Eftirfarandi eru uppskriftir hljóðritaðra viðtala sem síðuhaldari tók við Halldóru Pálsdóttur og Auði Aðalsteinsdóttur. Þær gáfu honum heimild til frjálsra nota á efni viðtalanna. Höfundur áskilur sér sæmdarrétt, þ.e. rétt til nafngreiningar (droit de paternité) vegna þess sem notað kann að vera af eftirfarandi efni til hverskyns birtingar.
Viðtölin eru þrjú; eitt við Halldóru, annað við Auði og hið síðasta við báðar saman. Skrifað er orðrétt, og eins nákvæmlega og unnt var eftir hljóðriti.
Halldóra Pálsdóttir til vinstri og Auður Aðalsteinsdóttir. Halldóra lést hinn 9. október 2015 (Ljósmynd: Júlíus Ó. Einarsson, 1. maí 2014).
Viðtal við Halldóru Pálsdóttur
Viðtal tekið við Halldóru Pálsdóttur, kirkjuvörð í Bessastaðakirkju, föstudaginn 24. janúar 2014, kl. 14. Halldóra hefur kennitöluna […].
Þú ætlar að segja mér, Halldóra, frá veru þinni á Bessastöðum og alveg…við skulum byrja á að fara alveg aftur til æskustöðvanna, stuttlega, og hvað kom til og hvernig að þú byrjaðir að starfa á Bessastöðum.
-Ja, ég er nú fædd Vestfirðingur, ég er fædd í Dýrafirði, Sveinseyri í Dýrafirði og afi minn og amma, ég er alin upp að mestu leyti af þeim. En Ásgeir Ásgeirsson var nú þingmaður Vestur-Ísfirðinga og þekkti þar alla, og ég held hann hafi átt allflest atkvæði sem til voru, eða þannig, fyrir vestan. Afi og amma þekktu hann mjög vel og, nú og einhvern veginn í ósköpunum þá var það þannig að eftir að því sem ég held og man best að þá var mikið af stúlkum sem komu einmitt að vestan og voru hér á Bessastöðum í tíð Ásgeirs. Voru að vinna hér. Nú, einhvern veginn í ósköpunum þá fékk ég bara vinnu við þetta en samt ætlaði ég nú alls ekkert að fara í þetta, engan veginn því ég hélt þetta væri alveg bara…enda bara kunni ég ekki neitt. Ég kunni varla að hella kaffi, laga kaffi hvað þá meira.
Sóttist hann eftir þér hingað, manstu það?
-Já. Þau báðu um það því bæði frænka Ásgeirs, sem var mjög mikil vinkona afa míns og ömmu, hún var nú yfirleitt…hét Jakobína Ásgeirsdóttir…og hún var yfirleitt í því að fá stúlkur að vestan til að koma og vinna, og ég held að þau hafi helst viljað bara fá stúlkur að vestan. Ég veit ekki annað. Og Jakobína stóð sig með prýði við það að smala saman stúlkum til að vera hér. Nú og svo þegar ég vissi náttúrlega að…að það var önnur stúlka hérna að vestan sem myndi vera allavega þennan vetur, fyrsta vetur – ég var náttúrlega ekkert ráðin nema kannski einn vetur í einu – en hún hét Una Gísladóttir frá Mýrum í Dýrafirði, að þá svona sættist ég alla vega á að koma. Og ég vissi það að Una kunni allt. Ég…hún gat svona bara sagt mér hvað ég ætti að gera og kennt mér eitthvað, ég kunni ekki nokkurn skapaðan hlut.
Hvað var starfið? Voruð þið ráðnar sem starfsstúlkur?
-Við vorum ráðnar sem starfsstúlkur og við vorum tvær. Við vorum tvær og svo var ráðskona. Starfsfólkið hérna voru semsagt, það voru tveir bílstjórar og semsagt ráðskona og tvær starfsstúlkur. Og við unnum hér í húsinu og bjuggum hér í þessu húsi. En reyndar ekki bílstjórarnir. Þeir bjuggu út…þeir bjuggu úti á búi. Á loftinu á búinu.
Þegar þú segir „í þessu húsi“…?
-Hérna í Bessastaðastofu.
Bessastaðastofu?
-Jájá. Í herberginu sem var uppi á lofti öðru megin. Hitt herbergið sem ráðskonan var í, það er nú horfið núna. Það var bara tekið í burtu við breytingarnar síðast.
Bílstjórarnir, bjuggu þeir í ráðsmannshúsinu?
– Já, í búshúsinu. Þeir bjuggu, við kölluðum það þá bara búið. Því það var ráðsmannshúsið og þar bjó geysilegur fjöldi af fólki. Þar var bústjóri þegar ég kom fyrst hér Jóhann Jónasson frá Öxney og konan hans, og þau voru nú bara með sex börn. Og þau bjuggu á hæðinni og þar var stór salur eða svona sem var matsalur og svo var eldhús, stórt eldhús og þar var eldað en niðri…neðst…á neðstu hæðinni, í kjallaranum, að þar bjó starfsfólkið. Það voru geysilega margir sem unnu á búinu.Þetta var ekkert dauður staður eins og núna.
Hvenær byrjaðirðu störf hérna?
-Ég? Ég byrjaði í…líklega september, held ég hafi byrjað hérna sextí…september fimmtíu og fimm.
Og hvernig var að koma úr sveitinni sem ung stúlka og á setrið…?
-Ja ég hafði náttúrlega komið til Reykjavíkur og allt það, og ég var ekki alveg, alveg kannski galtóm í kollinum. En ég hafði náttúrlega aldrei komið inn á þennan stað. E…Ég náttúrlega viðurkenni það að ég var með…ábyggilega mjög skelfingu lostin yfir því hvernig ég ætti nú að fara að umgangast svona hátt…hátt sett fólk því að forseti Íslands, hann var eitthvað sem var langt fyrir ofan okkur öll. Og…og svona einvhern veginn….og…ég náttúrlega kveið alveg óstjórnlega fyrir þessu en hér mætti mér ekkert nema elskulegheit og ég held að ég hafi samlagast því fólki alveg óstjórnlega vel. Því hér var stórkostlegt fólk. Hér var stórkostlegur forseti og stórkostl…og ennþá var frúin ekki síður, Dóra heitin Þórhallsdóttir. Hún var stórkostleg. Og allt sem þau gerðu, að, ég held að hún hafi litið á mig sem svona eins og hálfgerða uppeldisdóttur sína, hún var alveg óstjórnlega góð við mig. Hún bara passaði upp á mann og hún spjallaði við mann og, og sagði manni hitt og þetta og bara – hún var stórkostleg. Ásgeir náttúrlega var í allt öðru en hann var alltaf sami alþýðlegi, almennilegi maðurinn og góður og hlýr, og allt það en hún náttúrlega lét sig okkur sem að unnum hérna mjög mikils skipta, og passaði okkur mjög vel. Nú, vinnutilhögunin var náttúrlega það að við færðum þeim morgunkaffi á morgnana, yfirleitt klukkan sjö. Því að forsetinn fór alltaf í sundlaugarnar, mætti alltaf í sundl…gömlu sundlaugarnar í Reykjavík klukkan sjö á morgnana og hann var búinn að fá sitt morgunkaffi áður en hann fór en Dóra heitin fékk kannski morgunkaffi eða kaffi seinna þó við hefðum allt tilbúið en það var nú bara borið á bakka til hennar upp í svefnherbergi og það var ósköp einfalt. Það var ristað brauð og ostur, marmelaði, kaffi eða te. Það var mjög einfalt.
Þau bjuggu á lofti Bessastaðastofu?
-Já.
Þannig að það var mikil nánd?
-Jájájájá. Við buggjum bara í öðrum endanum og þau í miðjunni. Þau bara, þetta var bara heimili. Þetta var ekkert annað en ekta heimili. Þú varst bara á heimili. Eins og þú getur ímyndað þér ef þú lest bara, við skulum bara segja í gamla daga þegar var verið að tala um baðstofuna og þetta og bóndinn var, og húsfreyjan, voru svo hátt yfir þig hafin eða þannig talað um en hér var ekkert svoleiðis, hér…hér var bara heimili og þetta var rekið sem heimili. Þó svo að hér kæmu ótal gestir og þyrfti að taka hér á móti gestum og öðru slíku, þá var þetta bara heimili.
Hvernig upplifðirðu þegar þú komst hérna, var…var upplifunin eitthvað í samræmi við væntingar, manstu það, eða…vissirðu…renndirðu alveg blint í sjóinn?
-Nei, veistu ég…ég renndi alveg blint í sjóinn. Ég var ekki með nokkrar væntingar að einu eða neinu leyti. Ég var bara að fara að vinna. Og það var allt og sumt. Og…og svona, kannski…átti von á því að…jújú…svo við vorum hér úti í sveit og þú komst nú ekkert auðveldlega í bæinn. Þú fékkst jú frí…við vorum þrjár og við skiptum helgunum yfirleitt þannig á milli okkar að við vorum þrjár og það var kannski eina helgina þá voru kannski tvær í fríi eða það var skipt þannig og svo kannski ein sem var hérna og var að vinna ef það var ekkert mikið um að vera, því yfirleitt var ekki mikið um það að það væru hafðar veislur hér á laugardögum og sunnudögum. Svoleiðis að þá fórum við bara í bæinn og höfðum frí. Og við vorum alltaf keyrð og sótt. Því hér var náttúrlega ekki til strætó [hlær].
Og hver keyrði og sótti?
-Kristjón…eða Herold, sem þá voru bílstjórar.
Bílstjórar forsetans?
-Já. Og mjög oft ef það hittist svoleiðis á að forsetinn var að fara í bæinn að…eða forsetafrúin eða eitthvað á þeim tíma sem við vorum að fara í frí, að þá fórum við með þeim. Við sátum bara framí. Þetta var bara algjörlega heimili. Það var bara…þegar eitthvað svolítið annað. En það var náttúrlega einn hlutur sem að ég svosem kunni ekki þegar ég kom hér og…eða kunni ekki, ég var nú náttúrlega búin að vera á skóla og annað eftir því og ég var nú ekki alveg blönk en, en það sem var nú svona furðulegast af því eða þannig og það var þegar maður þurfti að þéra alla eða svona, en það var ekkert mál. Það lærðist. Alveg einn, tveir, þrír.
Þéra alla, segirðu. Þá forsetahjónin og gesti þeirra?
-Já, já, og gesti séstaklega sko. Það lærðist nú alveg einn, tveir, þrír. Og titla jafnvel ráðherra ef þú þurftir að yrða á þá eða, eða annað slíkt.
Er það formlegheit sem dóu út eða var tekin ákvörðun um það?
-Ég held að þetta séu formlegheit sem hafa algerlega dáið út. Og þú, ef þú ávarpaðir forseta í áheyrn annarra, þá sagðirðu: „herra forseti“. Þú sagðir ekki „Ásgeir“. Þú sagðir bara „herra forseti“. Og þú sagðir ekki…þú ávarpaðir ráðherrana með hvaða…hvort hann var fjármálaráðherra, hann var fjármálaráðherra eða eitthvað slíkt. Ef þú þurftir að skila einhverju eða koma einhverju þannig frá þér, að þá varðstu að gera það. En þetta var nú yfirleitt allt mjög…afskaplega þægilegt fólk. Þetta var náttúrlega æðsta stéttin í landinu en þetta var bara á þeim tíma þar sem allir þéruðust. Bara hreint og beint.
Síðan…síðan breyttist sá bragur um leið og gestir voru farnir? Þá voru þið orðin eins og…?
-Jájájájá, þá varstu bara allt í lagi. Þú varst ekkert…þú þéraðir náttúrlega forsetann á meðan hann var hérna, eða Ásgeir. Þú þéraðir Ásgeir og ef þú ávarpaðir, þá sagðirðu „Ásg…“ eða „forseti“. Og svo var einn siður sem við höfðum alltaf. Og sem að mér hefur alltaf fundist afskaplega fallegur siður, og það var alltaf að þegar forseti stóð, kom inn í þar sem við vorum jafnvel fram í eldhús, hann kom stundum fram í eldhús, þá stóðum við alltaf upp. Við sátum ekki eins og klessur en við stóðum upp. Og þetta…og svo, það var svona ýmsir siðir sem að, sem að algerlega held ég séu horfnir núna.
Og hvað finnst þér um það?
-Mér finnst að í raun og veru, sko…ég held mér finnist þetta svolítið fallegir siðir. Þetta er nákvæmlega sama eins og til dæmis ef þú ferði í kirkju, hérna úti, að ef að forseti kemur í kirkjuna, að þá yfirleitt reynum við að láta fólkið, gefa því merki um að forseti sé að koma, og þá stendur það upp. Og hann labbar inn gólfið og það nákvæmlega…og þetta hefur alltaf verið. Og þetta finnst mér afskaplega fallegur siður.
Þú nefndir fjölda fólks sem að starfaði hérna í tíð Ásgeirs.
-Já.
Þú nefndir afþreyingu í bænum þegar þið áttuð frí en hvað með félagslegt…félagslíf hér á staðnum?
-Við höfðum samband hérna út á búið, við starfsfólkið. Þó það væri náttúrlega ekkert rosa mikið en það kom fyrir að við…það voru nú svo margir á búinu. Það kom fyrir að við jafnvel gátum slegið upp félagsvist og spilað, svokallaða félagsvist þarna úti. Úti á búi sko.
Úti á búi?
-Já. Við höfðum náttúrlega þannig, sta…stað, yfirleitt kom nú ekki mikið hingað. Nema þá bústjórinn og frú kæmu hingað, að við höfðum alveg samstarf sko og…og ég náttúrlega segi ekki…ég viðurkenni það alveg, ég sennilega hef nú ekki þekkt alla sem að…eða kynnst öllum sem bjuggu á búinu en svona þeir sem mér eru náttúrlega minnistæðir, það eru náttúrlega bústjórarnir sem voru þarna og stúlkurnar sem bjuggu þar, eða voru og unnu þar. Og svo sá maður náttúrlega fjósamanninn og það var Páll fjósamaður. Hann var kallaður Palli fjósa. Nú svo náttúrlega…búið hérna var með kýr, geysilega stórt kúabú og það voru líklega tveir sem sáu um það og önnuðust mjaltir og annað. Nú, allan rjóma sem notaður var hér á staðnum, hann var keyptur þarna af búinu. Og mjólkin sem við notuðum hérna fyrst, hún var öll keypt af búinu. Og það var bara farið með brúsa eins og í Reykjavík, eins og var gert ábyggilega þá, að það var bara farið með þetta stóran brúsa á morgnana eða á kvöldin, sem var skilinn eftir úti í…úti á búi og þeir tóku brúsann og fylltu hann af mjólk og svo var hann kominn morguninn eftir á tröppurnar. Og við tókum hann bara á tröppunum.
Hvað með aðrar afurðir? Var matjurtagarður hérna?
-Það var kartöflugarður sem altsvo forsetaembættið rak sjálft. Og meira að segja get ég sagt það að ég á myndir af því sem forsetafrúin okkar, Dóra Þórhallsdóttir, er í sínum galla að taka upp kartöflur með okkur. Við fórum og tókum upp kartöflur og settum niður.
Hvar var sá garður?
-Eee…hann var í, fyrir neðan hornið,eða sko á hérna, hvað á ég að segja, þú veist hérna fyrir utan girðinguna, fyrir utan hérna…kirkjugarðinn. Í horninu alveg neðst niðri. Þar var garður. Og það var garður sem tilheyrði bara embættinu. Bara kartöflur, ég held að það hafi nú bara verið garð…kartöflur. Svo var lítið gróðurhús hérna. Og það var…ja annar bílstjórinn sem að var hérna, Herold, hann var garðyrkjumaður, lærður garðyrkjumaður. Og þar í garðyrkju…eða semsagt gróðurhúsinu voru ræktaðir tómatar og agúrkur og svona allavega kryddjurtir og hitt og þetta.
Sem nýttist embættinu?
-Jájájájá. Og hann, garðyrkjumaðurinn, hann sá um allar blómaskreytingar og annað. Og hann, ég veit hann ræktaði sko á haustin svona og fram að jólum, að þá var hann með hérna túlipana og híasintur og slíkt, sem hann notaði hérna inni. En annars var náttúrlega keypt blóm, sko. Nema þarna, í þessu tilfelli.
Blönduðu forsetahjónin sér í önnur dagleg störf heldur en það að taka upp kartöflur?
-Jájá. Ég…Dóra Þórhallsdóttir hafði alltaf yfirumsjón með öllu. Hún stjórnaði alveg hvað var í mat og…og annað eftir því. Hún annaðist það algerlega. Ásgeir náttúrlega gerði það ekki. Hann er al…var alveg saklaus af því að koma nokkuð nálægt slíku. Enda var hann mjög mikið að lesa. Hann las mikið af bókum og safnaði mikið af bókum og annað, og jú og svo hafði hann náttúrlega kannski aðeins fleiri störfum að gegna heldur en Dóra, sem forseti.
En hann var líka mikill framkvæmdamaður hérna á setrinu.
-Jájá, hann fékk allavegana þetta, að bókhlaðan var byggð hérna, sem var svo loksins kláruð um…ja hún var byggð og kláruð í…eee…sextíuogfimm. Ég held hún hafi ekkert verið voðalega lengi í byggingu. Tvö, þrjú ár, eitthvað svoleiðis. Ef hún hefur verið það. En þetta var allt öðru vísi að mörgu leyti. Að vísu salurinn er eins og stærsti hlutinn af gamla húsinu er eins, nema uppi á lofti eru heilmiklar breytingar og…svo þarna forstofan, því það var skúrbygging út úr húsinu, þar sem var farið inn bakdyramegin, eða svo til, bakdyramegin, og þar var gengið inn í skúr og það var gengið á allt öðrum stað upp á loftið heldur en…það var hægt að fara á tveimur stöðum upp á loft. Heldur en er núna.
