felur í sér tvo möguleika. Breskir aðilar geta hvort heldur sem er,
verið bresk yfirvöld eða fulltrúar þeirra, eða breskir ævintýramenn án aðkomu
stjórnvalda og þar verður að greina á milli. Ekki þarf að lesa tiltækar
heimildir lengi til þess að verða það ljóst að byltingin og valdatakan var án fulltingis
bresku krúnunnar þó svo að segja megi að fulltrúar hennar marki á vissan hátt
upphaf og endi atburða. Því skipstjórinn á breska herskipinu The Rover knúði Trampe greifa til
samningsgerðar um verslunarleyfi fyrir Breta á Íslandi snemmsumars 1809 og
skipstjóri freigátunnar Talbot
afsetti Jørgensen og fékk völd yfir landinu embættismönnum Danakonungs í hendur
að nýju. Spurningin er því um það hvort breskir aðilar (og vísast þar einkum
til Samuel Phelps og Jørgens Jørgensen)
hafi af einhverjum hvötum ætlað í landvinninga fyrir hönd bresku krúnunnar en
án hennar yfirlýsta vilja. Því þó svo að nokkru fyrir byltinguna hafi komið til
tals í viðræðum Jørgensens, Phelps og Joseph Banks hvort ekki væri rétt að
hertaka Ísland og innlima í Bretaveldi (sá síðastnefndi mun hafa lagt það til
með formlegum hætti og rökstutt m.a. með því að framkvæmdin væri auðveld og með
vilja Íslendinga), munu bresk stjórnvöld hafa tekið þá afstöðu að það væri
betur látið ógert. Þau veittu Phelps samt sem áður verslunarleyfi á Íslandi, auk
svonefnds víkingaleyfis, og var í mun að afla viðskipta á nýjum mörkuðum í
yfirstandandi meginlandsbanni.
Tilgangur hingaðkomu Phelps var sá að
eiga í viðskiptum á grunni hins nýfengna verslunarleyfis en Jørgensen var honum
til aðstoðar, m.a. sem túlkur. Phelps bráðvantaði mör og tólg til undirstöðu
sápugerðar í heimalandi sínu. Ljóst virðist að það sé hinn eiginlegi tilgangur
með förinni þó undirliggjandi sé hugmyndin um að Ísland sé best komið undir
breskri stjórn. Það er ljóst að Jørgensen hefur gert sér hugmyndir um bætta
stöðu Íslendinga og jafnvel haft hugsjónir í þá átt. Í það minnsta gerðist hann
afar atkvæðamikill eftir komuna til landsins, fór í yfirreið þar sem hann
kynnti sér mannlíf og skoðaði landshætti með eigin augum. Vel má halda því fram
að hugmyndir Jørgensens hafi verið mjög í anda upplýsingarinnar. Hann ráðgerði
og hrinti að nokkru leyti í framkvæmd ýmsum úrbótum og nýbreytni til bætingar
þjóðarhags, honum var meðal annars í mun að efla atvinnuhætti, heilsugæslu og
menntun. Það er freistandi að líta á Jørgensen sem einhvers konar pólitískan
arm þessarar djörfu hersingar.
Mér hefur orðið starsýnt á það við
lestur heimilda hve viðbúnaður byltingarmannanna virðist hafa verið óburðugur,
þ.e. hve illa þeir virðast hafa verið í stakk búnir til þess að mæta mögulegum
tilraunum Dana til frelsunar landsins úr höndum þeirra eftir að þeir höfðu lagt
það undir sig. Segja má að strax í kjölfar byltingar hafi byltingarmenn þurft
að gera ráð fyrir „innri“ og „ytri“ vörnum. Hinum fyrrnefndu gagnvart
landsmönnum og kóngsins magt sem fyrir var í landinu, og vænta mátti að léti
hvarfla að sér að snúast til varnar. Ytri varnir voru nauðsynlegar til að
verjast mögulegu áhlaupi danskra til að frígera Ísland að nýju og koma því
undir löglegt forræði Dana. Því útilokað var að dönsk yfirvöld létu hjálendu
sína af hendi baráttulaust. Þó var þess væntanlega engin von í bráð, því Danir
höfðu tapað herskipaflota sínum í hendur Bretum, áttu í stríði og höfðu trúlega
ekki getu til þess að bregðast við með sæmandi hætti um einhverja hríð.
