Skansinn

Jón Indíafari og Tyrkjaránið 1627

Það er ógerningur fyrir nútímamann að setja á metaskálar stærstu áföll og mestu neyð sem uppáféll þjóðina á fyrri öldum.  Drepsóttir, eldgos, vetrarharðindi og önnur áþján gekk reglulega yfir landsmenn. Óhætt er að segja að slíkar ógnir af náttúrulegum orsökum hafi verið þekktur óvinur sem tekist var á við af reynslu kynslóðanna. Tyrkjaránið var hinsvegar ný ógn og geigvænleg sem tók líka fram öllum öðrum átökum við erlenda menn í gegnum tíðina. Hugtakið Tyrkjarán er notað um ránsferð sjóræningja sem komu hingað til lands um mitt sumar 1627 á alls fjórum skipum sem klufu sig úr tólf skipa lest, sem siglt var frá Alsír norður í höf. Ræningjarnir tóku hér land í Grindavík, Vestmannaeyjum og á Austfjörðum auk þess að reyna landtöku við Bessastaði.

Ræningjarnir gengu fram af svo einstakri grimmd og hörku, og fóru svo vítt yfir, að hingaðkoma þeirra hefur verið hverjum manni stórkostlegt áfall og viðvarandi kvíðaefni. Hundruð manna voru hneppt í þrældóm og tugir drepnir. Vopnlaust fólk var elt uppi, drepið og pyntað grimmilega, brennt lifandi, líkamshlutar skornir af fólki lifandi, fólk brennt inni og þar á meðal börn. Dugar að tilfæra eitt dæmi frá Vestmannaeyjum úr frásögn Jóns Helgasonar um Tyrkjaránið: „Tvær konur voru öðrum seinfærari og rákust illa, og fylgdu annarri þeirra tvö litil börn, sem hrinu hástöfum. Þetta leiddist víkingunum. Réðust þrír þeirra á börnin og sneru þau úr hálsliðunum, lömdu þeim við grjót og fleygðu þeim að lokum fyrir hamra. En konurnar tvær tóku þeir til lagnaðar.“

Aftan við þá reisubók sem Jón Ólafsson Indíafari skrifaði sjálfur árið 1661, 35 árum eftir heimkomu til Íslands, skrifaði ókunnur höfundur viðbæti sem kallaður var „þriðji partur ævisögunnar“. Þar er sagt frá því í þriðja kapítula þegar Jón kom í ótengdum erindagjörðum á Bessastaði og var settur til varna þegar ræningjaskip komu á Seyluna.

Þá nú Jóhannes og Suan og Jón Ólafsson voru af þeim engelsku kóngsskipum aftur til Arnardals á land komnir, fengu þeir sér þaðan beinan flutning inn í Ögur, og tók [Jóhann] Súan með sér 2 af sínum landsmönnum, þeim Frönsku, til fylgdar á þessari reisu, sem og einnin sína sögu fyrir höfuðsmanni að sanna, hvernin allt um skipsins tekt til gengið hefði, ásamt kóng Chr IV passbréfi, Dominigo áður útgefnu á kóngsins straumum hér við land, sem fyrr sagt var. Og sem þeir í Ögur komu, hafði Ari Magnússon tilbúa látið, hvað þeir til þeirrar reisu með þurftu, bæði hesta, tjald og annað. Og var Jón Ólafsson forstjóri þeirrar ferðar. Og reistu þeir svo í Herrans nafni af stað með bréf bóndans Ara til höfuðsmannsins, hver honum allar kringumstæður þessarar sendifarar og efnis undirvísuðu.

Og sem þeir komu suður í Borgarfjörð, spurðu þeir fyrst þau hryggðartíðindi um þau miklu rán og mannskaða, sem skeð hafði í Austfjörðum, Vestmannaeyjum og í Grindavík þann 12. junii 1627 af þeim tyrknesku reyfurum og ránsmönnum, sem fyrr á vikið er, og þess meir sem þeir suður á landið komu, þá var þess meiri uggur og ótti á landsfólkinu með veini og grát.

– Úr reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara.

Hér gætir ónákvæmni í frásögninni og hefur sumt skolast til. Ritun atburðanna fór fram löngu eftir að þeir urðu og Jón Ólafsson hélt hér ekki sjálfur á penna. Ósennilegt er nefnilega að fregnir af ránsmönnum sem lentu í Grindavík þann 20. júní hafi þegar náð til Borgarfjarðar um það leyti sem Jón Ólafsson og föruneyti fór þar um, en þeir voru komnir á Bessastaði 22. júní. Ræningjaskipið frá Grindavík kom svo á Seyluna við Bessastaði þann 23. júní. Ræningjaskip komu hinsvegar ekki til Austfjarða fyrr en 4. júlí og að lokum þann 16. júlí til Vestmannaeyja. Þessi ónákvæmni er samt furðuleg í því ljósi að Tyrkjaránið var nákvæmlega skrásett af fjölda manns, alveg frá því fyrsta.