Þessir siðir og venjur sem þú gekkst inn í þegar þú byrjaðir að starfa hérna; áttu þeir gamlar rætur, var það eittvað sem að Ásgeir og Dóra höfðu innleitt eða tóku þau það í arf frá Sveini Björnssyni?
-Já, þau tóku það í arf frá Sveini Björnssyni. Þetta var alveg frá…alveg…þetta var bara…þetta var bara siður og þetta var bara alveg fram að því sem að síðan tók að breytast. Það fór oft mikið að breytast hérna, það hefur breyst alveg geysilega í gegnum árin, það er ekki hægt að líkja því saman. Eins og ég segi, það var mjög mikið í…margt fólk hérna á staðnum í raun og veru, og það var alveg framundir eee…hvað, fimmtíu og…sextíuogsex sem að búið var hérna. Þegar að búið var lagt niður, að þá náttúrlega var ekki neitt, neitt. Þá var bara autt hús og enginn þarna hinum megin. Þar sem að bústjórinn bjó.
Gamla húsið sem þú nefnir, það er Bessastaðastofa…
-Já.
…frá 18. öld?
-Já. Já.
Það er ýmislegt gamalt af munum hérna og annað. Og svo er…svo er svipur á sveimi, að sumir segja.
-Það getur vel verið. Ég ætla ekkert að neita því. En ég ætla ekki að fara að segja neinar sögur.
En þú neitar því ekki heldur að þú hafir ef til vill orðið vör við…?
-Neinei, það geri ég ekki.
En vilt ekkert um það segja?
-Ég get sagt eina sögu af því að við vorum þrjár sem að urðum fyrir þessu [hlær] og það var svolítið sniðugt. Það var þannig að Guðmundur Daníelsson var mikill vinur forsetans og svona, og hann ætlaði að fara að skrifa bókina Hrafnhettu. Og hann fékk leyfi, eða…já eða frá forsetanum, hann bað um það að fá að koma hér til Bessastaða og jafnvel prófa andrúmsloftið og annað hérna á staðnum. Og þá var svokölluð hjáleiga hérna úti. Þar var íbúð og hann átti að búa í þessari íbúð. Það var allt í lagi. Nú, fyrsta kvöldið sem hann var hérna, þá var hann búinn að borða með forsetahjónunum og svo var lítið gestaherbergi uppi á lofti við hliðina á íbúð forseta, þar sem hann gisti um nóttina áður en hann færi þarna út í bókhl…út í hjáleigu. Og það var búið að vera…hann var búinn að vera hérna í mat um kvöldið og rabba við hjónin og annað, nú og svo fórum við bara allar að…allar…við vorum þrjár. Og stúlkan sem að var nú með mér í herbergi heitir Auður Aðalsteinsdóttir og var…hún var nú…býr nú hér á Nesinu og hérna og vann hérna á staðnum líka, sko. Og hefur oft unnið hérna mjög mikið unnið hér síðan í gegnum tíðina. Hjá hinum forsetunum. Nema það að við vorum komnar inn í…inn í herbergin okkar, vorum að fara að…ætluðum að fara að sofa og það var svona pallur fyrir framan herbergin okkar, að þá heyrðum við – við Auður báðar inn í okkar herbergi – þá heyrðum við að gekk einhver fyrir framan pallinn. Eða frammi á pallinum. Sú sem gekk fyrir framan, þarna á pallinum, hún virtist vera í einhverju – kjól – eða einhverju sem var sítt og það skrjáfaði í því. Við heyrðum skrjáfið í pilsunum og öllu saman og við fórum fram til að, héldum jafnvel að Dóra heitin væri að leita að okkur – Dóra Þórhallsdóttir væri að leita að okkur eða eitthvað. Og við opnuðum hurðina, þá hittist svoleiðis á að Jónína sem var þá ráðskona, hún heyrði þetta líka og hún kemur líka út í dyrnar og svo stóðum við í sitthvorum hurðum og horfðum hvor á aðra. [Óskiljanlegt]. Það er allavegana…þetta var áþreifanlegt. Þetta, við heyrðum þetta þrjár. En ég held við höfum nú ekkert verið hræddar, við vorum vanar þessu, við vorum vön að heyra hljóð og hitt og þetta, við vorum ekkert að kippa okkur upp við það. Ég hef að vísu oft heyrt það að…að það sé kona sem að hafi fylgt mér eftir og virst alltaf vera að vinna með mér en ég hef ekki séð hana [óskiljanlegt] en það er bara held ég einhver góður sem að…ég er alveg klár á því að allir sem hér hafa verið eru bara…hafa viljað staðinn sem mestan og líður vel hér, ekki hægt annað.
Og hún hefur ekki fylgt þér að vestan sú…?
-Nei. Það er alveg öruggt. Það er alveg öruggt.
Þú segir að hér sé góður andi…?
-Ég ætla ekkert…ég…það er mjög góður andi hérna. Ég ætla ekkert að neita neinu öðru. Mér dettur ekki til hugar, vegna þess að ég get ekki neitað því. Ég get heldur ekki sannað það – en ég get ekki neitað því.
Datt þér í hug Apllólónía Schwartzkopf?
-Ég held að okkur hafi öllum dottið hún í hug. Og ég held við höfum einmitt talað um það daginn eftir að…og vorum alveg klárar að þetta hefði verið hún. En við vitum ekkert um það. Engin okkar sá neitt. Við bara heyrðum. Og mér er ennþá í sko…ég heyri alveg skrjáfið í pilsunum.
En hvað með annað svona ótengt vinnu, sem hefur komið upp hér og…?
-Ekkert.
Ekkert eftirminnilegt sem [óskiljanlegt]?
-Nei. Að vísu komu hérna. Við getum sagt að það hafi oft…svona gerðist ýmislegt svona…mmm…það var kannski verið að keyra drukkna menn hingað [hlær], sem vildu kannski fá að tala við forsetann, og svona. Oftast nær reyndum við nú að passa það mjög vel að það gerðist ekki og…og einhvern tímann þá…mér er nú ennþá dálítið minnisstætt að ég var nú dálítill kjáni kannski og fattaði ekki alveg [óskiljanlegt] manninn að…stóð fyrir bara framan þurfti alveg bráðnauðsynlega að fá að tala við forsetann. Og þetta var um kvöldmatarleyti. Og forsetahjónin voru sest við borðstofuborðið og voru að borða inni borðst…borðsalnum…borðsalnum. Og þá kemur þessi maður og hann kynnir sig og allt þetta og segist bara alveg bráðnauðsynlega þurfa að tala við forsetann. Og ég gat ekki séð nokkurn skapaðan hlut, hann sagði til nafns og allar græjur. Ég labbaði inn og sagði forseta frá og hann sagði „Er hann nokkuð drukkinn Halldóra mín“. „Nei, ég get ekki séð það“, sagði ég en ég þekki manninn ekkert. „Láttu hann koma“ [hlær]. Ég hleypti inn manninum og labbaði á eft…hleypti honum inn og þegar ég var búin að hleypa honum innfyrir dyrnar, að þá sá ég hvar hann gekk sikksakk [hlær] og strammaði sig svona rosalega vel af fyrir framan mig og ég svona mikill blábjáni að ég gat ekki séð að maðurinn var undir áhrifum [hlær]. En það var allt í lagi. Við komum honum út mjög fljótlega. Ásgeir bara spjallaði eitthvað létt við hann og svo bara fór hann. Ég man reyndar eftir einu tilfelli eða reyndar sko, sem ég vil segja að sýni hvað Dóra heitin Þórhallsdóttir var alveg stórkostleg. Og ég man eftir því þegar að var…við vöknuðum, þá vorum við Una hér uppi og við vöknuðum við það að við heyrðum bara að það var verið að reyna að komast inn í húsið. Við heyrðum bara brjót…við sváfum yfir eldhúsinu og við heyrðum bara að það var eitthvað að gerast þarna niðri. Og við vöknuðum um miðja nótt og við fórum upp og fórum niður og þegar við komum niður, að þá var búið að brjóta einar þrjár eða fjórar rúður í eldhúsinu og niðamyrkur. Og við náttúrlega stóðum þarna stjarfar og maðurinn fyrir utan öskraði „Gefið mér eld“ [hlær]. Og ég man eftir því að Una hún þreif niður í skúffu þar sem voru eldspítur og henti þeim út um gluggann, þreif síðan um mig, ég var varla vöknuð, og sagði „Komdu upp“ og þú sérð hvað við vorum miklar hetjur [hlær]. Og upp fórum við og, og Una upp í rúm og svo segir hún bara „Hringdu í Kristjón“. Síminn var frammi á gangi og ég hringdi innanhúss og svo kemur Kristjón í símann og ég segi „Heyrðu, þú verður að koma. Það er einhver að reyna að brjótast hérna inn“. Þá segir Kiddjón „Geturðu ekki talað við hann“? „Nei, þú verður að koma“, segi ég. Svo var nú gluggakistan svo djúp og ég gat fylgst með þegar Kristjón kæmi fyrir hornið. Og mér fannst maðurinn vera löngu kominn inn og ég var alveg skjálfandi af hræðslu. Búin að læsa hurðinni, ég var ekkert að hugsa um forsetahjónin þarna, neineineinei, það datt mér ekki í hug [hlær]. Það hvarflaði ekki að okkur. Við vorum óskaplegar hetjur. Svo sé ég Kristjón koma. Og þá verð ég nú að viðurkenna að þá fór nú aðeins, fóru nú sumir að brosa þar sem þeir sátu í…þar sem ég sat í gluggakistunni. Sá hann koma fyrir hornið á bílksúrnum með gólfskrúbb að vopni [hlær]. Og þá fékk ég algert hláturskast. En skreið nú samt niður og, en þá tók…Kristjón tók manninn semsagt og fór með hann út í bílskúr og hringdi síðan í lögregluna. Og þá var hann búinn að brjóta einar þrjá eða fjóra glugg…eða rúður eða meira í eldhúsinu. Þetta var reyndar bara í öðrum glugganum sko; það voru tveir gluggar á eldhúsinu þá. Og…og hérna…og hann var náttúrlega búinn að skera sig á glerbrotunum og allt þetta – vissi ekkert held ég…hann vissi ekkert hvar hann var. Og þetta var í grenjandi rigningu og ægilega slæmt veður og kolniðamyrkur. Manngreyið vissi bara ekkert hvar hann var. Og Kristjón fór með hann út í bílskúr og fór eitthvað að reyna að þurrka hann þangaði til að löggan kom og tók hann. Nú svo náttúrlega fékk…fengu forsetahjónin að vita af þessu daginn eftir. Það verður mér alltaf minnisstætt þegar að Dóra heitin sagði við mig: „Halldóra mín. Þú hefðir nú átt að taka manninn inn og gefa honum kaffi“. Það hefði verið akkúrat það síðasta sem ég hefi nokkrun tímann gert. Því svo skelfingu lostin var…vorum við orðnar þangað til að eins og ég segi þegar ég sá að Kiddjón kom með gólfskrúbbinn að vopni, þá fór ég loksins að…fór loksins eitthvað að rofa til í kollinum á mér. En manngreyið vissi bara ekkert hvar hann var. Hafði bara veirð keyrður þarna og ég veit ekkert hvað…svo var hann bara keyrður og ég veit ekkert meir um hann, en löggan fór með hann, sko.
En er þetta…er ágæt mannlýsing um Dóru, hvernig hún bregst við?
-Já. Hún var alltaf svona. Hún var alltaf svona. Það var akkúrat það síðasta sem ég hefði nokkurn tímann gert, það var að taka manninn inn og fara að gefa honum kaffi.
En svo kemur nýr forseti eftir Ásgeir.
-Já ég er náttúrlega ekki…þá var ég ekki að vinna. Þegar Kristján kemur. Ég næ frí…hætti að vinna sextíu og sjö. Þá hætti ég að vinna og hann…byrjaði svo ekkert hjá Kristjáni fyrr en bara aukalega sko, þegar þurfti að fá aukahjálp eða svona…við matseld og svona, þá kom ég yfirleitt svona og hjálpaði ráðskonunni. Og eldaði með henni og svona…mat.
Hvað kom þér til að hætta hjá embættinu?
-Nú þá var ég búin að ná mér í mann og komin með börn, svoleiðis að ég var náttúrlega að sinna einhverju öðru. Ég gat ekki verið í fullri vinnu. Það var ekki hægt. Og svo fór ég ekkert að vinna raunverulega, ég var eiginlega alltaf lausráðin alveg þangaði til áttatíu að Vigdís kom. Þá fór ég að vinna alveg á fullu, sko.
En þú hefur haft kynni af Kristjáni?
-Jájájájá. Alveg öndvegisfólk. Mjög svo. Alveg geysilega öndvegisfólk.
En fylgdi þeim einhver breyting hér í háttum eða…?
-Neeei. Ekki, n…ja ég veit það ekki, það er, ja það náttúrlega fækkaði. Það voru bara tvær stúlkur, það var bara ráðskonan og önnur með henni. Það fækkaði þannig og það fækkaði líka um einn bílstjóra og ég held að ég sé að segja satt eða svona hérumbil satt, að þá hafi gróðurhúsið eiginlega, sko þá var garðyrkjumaðurinn hættur. Gróðurhúsið var komið í niðurníðslu, hafði ekki verið haldið við einhvern tíma. Gróðurhúsið var komið í niðurníðslu, það var ekkert hugsað um gróðurhúsið sko og…svo bara…þannig að það var engin ræktun þannig. Og ég held að…það var allavegana veit ég það að það var enginn kartöflugarður sem þau voru með, sko, sem að embættið…
Og búið var aflagt?
-Já, búið. Það var búið að leggja búið niður sextíuogsex…fimmtíuogsex…nei sextíuogsex. Þá var búið lagt niður. Þá er…og þá er semsagt eiginlega enginn nema forsetinn sem að og forsetafjölskyldan sem býr hér í þessu húsi. Nema jú, að út…í búshúsinu þarna eftir að bú…forsetinn…nei bústjórinn fór þaðan að þá flutti semsagt ráðskonan þangað og stúlkan, og bjuggu þar. Sem að…það hús var náttúrlega algjört hrikalekabæli sko. Mjög illa farið og ekkert haldið við. Lítið og ekkert haldið við og…og lítið gert við og annað slíkt.
En þitt starf eða starfsemin, var það meira eða minna óbreytt…við…?
-Í tíð Vigdísar?
Á milli forseta, segjum frá…frá Ásgeiri til Kristjáns og…?
-Já. Jájájájájá. Það var alveg við…
Sömu verkefni og…?
-Það var alveg sömu verkefni. það var ekki nein breyting á því. Það er alveg nákvæmlega sama í gegnum alla forsetana, þessa sem ég er búin að kynnast, þessum fjórum forsetum. Að það er sama starfsemin. Það er nákvæmlega, það fer bara eftir því eee… þetta hefur náttúrlega aukist alveg geypilega. En ég get náttúrlega sagt þér margt um svona, Ásgeir og Dóru sko og seg…að það var oft svona þegar krakkarnir voru að útskrifast í skólunum, bæði í Hafnarfirði og Reykjavík, að þá áttu þau til að koma á hjólum, kannski einn bekkur hjólandi þarna suðureftir og það var yfirleitt á vorin. Og það brást ekki að væri Ásgeir hér úti og sæi til krakkanna, að þá voru þau drifin hér inn og þeim var boðið upp á appelsín og smákökur og hann sýndi þeim allan staðinn. Og ég hef hitt fólk sem að hefur upplifað…upplifði þetta þá og fannst þetta alveg bara, það var bara í skýjunum og hafði aldrei upplifað svona. Og þetta er náttúrlega, sýnir það að þessi staður er, þú ferð ekkert á aðra st…hjá öðrum forsetum eins og að…eða þjóðhöfðingum þar sem þú bara hittir hann úti á götu eða rétt hérna fyrir utan úti á gangi og hann bara: „Já gjörið svo vel og komið inn“, og…ég held að það sé alveg mjög hæpið. En það er náttúrlega allt…
Þótti fólki sjálfu þetta sjálfsagt – að koma á forsetasetrið, vilja tala við forseta án þess að fá tíma fyrirfram [óskiljanleg]?
-Nei þessir kr…krakkarnir gerðu sér ekkert grein fyrir því að það væri þannig. Þetta var bara svona, þetta var bara þeirra ferðalag eins og krakkarnir fara, þau fóru bara svona í hjólatúra eins og krakkar hafa farið núna í…verið…farið eftir útskrift eins og úr gagnfræðaskóla eða einhverju svoleiðis og hafa farið í ferðalög. En það var bara á þessum tíma að þá voru engin, þá var bara ferðalögin hjá krökkunum, þau voru bara á hjólum. Og það var var ekkert lengra heldur en eitthvert, að einhvejrum datt í hug: „Nú hjólum við til Bessastaða“. En þau voru ekkert að gera sér grein…gerðu sér enga gr…datt það ekki til hugar að þau myndu hitta forsetann og hann tæki þau hér inn og sýndi þeim staðinn. Það datt engum í hug. Ég held þau hafi verið alveg…þau voru svo hissa að…að þau bara…og fannst þetta alveg meiriháttar og magnað. Samanber það til dæmis að ég veit náttúrlega að Ásgeir var guðfræðingur og…og að öll fermingarbörn sem hér voru, sem voru fermd hér í Bessastaðakirkju, þau fengu öll Bessa…hérna Passíusálmana að gjöf, í fermingargjöf frá forsetahjónunum þar sem að þau skrifuðu nafnið sitt í bókina og til hamingju og hamingjuóskir. Og ég hef hitt börn sem hafa fermst hérna, fyrir ég man ekki hvað rosalega m…ja bara í kringum fimmtíuogsex, sextíu, eitthvað svoleiðis, einhvers staðar sem að hafa verið með þessa sálmabók, Passíusálma og sýnt mér hana. Og veit þetta er rétt, sko. Vegna þess að ég vissi það alltaf, hann var alltaf tilbúinn með Passíusálmana og búinn að…hafa þá tilbúna að börnin fengju þetta.