Landvarnir
Næturverðir höfðu starfað í Reykjavík
frá 1752, aðallega sem varðmenn Innréttinganna án þess að þeir hafi getað
talist eiginlegir lögreglumenn. Sýslumannsembættið í Gullbringu- og
Kjósarsýslu losnaði eftir að Sigurði
Péturssyni var veitt lausn frá því 1803. Ákveðið var með konungsúrskurði að
gera Reykjavík að sérstakri dómþinghá, uppfylla fyrirheit tilskipunar um
fríheit kaupstaðanna og láta nýjan sýslumann fara jafnframt með embætti
bæjarfógeta. Rasmus Frydensberg var skipaður í embættið og ráðnir tveir
lögregluþjónar undir hans stjórn til daggæslu í kaupstaðnum. Frydensberg var
settur landfógeti sama ár en leystur undan sýslumannsembættinu og skipaður
landfógeti árið 1806. Annar hinna fyrstu lögregluþjóna bæjarins, Ole Biorn, var
í starfi byltingarárið. Sá sem ráðinn var jafnhliða honum hafði látið af
störfum 1804 en í hans stað komið maður að nafni Henrik Kragh, sem lét af
störfum 1826. Ole Biorn var jafnframt fangavörður og dyravörður fangahússins
(Múrsins) en var drykkjuslarkari og ójafnaðarmaður. Raunar starfrækti hann
klúbbinn svokallaða og var þannig verndari óreglu ekki síður en reglu. Minni
sögur fara af Kragh.
Ekki verður séð að lögreglan hafi
verið vopnuð í neinn máta og jafnvel verður ekki séð af heimildum að gaddakylfa
sem vaktararnir báru fyrstu árin hafi nokkru sinni komið í hendur
daglögreglunni. Sveitalögreglu var komið á með tilskipun 21. júlí 1808. Hún var
óvopnuð og á það sama við um aðra embættismenn konungs, jafnaðarlega. Auk þess
hve lögregluliðið var fámennt, slarksamt og illa búið, var það talið sjálfu sér
hlífisamt ef til átaka kom. Dæmi er til um að lögregluþjónn hafi falið sig í
púðursykri í Fischersbúð eitt sinn er vanda bar að höndum, sem þó var sýnu
minni að alvarleik en byltingin.
Bessastaðaskans var virki, sem
upphaflega var reist árið 1627 en endurgert og byssukostur endurnýjaður 1668. Hann
var, líkt og virki í Vestmannaeyjum og önnur smærri vígi um aldir, t.d. á
biskupssetrunum, ætlaður til þess að verja staðbundna hagsmuni og bregðast við
staðbundinni og oft tiltekinni og tímabundinni hættu. Bessastaðaskans mun hafa
verið úr sér genginn sem varnarvígi og ryðgaðar fallbyssurnar þar sokknar í
jarðveg um það leyti sem byltingin var gerð. Þar að auki voru þær utan
vettvangs atburðanna og úr leik gagnvart innrásinni, fyrir utan hið augljósa að
enginn var til að manna byssurnar. Innrásarmenn gerðu fljótlega vopnaleit í
hverju húsi í Reykjavík og varð afraksturinn aðeins fáeinar gamlar byssur og
einhver sverð.