Kom Jón Ólafsson svo til Bessastaða með þessa sína fylgjara og fann höfuðsmann, Holgeir Rosenkranz, fyrir Alþing og afhenti honum bréf bóndans Ara, af hverju hann vel merkti þessara frönsku manna erindi og það, að 2 engelsk kóngs stríðsskip voru fyrir Vestfjörðum, hvar af hann varð stórlega glaður og hugði strax Jón Ólafsson aftur um hæl vestur senda með bréf til kóngsskipanna og biðja þá suður fyrir land að halda á móti þessum ránsmönnum. En um tekt á því franska skipi þóttist hann [ei kunna úr] að ráða, þar kóngsins passa áhrærði, því mundi það efni til herradags fyrir kónginn og ríkisins ráð, en lofaði þó þennan Jóhannes Suan í þessu efni aðstoða það gæti, takandi svo þennan Jóhannes Suan og hans fylgjara til sín til útsiglingar.

En af því höfuðsmaður, Holgeir Rosenkranz, hafði um þennan tíma miklu að gegna í viðurbúningi í Seilunni, hvar hann lét virki gjöra á móti þessum ránsmönnum, ef þar koma kynnu, hvar í hann [til] varnar skikkaði alla þá Íslenzka, sem til Bessastaða með sinna léna afgiftir komnir voru, með þeirra mönnum, og vildi höfuðsmaður engum burtfararleyfi gefa, fyrr en vitaðist, hvert þessir ránsmenn héldu. Einnin hafði höfuðsmaður til sín í Seiluna kallað þau næstu kaupför, sem voru kaupskip úr Keflavík, annað úr Hafnarfirði, þriðja úr Hólminum. Þessi 3 skip lágu til varnar með höfuðmannsskipinu í Seilunni, með þeirra innihafandi skipsfólki vel til búin. Svo og hafði hann tilsett um öll Suðurnes strandvakt að hafa og þessum ránsmönnum landgang að varna.

Og sem nú Jón Ólafsson hafði 1 nótt á Bessastöðum verið og átti aftur sem fljótast vestur að ferðast með bréf höfuðsmanns til þeirra engelsku kaptuga, sem fyrr er sagt, kom sú fregn sunnan, að þessi 2 ræningjaskip væri allareiðu komin að Hafnarfirði og ætlaði að leggja inn á Seiluna, hvar við ferð Jóns Ólafssonar hindraðist og fékk bífalning að bíða, þar til hann til sanns vissi, hvernin af gengi. En höfuðsmaður skikkaði öllum vel vara á taka á sinni bestillingu til varnar. Svo og var Jóni Ólafssyni og þeim Frönsku bífalað í skansinn að fara og [á] stykkjunum vara að taka og affýra, nær þyrfti. En höfuðsmaður með sínum þénurum og mörgum Íslenzkum í stórum látúnssöðlum á landi riðu til umsjónar og aðgætni með löngum stöngum, svo sem hertygjað fólk væri að sjá, þá sólin á söðulbryggjurnar skein.

Og þá þeir á landi voru svo til varnar búnir, uppbyrjuðu ránsskipin að leggja inn á höfnina. Og þá þeir af skipunum og skansinum það sáu, fýruðu þeir nokkrum stykkjum þeim á móti og ránsmenn í sama máta af sínum skipum á land upp. En um þetta bil, af Guðs tilsettu ráði, bar annað reyfaraskipið upp á grynningar, svo það stóð, því fjörumikið orðið var. Var það það skipið, sem það hertekna fólk á var og mestallt góssið. Og þá hinir það sáu, settu hvoru tveggju út sína báta að flytja fólk og góss af því standandi skipi á hitt það að létta. Svo og köstuðu þeir út miklu tunnugóssi af mjöli, öli og annarri votuvöru, sem þyngst var og þeir höfðu á dönsku skipum tekið, hvað mestallt til lands rak, hvar á var mark kaupmannsins Boga Níelssonar, kaupmanns á Skutulsfirði, hvert Jón Ólafsson þekkti og þar af vissi, að Skutulsfjarðarhafnar skip mundi tekið vera af þessum ránsmönnum. Og sem þeir nú í þessu sjóarsvamli og flutningi skipanna á milli voru, létu þeir Dönsku af að skjóta á þá, bæði af skipunum þeim dönsku og skansinum (því miður), en Íslenzkir vildu, að að þeim sem mest skotið væri, meðan þeir voru í þessu svamli, hvers þeir ei ráðið fengu, og því komst þetta ránsmannaskip af grynningunum með aðfallinu. Og [sneru svo þessi ránsskip bæði frá Seilunni, og sigldu] aftur suður fyrir landið, og sást ei til þeirra framar, fyrr en þeir komu í Vestmannaeyjar og þar ræntu í juliománuði. Þetta skeði skömmum tíma fyrir Alþing, að þessi skip fyrir Seiluna komu, og því reið höfuðsmaður og enginn þeirra, er þann tíma á Bessastöðum voru, upp á Alþing það sumar vegna uggs og ótta.