En svo byrjar þú fullt starf þegar Vigdís kemur, segirðu?
-Já, já, já.
Segðu mér nú svolítið frá?
-Það var bara alveg…það var ósköp svipað. Þú breytir ekkert venjunum hérna. Ég held að það sé…Ég held eins og þessari venjur og siðir, þeir eru nákvæmlega eins. Þeir eru bara alveg nákvæmlega eins nema það kannski að forseti settist niður með þér, hann gerði það, þeir gerðu það náttúrlega eins og Dóra heitin settist með okkur og spjallaði við okkur og allt þetta. En, en hérna…eee..til dæmis Vigdís settist niður með okkur og spjallaði við okkur og það gerðu Kristján og Halldóra líka. Alveg geysilega. Ég get líka alveg sagt með til dæmis að…að í sambandi við Kristján og Halldóru að þegar að ráðskonan var í fríi, að þá kom ég mjög oft hérna til að…smurt…búa til snittur og svona hitt og þetta. Og það brást ekki sko, ef við vorum á þeim tíma sem að var kvöldmaturinn var að koma og við vorum búnar, við vorum ekkert að fara heim. Við fórum ekkert heim. Þá var Halldóra Eldjárn komin niður í eldhús og búin að elda mat fyrir alla. Það fór enginn hér öðru vísi heldur en að vera búinn að borða kvöldmat. Það var allt tilbúið. Og við fórum aldrei heim öðruvísi heldur en að hafa fengið…ef við vorum að vinna til hálfsjö eða eitthvað svoleiðis, þá var maturinn tilbúinn. Það var Halldóra Eldjárn sem eldaði mat fyrir okkur.
En allar aðstæður breytast með komu Vigdísar, það er að segja það er farið út í stórfelldar viðgerðir á húsunum?
-Ja það gerist nú ekki…já, það gerist náttúrlega ekki fyrr en hvað…áttatíuog…sex, sem það byrjaði sko. Þá náttúrlega, auðvitað breytist alveg rosalega mikið, bæði húsið breytist alveg svakalega mikið en mér finnst gamla húsið breytast alveg geysilega. Því að það var náttúrlega gólfin, maður sá náttúrlega hvernig gólfin voru orðin. En það var svolítið fyndið að ganga á gólfunum sko að fólk hélt að það væri orðið vel hált eða það var allt í einu farið að ganga niður á móti eða ganga upp á móti [hlær]. Því gólfin sigu svona. En við sem vorum vön þessu, við sáum ekkert athugavert við þetta, ekki nokkurn skapaðan hlut, þetta var bara svona. En þá var ákveðið að fara að gera einhverja hluti hérna og þá…byrjaði ýmislegt. Þá þurftum við að flytja inn í Reykjavík og búa á Laufásveginum, eða þannig.
Já, í gestahúsi forseta?
-Já, já.
Vigdís bjó samt ekki þar?
-Nei, Vigdís bjó alltaf…
En þjónustufólkið…
-Hún bjó alltaf heima sér. Þjónustufólkið, við vorum bara keyrð á milli. Við vorum bara keyrð, sko. Heiman frá okkur og í vinnu, og sótt. Eða þá við tókum taxa eða eitthvað, sko. Ef við keyrðum ekki sjálf, sko.
Þannig að þið hafið mjög lítið verið hér á staðnum eftir að framkvæmdir byrjuðu?
-Náttúrlega, við vorum hérna. Við komum alltaf og vorum hérna sko því við sáum um alla hlutina en við vorum ekkert hérna. Það var ekkert hægt að vera hérna. Að vísu…svo sérðu það að þegar að…áður en að þjónustuálman sem þarna er úti, sem núna er, þar sem eldhúsið og það er, það var í tíð Vigdísar. Áður en að hún er byggð, þá höfðum við hérna eldhússkúr frá Landsvirkjun [hlær] og það var eldhúsið okkar. Og það var fest hérna við. Ég á myndir af því þar sem var verið að hífa skúrinn utan af planinu fyrir utan hérna inn í til þess að koma honum hérna við dyrnar sem þarna eru til þess að fara inn og út. Og þar höfðum við eldavél og við höfðum ofn og svona. Svo var tekin hérna bókhl…nei hérna Kaldasel sem við kölluðum þá hérna, sem var bókaherbergi. Það var tekið hérna og þar var sett inn uppþvottavélin og svona hitt og þetta. End við…og við vorum hérna í…vorum eiginlega má segja frá því svona, hvað eigum við að segja, frá allavegana frá fimmt…sextíuog…nei áttatíuogfjögur til níutíu, þá vorum við í eldhússkúr. Lengur, við vorum til níutíuogtvö held ég í eldhússkúrnum. Þetta var ágætur skúr [hlær].
En skúr samt.
-Þetta var skúr samt en þetta var allt í lagi. Við hefðum getað alveg farið í vinnu hjá Landsvirkjun í skúrunum þess vegna, við kunnum alveg á þetta [hlær].
En svo fellur þetta nú í ákveðið far um það leyti sem Ólafur Ragnar verður forseti.
-Já, já…
Þá er byggt hérna forsetahúsið og þjónustuhúsið.
-Já. Annars var, bjó Vigdís þá inni á Aragötu, því það var ekkert hægt að búa hér. Ekki sko…þó svo að væri sko búið að gera allt að þá…og þá var ekki búið að byggja hérna…þarna eldhús…eða semsagt þjónustuálmuna. Það var ekki búið að byggja hana og hún er ekki kláruð fyrr en hvað, níutíuogtvö, þrjú, fjögur, eitthvað svoleiðis. Ég held það. Hún haf kl…ég man það ekki alveg, ég er nú ekki alveg með þetta í kollinum en, og þá var sko bara, það til dæmis var hér þó væri búið að…húsið væri nothæft og við notuðum hérna skúrinn, þá gat forsetinn ekkert búið hérna, það var engin sturta til hérna í gamla húsinu, það var ekki til. Það var ekki fyrr en það kom með þjónustuálmunni að þá var hægt að fara í sturtu þarna uppi. En það var ekki til neitt hér. Svoleiðis að forsetinn varð bara að gjöra svo vel og búa á heimili sínu á Aragötunni, hún hefði náttúrlega getað búið á…á Laufásveginum en hún kærði…vildi nú heldur vera á Aragötunni.
Hvað starfaðirðu lengi hjá embættinu í föstu starfi?
-Eeeee…þrjú, ég var fyrst í þrjú ár. Svo var ég í tvö ár, og svo frá áttatíu til hvað nít…átt…tvöþúsundogeitthvað.
Framyfir tvöþúsund?
-Já.
Og hverjar eru svona breytingarnar á þessum tíma sem þú starfar hérna? Þá meina ég í upplifuninni, samskiptum, starfseminni…
-Sko. Upplifun mín er ekkert sko…annaðhvort er ég orðin svo, sko hvað eigum við að segja…ég er svo samdauna þessum stað, að upplifun mín er ekkert þó svo að einhverjar breytingar hafi verið, að þá er upplifun mín, hún er nákvæmlega eins. Hún er bara…að vísu er ég ekki smeyk við að koma hérna inn eða nokkurn skapaðan hlut [hlær] eða, þó ég þyrfti að, væri, ætti að…ætti…væri beðin um að vinna hérna eða annað slíkt þá myndi ég…geri ég það alveg einn, tveir, þrír. Þó ég sé löngu hætt því. En ég gæti það alveg hiklaust þess vegna, sko. En upplifun mín er sko í sambandi við vinnu og annað, hún er engin breyting. Það er engin breyting. Og það er engin breyting á…uuu…hvernig andrúmsloftið í og fyrir sig er hérna á staðnum. Nema kannski það að þú segir bara: „Já, heyrðu Ólafur, þú þarna“, eitthvað svoleiðis. Nei ég segi ekki að við segjum svoleiðis en, en hérna…það er engin breyting. Ekki til. Mér finnst það ekki sko, ég finn ekki að…finn ekki neina breytingu. Ekki þannig. Og ég held til dæmis í sambandi við forsetaembættiið, þú verður alltaf að hafa….það eru alltaf einhverjir prótokoll. Það verður alltaf að vera. Það verða að vera einvherjir siðir. Ég náttúrlega þekki ekki siði hjá forsætisráðuneytinu en ætli þeir séu ekki bara svona svipaðir að mörgu leyti. Ég þekki það ekki sko en…en það eru alltaf siðir allsstaðar. Og ég held að siðir sem hafa einu sinni komið, að þeim verður ekkert breytt svo auðveldlega. Þú breytir því ekkert svo auðveldlega. Og þú ert hvort eð er orðinn samdauna þessu. Ég finn eng…hef ekki fundið neina breytingu í sambandi við siði og að umgangast fólk hér á staðnum…eee…frá því að ég byrjaði hérna og þangað til núna nema, eins og ég segi sko að allar þéringar eru aflagðar. Það er það eina sem að ég í raun og veru finn. Ég vil fúslega viðurkenna það að maður náttúrlega var óskaplega, maður var alveg hreint á tauginni þegar að…fyrst þegar ég…þegar fyrsta opinbera heimsóknin var hérna eða fyrsti konungurinn kom hér í opinbera heimsókn. En ég er nú búin að fá ansi marga og umgangast ansi mikið af þessu fólki og meðal annars séð um stóran hluta af þessu fólki inni á Laufásvegi til dæmis. Og þar held ég að ég hafi kynnst þessu fólki og ég verð að segja eins og er að þetta er bara fólk eins og við og þetta er bara mjög indælt fólk. Það er nákvæml…það er ekkert sem að…fyrst fannst manni þetta alveg meiriháttar sko, alveg hreint bara liggur við að maður hafi verið eins og táningarnir núna þegar þeir sjá einhverja stjörnu. Ég held að það hafi verið nákvæmlega svoleiðis, sama tilfinningin. Ég held það hafi verið nákvæmlega eins, sko. Núna finnst manni þetta ekki nokkur skapaður hlutur. Enda er þetta bara fólk eins og við. Maður fékk jú að vita um…um svona…hverjar óskir það hafði ef það var eitthvað svoleiðis sko. Það var ágætt að hafa það. Og nauðsynlegt að vita svoleiðis því að það er nauðsynlegt að fá að vita hvort að það eru einhverjar sérstakar óskir. Yfirleitt voru aldrei óskir frá þessum eins og konungum og drottningum eða slíku. Það voru aldrei neinar sérstakar óskir að það óskaði eftir neinu sérstöku. Það gátu komið hérna, ja…ég á nú kannski ekki að segja það hvað maður gat fengið hérna frá Afríku. Sem gátu komið hérna í opinbera heimsókn og maður gat fengið allt í einu frá þeim alveg undarlegustu óskir sko. Eða þannig, sem maður ekki vissi um að ætti að vera og…ég hef til dæmis…ég get náttúrlega alveg sagt að…ég veit ekkert hvort það á að koma fram í þessu en ég man eftir þegar að forseti Grænhöfðaeyja kom hér í opinbera heimsókn og átti að koma hér með örfáar hræður með sér en kom með tuttugu eða þrjátíu manns eða eitthvað svoleiðis, og allt í lagi. Svo, þeir búa á Laufásveginum og ég [óskiljanlegt] og við gerðum það náttúrlega, ég hafði konu með mér. Ég átti að sjá um þetta og, nú og svo gátum við náttúrlega ekkert talað við þetta fólk. Jú, það var hægt að tala við…eee…eina konu sem var með honum. Hún talaði ensku. Hann talaði ekkert, ég veit ekkert hvaða, hvaða tungumál…ég held hann hafi talað einhverja króat…kra…hvað heitir það? Það var einhverslags portúgalska og eitthvað blandað eitthvað…það var ekki portúgalska en einhver blanda af einhverju tungumáli. Og…og svo þegar að hann fór uh til Akureyrar til að skoða, ég held það hafi verið skipið sem var gefið Grænhöfða…þeir gáfu Græna…Græningjum eða Grænhöfðaeyjum, að þá kom liðið, stór hópur af þessu liði og það voru allt karlmenn. Bara settust að þarna uppi á Laufásvegi. Og við gátum ekki talað við einn eða neinn. Og það sem að var nú það skelfilegasta fyrir okkur, og það var það að þegar þeir sátu, settust niður einhversstaðar og einhversstaðar og ég man alltaf eftir að þeir settust niður og settu skammbyssurnar upp á borðið. Þá var manni nú hætt að lítast á blikuna. Þá var það sem ég sagði sko: „Ég tek ekki þátt í svona“. Ég bara…þá hafði enginn haft hugmynd um þetta en af því að hann var…þetta var diplómat sem var að koma þarna, að þá var ekkert farið að rannsaka fólkið sem var með honum eða kallana…mennina sem voru með honum. Þarna sátu þeir kringum okkur, við vorum að gefa þeim kaffi eða eitthvað og þeir voru að reyna að hringja til Grænhöfðaeyja og…ókei við létum það nú liggja milli hluta, okkur kom það ekkert við. En svo sátu þeir kannski við símann, með skammbyssuna við símann. Og það…það er einhver sú voðalegast tilfinning sem ég hef á ævinni fengið, þá leið manni illa. Ekki fyrir það að kallinn var…og þau voru allt í lagi sko, ég meina, maður skildi ekkert hvað þau voru að segja. Það skipti ekki neinu máli. En maður var skíthrædd og ég man að ég sagði frá þessu og [óskiljanlegt] ég kem ekki nálægt svona aftur. Eftirleiðis, ef svona á að gerast, að þá krefst ég þess að það sé rannsakað eitthvað. Svona nálægt fó…svona skammbyssuvopnuðu fólki kem ég ekki nálægt. Og þar að auki get ég ekki einu sinni talað við það.
Þegar þú réðir þig hingað…
-Já…
…upphaflega…
-Já…
á þetta…að þessu æðsta…
-…stað landsins, já…
…embætti þjóðarinnar. Hvernig voru viðbrögðin heima í sveitinni? Var öfund, var aðdáun?
-Ég held að það hafi enginn neitt fett fingur út í það. Ekki nokkur maður, það voru…ég held að Vestfirðingar voru vanir því að það væru hér…þeir sem ynnu hér, það væru yfirleitt einhverjir að vestan. Svoleiðis að það var engin viðbrögð í sambandi við, ekkert, enda held ég að Vestfirðingar líti ekki þannig á hlutina. Að einu leyti…einu eða neinu leyti. Hvorki öfund eða, eðan nokkurn skapaðan hlut. Ég held að nokkur maður láti sér detta það til hugar. Mér er reyndar alltaf dálítið minnisstætt að svo náttúrlega var ég dálítið mikið með…kynntist náttúrlega fjölskyldu Ásgeirs og Dóru afskaplega vel og það er…það er fólk og þau öll þrjú börn, börn þeirra og barnabörn Ásgeirs og Dóru, þetta eru mínir bestu vinir og bestu félagar, ég á ekki betri vini og félaga. Og…eee…Þór…ég var nú hjá Þórhalli Ásgeirssyni í tvö ár úti í Bandaríkjunum. Fór með…þegar hann var hjá…og var hjá þeirri fjölskyldu og passaði börnin hans eða með stelpunum og svona. Og hérna þau…uh…svoleiðis að eins og ég segi þetta eru bara mínir félagar; þetta eru eins og systkyni mín. Nú…ööö…ég man það að þegar þau komu heim að þá var það eitthvað um sextíuogfimm eða eitthvað svoleiðis að þá…eee…ætlaði ég í smá frí eða eitthvað svoleiðis og stelpurnar hans Þórhalls, það var Ragna og Dóra, og við keyrðum vestur á firði. Svo vorum við á einhverju bíl…vorum á bílaplani á Þingeyri að þvo bílinn. Ég átti Volkswagen-bíl lítinn, og, litla bjöllu, og hérna allt í einu heyrðist kallað: „Halló, nei er ekki ráðskona landsins mætt“. Þá var það frændi minn [hlær] og þeim fannst þetta svo fyndið, stelpunum, þegar þær heyrðu sagt: „Nei, heyrðu, heyrðirðu hvað hann sagði“? „Nei“, sagði ég. „Hann sagði: „Ráðskona landsins er mætt““. Ég held að það var nú bara svona grín sko, ekkert annað. Aldrei orðið vör við nokkurn skapaðan hlut, enda veit ég ekki: Hvað ætti að vera að öfundast út í það þó þú vinnir hér? Ekki til.
En þessi vinskapur sem myndast, hann er…?
-Hann er órjúfandi. Það er stórkostlegur vinskapur. Þetta er bara mínir félagar.
Og verður til með þessari nánd [óskiljanlegt]?
-Já, ég, já, þetta er náttúrlega, er ekki svo rosalega mörg ár þannig á milli. Eins og mín og Ásgeirs og Sigga og þeirra svona sem eru elstir. En samt erum, voru voða mikilr vi…þetta voru bara félagar. Við spiluðum við þessa krakka og, og allavegana og svo yngri kynslóðin, þá fór maður í feluleik við þá eða eitthvað. Bara…þetta var bara einhvern veginn svona. Við vorum í fjölskyldunni, sko. Þó við ynnum hérna, þá vorum við bara í fjölskyldunni. Það eru hreinar línur.
Nú gerum við hlé.
-Já, ég held það
Viðtal við Auði Aðalsteinsdóttur
Auður, ég ætla að biðja þig um að segja frá æsku og uppvexti til að byrja með, en gefa mér áður kennitöluna þína og heimilisfang.