Að byltingunni yfirstaðinni, í
nóvember 1809, var birtur svokallaður hreppstjórainstrúx þar sem kveðið var á
um aukið lögregluvald og hreppstjórar gerðir löggæslumenn. Ekki skal fullyrt að
sú ráðstöfun sé afleiðing byltingarinnar sumarið áður og ætluð til að auka
burði landsmanna til að verjast yfirgangsmönnum. Ólíklegt má þó telja það, þar
sem vopnleysið var aðal íslenskra yfirvalda áfram sem endranær. Trúlega má
segja með nokkrum sanni að eiginlegar landvarnir hafi í raun aldrei verið á
Íslandi fram til 20. aldar, þó svo að dönsk herskip hafi verið hér um aldir til
verndar verslun og landhelgi.
Viðbúnaður og landvarnir byltingarmanna
Notts skipstjóri var reistur burt á The Rover þegar Margaret and Anne kom í höfn í Reykjavík. Kom þá í ljós að Trampe
hafði að engu samning þann sem hann hafði gert nauðugur um verslunarleyfi til
handa Bretum. Trampe hafði sjálfur beina og mikla hagsmuni af því að úthýsa breskri
verslun á Íslandi þar sem hann var umsvifamikill í kaupskap. Hann hafði strax í
kjölfar komu Notts látið festa upp auglýsingu í Reykjavík um verslunarbann við útlendinga með hótun um dauðastraff
ef menn óhlýðnuðust og var með því að árétta gildandi reglur í landinu. Þetta
var djarfur leikur því Trampe hafði í raun ekkert bakland, pólitískt né
hernaðarlegt og landið var á áhrifssvæði Breta. Þann 25. júní fór því svo að fimmtán
manna flokkur með Phelps og Jørgensen í fararbroddi hernam landið, búinn korðum
og byssum (trúlega rifflum og skammbyssum). Jørgensen og félögum hans hefur
auðvitað verið allvel kunnugt um það hve vopnakostur landsmanna var takmarkaður
og hve lítil hætta var á einhverri mótspyrnu sem veigur væri í. Joseph Banks
hefur sjálfsagt ekki síst verið byltingarmönnum traust heimild, en hann hafði
dvalið á Íslandi áratugum fyrir þessa atburði og staðið síðan í bréfasambandi
við íslenska mektarmenn, og þekkti því gjörla til. Þá hafði Jørgensen hitt
Bjarna Sívertsen í London skömmu áður, sem hefur sagt honum undan og ofan af
þjóðarhag og mun hafa vakið athygli Jørgensens á Joseph Banks og afstöðu hans
til Íslendinga. Reyndar má ótrúlegt heita að nokkurt annað land verið hernumið
og bylting gerð með minna tilstandi en þetta, fyrr og síðar.
Fallbyssur þær sem byltingarmenn
sóttu í Bessastaðaskans og fluttu í virki það sem þeir reistu norðan í
Arnarhóli, voru sex talsins, svokallaðir sexpundarar sem vísar til þess að
skotfærin í þær voru sex punda þungar járnkúlur. Ekkert verður séð af heimildum
annað en þetta hafi verið þær fallbyssur sem komið var fyrir í Bessastaðaskansi
árið 1668. Reyndar munu byssurnar sem sóttar voru, þá hafa verið búnar að
liggja sandorpnar í Bessastaðaskansi í meira en 140 ár. Af skoðun heimilda sést
að sex punda fallbyssur eru með hinum allra minnstu sem í notkun voru á 17. og
18. öld. Skipafallbyssur voru algengar 18 og 24 punda, og allt upp í 48 punda.
Í Öldinni sautjándu er á bls. 66 birt
ljósmynd af fallbyssu með textanum „Fallbyssa á Bessastaðaskansi“, með frásögn
sem greinir frá gerð eldra virkisins í landi Bessastaði árið 1627. Ég hafði
uppi á byssunni í geymslu Þjóðminjasafns Íslands þar sem hún er varðveitt,
ljósmyndaði og mældi. Í gögnum safnsins er þessi texti:
,,Fallbyssa lítil, l. 92
cm, þverm. 10 – 19 cm. Brotið er handfang aftan af og púðurholan blinduð.
Áletruð að ofan: C W & C°, kóróna yfir en 2 undir. Líklega ensk að uppruna
og frá fyrri hluta 19. aldar. Sögð komin til Reykjavíkur fyrir nokkrum árum
sunnan frá Bessastöðum“.