– Úr reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara.

Eftir siðaskiptin 1550 varð sú breyting auk annarra að þjóðin varð vopnlaus. Varla er hægt að tala um nokkurn viðbúnað til þess að mæta atlögu vígamanna nema á aðsetri höfuðsmanns konungs á Bessastöðum, sem hefur þó verið lítill og fátt um þjálfaða menn til þess að fara með vopn. Það má best sjá af lýsingum af viðbúnaðinum við Tyrkjaránið. Þetta varnarleysi var stór breyting frá kaþólskri tíð þegar biskupsstólarnir höfðu á að skipa stórum vopnuðum sveitum manna. Því hefur verið haldið fram að kóngur hafi látið afvopna Íslendinga með skipulegum hætti síðla á 16. öld þó svo að síðar hafi hann sent handvopn til landsins sem skyldu vera til í hverri sýslu. Einkum varð þó ljóst af Tyrkjaráninu að landsmönnum var ekki hald í dönskum herskipum sem öðru hvoru héldu til hér við land.

Í kjölfar Tyrkjaránsins urðu til sögur um það hvernig landsmenn tóku á Tyrkjanum og höfðu betur í einstökum viðureignum, meðal annars fyrir fræknleik eða trúarhita og með göldrum. Sögur sem enginn fótur er fyrir en flugu manna á milli og ekki leikur vafi á að þeim var trúað, jafnt þótt galdrar kæmu við sögu.

Í Syðridal í Bolungarvík standa tveir stórir steinar á sléttum grasgrónum grundum, báðir eru þeir bjarg mikið. Steinar þessir eru nefndir Tyrkir. Þegar Tyrkir rændu hér við land í síðara sinn hafi tveir ránsmenn verið sendir fram í Syðridal, til þess að ræna og rupla á bæjunum þar í dalnum. Þegar þeir voru komnir á leið fram í dalinn hafi steinarnir fallið úr fjallinu og ránsmennirnir orðið undir þeim. Sumir eigna atburð þennan Guðs mildi, en aðrir segja að í þann tíð hafi kunnáttumaður búið að Hanhóli í Syðridal. Hann hafi vitað hvað Tyrkjunum leið og sent þeim sendingu þessa, svo að þeir kæmu ekki fram ódáðum sínum.

– Úrdráttur úr sögninni „Tyrkjasteinar“ af Sagnagrunni.

Þetta eru sögur sem skipa sér nú í flokk þjóðsagna en þá er að minnast þess að á þessum tíma var daðrað við galdra og fordæðuskap, og galdrafárið var að halda innreið sína á Íslandi. Yfirvöld styrktu svo vitanlega galdraátrúnaðinn með því að ofsækja, dæma og drepa ætlaða galdramenn. Vafalaust hefur þessi sagnagerð verið varnarháttur sem þjóðin hafði til hugarléttis og styrkingar í fullkomnu varnarleysi sínu gagnvart ofbeldinu sem hún sætti um sumarið 1627.

Heimildir:

Birgir Loftsson. (2006). Hernaðarsaga Íslands 1170-1581. Reykjavík: Pjaxi ehf.

Einar Laxness. (1988, 2. útg.) Íslandssaga. Alfræði Vöku-Helgafells. III. bindi. Reykjavík: Vaka-Helgafell hf.

George Cameron Stone. (1961). A Glossary of the Construction, Decoration and Use of Arms and Armor in all Countries and in all Times. New York: Jack Brussel.

Jón Helgason. (1983, 2. útg.) Tyrkjaránið. Reykjavík: Iðunn.

Jón Ólafsson. (1946). Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara. Reykjavík: Bókfellsútgáfan.

Matthías Viðar Sæmundsson. (1992). Galdrar á Íslandi. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Reisubók séra Ólafs Egilssonar. (1969). Sverrir Kristjánsson sá um útgáfuna. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

Sagnagrunnur. (2021). Kortlagður gagnagrunnur yfir íslenskar sagnir. Sótt 24. janúar 2021 af http://sagnagrunnur.com/is/.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s