– Kennitalan er […]. Ég á heima á Hvoli hér á Álftanesi. Það tilheyrir víst Garðabæ núna [hlær]. Ég er fædd á Hvammstanga og er alin þar upp bara fyrstu…fyrsta eina og hálfa árið. Svo fórum við hérna austur í sveitir, austur í Rauðalæk. Vorum þar í eitt og hálft ár. Þaðan í Súðavík og þar vorum við í sjö ár. Og svo í Sandgerði. Þaðan, eftir að við…sko í Sandg…komum til Sandgerðis, þá er ég alltaf í sveit á sumrin. Norður í Húnavatnssýslu. Þangað til að ég fer, að ég er komin yfir fermingu, þá fer ég í skóla upp í Reykholt í Borgarfirði og er þar á veturna, og heima á sumrin [hlær]. Þetta er svona flakk á manni.
Og…og hvað svo, hva…
-Svo fe…svo þegar að ég er…vann ég á pósthúsinu í Keflavík í tvö ár, svo fór ég í húsmæðraskóla á Laugarvatni og þaðan kem ég hingað að Bessastöðum. Vorið 1956 og er hér alveg í eitt og hálft ár.
Þú ræður þig hérna að Bessastöðum, án þess að búa í sjálfu sér á Álftanesi.
– Jájájájá, jájá og ég var bara ráðin í gegnum skólann, það var búið að ráða stúlkur áður frá skólanum hingað. Svoleiðis var það í samband…eitthvert samband á milli þeirra hérna og skólans. Og ég er hérna semsagt, já til haustsins fimmtíu og sjö.
Í forsetatíð Ásgeirs.
– Já. Í forsetatíð Ásgeirs. Hann tekur við embætti í, sko, í annað skipti sumarið se…fyrra sumarið sem ég er hérna.
Hvaða tengsl voru við skólann? Hvers vegna var fólk sótt þangað, veistu það?
– Nei, ég veit ekki hvernig þau tengsl eru en…þetta…veit það bara ekki, spurðii aldrei út í það. En ég veit þó að það var búið að ráða að minnsta kosti einar tvær á undan mér hingað. Sem að vor…störfuðu hérna sem…voru hérna semsagt. Sumar voru bara sumarið og ein, að minnsta kosti ein þeirra var eitthvað lengur.
Voru nemar beðnir um að gefa sig fram eða var leitað til þín?
– Nei, það var leitað til mín. Það var talað við, semsagt, skólastjórann þarna og hún…hún valdi þá sem hún vildi láta fara. Það var þannig. Ég veit ekki nei…eða veit ekki til þess að neinni annarri hafi boðið, staðið þetta til boða veturinn sem ég var þar. Af hvaða ástæðu sem það var.
Og varstu strax ákveðin í að taka þessu?
– Jájá, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.
Vissirðu að hverju þú gekkst?
– Nei…
Ekkert fyrirfram?
– Ekkert fyrirfram. Aldrei komið hérna og ekki neitt, þekkti ekkert til [hlær].
Jæja. Og hvað blasti svo við þér þegar þú komst?
– Þetta var bara svona eins og ósköp venjulegt heimilishald. Bara…það náttúrlega má segja að hafi kannski verið meira umleikis heldur en kannski svona á venjulegu heimili. En svona dags daglega var þetta bara eins og venjulegt heimili, fannst mér. Það náttúrlega, maður gekk í það sem þurfti að gera, það þurfti náttúrlega að elda og þrífa, og við þvoðum allan þvott hérna heima, gengum frá og…þannig að…
Varstu til aðstoðar ráðskonu, þá?
– Já, ég var til aðstoðar ráðskonu.
Manstu starfsheitið þitt?
– Ég man ekki hvort það var nokkuð [hlær]. Æi ætli það hafi ekki bara verið starfsstúlka, ég veit það ekki.
Já, og þið voruð tvær…
– Já, við vorum tvær.
…undir ráðskonu settar?
– Já, og svo ráðskona, já. Hin var titluð stofustúlka.
Já.
– Já, hún var meira í því að ganga um beina dags daglega.
Þú bjóst þar með á staðnum?
– Jájá, við bjuggum allar á staðnum. Það var…svo fengum við alltaf frí aðra hvora helgi og einu sinni í viku, eins og var þá. En náttúrlega ef það skaraðiist þannig að það var eitthvað um að vera, þá var það náttúrlega bara fært til. Dagarnir sem við áttum.
Já.
– Við vorum aldrei allar sko í burtu í einu. Vorum tvær og svo ein heima. Yfirleitt var það þannig.
Og hvar bjóstu á staðnum?
– Uppi á lofti hérna í norðurendanum, sem að núna er…núna er eldhús eftir breytingarnar. Þá bjuggum við þar uppi.
Á íbúðarhæðinni [óskiljanlegt]?
– Já, þau bjuggu bara á…hinum megin við þilið, eins og maður segir. Já.
Og hvernig var nú þessi nánd? Hvernig var að vera svona nálægt þeim, alltaf?
– Það var allt í lagi. Ég minnist ekki, eða þess að þannig það hafi neitt plagað mann. Þó maður sko, sem maður var ekki vanur, við þéruðum þau alltaf. Að þá man ég ekki að það hafi neitt plagað mann að þau væru þarna á sama gólffleti eins og við.
Hafðirðu sinnt samskonar störfum áður?
– Nei aldrei, aldrei [hlær].
Og hvernig var vinnudagurinn?
– Það var svolítið misjafnt náttúrlega eftir dögum en við vorum, ég man ekki hvenær við fórum á fætur. Hvort við fórum átta eða hálfníu, ég man það ekki. En svo var náttúrlega byrjað á því að færa forsetahjónunum morgunkaffið í rúmið. Það var alltaf gert. Svo náttúrlega borðuðum við niðri og svo var bara gert það sem þurfti að gera, hvort það þurfti að taka til eða þvo eða hvað sem það var. Baka eða eitthvað. Það var mikið bakað. Það var alltaf til bakkelsi, smákökur margar sortir, alltaf.
Það hefur verið vegna gesta?
– Það var vegna gesta, já. Það var vegna gesta náttúrlega.
Og gestakomur tíðar?
– Ekkert svakalega. Ekkert nú eins og í seinni tíð. En það var sko mikið meira heldur en varð seinna um kaffiveislur. Fólki var boðið kaffi og með því, þegar það kom. Það var meira svoleiðis.
Og hvaða hlutverk hafðirðu í kringum það?
– Það var eftir því hvað það var margt. Stundum var ég bara í eldhúsinu ef það þurfti aðstoð í eldh…inni í, til að ganga um beina, þá var ég í því líka. Það var bara eftir því sem til féll. Og ef það var það margt að það þurfti, við þurftum að vera báðar í eldhúsinu ég og ráðskonan, þá var ég þar og þá voru bara fengnar fleiri utanaðkomandi til þess að vera í þjónustustörfunum inni.
Voru það konur af Álftanesi?
– Nei, það voru allt konur innan úr bæ. Það var ekkert af Álftanesinu þá, sem kom þarna. Ég hugsa að ég hafi nú bara verið sú fyrsta sem að bjó hérna á Álftanesinu og var í íhlaupastörfum hérna. Seinna meir.
Þú sest að á Álftanesi…
– Já.
…og verður svo lausamanneskja hérna?
– Já. Ekki strax. Ekki fyrr en þónokkrum árum seinna. Ég man ekki hvenær það byrjaði. Ég man ekki hvenær að Dóra heitin forsetafrú dó sko, ég byrjaði þá þegar hann var forset…hélt áfram eftir að hún lést. Þá var Halldóra hérna, sem að var með mér hérna í gamla daga, þá var hún ráðskona og ég fór og var mikið að hjálpa henni. Ég man ekki hvaða ártal það er. Sextíu og eitthvað.
En aftur að upphafi vinnudagsins. Þið færðuð forsetahjónunum alltaf kaffi í rúmið.
– Já.
Það var fyrsta verk. Þau hreyfðu sig ekki úr rúmi fyrr en þau voru búin að fá…
– Neinei. Neinei.
…kaffi?
– Við fórum alltaf með kaffi upp. Alltaf með kaffið upp á silfurbakka [hlær]. Það var bara viss passi.
Og í stássbollum?
– Uh, ég man það ekki. Það voru til önnur gerð af bollum heldur en þessir fínu núna. Ég bara man ekki úr…í hvaða bollum það var fært. En dags daglega borðuðu þau…ööö…af öðruvísi diskum, þegar þau…til…ég held það sé til eitthvað smávegis af ennþá, þeir voru bláir, hvítir með bláu drekamunstri, hefurðu séð það?
Já.
– Það var hversdagsborðbúnaður [hlær].
En…og eftir það, hvað tók þá við á venjulegum vinnudegi?
– Það bara, það var svo misjafnt hvað maður þurfti að gera hvern dag. Hvort það þurfti að þrífa, þetta er náttúrlega stórt hús að þrífa. Svo þurfti náttúrlega að þvo og ganga frá þvotti. Það tók nú sinn tíma. Svo náttúrlega, oft áttum við einhverja frjálsa stund sko seinnipart dagsins, þegar við gátum þá gert eitthvað fyrir okkur ef það var ekkert sérstakt um að vera. Svo náttúrlega þurfti að hugsa um kvöldmat á kvöldin.
Já. Annað heldur en bein þjónusta og matar- og kaffistúss var þá ekki í Bessastaðastofu. Það var þá í öðrum húsum, þvottur og…?
– Já. Já, það var kallað hjáleigan, þar sem fjósið var hérna áður. Það er þar sem að eldhúsið er núna. Það var í þeim húsum. það voru svona einnar hæðar hús með háu risi. Það var íbúð reyndar í endanum á þessu húsi semað börn voru oft að nota svona sem sumarbústað á sumrin. En þarna var þvottahús og þarna var geymsla, ískisturnar og matvælageymsla og…og uppi á lofti, þar var fjársjóður. Það var hann Helgi…hvers son hann var nú semað safnaði svo mikið af bókum, það, þar fékk hann að geyma. Þeir voru einvherjir gamlir kunningar, Ásgeir og hann, og hann fékk að geyma blaðasafnið sitt þar og þar máttum við ganga í til að lesa alveg eins og við vildum. Það var fjársjóður.
Þannig að þú leitaðir mikið í það?
– Já. Það var mikið legið yfir því.
Var það helsta afþreyingin á staðnum?
– Já í rauninni og svo náttúrlega var oft spilað á kvöldið því það náttúrlega voru tveir bílstjórar með sínar fjölskyldur og svo náttúrlega var búrekstur.
Komuð þið nærri honum?
– Nei, við komum ekkert nærri honum því að búið var alveg sér en það var á neðri hæðinni þar sem að forseta…forseti býr núna og þessartvær bílstjórafjöl…tvær þeir bjuggu uppi á loftinu sitt í hvorum enda. Þetta voru ekki stórar íbúðir [hlær].
Voruð þið að fletta þessum blöðum og bókum með leyfi eða…?
– Jájájájá. Við máttum fara í þetta. Jájá. Við skiluðum þeim bara út aftur þegar við vorum búin að nota þær.
Þetta hefur verið bókasafn staðarins?
– Já, það má eiginlega segja það [hlær]. En bókhlaðan var nú komin. Nei, bókhlaðan var ekki komin fyrst þegar ég kem hérna. Þá er bara smá eee…eee… blómaskáli hérna megin sem að við gengum inn í salinn. Bókhlaðan var ekki komin þá. Nei. Alveg rétt, hún var, hún kom seinna [hlær]. Það er orðið svo langt síðan.
En hvað með samneyti við fólk hérna á Nesinu? Var…?
– Það var eiginlega enginn samangangur. Nei, það var það ekki. Nema ég náði í manninn minn hérna [hlær].
Já.
– Meðan ég var hérna.
Já, meðan þú varst í, í hérna, kynntistu honum þegar þú varst hérna í föstu starfi?
– Jájá, ég kynntist honum hérna þegar ég var í föstu starfi. Jájá, það er, annars var voða lítill samgangur við Nesið sjálft, eða enginn má segja. En það…hann var, það var þónokkuð margt fólk eða svoleiðis sem að var, starfaði á búinu en maður hafði svosem ekkert af því að segja.
Álftanessókn notaði kirkjuna á þeim tíma, Bessastaðakirkju.
– Jújú, jújú, jú. Þetta heitir Bessastaðasókn, ekki Álftanessókn.
Það heitir það?
– Já. Það heitir Bessastaðasókn.
Frá fornu fari.
– Ja, það reikna ég með. Jájá, kirkjan hefur alltaf verið notuð sem sóknarkirkja.
En þrátt fyrir, þá var ekki samgangur við…
– Nei. Nei, ég held maður hafi nú farið sjaldan í kirkju [hlær]. Ég held að það hafi nú verið málið. Já, en þetta svona, ja svo náttúrlega áttum við frí á kvöldin efað, eftir kvöldmat ef ekkert var um að vera hérna hjá forsetahjónunum. Þá áttum við frí og þá gátum við gert það sem okkur datt í hug. Hvort sem það var að, hvað sem að okkur datt í hug, til dæmis að sauma eða lesa eða fara eitthvað hérna út spila hjá bílstjóriunum. Við gerðum það stundum, sérstaklega öðrum þeirra. Það er…
Þið hafið ekkert farið á kvöldin frá staðnum í samgönguleysinu?
– Nei, maður gerði það ekki. Maður gerði það ekki. Það var e… það var ekki svo gott eða þægilegt að fara neitt. Það voru engar samgöngur. Maður varð bara að láta keyra sig eða sækja sig. Það var ekki svo mikið um bíla þá, á þessum tíma.
En í helgarfríum. Hvað gerðuð þið þá?
– Þá var okkur keyrt…fengum við…eee…far inn í bæ.
Til Reykjavíkur?
– Já, til Reykjavíkur. Og svo bara sáum við um okkur sjálfar.
Til baka?
– Nei, ætli það hafi ekki einhver… ja ég man það ekki. Ég þori bara ekki að fara með það, hvernig það var.
En hvað gerðuð þið í bænum?
– Ég fór nú yfirleitt suður í Sandgerði. Til mömmu. Og pabba meðan hann lifði en…svo gerð…svo náttúrlega seinna sumar…sumarið sem ég var hérna, þá var mamma flutt í bæinn og þá náttúrlega var þægilegt að fara til hennar bara, heim til hennar. Eftir að pabbi dó. En, það var farið í búðir eða bíó, eða eitthvað svoleiðis. En yfirleitt fór ég suður í Sandgerði, sko um helgar þegar að…meðan að…meðan að þau áttu heima þar.
Manstu hvernig þú brást við þegar þér var boðið starfið hérna?
– Nei, ég man það ekki. Það hefur ekki fest í minni [hlær]. Það hefur ekki fest í minni. Frekar en margt annað.
En hver var…hvaða orð fór af embættinu á þeim tíma. Hvernig var litið til þess?
– Það var litið upp til þess, held ég. Ég man ekki eftir öðru. Nema náttúrlega kannski einhverjir pólitíska…pólitíkusar sem, eins og alltaf er, rífast út af öllu [hlær]. Ef það er ekki sa…á sama [ræskir sig] plani og þeir eru sjálfir. Er það nokkuð…það er nú ekki nýtt. En það…það er mj…ég held að það hafi verið borin meiri virðing fyrir forsetaembættinu hér áður fyrr heldur en er í dag. Það er mín tilfinning.
Þéringar hafa lagst af.
– Ha?
Þéringar hafa lagst af í öllu falli.
– Jájájájá. En eftir að Ásgeir hætti sem forseti, þá bauð hann okkur dús.
Já?
– Já. Það var, já þarna. Þegar hann var hættur að vera forseti því ég fór stundum þarna heim til hans sko, þegar hann var fluttur inn í Reykjavík, að þá, að aðstoða hann þar, þá bauð hann okkur dús.
Já.
– Já. Kristján var aldrei þéraður. Hann þéraði ekki. Svo það lagðist af með Ásgeiri, held ég.
Já.
– Gagnvart starfsfólkinu allavvega.
En segirðu að þú hafir unnið þá fyrir þau prívat eftir að Ásgeir hætti sem forseti, eða…?
– Jájá. Nokkrum sinnum fórum við Halldóra þarna inneftir og vorum að hjálpa honum ef hann var með einhverjar veislur eða eitthvað. Jájá. Það er það.
En núna, yfirbragðið breyttist, þið voruð dús.
– Já. það varð svolítið þægi…þægilegra. Þó fannst manni þetta ekkert tiltökumál. Þetta bara tilheyrði. Maður var ekkert að [óskiljanlegt] neitt í því. Það, þetta var bara almennt.
Þeir gestir sem komu hérna til forseta, hvaða fólk var þetta?
– Sjálfsagt verið upp og ofan [hlær].
Erlendir gestir?
– Já, það var mikið erlendir gestir. Ég man eftir þegar voru að byrja þessar heimsóknir Vestur-Íslendinga. Þá var, þeim var alltaf öllum boðið hingað. Þeir komu, komu einhvern tíma að sumrinu til. Því var boðið hingað. Það var náttúrlega allskonar sendiherrar og svoleiðis, og svo náttúrlega voru skylduveislur einhverjar líka. Og það var mikið um að það væru, sko, það væru einhver landssamtök sem voru með fundi, að þá var fundargestum boðið hérna heim. Annars veit ég ekki hvort maður var nokkuð að [óskiljanlegt] í því. En þetta…það hefur svosem verið svipað í gegnum árin. Það hefur náttúrlega minnkað, það er hætt að vera, held ég, þessir stóru fundir sem að eru svona landssambandsfundir, að þetta er hætt að bjóða því hérna heim. Ég man að Búnaðarsambandið kom hérna alltaf og…einhverjir fleiri svona.
Þurftuð þið að læra hirðsiði í kringum þetta?
– Nei. Neinei. Það voru engir hi…eða ég man ekki eftir því. Ég hef þá verið svo vitlaus að ég hef ekki skilið hvað ég ætti að gera [hlær]. Neinei, maður bara kom fram við, reyndi að koma fram við, með, vera kurteis. Það, það er nú fyrst og fremst.