Byssan ber safnnúmerið Þjms. 10447 og
mun hafa borist því árið 1928. Meira er ekki um hana vitað. Mér hefur ekki
tekist að finna nokkrar heimildir fyrir fallbyssum á Íslandi upp settum af
yfirvöldum á nýöld fram til síðari heimsstyrjaldar, utan þær sem tengjast virkisgerð
í Vestmannaeyjum og á Bessastöðum á 16. og 17. öld. Til að mynda verður ekki
séð að fallbyssukosturinn á Bessastöðum hafi nokkru sinni verið endurnýjaður
eða viðbættur frá 1668. Því vekur það nokkra furðu að sjá byssu kennda við
Bessastaðaskans, sem álitin er vera frá upphafi 19. aldar. Ég sendi fyrirspurn til
Tøjhusmuseet í Kaupmannahöfn, með ljósmyndum og upplýsingum um áletrunina. Í
fyrirspurninni er gert ráð fyrir að fallbyssan sé frá 1668 eða eldri. Í svari
sem barst, er það fullyrt út frá ljósmynd og upplýsingum, að byssan muni vera
frá upphafi 19. aldar og trúlega ensk án þess að komist verði nærri um
framleiðanda hennar út frá merkingum. Þessi niðurstaða sérfræðings Tøjhusmuseet
kemur því heim og saman við það sem skráð er um byssuna í gögnum
Þjóðminjasafnsins. Saga hennar er þar með hulin móðu, jafnvel meir en áður, en
ætlaður uppruni og aldur fallbyssunnar kemur sannarlega vel heim við byltinguna
1809. Það má gera sér í hugarlund að þessa byssu hafi Phelps lagt til vígisins
sem við hann hefur verið kennt, þó óvarlegt væri að gefa sér það. En á hitt er
að líta að hann hafði langmestra hagsmuna að gæta í valdatökunni, a.m.k. út frá
fjárhagslegu sjónarmiði. Margir höfðu ótrú á byssunum úr Bessastaðaskansi og
sögðu þær ónothæfar, þó svo að Jørgensen hafi þótt þær fyrirtak. Því hæglega má
ímynda sér að byssunni sem er í vörslu Þjóðminjasafnsins hafi verið skipað á
land til frekari styrkingar víginu, og nefna má í því sambandi að dönsku
kaupmennirnir í Reykjavík höfðu stofnað til lítilsháttar uppþota á meðan Jørgensen
var á yfirreið um landið. Ég mældi hlaupvíddina sem reyndist vera nálægt 90 mm
við hlaupop og heildarlengd byssunnar er á við stuttan riffil. Þessi fallbyssa
er þar með af sama eða mjög svipuðu tagi og hinar sem voru í Bessastaðaskansi,
þ.e. sexpundari eða mjög nálægt því. Nefna má til samanburðar að rifflar þeir
sem breskir hermenn báru jafnan í síðari heimsstyrjöldinni (Lee Enfield .303
MKIII) eru 113 cm að heildarlengd (eigin mæling). Kúlurnar í byssurnar voru
hnattlaga og runnu eftir sléttu hlaupi sem jafnframt var mjög stutt, sem hefur
gert það að verkum að þessar fallbyssur voru hvorki ýkja öflugar né heldur
nákvæmar, síst á lengri færum. Hvert annað herskip eða vel vopnum búið kaupskip
hefði því getað lagt vígið í rúst úr öruggri fjarlægð. Til að mynda mun Margaret and Anne hafa verið búið tíu
fallbyssum.
Telja verður staðarval fyrir virkið rökrétt
og það hefur verið ágætlega fallið til þess að verja sókn að kaupstaðnum
Reykjavík frá hafi. Í raun var það Phelps sem reisti virkið til verndar eigum
sínum en fram kemur að Jørgensen þótti framtakið gott og hann hrósaði Phelps
fyrir það. Fram kemur hér að framan að byssukosturinn var ekki ýkja burðugur,
fallbyssur voru bæði fáar og litlar. Auðvelt er að gera sér í hugarlund a.m.k.
þrenns konar tilgang með gerð virkisins:
1) Upphafsráðstöfun þar til búa mætti
virkið og eftir atvikum fleiri vígi öflugri byssum sem yrðu fluttar til
landsins, einkanlega með þann tilgang að þjálfa Íslendinga í hernaði og takast
á við innrás dansks hers. Þó var það út úr myndinni að af því yrði, strax með fyrstu ákvörðun breskra yfirvalda
um að hertaka landið ekki, en í síðasta lagi eftir að byltingarmönnum var ljóst
að bresk stjórnvöld myndu ekki sæta lagi í kjölfar byltingarinnar og taka yfir
stjórn landsins.
2) Virkið var nægilega öflugt með þessum
byssukosti til að hræða Íslendinga frá uppreisn og á hinn bóginn að mæta
mótspyrnu sem kæmi að Reykjavík af hafi. Fylkja hefði mátt fjölda skipa til
innrásar í Reykjavík ef náðst hefði saman mannafli búinn tiltækum handvopnum.
Gegn þeim hefðu fallbyssur virkisins eflaust dugað ágætlega. Ókunnugt er um
vopnaeign meðal almennings en þó hljóta víða að hafa verið til haglabyssur til
fuglaveiða og rifflar til selveiða en líka hreindýraveiða og til varnar gegn
dýrbít og mögulega hvítabjörnum. Það hlýtur í það minnsta að hafa búið einhver búnaður
og mannafli að baki þeirri fyrirætlan eða hugmynd nokkurra embættismanna að
fara gegn innrásarliðinu. Það var t.d. hugmynd Gunnlaugs Briem, sýslumanns í
Eyjafjarðarsýslu, að hægt myndi að ráða niðurlögum Jörgens, lífvarðar hans og
ráðuneyti (samkvæmt ritgerð hans um viðbrögð embættismanna við hinu nýja
lýðveldi).
3) Sýndarmennska í bland við þá
viðleitni til þess að styrkja þá hugmynd meðal Íslendinga að með því að þeir
væru undir nýjum fána sjálfstæðs Íslands, væru þeir ekki lengur undir dönsk lög
settir og gætu óttalausir verslað við Breta.
Mér þykir allir þessir möguleikar
geta komið til greina en þó einkanlega tveir hinir síðarnefndu. Með því að
bresk yfirvöld studdu ekki valdatöku Jørgensens, hlýtur einfaldlega að hafa
skort þjálfaðan mannafla og vopnabúnað til þess að mæta dönskum her þegar fram
í sækti. Fyrir utan handvopn var hið óburðuga fallbyssuvígi eina
varnarráðstöfun byltingarmanna, fáar byssur af smæstu gerð og virkið óhæft til
eiginlegs hernaðar. Hótunin vofði hins vegar yfir um að innlendir menn ásamt
dönskum kaupmönnum og embættismönnum brygðust við valdatöku byltingarmannanna. Með virkisgerðinni ásamt þjálfuðum mannafla í
vopnaburði, var þó sýnt að byltingarmenn ættu í fullu tré gagnvart allri
innlendri mótspyrnu.
Niðurstaða
För byltingarmanna til Íslands er
upphaflega í þeim tilgangi að gera kaupskap. Miklir hagsmunir voru í húfi með
skip hlaðin varningi og brýn þörf fyrir tólg til sápugerðarinnar heimafyrir. Þegar
sýnt var að ekki myndi verða af því vegna þess að stiftamtmaður stóð ekki við
fyrirheit sitt um verslunarfrelsi Breta á Íslandi, gripu Phelps og Jørgensen
til ráðstafana sem tryggðu þeim óhindraða verslun. Byltingin var snjallræði til
þess að koma henni í kring, einkum vegna þess að hún leysti landsmenn undan
ströngu banni á viðskiptum við útlendinga og hún varð framkvæmd með svo
auðveldum hætti að verslunarmenn með breskt víkingaleyfi fóru létt með.