Voru einhverjar opinberar heimsóknir meðan þú varst hérna?
– Jájá. Það voru opinberar heimsóknir hérna. Ég man, eh…uuu…ég man ekki hverjir komu hérna. Ég man að…uu…Danakonungur kom hérna, ég ma…mér er það minnisstætt af því að við fengum að fara, þá var alltaf leiksýning fyrir það í Þjóðleikhúsinu. Við fen…við Halldóra og ráðskonan, við fengum að fara á leiksýninguna. Við vorum bara, reyndar uppi á efstu svölum en það var sama, þetta var gaman [hlær]. Það var það. Það var alltaf leiksýning þegar þær voru…man ég eftir, þegar voru svona opinberar heimsóknir. Þetta náttúrlega var ekki ferðast eins mikið í, um og, eins og gert er í dag, ég…þori nú ekki alveg að fara með það. Vegirnir náttúrlega voru ekki eins góðir, eins og þeir eru núna.
Nei.
– En. Mér er minnisstætt þessi ferð í Þjóðleikhúsið [hlær].
Já. Voruð þið í einhverjum útistörfum hérna?
– Já. það var alltaf matjurtagarður hérna. Hann sá nú um það alveg annar bílstjórinn en við náttúrlega hjálpum hon…hjálpuðum honum stundum. Svo var náttúrlega, Ásgeir var með kindur.
Hér á staðnum?
– Jájá. Hérna uppi á hlaði.
Já.
– Ætli það sé ekki nokkurn veginn svona þar sem að endinn á bílsk…eða þar sem bílskúrinn er núna, kannski aðei…ka…það náði sko, það lokaðist alveg hornið.
Já og var það dálítill fjárhópur?
– Nei, þær voru nú ekki margar. Ég man nú ekki hvað þær voru margar. Hann Kristjón heitinn, hann sá um rollurnar. Ég man ekki hvort við fórum eitthvað, eitthvað í heyskap eða hvar var heyjað fyrir þær. Ég man það ekki, það getur vel verið að við höfum farið einvhern tímann út á tún.
Og voru nytjar af þeim hér? Var ullin nýtt, kjötið af…?
– Ég veit ekki, ullin hefur náttúrlega verið sett í vinnslu einhvers staðar en hún var ekki nýtt hérna. En það var alltaf sko, það var slátrað hérna, við bjuggum til slátur úr kindunum.
Hérna heima á staðnum?
– Jájá. Við slátruðum hérna niðurfrá. Ég var…uuu…við slögtun hérna einu sinni [hlær]. Jájá.
Og þetta hafði Ásgeir sem hobbí.
– Já. Ég v…sjálfsagt hefur hann haft þetta sem hobbí eða svona sem búbót eða eitthvað.
En sinnti þeim ekkert sjálfur?
– Nei, það held ég ekki. Hann hefur kannski farið út í fjárhús en ekki mikið meira en það.
En frú Dóra?
– Ég held að hún hafi ekkert skipt sér af þeim. Ég man ekki eftir því að hún hafi farið út í fjárhús [hlær]. Þetta er…já þetta var svolítið sérstakt að hafa þær hérna sko, já byggingarnar þær sko, þetta lokaðist alveg.
Já, portið hefur lokast…
– Ég man að það var sund hérna á milli hjáleigunnar og þessa húss.
Já, semsagt suðaustan…?
– Í suðaustur, já. Þar var op og svo eee…þar sem er op núna milli þar sem þú býrð og hússins.
En önnur húsdýr? Voru hænsn [óskiljanlegt]?
– Nei, ekki hjá þeim. En það náttúrlega voru hænsni á búinu. Þau voru niðurfrá.
En hundar og kettir?
– [Andvarp]. Nei, ég man ekki eftir hundi hérna fyrr en að Kristján fékk sér hund. Það er mikið seinna.
Kristján Eldjárn?
– Já. Hann fékk sér, var með hund. En ég man ekki eftir hundi á búinu hérna í gamla daga. Og ekki ketti heldur. Það, nei, ég held að það hafi ábyggilega ekki verið. Ég held maður myndi muna það, ef það hefði verið eitthvert svoleiðis dýr [hlær].
Já.
– Það er það, en það voru náttúrlega kýr og kindur og…og hænsni sko, á búinu sjálfu en það var allt niðurfrá þar sem fjósið e…var og bílskúrarnir eru núna.
Var búreksturinn alveg óháður forsetaembættinu?
– Já, hann var alveg aðskilinn. Hann var aðskilinn. Það var bara bústjóri sem sá um það. Ríkið átti búið en náttúrlega má segja að forsetaembættið sé ríkið líka en það var alveg aðskilið. Það var það, jájá.
Voru ekkert tíðar gönguferðir hjá ykkur hérna í Nesið, eða hérna út í Bessastaðanes?
– Maður fór, labbaði einstaka sinnum hérna eitthvað í kring, það var held ég ekk…það var ekkert voða mikið um það að maður væri úti að labba [hlær]. Neinei. Það var það ekki.
Þú ert í lausamennsku hérna þegar Kristján er hér.
– Já, þá er ég í lausamennsku, já.
Breytti það ekkert svona, áherslum í daglegu lífi?
– Hjá honum?
Já, eða fyrir ykkur öll?
– Jú, að vissu leyti. Annars var ég voða mikið hérna þegar, meðan Kristján var hérna. Meira að segja bílstjóri á tímabili.
Varst þú bílstjóri?
– Já, í afleysigum [hlær].
Altsvo forsetabílstjóri?
– Já [hlær].
Ef til vill fyrsti kven-forsetabílstjórinn?
– Já, ætli það ekki.
Ja, þú segir tíðindin.
– [Hlær]. Ég var aðal…ég var í afleysingum svolítinn tíma. Maðurinn minn byrjaði á þessu.
Já.
– Svo bara hafði hann engan tíma til þess. Þannig að ég var fengin í þetta.
Jahá. Hvernig líkaði þér það?
– Það var ágætt. Þetta var…allt í lagi að gera þetta. Þetta var náttúrlega ekki voðalega oft en…ég…ég þurfti einu sinni að fara með hann austur í Skálholt. Það, annars var ég bara hérna í bænum.
Já.
– Já, hann þurfti að fara á Skálholtshátíð. Ákvað það svolítið seint, að fara af stað, þannig að það þurfti að keyra svolítið létt. Ég hef aldrei, held ég, keyrt eins hratt eins og það [hlær]. Það er, þá bjó hann inni í Reykjavík. Þá var verið að taka húsið hérna í gegn.
Jájá.
– Það er sko búið að breyta innréttingunum tvisvar sinnum.
Já, einmitt það.
– Já. Þá var…
Manstu hvaða ár það var?
– [Andvarpar]. Nei. Ég er svo gleymin á ártöl.
Já.
– Þau bj…þá bjuggu þau inni á Laufásvegi, meðan var verið að taka…
Í gestahúsinu?
– Já. Það var verið að taka það í gegn þá. Þá voru settar nýjar innréttingar. Það var í rauninni ekki breytt skipulaginu uppi en…það voru settar nýjar innréttingar og lagað til svoleiðis.
Hvernig var því tekið í kringum þig þegar sást að það var kona undir stýri á forsetabílnum? Það hefur verið mjög óvenjulegt.
– Það voru sumir svolítið hissa. Sumum fannst þetta óviðeigandi.
Fékkstu að heyra það?
– Jájá [hlær].
Meðal almennings?
– Nei, ka…ekki svona beint en…sumum fannst þetta asnalegt, að láta konu vera að keyra [hlær].
Beinlínis asnalegt?
– Jájá. En það…mér…okkur Kristjáni samdi mjög, samdi mjög vel.
Varstu í einkennisbúningi og með kaskeiti?
– Nei. Neineineinei. Ég var bara í mínum fötum. Reyndi bara að vera snyrtileg til fara [hlær]. Jájá, það var ekkert…[röddin hvíslandi]. Þetta var svo…ég man eftir ei…einn…einu sinni að vetri til þegar ég var að leysa af. Það var, þá var svo mikill snjór þegar við komum úr Reykjavík að þegar við stoppuðum bílinn hérna úti, þá var jafnfallinn snjór, hann var jafnhár…náði upp að hurð þegar við opnuðum hurðina á bílnum [hlær].
Já. Þú hefur ekki lent í að festa hann nokkurn tímann?
– Nei. Ég lenti aldrei í því. Lenti aldrei í því. Ég lenti einu sinni í því að hann fór í, að þau voru í leikhúsinu forsetahjónin og, hann fór ekki í gang þegar ég ætlaði að fara af stað aftur. Var [óskiljanlegt] Reykjavík, bara beið innfrá. Maðurinn minn kom og bjargaði mér [hlær].
Og gaf þér start?
– Jájá. Hann var, fylgdist svo með mér að ég kæmist sko örugglega suðureftir aftur [hlær]. Þá sá ég Vigdísi í fyrsta skipti svo ég…
Í leikhúsinu?
– Já, þá var hún leikhússtjóri.
Já.
– Og fylgdi þeim út. Ég var að hringja niður í leikhús til þess að láta þau vita sko, að mér seinkaði aðeins. Þannig að hún beið með þeim þarna þangað til að ég kom. Það hafa verið hvað, fimm eða tíu mínútur.
Starfaðirðu fyrir Vigdísi seinna?
– Jájá. Ég starfaði fyrir Vigdísi. Og geri enn.
Og gerir enn?
– Já. Hef gert það fram að þessu, sko, þegar hún hefur verið, þurft á einhverri aðstoð að halda. Jájá. En þetta er…allt með sitthvoru móti.
Þú ert búin að sinna svo fjölbreyttu starfi. Manstu eftir fleira, svona óvenjulegu sem þú tókst að þér?
– [Hlær]. Nei, það held ég nú ekki. Ekki man ég eftir því í augnablikinu. Ekki man ég, nei. Þetta er…þetta er svosem gaman að keyra. Þetta eru góðir bílar sem að voru hérna á staðnum. Það var gaman að keyra þetta.
Það hafa verið amerískir bílar?
– Já, ætli það ekki. Ja, það var nú einn Benz.
En stórir bílar?
– Já, ég var aðallega á Benzinum því að hann var minnstur, mér fannst hann þægilegastur [hlær]. En svo var náttúrlega alltaf jeppi líka. Já, það var alltaf jeppi líka…en…nei, ég man nú ekki eftir neinu sérstöku svona. Þetta gekk bara sinn vanagang, eins og maður segir, á venjulegu heimili.
En vanagangurinn, hvernig gekk hann fyrir sig. Var þetta erilsamt?
– Það var misjafnt. Stundum var það það. En stundum var líka ósköp þægilegt. Eins og gengur og gerist.
Já. En þetta eru margir verkþættir sem þið hafið þurft að sinna.
– Jájá, þetta var fjölbreytt sem við þurftum að gera. Það vantaði það ekki. Það var mikið unnið heima af matvöru og annað þvíumlíkt. Þannig að…þegar að veislur voru, þá var maturinn ekki…eða…keyptur að, þetta var allt búið til hérna á staðnum, frá A til Ö.
Og önnuðuð þið því sjálfar eða þurftuð þið að sækja fólk að?
– Yfirleitt vorum við bara í þessu sjálfar en einstaka sinnum kom það fyrir að það vor…var eitthvað mikið um að vera, þá var fenginn einhver kokkur. En það var ekki oft.
En þið hafið þá, og þú, þurft að kunna skil á mjög mörgu og, í sambandi við matseld og fleira; vera vel heima í kokkeríi?
– Ég veit það ekki. Hún náttúrlega var góð þessi sem var ráðskona meðan ég var hérna, þannig að…
Hver var hún?
– Hún hét Álfhildur Runólfsdóttir, sem var ráðskona hérna þegar ég kem hérna. Svo var önnur sem var, hét Jónína Bjarnadóttir, sem ég vann mikið með líka.
Já, seinna?
– Seinna já. Ég he…hvorug þeirra reyndar var ma…menntaður kokkur. Hún var húsmæðraskólakennari hún Jónína. Ég veit ekki hvað Álfhildur heitin var menntuð, sannast að segja. En hún hafði unnið mikið við þetta. Svo náttúrlega, sú sem var lengst hjá honum Kristjáni og var reyndar hjá Vigdísi líka, hún Sigrún Pétursdóttir, hún, hún er ekki menntaður kokkur heldur en hún var búin að reka hótel. En þær klóruðu sig framúr þessu samt [hlær].
Já.
– Ég veit ekki til annað en það hafi gengið bara ágætlega.
Fékkstu skýringar á þeim tíma af hverju þú valdist hingað?
– Nei, ég veit það ekki. Þær bara völdu þetta kennara, ætli þeim hafi ekki fundist ég líklegust [hlær]. Ég veit það ekki. Það er…held það…ja ég, nei ég hef eiginlega ekki skýringu á því [hlær]. Af hverju þær hafa gert það.
Þá held ég að við gerum hlé hérna.
– Já.
Nema þú hafir eitthvað meira að segja mér bili.
– Ekki sem ég man eftir.
Ég myndi gjarnan vilja tala við þig aftur seinnna.
– [Hlær]. Þú getur prófað, vitað hvort ég, getur pumpað eitthvað meira.
Takk.
Viðtal við Halldóru Pálsdóttur og Auði Aðalsteinsdóttur
Viðtal við Halldóru Pálsdóttur og Auði Aðalsteinsdóttur, fyrsta maí 2014. Og þá bara byrjum við. Þið voruð að [óskiljanlegt] þegar ég kveikti á tækinu.
Auður: Ja, það er hægt að segja…
Halldóra: Neinei, þú getur alveg…ég skal segja frá mínu sprelli.
Auður: Já, ókei.
Halldóra: Ég var reyndar með í þessu sprelli, mikil ósköp. Þegar við vorum að…
Auður: Jájá, við vorum báðar í þessu [óskiljanlegt].
Halldóra: …stríða honum Linda [hlær]. Jájá, það var útaf því að hann var nýbúinn að ná sér í konu, eða konuefni.
Hver var það?
Halldóra: Það var nýi bústjórinn hérna. Hann kom ógiftur, sko.
Auður: Hann tók við hérna sumarið ’56.
Halldóra: Já, svo fórum við í…
Hann hét hvað?
Auður: Ingvi Antonsson
Halldóra: Svo hérna, náði hann sér í konu í réttunum [Auður hlær].
Í réttunum?
Halldóra: Já. Þetta var náttúrlega, þótti fólki ansi fyndið og svona, og það var svona. Við svona stríddum honum svoldið.
Auður: Svo elti hann okkur hér upp og niður sitga.
Halldóra: Þá voru forsetahjónin ekki heima.
Auður: Nei.
Halldóra: Þá þorðum við að…
Auður: Já, annars hefðum við ekki hlaupið svona [hlær].
Halldóra: Nei.
Það hefur…það hefur aðeins, hérna menningin hefur orðið aðeins öðruvísi þegar þau voru ekki heima. Þá hefur verið meira fjör?
Halldóra: Jájá.
Auður: Jájá, það var var öðruvísi, maður passaði sig nú að halda sig innan vissra marka meðan þau voru heima.
Halldóra: Við vorum nú oft stilltar, svona.
Auður: Jájá, ég held við höfum bara verið nokkuð stilltar [hlær].
Halldóra: Bara þægar. Við gerðum ekki mjög mikið af okkur.
En alls ekki þegar þau voru að heiman, heyri ég?
Halldóra: Ja ekkert, það var ekkert, það var engin þvingun.
Auður: Neinei það var engin þvingun.
Halldóra: Það var ekki til. Það var ekki til, við gátum gert hvað sem var.
Auður: Já, þessvegna.
Halldóra: Ég held reyndar, það ljótasta sem ég hef nokkurn tímann sagt og það var þegar að, eða mér fannst ég segja, að ég skammaðist mín dáldið fyrir en reyndar ekki. Og það var þegar Kiddjón var alltaf að, það var þegar að Friðrik Ólafsson var heimsmeistari í skák, eða, eða Evrópumeistari í skák, eða Norðurlandameistari eða eitthvað svoleiðis. Svo var Kiddjón, hann var…fannst þetta svo mikið og hann taldi það alveg víst að allar stelpur væru bara bálskotnar í…
Auður: Í Friðrik [hlær].
Halldóra: Í Friðrik. Og ég var uppi á borði í eldhúsinu, sem þá var, sko fremra eldhúsinu að tína niður glös eða eitthvað, eða láta glös upp í skáp. Í tröpp…nei ég var nú…jú ég var uppi á borðinu. Og svo var hann eitthvað að klæmast þarna við mig og ég var orðin agalega þreytt á þessu, að…já, svo það eitthvað svona endaði með því að ég sneri mér að honum og sagði: „Það er ekkert að marka þig, þú hefur alltaf verið og verður alltaf jafn helvíti…[báðar hlæja]…helvíti kvensamur“, eða eitthvað slíkt. Eða ég held að ég hafi nú einu sinni sagt það ennþá verra sko [Auður hlær]. Svo rétt á eftir…þá fyrir innan, þá hafði Dóra heitin Þórhallsóttir verið á ganginum og heyrir allt og ég skammaðist mín alveg niður fyrir allar hellur, skammaðist mín ekkert fyrir það sem ég sagði við Kiddjón.
Auður: Nei.
Halldóra: En að hún skyldi heyra í mér, það fannst mér alveg voðalegt [Auður hlær]. En hún kom, klappaði á öxlina á mér og sagði: „Halldóra mín, þetta var gott hjá þér“ [Auður hlær].
Auður: Jájá. Það var það, þetta loddi við karlangann.
Það hefur verið létt andrúmsloft alltaf á milli starfsfólks?
Auður: Jájá.
Halldóra: Nei.Nei, Auður mín.
Auður: Nei.
Halldóra: Nei, þú varst ekki með Álfhildi og Kiddjóni.
Auður: Jú, jú ég var soldið…jú, þeirra á milli, já.
Halldóra: Já, þeirra á milli var alveg…það var eldur.
Auður: Það var alltaf erf…já.
Halldóra: Það var eldur.
Auður: Já. Jájá.
Halldóra: Það var ægilegur eldur.
Auður: Já, jújújújú. Það er rétt. Þau áttu ekki skap saman.
Halldóra: Það var alveg…þau áttu ekki skap saman, það var alveg…[hlær]…þau klöguðu hvort annað til skiptis í forsetahjónin en forsetahjónin skiptu sér, þau hlustuðu bara og sögðu svo [óskiljanlegt], sem var auðvitað það eina sem átti að gera. Ég man alltaf hvað ég sem krakki svona, kornung, ég var svo hissa að fólk skyldi virkilega vera að þessu [báðar hlæja]. En þau bara áttu ekki skap saman.
Auður: Nei, það var alveg vonlaust að þeim gæti lynt. Það er alveg rétt.
Halldóra: Nei, það var reyndar, sko ég, það var ekkert vandamál fyrir okkur að lynda við Kiddjón
Auður: Neinei.
Halldóra: En þeir sem að svona aðrir, eins og til dæmis Herold, þeim lei…þeir voru ekki…
Auður: Þeir voru nú ekki, eða ekki alltaf sammála…
Halldóra: Nei, þeir voru nú ekki alltaf sammála. Eina skiptið sem ég sá þá vera virkilega góða vini [hlær], það var þegar, bíddu, þegar kirkjugluggarnir fóru, þegar þeir settu kirkjugluggana í.
Auður: Jájá.
Halldóra: Forsetinn hélt hérna stórveislu eða þannig.
Auður: Já.
Halldóra: Fyrir kallana sem að voru að vinna í þessu.
Við erum að tala um steindu gluggana [óskiljanlegt] Ásgeiri?
Halldóra: Já. Svo hérna, það var náttúrlega vel veitt, eins og var alltaf, mjög vel veitt og þeir voru báðir í veislunni, eða þarna boðinu, sem var nú bara svona kokkteilboð eða þannig, já það voru snittur og eitthvað fleira, ég man nú ekki hvað var með en, en allavega var vel veitt af víni. Og ég man alltaf að ég horfði á eftir þeim fara í faðm…í faðmlögum út úr húsinu [báðar hlæja].
Auður: Það hefur nú verið sjaldséð, ég man nú ekki eftir [óskiljanlegt].
Halldóra: Það var sjald…mjög sjaldséð [báðar hlæja].
Auður: Já, það er…þetta er…
Halldóra: Það var líka svolítið fyndið, hann hérna, Guðmundur sem var hérna, sem var bílstjóri hérna. Kom hérna eftir að Herold hætti. Var bílstjóri hérna, það kom reyndar annar hérna, það komu tveir þarna á milli en þá voru nú báðir mjög stutt, sko. Sigurður var garðyrkjumaður eins og Guðmundur og hann flutti reyndar til e…nei eins og Herold, hann flutti líka til Danmerkur, svo kom hérna ungur strákur, ungur maður sem að hérna…e…ég verð nú að segja að ég man nú bara ekki einu sinni, hann var svo mjög stutt, ég man ekki hvað hann, hvað hann heitir. En ég man það að hann rak blómabúð eftir að hann hætti, þó nokkru eftir, pabbi hans og mamma ráku blómabúð sem að var, þið vitið hvar Björnsbakarí er á Miklubrautinni…
Auður: Já.
Halldóra: Og þessi, þetta var svona skúr.
Auður: Já, svona, þetta [óskiljanlegt] blómabúð í enn.
Halldóra: Ja, það getur vel verið sko og…pabbi hans og mamma ráku þetta og svo fór hann, vissi ég að hann fór að reka þetta sko. En ég man bara ekkert hvað hann heitir lengur, ég man það ekki.
Auður: Ja hann var ekki, ekki þegar ég var.
Halldóra: En hann var [óskiljanlegt] stutt. En hann var mjög stutt. Svo koma, svo kom einn sem hét Guðmundur og þessi Guðmundur, hann var nú náttúrlega, hann…Daníelsson.
Auður: Jájá, man eftir honum.
Halldóra: Og já, ha?
Auður: Ég man eftir honum.
Halldóra: Já. En þessi Guðmundur, hann var skal ég segja þér, síðan þegar hann fór héðan, þá fór hann sem bílstjóri í stjórnarráðið. Og hann keyrði Gunnar Thoroddsen, þegar Gunnar var hérna forseti, forsætisráðherra. Hann keyrði nú reyndar fleiri, sko, ráðherra og Steingrím. Hann keyrði Steingrím.
Auður: Hermannsson?
Halldóra: Hermannsson. Eftir að Gunnar, eftir að Steingrímur tók við sem, keyrði hann Steingrím. Og það var alveg sama sagan, þeim kom ekki vel saman [báðar hlæja], alveg rosalega illa saman. Svo var það svo ofsalega fyndið eða mér fannst það ofboðslega fyndið að Guðmundur var í kuldaúlpu og það vantaði nú kannski rennilásinn eða var bilað og batt hana saman með svona bandi. Svor var Kiddjón kominn í nákvæmlega eins [hlær] og ég sagði einhverntíma eða ég held ég hafi sagt við Kiddjón: „Er þetta st…er þetta tíska hér á Bessastöðum. Að allir gangi hér í kuldaúlpum, bundnum saman með bandi“.
Auður [hlær]: Jájá.
Halldóra: En þeim kom ekki vel saman.
Var einkennisbúningur einhver? Voruð þið til dæmis í einhverjum ákveðnum búningi?
Halldóra: Við, jájá. Í eldhúsinu þá voru hvítur sloppur eða bláir sloppar.
Auður: Já. Og svo vorum við náttúrlega í svörtum kjólum…
Halldóra: Svo vorum við í svörtum kjólum, með hvítar svuntur og hvíta kraga og…
Auður: Og kappa.
Halldóra: Og kappa
[Óskiljanlegt] …svarta?
Auður: Og hvíta hanska.
Halldóra: Og hvíta hanska.
Nú já?
Halldóra: Ójá, takk fyrir.
Auður: Það var alltaf einhver…við vorum alltaf með hvít…
Var það bara við gestakomur eða?
Auður: Já. Já.
Halldóra: Já, alltaf
Það hefur ekki verið þannig þegar þið voruð að sinna forsetahjónunum einum?
Auður: Nei.
Halldóra: Neineineineineineinei…
Auður: Ekki dags daglega, neineineinei, þá vorum við bara á eldhússloppnum.
Halldóra: …það var, þá vorum við nú bara jafnvel í okkar eigin fötum.
Auður: Ja, þess vegna.
Halldóra: Þess vegna sko.
Var einhver fyrirmynd að þessum einkennisfatnaði?
[Auður hóstar ákaflega]
Halldóra: Ha?
Var fyrirmynd að þessum einkennisfatnaði sem [óskiljanlegt]?
Auður: Ég held það já.
Halldóra: Ég held nú bara að þessi fyrirmynd með þetta…
Auður: Þetta tíðkaðist bara almennt.
Halldóra: …ég hygg að það hafi bara allir verið svona.
[Auður hóstar]
Halldóra: Ég held að það hafi verið allir þjónar og allt eða konur sem var inni á veitingahúsum og svona. En þær voru ekki með hvíta hanska.
Auður: Nei.
Halldóra: [óskiljanlegt]
Auður: [bendir á ljósmynd sem hún heldur á]: Ég er að muna hvar þetta er tekið.
Halldóra: Já.
Auður: Sy…heima hjá systur hennar Jónínu.
Halldóra: Já. Ég einmitt fór að hugsa það, sko.
Auður: Já. Jájá.
Nú er, hann var guðfræðingur…
Báðar: Já.
…og þetta hafa verið menn og kona með ólíkan bakgrunn. Var einhver munur á að starfa fyrir þetta fólk? Einhver munur á, yfir höfuð, hvernig það hegðaði sér og þeirra siðir? Tók það eitthvað mið af þessu?
Halldóra: Nei.
Auður: Nei. Það get ég ekki merkt á neinn hátt.
Halldóra: Nei.
Auður: Ég held að það sé ekki til í dæminu.
Halldóra: Nei. Það var ekki, það var ekki verið að bera á borð fyrir okkur neina guðfræði hér.
Auður: Nei, alls ekki.
Nei, en þeirra eigin siðir svona. Kristján fornleifafræðingur, var hann, var hann ekki að sinna sínu?
Halldóra: Nei, hann gerði ekki mikið af því. Alls ekki hér á staðnum, held ég. Þegar hann tók sér frí, þá fór hann út í Papey.
Auður: Það, það, þeirra nám sko eða sérfag að það kom aldrei fram í daglegu…
Halldóra: Ekki til í dæminu.
En tóku forsetarnir sér frí? Var, var hér bara frímánuður, einhver tiltekinn á árinu eða…?
Halldóra: Ekkert endilega…
Auður: Nei.
Halldóra: Ekkert endilega hvenær, sko. En þeir tóku frí.
Auður: Jájá.
Halldóra: Mikil ósköp.
Auður: Þeir gerðu það.
Og þá var, þá náttúrlega hætti öll starfsemi hérna. Þið hafið þurft að vera þá eða verið í sumarfríi á sama tíma?
Halldóra: Nei…
Auður: Nei, ekkert frekar.
Halldóra: …það þurftum við ekki. Við gátum farið í okkar sumarfrí þegar að…
Auður: [óskiljanlegt]
Halldóra: …okkur hentaði sko…
Auður: Já, nema við vorum ekki öll, ekki allar í einu bara
Halldóra: Það var bara skipt niður, það var ekkert sem að…
Staðnum ekkert lokað?
Halldóra: Neinei. Það var alltaf einhver á staðnum.
En hvað gerðuð þið ykkur til skemmtunar annað en að stríða hvert öðru?
Auður: Lesa bækurnar hans Helga eða blöðin hans Helga.
Halldóra: Við fórum út á bók…út á…
Auður: Út á loft, fjósloftið.
Halldóra: …fjósloftið, þeir kölluðu þetta nú víst bókhlöðuloft.
Auður: Já, við kölluðum það nú víst bókhlöðuloft.
Halldóra: Já.
Auður: Þetta var náttúrlega bara fjósloftið upphaflega.
Halldóra: Fjós…fjósloft upphaflega.
Auður: Maður notaði það óspart.
Halldóra: Þar fór maður og náði sér í allavegana blöð og bækur.
Auður: Svo náttúrlega var spilað oft á kvöldin.
Halldóra. Það var mjög oft spilað.
Auður: Úti þarna hjá þeim, hjá bílstjórunum.
Halldóra. Við fórum og spiluðum þarna úti á húsi…úti á búi.
Það hafa orðið til margar sögur á staðnum? Það er margt sem skeður á svona setri?
Halldóra: Jájá, það gerir það náttúrlega.
Auður: Sjálfsagt gerir það það. Maður bara leggur þetta ekki á minnið, eða ekki ég [hlær].
Halldóra: Nei, það er æði margt sem gerist hérna.
Auður: Þetta, náttúrlega var margt fólk þarna úti í búshúsin á meðan var búrekstur hérna.
Halldóra: Ég held bara hreint og beint að ég, jú ég man eftir Palla. Ég man eftir Dönunum…
Auður: Já það var, maður kynntist þessu þannig.
Halldóra: …og ég man eftir Hansa. Sem var Færeyingur.
Dani og Færeyingur? Þeir störfuðu á búinu eða hvað?
Báðar: Já.
Halldóra: Hans var í, hérna í hænsnunum og Palli var í fjósinu.
Auður: Já, ég man eftir Palla.
Halldóra: Já.
Auður: Ég man bara ekkert eftir, man ekki hvað hinir hétu. Það var fullt af þessu.
Halldóra: Ég á mynd af þeim…
Auður: Jájá.
Halldóra: …strákunum sem að, hérna Dönunum. Meira að segja það kom einn þeirra hérna fyrir svona sex, átta, nei meira, kannski tíu árum síðan. Þá kom hann hérna og ég fór með þá og hittist svoleiðis á að ég var hérna. Og hann þekkti mig.
Auður: Jájá.
Halldóra: Og við fórum að tala saman og það endaði með því að hann var hérna með eiginkonu og barnabörn eða börn. Og var bara á ferðalagi hérna á Íslandi sko. Ég fór með þeim hérna um allt húsið og sýndi þeim allt húsið og svo ætlaði hann að koma daginn eftir og sem hann gerði, og þá var ég búin að tína þessar myndir til sem ég átti af honum, átti af þeim tveimur.
Fóruð þið í gönguferðir hérna um nesið, út í Bessastaðanes?
Halldóra: Nei, maður fór meira út að hliði.
Já.
Auður: Hérna, það var hérna megin var bara…
Halldóra: Maður labbaði bara meira í þá áttina.
Já.
Halldóra: Nei, maður fór ekkert í fuglagerið.
Auður: Nei og það líka voru, sko kýrnar voru þarna á beit á sumrin og…
Halldóra: Já, já…
Auður: …og maður fór ekkert mikið þangað.
Halldóra: …maður fór ekkert þarna.
Auður: Í þá áttina.
Halldóra: Ég man eftir einu skipti sem að, það var þegar var verið að heyja í Skansinum.
Auður: Jájá.
Halldóra: Ég átti að fara þarna eftir matinn og búin að ganga hérna frá og átti að fara út í Skans og aðstoða. Oooog ég fór yfir kartöflumýrina. Og það er versta upplifun sem ég hef upplifað því að ég, kríurnar réðust allar á mig, það var svo mikið af kríu.
Auður: Þær voru alveg sk[óskiljanleg].
Halldóra: Þær voru hræðilegar. Og ég var svo reið þegar ég kom [hlær] út að ég var að springa af reiði, hefði verið hægt að segja við mig að ég mætti ekki fara, ætti ekki að fara þarna í gegn og ég var að stytta mér leið.
Auður: Jájá. Það er töluvert styttra að labba meðfram tjörninni heldur en að fara veginn.
Halldóra: Já, heldur en að labba veginn.
Já, kartöflumýrin? Hvar er hún?
Auður: Bara hérna, það voru kartöflugarðar þarna. Það voru ræktaðar kartöflur.
Fyrir innan girðingu þá?
Halldóra: Já.
Við tjörnina?
Halldóra: Nei, fyrir utan girðingu.
Auður: Hann var girtur af.
Alltsvo, frá staðnum, hinum megin við girðinguna.
Auður: Já.
Halldóra: Já, svo var líka kartöflugarður, ég ætlaði að mynd…ég ætlaði að koma með mynd af því, af því að…ég kem með hana seinna. Þar er hérna, það var kartöflugarður sem að var hérna í horninu.
Auður: Já.
Halldóra: Fyrir utan, fyrir utan kirkjugarð. Alveg í horninu þar neðst. Það var kartöflugarður sem tilheyrði alveg hérna, staðnum. Og ég á mynd þar sem að forsetafrúin okkar Dóra Þórhallsdóttir er að, og fleiri, og fleiri og fleiri að taka upp kartöflur.
Já.
Auður: Það er, þegar maður kemur hérna út fyrir girðinguna…
Já.
Auður: …þá er svo svona sést alveg móta fyrir þar sem garðurinn var…
Halldóra: Það sést alveg móta fyrir…
Auður: …það er alveg svona eins og hálfgerður garður [óskiljanlegt] og það er svona [óskiljanlegt] garðar, kartöflugarðar alltaf.
Jájá.
Halldóra. Þetta heitir sjálfsagt eitthvað annað en [óskiljanlegt].
Auður: Heldur en kartöflumýri, jájá.
Halldóra: Örugglega.
Auður: Það hlýtur að vera.
Þið hafið ekkert heyrt um það hvar matjurtagarður var hérna á átjándu öld?
Halldóra: Ekkert nema bara það sem ég hef lesið.
Já. Hann hefur verið sunnan við bæjarhólinn?
Halldóra: Já, en bíddu rólegur. Það…samkvæmt því sem að hérna, Guðmundur…hérna fornleifafræðingur…
Auður: Fornleifafræðingur.
Halldóra: …já, þegar hann kom þá var hann að segja meira að segja frá öðru húsi sem að hefði sennilega verið byggt hérna líka.
Auður: Já, er það.
Halldóra: Já, sem að, hvort það eru til einhverjar teikningar af því, veit ég ekki en eitthvað er það svoleiðis. Ég held þú ættir að spyrja hann.
Já.
Halldóra: Hann kom nefnilega…
Auður: Þú kemur ábyggilega ekki að tómum kofunum þar.
Halldóra: Nei, þú færð að vita ansi mikið þar.
Auður: Já, hann er óhemju fróður um [óskiljanlegt].
Halldóra: Já og hérna vegna þess að það er hérna félag á nesinu. Ég veit nú ekki alveg hvort það er á nesinu, ég held að það sé nú bara, ég held hún sé formaður félagsins, hvað heitir hún? Áslaug Ragnars…nei…þessi hérna, þau halda alltaf einn aðalfund og síðan eitthvað meira. Síðan eru flutt erindi og hitt og þetta og hún fékk, Guðmundur kom einu sinni og flutti hérna.
Auður: Já, það sem var úti í kirkju?
Halldóra: Já.
Auður: Jájá.
Halldóra: Og þá, sko ég hafði aldrei fyrr en ég hlustaði þarna á Guðmund, heyrt talað um þetta hús sem að, það hafði ég aldrei heyrt talað um. Hann getur ábyggilega sagt þér hvar þessi svokallaði matjurtagarður gæti hafa verið.
Munið þið eftir einhverjum rústum, einhverjum ummerkjum sem síðan hafa farið undir tún eða eitthvað sem að, staðurinn hefur tekið einhverjum breytingum er það ekki, frá því að [óskiljanlegt]?
Auður: Nei, það er allt eins og það var.
Halldóra: Það er allt eins og það var.