Vopnabúnaður og mannafli mun hafa miðast að því einkum að taka kaupför herfangi
en ekki að kollvarpa landstjórn annars ríkis. Það sem gerði byltinguna mögulega
til viðbótar við djörfung þeirra sem að stóðu, var það að Ísland var án
landvarna og lítt vopnum búið. Byltingarmenn höfðu burði til að hrifsa völdin í
kauptíðinni en ekki meira en svo. Byltinguna má telja snilldarbragð, því með
því að setja landið undir nýja stjórn og upphefja bann við verslun við
útlendinga, var dauðastraffið ekki lengur yfir höfðum manna ef verslað var við
aðra en þegna Danakonungs, og þar með ekki fyrirstaða í viðskiptum.
Þegnar bresku krúnunnar gátu ekki
refsilaust tekið að sér stjórn landsins og vandfundinn var traustur Íslendingur
í hlutverkið, svo það kom í hlut túlksins Jørgensens að verða æðstráðandi hins
nýstofnaða ríkis. Í raun var það ævintýramaðurinn Jørgensen sem tók mesta
áhættu af framkvæmdinni. Hann var stórhuga, lét víða til sín taka á Íslandi og
réðist mjög fljótlega í úrbætur þar sem hann sá þeirra þörf, svo sem á sviði
heilbrigðisþjónustu og menntamála. Honum má hafa verið ljóst að eftir að Phelps
hafði lokið kaupskap á Íslandi og siglt burt, myndi staða hans sjálfs verða í
meira lagi ótrygg. Ísland myndi standa á algerum brauðfótum sem sjálfstætt og
fullvalda ríki sem hafði af djörfung verið hrifsað undan danskri stjórn. Það má
hafa verið honum fullljóst að fyrr eða síðar myndi ófriðnum í Evrópu ljúka og
Danir safna vopnum sínum. Hvernig sem Jørgensen kann að hafa hugsað sér framtíð
Íslands og sjálfs sín, virðist það réttust niðurstaða að hér hafi einkum verið
um að ræða flókinn og djarft spilaðan en þó skammvinnan kafla í verslunarsögu
Íslands og Bretlands, í það minnsta mun fremur en mikilvægan pólitískan
viðburð. Án stuðnings bresku stjórnarinnar var fyrirfram víst að engin von var
um langvinnt framhald á ævintýrinu. Það virðist af framansögðu að byltingin
svokallaða árið 1809 hafi verið djarft valdarán til þess framið að tryggja
viðskiptahagsmuni. Þannig hafi Samuel Phelps verið maðurinn að baki í
atburðunum um hundadagana á þessu herrans ári og verslunarhagsmunir hans verið
eiginlegt leiðarhnoða, en Jørgen Jørgensen verið lykilpersónan í að skapa hina
mikilfenglegu umgerð sem hefur verið gefin hin bráðskemmtilega umsögn „grátligt
narraspil“.
Heimildir
- Albert Manucy (2001). Artillery through the Ages. Honolulu:
University Press of the Paicific. - Anna Agnarsdóttir (2008) Aldahvörf og umbrotatímar, Saga Íslands IX.
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag / Sögufélag. - Birgir Loftsson (2006). Hernaðarsaga Íslands 1170-1581.
Reykjavík: Pjaxi ehf. - Emil Dichmann Sorknæs (15. apríl
2011), upplýsingafulltrúi Tøjhusmuseet, upplýsingar í tölvupósti. - Guðbrandur Jónsson (1938). Lögreglan í Reykjavík. Reykjavík:
Lögreglustjórnin í Reykjavík. - Jón Helgason (1966). Öldin sautjánda, minnisverð tíðindi
1601-1700. Reykjavík: Forlagið Iðunn. - Lilja Árnadóttir (24. mars 2011),
fagstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins, upplýsingar í tölvupósti.