Gerið þið ykkur í hugarlund hvar Sótaleiði getur verið? Hvar hesturinn hans Gríms Thomsen gæti verið.
Auður: Nei, tengdapabbi vissi það. Það var tekið loforð af honum að segja það ekki og hann sagði aldrei frá því.
[Óskiljanlegt]
Auður: Já.
Þannig að þetta hefur verið þekkt svona fram á síðustu áratugi.
Báðar: Jájájájá.
Auður: Tengdapabbi dó ekki fyrr en áttatíu og níu, sko. Þá var hann níutíu og tveggja ára.
En…
Auður: Hann sagði að, hann sagðist vita hvar það væri.
En voru menn þá hræddir um að…ja bara grafarrán, að það yrðu hirt reiðtygin eða eitthvað úr gröfinni?
Auður: Nei, ég veit það ekki.
Halldóra: Ég bara veit það ekki.
Auður: En þetta var tekið loforð af þeim, þeim sem grófu hann að segja ekki, aldrei frá því.
Já, Grímur hefur tekið loforð af þeim sem grófu hann.
Halldóra: Já.
Jájá. En merkilegt að það skuli varðveitast svona…
Auður: Já.
…óupplýst.
Halldóra: Það er örugglega ekki, örugglega ekki í [óskiljanlegt]. Örugglega ekki, þó að sagt hafi verið að, að þarna, það hafi oft eftir að Sóti dó, eða það hafi verið lengi, að það hafi verið [óskilanlegt] fyrir utan gluggann.
Auður: Jájá.
Jájá.
Halldóra: Einhverjir hafi séð það, ég get ekki, veit þetta ekki, veit ekkert um það. Bara það sem maður hefur heyrt, sko.
Jájá.
Auður: En þetta er, þetta var vel varðveitt leyndarmál.
Já.
Auður: Það veit ábyggilega enginn í dag hvar það var.
Nei. Nei.
Halldóra: Ábyggilega ekki. Ja, við gætum nú sennilega fundið það.
Nú, með hvaða aðferð?
Halldóra: Með hérna…
Auður: Málmleitartæki.
Halldóra: …málmleitartæki.
Auður: Já, þeir gætu það nú sennilega nú orðið sko.
Halldóra: Já.
En þið hafið ekki séð svip hestsins nokkru sinni sjálfar?
Báðar: Nei.
Halldóra: Alveg saklaus af því.
Auður: Alveg laus við það.
Þú vilt nú lítið tala um svona það sem er annars heims, Halldóra.
Halldóra: Ég bara veit þetta er til.
Þekkið þið söguna af Týla?
Halldóra: Ja ég hef heyrt, jú ég var að lesa hana um daginn [óskiljanlegt]. Já ég las hérna, bíddu þetta fór í, þetta kom í „Heima er best“.
Jæja.
Halldóra: Og ég er sennilega eini lesandinn [hlær] hérna í bókasafninu sem fæ alltaf „Heima er best“. Það er svo margt í blaðinu.
Auður: Hann Einar [ósklijanlegt].
Halldóra: Það getur vel verið sko, ég veit ekkert um það. En allavegana, ég fæ þetta blað alltaf lánað úti á bókasafni og þar las ég um Týla. Og hérna…og svo jafnframt las ég líka söguna, það var verið að segja frá Týla og svo jafnframt frá dreng sem, ungum manni, sem að var hér ungur, dreng, og eitthvað svona. Og átti að ge…ég man ekki hvernig það var en eitthvað átti hann að gera. En eitthvað hafði það farist fyrir. Þetta var í tíð Gríms Thomsen. Og svo átti Grímur að hafa uppáklætt sig eitthvað og farið að stríða stráknum og strákur svaraði honum til baka sko eða varð var við þessa ógurlega fylgju sem var að elta hann. Þá var það sjálfur Grímur Thomsen en hvort það er satt eða hvað, en þeta var meðal annars sko, þetta blandaðist inn í söguna um Týla.
Auður: Jájá. Ég hef ekki lesið þetta.
Halldóra: Þetta var í, því að það…ég man ekki hver var að tala um þetta, það var eitthvað [óskiljanlegt] og þá sagði [óskiljanlegt] jújú fáðu bara lánað blaðið. Þar er verið að segja frá Týla.
Já, munið þið eitthvað annað svona sem að hefur á dagana drifið hérna? Einhverjar sögur, einhverjar uppákomur? Þið hljótið að hafa hrekkt fólk hérna, meira eða minna?
Auður: Nei…
Þið eruð nú þannig gerðar báðar.
Auður: …saklausar af því.
Halldóra: Alveg saklausar.
Auður: Alvega saklausar af því.
Halldóra: Við kunnum ekki svoleiðis. Við erum svo vel upp aldar.
Auður [hlær]: Alveg saklaus af því að vera með nokkra hrekki.
Jájá.
Auður: Já. Ég minnist þess ekki.
Halldóra: Eini hrekkurinn sem ég virkilega gerði af mér, að það var hérna einu sinni, það var eftir að Dóra heitin dó. Við Siggi vorum hérna, Sigurður Thoroddsen var mér til hægri handar. Hann var hérna alveg hjá afa sínum fyrsta árið algerlega alveg. Svo hérna gerðist það að, að hérna, ég náttúrlega sá um mat fyrir þá, eldaði mat. Það var nú allt í góðu með það. Nema svo gerðist það að þeir kom…e…maðurinn og kona, maðurinn sem að átti verksmiðjuna sem gerði gluggana í, þar s…gluggana voru gerðir í Bretlandi.
Auður: Jájá í kirkjuna.
Halldóra: Í kirkjuna. Og hérna, og ég byrjaði nú á því að segja honum það að, segja Sigga það að hann yrði að vera [hlær] af því að fólkið bjó úti í hjáleigu, sem þá var. Gisti þar og borðaði svo hérna inni og svona. Svo sagði ég Sigga það [hlær] að nú væri að koma svo fínt fólk að það yrði að klæða sig upp í smóking [báðar hlæja].
Auður: Og Siggi hefur náttúrlega gert það?
Halldóra: Neinei, það var nú ekkert. Nei honum fannst það nú ekki alveg passa. En það var nú allt í lagi. Og Halldór var hérna, séra Halldór í Holti…
Auður: Jájá.
Halldóra: … í grænu peysunni og rauðgallanum. Hann var að læra líka. Hann var að lesa undir p…að verða prestur. Nema svo hérna var ég orðin þreytt á öllu um daginn að bíða með matinn og þeir áttu náttúrlega að borða með þeim hérna í borðstofunni. Maturinn tilbúinn og þeir voru ekki komnir, og voru einhvers staðar á hestbaki. Og þá tók ég mig til, fór upp á loft, tók buxurnar hans Sigga, þræddi þær sam…þrengdi þær [hlær]…
Auður: Svo hann komst ekki í þær?
Halldóra: Svo [óslkiljanlegt], svo tók ég peysuna af Halldóri, því hann ætlaði náttúrlega í grænu peysuna, hann var alltaf í grænu peysunni, sem mamma hans hafði prjónað á hann [hlær]. Þá saumaði [hlær] [óskiljanlegt] svoleiðis að hann komst ekki í gegn…
Fyrir ermarnar?
Halldóra: …og fyrir hálsmálið líka. Svo beið, svo koma þeir og ég náttúrlega öskureið og öskraði á þá að þeir yrðu að gera svo vel að flýta sér og koma sér, þeir geti ekki farið svona inn á hestagallanum, þeir yrðu að gjöra svo vel að skipta um föt. Og þeir upp á loft og [hlær] svo leið og beið og ekki komu [hlær] [óskiljanlegt]. Svo stóðst ég ekki freistinguna og svo stóð annar [hlær hástöfum] [óskiljanlegt] að toga á sig buxurnar en hann náði þeim ekki saman, ég þrengdi þær þó það vel en hinn, það var presturinn, og það var ljótt sem heyrðist úr prestinum, það var nú ekki guðsorðið…
Auður: Nei.
Halldóra: Ég náttúrlega fékk algert hláturskast, sko. Ég hló og hló og hló og hló og hló. En ég skammaðist mín ekkert. En þeir náttúrlega þóttust nú ætla að launa mér lambið gráa en gerðu það nú ekki.
Auður: Nei.
Halldóra: En þeir mættu eftir það [hlær].
Auður: Á réttum tíma.
Auður, þú hefur ekki verið alveg saklaus af svona. Ég trúi því ekki.
Auður: Ég man ekki eftir svona, sko. Það man ég ekki eftir.
Nei. En ég trúi ekki að þetta hafi bara verið eitt skipti hjá þér, Halldóra.
Halldóra: Jújú.
Auður: Halldóra var hérna svo mikið lengur heldur en ég. Þetta sem hún er að segja, ég er löngu farin héðan [hlær].
Halldóra: Ég hef náttúrlega kannski upplifað miklu, miklu meira heldur en, heldur en Auður sko.
Auður: Jájájájá.
Jájá. Ég meina, það hefur þó verið fjörugt mannlíf hérna.
Báðar: Jájájájá.
Auður: Það gat verið það…
Halldóra: Það var alveg, það var ekkert sko…
Auður: …ekkert neitt sem er sérstaklega í frásögur bókandi, en…
Halldóra: Neineinei.
Auður: …ekkert sem að mér, man eftir.
Allt er nú í frásögur færandi.
Auður: Nei. Ég veit það ekki, allavega sko…ég man það ekki.
Voru hérna einhverjir liprir sögumenn eða, eða skáld jafnvel? Muniði eftir því, af starfsfólkinu?
Báðar: Nei. Nei.
Halldóra: Það held ég ekki.
Auður: Ekki minnist ég þess.
Halldóra: Einu skiptin sem ég, sko, man eftir svona, e… ég náttúrlega kann ekkert af þessu, því miður. Maður var svo ungur þá að maður hafði ekki rænu á að, að hlusta eða, maður hlustaði og, mikil ósköp og, það var þegar Jón á Akri kom. Hann var svo mikill vinur forsetans. Og eins þegar þeir komu þarna Vatnsdælingarnir.
Auður: Já.
Halldóra: Og Guðmundur í Ási og svona. Og svo er ég að fara í frí, þeir voru búnir að vera hérna í mat. Ég fékk að fara með þeim í bæinn og þeir voru þarna, ég sat þarna á milli held ég Jóns og bílstjórans í framsætinu. Og síðan sátu hinir fyrir aftan. Og þarna bara að, þarna komu vísurnar svoleiðis bara að svo…
Auður: Á færiböndum.
Halldóra: …á færiböndum, sko. En maður náttúrlega var svo heimskur að þetta fór bara, en fannst gaman að hlusta á þetta en man ekki neitt af þessu.
Já, mhmmm…
Halldóra: Þeir voru alveg ótrúlegir sko.
Já.
Auður: Þetta var…
Halldóra: Það náttúrlega voru margir sem komu hérna, allavegana…
Auður: jájá.
Halldóra: …bæði skáld og rithöfundar og…listamenn og málarar og…
Auður: Það var, maður var ekkert að spá í þetta svoleiðis.
Halldóra: Neinei, þetta var…
Auður: Þetta voru bara gestir.
Halldóra: Já.
Já. Kjarval kom nú hérna einhvern tímann.
Báðar: Jájájájá.
Og jafnvel oft eða hvað?
Halldóra: Hann kom nokkuð oft.
Var hann vinur Kristjáns?
Halldóra: Nei, hann kom í tíð Ásgeirs.
Auður: Hann var í Ásgeirs tíð.
Tíð Ásgeirs?
Halldóra: Meira að segja, á ég að sýna þér gestabók?
Gerum það á eftir, endilega. Er signatúrinn hans í gestabók?
Halldóra: Já.
Já. Við ætlum að skoða það á eftir.
Halldóra: Meira að segja mynd eftir hann.
Í gestabókinni?
Halldóra: Já.
Munið þið báðar eftir honum?
Auður: Ég man eftir honum hérna, já. En ég man nú ekkert eftir þessu í gestabókinni reyndar. Það er ekkert að marka það, því ég sagði þér um daginn: Ég man ekkert svona. Það er alveg bara eitt og eitt atriði sem…þetta er bara. Ef ég ætti að bjarga lífi mínu með því, þá gæti ég það ekki. Þetta er alveg satt.
En Kjarval var nú skrýtinn í háttum. Er ekkert minnisstætt…
Halldóra: Hann var ekkert minnisstæ…ekkert skrýtinn í háttum hér.
Er það ekki?
Halldóra: Ekki neitt, nei. Ekki til í dæminu. Hann var bara eins og…
Auður: Venjulegur maður.
Halldóra: …venjulegur maður. Snyrtilega klæddur og…ég man hann var alltaf í svona einhverjum brún…e…brúnum fötum. Hálf svona, þau voru svona yrjótt eða eitthvað svoleiðis, svona…
Auður: Já, svona hálfgert tvíd eða eitthvað svoleiðis.
Halldóra: Já það var eitthvað slíkt.
Auður: [óskiljanlegt].
Halldóra: Já. Hann var mjög oft í…eða þegar hann kom þá var hann mjög oft í svoleiðis.
Nú eru myndir hérna eftir hann. Kom hann sjálfur með þær hingað, kom hann bara sem matargestur, eða…?
Halldóra: Neineinei. Þessar myndir sem hér eru…
Auður: Þetta er allt…
Halldóra: …þetta er allt…
Allt í eigu Listasafnsins?
Halldóra: Neineineinei, þetta er ekkert úr safninu. Þetta er allt, þetta er allt af Laufásveginum.
Auður: Já, frá Silla og Valda?
Halldóra: Þetta er allt frá Silla og Valda. Þetta er allt frá Valda.
Já.
Auður: Já.
Halldóra: Silli gefur Laufásveginn…
Já.
Auður: Já, það fylgdi svo mikið af myndum.
Halldóra: …og hann gefur, og það eru, það eru sex, sex eða átta málverk. Og þar af eru eitt, tvö, þrjú, fjögur Kjarvalsmálverk…
Já.
Halldóra: …sem að hérna hann gefur, það, og það var eitt eee…eitt eftir Ásgrím, held ég. Það er eitt eftir Ásgrím. Stærsti hlutinn af þessu var Kjarval og það er til skrá yfir þetta, þessi málverk og hún á að vera hérna einhvers staðar í, meira að segja eftir mig sett einhvers staðar niður einhvers staðar þarna.
Þannig að Kjarval hefur komið hérna bara sem vinur forseta?
Halldóra: Jájá, hann kom bara hérna eða með einhverjum sko bara sem gestur, sko. Jájá.
En munið þið eftir einhverjum öðrum svona skrautlegum karakterum eða…?
Halldóra: Hann var ekki skrautlegur. Ekki til í dæminu, ég [óskiljanlegt].
Þið sáuð hann ekki þannig.
Halldóra: Nei, ég sá hann ekki þannig.
Auður: Ég man ekki eftir neinum svona sem skar sig sérstaklega úr.
Halldóra: Ég man ekki eftir neinum. Ég man bara eftir því þegar að hérna manni fannst þegar Ólafur Thors kom hérna. Þeir voru allir svo ofsalega… í þá daga, þá voru allir þéraðir. Það var allt þérað, alveg hreint hérna sko. Þú gast ekki… bara þéringarnar voru alveg hreint…
Auður: Jájájájá, voru alveg í hámarki þarna.
Halldóra: …alveg í hámarki, sko. Og, og náttúrlega þessir ráðherrar og svona þetta var ekkert að tala við okkur. Þetta var bara, sko við vorum bara…
Auður: Við vorum ósýnilegar [hlær].
Halldóra: Já, við vorum svona hálf ósýnilegar. En þegar hann kom, þá var alltaf…þá kom hann, hann átti það til að koma svolítið seint í svona kannski [óskiljanlegt]. Og þá kom hann með sinn pípiuhatt og í sínum kjólfötum. Svo rétti hann manni og svo sagði hann þegar hann kom: „Góða kvöldið, stelpur mínar. Hvað segið þið gott?“ Og við náttúrlega sögðum: „takk fyrir“ og „góða kvöldið“ og vorum kurteisar. Svo labbaði hann inn í holið, inn að speglinum, rótaði í hárinu á sér og sagði: „Verð ég nokkuð sætari, stelpur?“
[Auður hlær].
Halldóra: Hann var sko…hann var þarna gat ekki annað en svona einhvern veginn…
Auður: Hann var allt annar karakter.
Hann var óþvingaður?
Auður: Já.
Halldóra: Hann var óþvingaður og alveg ægilega alþýðlegur og svona…
Auður: Hann var…allt annar karakter en allir hinir.
Halldóra: Já, allt annar. Hinir voru það lá við að rigndi upp í nefið á þeim.
Auður: Sumir þeirra allavega [hlær].
Já. Þið hafið kunnað að meta hann.
Báðar: Já. Já.
Auður: Hann var skemmtilegur.
Halldóra: Hann var skemmtilegur og…
Auður: Já.
Halldóra: Það var ekkert hægt að segja annað en að, og það maður heyrði það og sá líka sko að hann sko þegar fólk var að tala við hann, sko hann virtist sko…þylja úr sér, eða ryðja úr sér bröndurum og öðru slíku svoleiðis að fólk sko bara hló og virtist skemmta sér alveg konunglega þarna nálægt honum, sko.
Auður: Já.
Halldóra: En ég man ekki eftir neinu skrýtnu fólki.
Auður: Nei ég man ekki eftir því heldur.
Halldóra: Nema þegar ég sá drauginn.
[Auður hlær].
Halldóra: Það er það eina skrýtna sem ég get virkilega sagt að ég hafi, haldið að ég hafi séð. Því ég hélt ég hefði séð Jesú.
[Auður hlær].
Halldóra: Ég á kannski ekki að segja það en, en það er einhver sú voðalegasta, það er ein, það er ægilegasta upplifun mín.
[Auður hlær].
Já.
Halldóra: Ég held að bara að það sé versta upplifun sem ég hef nokkurn tímann lifað. Það er nú svo skrýtið að þegar þetta, þegar að þessi maður læddist hérna inn, að þá var þannig að það var verið að fagna doktorsritgerð Kristjáns Eldjárns. Þetta er svo stimplað inn í hausinn á mér. Og þetta var voðalega, þetta voru allt prófessorar í Háskólanum, það voru engar konur með. Þetta voru allt karlar. Og ég man það að þetta var haft svo mikið við, að við Herald vorum hérna í salnum og Herald var með mér að servera, og við urðum að opna kampavínið, flöskurnar inni í sal að hella í glösin. Þetta var haft svo voða flott sko, það var alveg toppurinn sko. Nú svo var ekkert, svo bara…var ekkert að gera, var lítið fyrir mig að gera eftir þetta og Herold sá bara um karlana þarna inni, nema ég rölti fram í hol og þar er Kidd…hitti ég Kiddjón og hann er að koma úr bænum með fangið fullt af einhverjum blöðum og dóti og segir við mig: „Æi, farðu með þetta inn á skrifstofu“. Og ég segi: „Inn á skrifstofu? Það hlýtur einhvera að vera inni hjá forsetanum“, segi ég, „það er lokað inn“. „Æ, þú veist nú alveg hvernig þú átt að hegða þér. Þú veist það hvernig þú átt að, þú veist nú alveg hvernig það er“. Svo ég labba inn bara að hurðinni, banka eitt högg. Enginn svarar því það var milli mín og hans var það að þó ég svaraði ekki þá bara fór ég inn eftir að ég var búin að banka. Ég fer inn og þegar ég kem inn, þá situr maður í stól forsetans. Sem forsetinn sat alltaf í. Og þessi maður var alskeggjaður. Og með hár hérna niður á herðar og pönnuhár svona [gerir handahreyfingu til útskýringar] og í einhverju, ég sá ekki annað en hann væri í einhverri skrýtinni mussu. Og hann leit jú aðeins upp þegar ég kom þarna inn og ég varð bara gjörsamlega stjörf. Bara stjörf. Og ég henti póstinum inn á borðið, bakkaði út og lokaði hurðinni á eftir mér. Og nú þorði ég ekki að fara fram í eldhús. Að bðija nokkurn mann að koma með mér þarna inn. Hvað átti ég nú að gera? Því þarna hafði ég séð eitthvað sem ekki var til. Það var alveg á hreinu. Og ég labbaði þarna fyrir framan, verð það á að lalla fram í forstofuna og þar liggur prjónahúfa á borði sem var undir speglinum. Og ég er ekki að ljúga því að ég tók hana svona [gerir handahreyfingu til útskýringar] og ég hélt á henni svona [handahreyfingar]. Þá vissi ég það að það var enginn af körlunum, þessum fínu sem voru þarna [óskiljanlegt], þeir ættu prjónahúfu.
[Auður hlær].
Halldóra: Þá vissi ég það að það var einhver skrýtinn þarna inni. Svo ég kalla, fer fram og Kiddjón þarna og ég segi: „Þú verður að koma með mér inn á skrifstofu“. „Nú“, segir hann. „Já, það er einhver skrýtinn maður þarna inni“. „Já“, segir hann, „nei, þetta er einhver sem forsetinn hefur gleymt að segja þér frá, inni þarna“. „Nei“, segi ég, „þetta er ekki maður sem forsetinn hefur gleymt að segja mér frá. Þú verður að koma með mér“. Svo förum við inn og það er ekkert annað en það að Kristjón fékk sama og ég sko, hann snarstoppaði, bakkaði á mig og sagði: „Komdu út“. [Báðar hlæja]. Við fórum fram aftur, svo ég segi: „Heyrðu“. Og hann segir við mig: „Hvað er þetta“? „Þetta er maður segi ég“. [Báðar hlæja]. Þá fórum við nú inn og þá fór Kristjón að spyrja. Og þá bara gátum við ekkert talað við hann því að hann talaði þýsku. [Ósklijanlegt] svo endaði með því að hann var látinn vera þarna inni þangað til að allir voru farnir og þá var Krist…forsetinn í staðinn fyrir að fara að hringja í lögguna eða svoleiðis, þá gerðum við náttúrlega ekkert slíkt. Það var ekkert gert á þessum stað. Þá var forsetinn, fór forsetinn inn og talaði við hann og hérna, svo var maðurinn tekinn fram í eldhús og það var, þar þurfti að gefa honum te og brauð og allar græjur. Ég, svo hérna var, hringdi forsetinn inn á Hjálpræðisher og pantaði fyrir hann herbergi þar. Og svo var hann keyrður í jeppanum inn á forset…inn á Hjálpræðisher og „takk fyrir, vertu blessaður og hafðu það gott“. [Báðar hlæja]. Svo nokkru seinna var hringt frá Hernum og spurt hvort við hefðum ekki orðið eitthvað vör við eitthvað dót eftir hann. Nei, það hafði nú enginn, vissi [óskiljanlegt] um það en það kom þá upp úr dúrnum að hann hafði komið, hann hafði komið við í kirkjunni. Kirkjan var opin eins og hún gerði alltaf, hann hafði komið inn í kirkjuna og skildi dótið eftir þar, og labbaði svo heim. Hurðin var ekki læst og hann labbaði bara inn, og hafði það bara huggulegt þarna. En þetta er sú agalegasta upplifun sem ég hef upplifað hér. Það er alveg á tæru.
Já.
Halldóra: Fyrir utan það að jújú við urðum náttúrlega einu sinni voðalega hræddar og það var þegar að voru brotnar nokkrar rúður í eldhúsinu. Þú varst ekki þá [við Auði], þá var ég með Unu
Auður: Nei. Já, það var áður en ég kom hérna.
Halldóra: Já, það voru brotnar, við vöknuðum um miðja nótt við einhvern svakalegan undirgang. Við vissum ekkert hvað var að gerast. Skjögruðum niður og þegar við komum niður í eldhús [hlær], þá var bara glerbrotin inn um allt eldhúsgólf og fyrir utan var einhver maður öskraði: „Gemmér eld“. [Báðar hlæja]. Una, hún fálmaði niður í skúffu, henti í hann eldspítustokk, þreif í mig sagði: „Komdu upp“. [Auður hlær]. Og ég, jújú, ég á eftir henni upp á loft og svo þeg…svo hendir hún sér bara upp í rúm. Breiðir yfir haus og segir: „Hringdu í Kiddjón“. Eða Kristjón. Og ég hringi. Og ég, mér fannst nú reyndar líða alveg ógurlega langur tími þangaði til Kristjón ansaði en það var nú náttúrlega ábyggilega ekkert langt. Svo ég segi að hann verði að koma, það sé verið að brjótast hérna inn. Og Kristjón segir nú eitthvað og ég segi: „Nei, þú verður að koma. Ég fer ekkert að tala, ég fer ekkert að tala við manninn“. Og svo þegar Kiddj…svo settist ég upp í gluggakistuna, sat þar og horfði. Svo þegar ég sá Kiddjón koma fyrir hornið með gólfskrúbb að vopni [hlær], þá fór ég fyrst að hlæja. Þá fór nú skelfingin að hverfa af mér.
Auður: Hann gat verið kómískur.
Halldóra: Maður getur orðið svo mikið fífl sko að það er nú alveg hreint, alveg…Kiddjón tók manninn, fór með hann út í bílskúr og hreinsaði, þurrkaði, ég held hann hafi, hann sagðist hafa þurrkað hann á strigapoka, ég veit ekki um það. En keyrði hann síðan. Nei, hringdi í lögguna. Lögg…nei. Jú, löggan kom og sótti hann.
Auður: Nei, það er, ég veit ekkert um það.
Halldóra. Jú. Löggan kom og sótti hann. En morguninn eftir, það verður mér alltaf minnisstætt. Og það var sem Dóra heitin sagði mér: „Halldóra mín. Þú hefðir nú átt að taka aumingja manninn inn og bjóða honum kaffi“. Það hefði verið það síðasta sem ég hefði nokkurn tímann gert [hlær].
Auður: Það hefur ekki hvarflað að þér einu sinni.
Halldóra: Ekki til í dæminu.
Já, þetta hafa verið svona magnaðar upplifanir.
Halldóra: Það var allskyns svona sko sem gat gerst sko. En ekkert eins og [óskiljanlegt] fyndið. Eftir að þetta var um garð gengið
Auður: Eftirá getur það verið það, já.
Já. En þetta eru svona einhverjar undantekningar. Það hefur verið friðsælt náttúrlega á staðnum.
Halldóra: Jájájájá.
Það hefur ekki verið neinn ágangur af óviðkomandi eða…
Halldóra: Neineineinei. Ja það átti nú reyndar til að koma svona einhverjir sem voru að læðast þarna og hringja og vildu fá að tala við forsetann og svona. Það var oft hringt líka.
Auður: Jájá.
Halldóra: Rosalega mikið hringt og svo spurt. Svo er líka annað sem var svolítið fyndið að það var eiginlega sko, það var fimmtíu og níu nítján hérna en það var fimmtíu og níu átján á Gamla Garði.
Símanúmerið, eða?
Báðar: Já.
Halldóra: Og það var æði mikið sem var hringt hingað, fimmtíu og níu nít…nítján en fóru villt sko, voru að hringja á Gamla Garð.
Jájá.
Halldóra: En þetta, svonalagað gerðist nú yfirleitt ekki hérna.
Auður: Nei, það var yfirleitt voða firðsælt.
Halldóra: Þetta var mjög friðsælt.
Þetta eru algerar undantekningar.
Halldóra: Algerlega.
Já. Jájá.
Halldóra: Ég man reyndar alltaf eftir kallinum sem að var kallaður Gaui Lóna í Hafnarfirði.
Auður: Já, það var einn sem gekk undir því nafni.
Halldóra: Já. Á sautjánda júní. Þú, þá varst þú farin, nei þú varst í, ekki hei…þú komst heim um nóttina [beinir orðunum að Auði].
Auður: Jájá.
Halldóra: Neinei.
Auður: Neinei.
Halldóra: Ég var ein með forsetahjónin og hann var alltaf að messa hérna í kringum húsið. Alls staðar. Hann var með eitthvert guðsorð og svo hérna, hann hafði nú byrjað á því að hengja einhverja skó á einhverja, einhvers staðar, það var svona það gekk alla nóttina en svo endaði það með því að ég held að löggan hafi komið og tekið hann. Því það var ekki svefnfriður, hann var alltaf að messa [báðar hlæja].
Var hann fullur þá eða var þetta bara kynlegur kvistur?
Halldóra: Hann var bara, líklega var það. Hann var bara ruglaður karlgreyið. Mig minnir það [óskiljanlegt] kynlegur kvistur. Enda var þetta svo langt að fara.
Auður: Já, þetta voru engar samngöngur. Þannig að fólk hafði enga aðstöðu til þess að komast, það áttu ekki margir bíla á þessum tíma.
Halldóra: Það var enginn strætó og ekki neitt.
Auður: Nei, enginn strætó eða neitt sko [óskiljanlegt].
Halldóra: Þeir sem voru á gangi ef að forsetabíllinn var þarna, ég held að allir haf verið teknir upp í.
Auður: Jájá. [Óskiljanlegt] tók upp þá sem, krakkana og unglingana sem voru á labbi hérna á veginum.
Já, sem voru að húkka far?
Auður: Já, sem voru að koma úr skólanum eða eitthvað.
Jájá. Og var bara skutlað í forsetabílnum?
Báðar: Já.
Var það í tíð allra forseta, eða hvað?
Halldóra: Já.
Auður: Já, ég held það.
Halldóra: Alveg hiklaust.
Jájá.
Halldóra: Alveg.
Já og þótti þetta bara sjálfsagt hér á Nesinu.
Auður: Já þetta þótti alveg sjálfsagt…
Halldóra: Já, þetta þótti bara sjálfsagður hlutur.
Auður: …maður tók upp þá sem voru á svona labbi, sko.
Já, jafnt forsetinn sem aðrir íbúar [óskiljanlegt].
Báðar: Jájájájá.
Auður: Það var bara einhver vani.
Jájá.
Auður: [Óskiljanlegt], maður gerir þetta ekki í dag.
Halldóra: Nei.
Auður: Enda eru allir að skokka [hlær]. Óskiljanlegt.
Eða á eigin bíl.
Auður: Eða á eigin bíl, já.
Halldóra: Já. Svo var það eitt sem ferm…, sko krakkar sem voru að útskrifast, þau voru sko í gagnfræðaskólum eða eitthvað svona, inni í Reykjavík, sérstaklega í Reykjavík. Að þau áttu það til á vorin að taka sér bílt…koma hjólandi hérna suðureftir. Og það var, brást ekki, sko að Ásgeir hitti þau úti. Hann tók þau alltaf inn. Labbaði um og sýndi þeim húsið og…
Auður: Já, og þá fengu þau alltaf appelsín og smákökur.
Halldóra: …appelsín og smákökur.
Auður: Það hafa margir haft orð á því.
Halldóra: Mjög margir, finnst þetta alg…
Já, síðan?
Auður: Já.
Þið hafi hitt marga sem…
Auður: Jájá.
…muna eftir að hafa komið hér og þegið appelsín?
Halldóra: Jájá. En sama til dæmis með Ásgeir til dæmis og Dóra, þau gáfu alltaf passíusálmana, öllum fermingarbörnum. Og…
Þeim sem fermdust hér í kirkjunni?
Báðar: Já.
Halldóra: Og öll þessi fermingar, það er svo, ég hef hitt þónokkuð af fermingarbörnum sem hafa fermst hérna, sem hafa talað um passíusálmana sína sem þau hafa fengið gefið.
Og eiga enn?
Halldóra: Jájá. Já, því hann skrifaði sko nafnið þeirra og nöfnin sín eða nöfnin þeirra.
Já. Jájá. Jahá.
Halldóra: Kristján gerði þetta líka.
Auður: Já.
Halldóra: Kristján, hann hélt þessu áfram. Svo hætti þetta þegar Vigdís tók við. En ég held að hún hafi sent öllum fermingarbörnum skeyti.
Auður: Jájá. Það má vel vera, ég…
Halldóra: Ég held það.
Já.
Auður: Það var…
Halldóra: Já.
Auður: Mínir krakkar voru fermdir í Kristjáns tíð.
Halldóra: Já. Kristján gerði þetta líka.
Já.
Halldóra: Meira að segja, ég hef grun um að það sé ennþá – og veit – að það er ennþá slatti af passíusálmum til hérna inni í, ég held að það sé inni í bókaskáp.
Já. Frá Ásgeiri jafnvel.
Halldóra: Já eða Kristjáni.
Eða Kristjáni.
Halldóra: Sko þetta var ekki sko þessi litlu heldur bara svona stærri gerðin af þeim.
Jájá. Já.
Halldóra: Ég man meðal annars eftir því að, það var í tíð Ásg…Ólafs, þetta voru hérna…ja ég veit ekki hvort ég á að segja lamaðir eða, nei, það voru ekki lamaðir eða fatlaðir. Jæja það var eitthvað svona kannski ekki alveg andlega heilbrigðir eða þannig sko, sem voru hérna. En ég man eftir fullorðnum manni sem að kom hérna. Var í hópnum. Var einn af þeim sem að var náttúrlega sjúklingur eða þannig sko. Og hann var með hérna passíusálmana og var að sýna að Ásgeir hefði gefið sér það, þessa pa…hann hefði fengið þessa passíusálma. Hann hafði fermst hérna í Bessastaðakirkju.
Jájá.
Halldóra: Og hann var svo…og þá var, hann Ólafur fór að spyrja mig að þessu. Og ég sagði honum frá þessu.
Auður: Gamall siður.
Jájá. Og greinilega afar mikils metið hjá þeim sem þáðu.
Halldóra: Mjög. Mjög.
Já.
Auður: Það er það.
Heyriði, nú er komið bara þónokkuð í sarpinn í viðbót við það sem var áður komið.
Halldóra: Jájá.
Auður [hlær]: Og kannski geturðu nýtt eitthvað af þessu.
Já [óskiljanlegt].
Auður: [Óskiljanlegt] …Halldóra miklu betri í þessu en ég. Enda sagði ég þér það strax.
Ja þið hafið lagt heilmikið til og mér fannst nú merkilegt það sem þú sagðir mér, að þú hefðir verið að keyra forsetann. Halldóra, þú hefur ekki…keyrðir þú einhvern tíma forseta?
Halldóra: Nei, jú ég keyrði Vigdísi stundum í bæinn.
Jájá.
Halldóra: Á hennar eigin bíl.
Já.
Halldóra: En ég hef einu sinni keyrt Ólaf. En það var bara vegna þess að það var svo mikil for hérna á milli húsa [báðar hlæja]. Og hann þurfti að komast, hann náttúrlega, maður fer nú ekki að vaðandi hérna yfir allt og ég, og hann hringdi hérna og hringdi, spurði hvort ég gæti ekki komið og sótt sig. Og ég fór að bílskúrsdyrunum þarna niðri og tók hann þar út, tók hann þar og keyrði hann [báðar hlæja] upp að húsi, til þess að hann kæmist gegnum bílskúrinn og hérna inn, þurrum fótum.
Var þá ekki búið að klára endurbætur hérna?
Halldóra: Nei. Nei.
Auður: Þetta var ægilegt svað hérna.
Halldóra: Jújú, ég fékk þann heiður að keyra hann [hlær].
Þannig að þú hefur keyrt forseta.
Halldóra: Já ég hef keyrt hann.
Auður: Jájá. Jájá.
Heyriði, ég þakka ykkur kærlega fyrir þetta…
Auður: Það var nú lítið.
…vil ekki þreyta ykkur um of.
Halldóra: Ég held ég finni þetta hérna.
Já, gestabókina hans með Kjarval