Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk 1753 – 1797

Þessi útgáfa ferðasögu Árna Magnússonar frá Geitastekk er skráð eftir þeirri sem Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar og gefin var út af bókaútgáfunni Heimdalli í Reykjavík 1945, prentuð í Ísafoldarprentsmiðju. Textinn er eftir eiginhandarriti Árna sjálfs. Stafsetning og greinarmerkjasetning heldur sér frá útgáfu Heimdallar en orðskýringum og viðbótum, sem hafðar voru innan sviga í textanum, er hér sleppt. Björn leiðrétti eitt og annað í orðfæri Árna, breytti setningaskipan á stöku stað og „lagfærði“ beygingar orða. Talsvert er um dönsk tökuorð sem eru nútíma lesanda framandi. Gagnlegt getur verið að fletta upp danskri orðmynd í orðabók til skýringar.

Íslandskortið er fengið af vefsíðunni: http://kort.bok.hi.is/kort.php?a=gm&id=570. Höfundur þess er Niels Horrebow og útgáfuár 1752, árið áður en Árni Magnússon hóf reisur sínar. Langt var í land á þessum tíma með nákvæma kortaútgáfu en kortið er þó umtalsverð bragarbót frá öðrum fyrri.

Ferð til Danmerkur

Anno 1753 í okt. reisti eg frá
Íslandi með skipherra Mörk frá Borgundarhólmi með Friðriksgáfu, er kóng Friðrik
fimmti hann gaf til Íslands fyrir fiskiduggu og fóvetinn, Skúli Magnússon,
hafði undir höndum.

Við sigldum frá Reykjavík um
fyrirmiðdag. Um nóttina komum við til Vestmannaeyja. Kom þar einn hvalfiskur
til okkar, furðu stór, er fylgdist með oss í tvo daga og eina nótt. Við
fleygðum til hans gömlum fiskitunnum, er hann braut í sundur. Hann var jafnan
þétt við stýrið. Þó gjörði hann oss öngvan skaða.

Við höfðum góðan vind á landnorðan,
sem við héldum í níu daga, þar til við fengum Fugley í sikti. Hún heyrir
kónginum af England til. Fólkið á þessari ey var dimmleitt í andliti og
holdmikið. Þar var hverki kýr né fénaður, eftir því, sem skipsfólkið sagði oss.
Þeirra fæða var mest fiskur, fuglar, egg og stundum selur. Sjófugl var þar í
mengd, sem var mávar, svartbakur, kríur, skarfar og þess háttar.

Nú áttum við til Noregs 80 mílur. Kom
þá landsynningur, sem dreif oss langt til baka, so við fengum England í sikti
og fundum fiskara, er seldu oss nokkra fiska mikið stóra og feita. Við gáfum
fyrir hvern fisk 24 skildinga. Nú höfðum við verið í sjónum síðan við fórum frá
Fugley, mig minnir 14 daga. Höfðum fengið skaða á vorum seglum af stormviðri,
sem við fengum við gjört, þegar mesti vindurinn var úti. Þar eftir fengum við
norðvestanvind. Vorum á leiðinni frá Englandi og til Noregs í fimm daga, sem er
80 mílur. Um nóttina sáum við eld á Líðandisnesi. Hann brennur þar allar nætur
sjófarendum til leiðarvísis, sem öll skip, sem þessa elds njóta, mega gefa
peninga á fyrsta tollstede eftir skipsins stærð. Sá skattur betalast til
Englands fyrir steinkolin, er brúkuð eru til þessa elds.

Við sigldum langs með landinu, inn
til þess við komum til Merðey, hvar vor loss, er til okkar kom, bjó. Eg mátti
vísa þar minn pass, sem lögmaðurinn, Magnús Gíslason, þá í amtmanns stað, mér
út gaf.

Þegar eg kom í land, inn gekk í það
drykkjuhús, er allir voru saman komnir, bæði frá Englandi, Amsterdam,
Frakklandi og Portúgal. Þar voru þrjú borð með borðsitjandi fólk. Drykkirnir
voru franskt brennivín, engels öl, potturinn á 2 mk. Kaffi. Góður sykurborinn
matur, steikur og uxakjötssúpa. Mig furðaði, að þessi loss kunni traktera so
marga borðsitjendur fyrir alls ekkert, sem ei so út féll, þegar þeir skyldu
afskeið taka. Voru flestir af skipherrum, sem gáfu 10 rd., matrósar fimm eður
fjóra rd., fyrir þá aftens skemmtun. Þar inni var og spiluð kort upp á peninga
og tafl upp á skemmtun.

Eg skildi lítið þá í dönsku, minna í
öðrum tungumálum. Þeir vildu gjarnan tala við mig, en eg skildi þá ei. Minn
skipherra borgaði fyrir mig. Eg hafði og fríkost á duggunni, sem Síra Vigfús í
Hítardal útvegaði mér hjá Skúla fóveta.

Þar skilda eg við minn skipherra, er
liggja skyldi í Norge, mig minnir við Frdriksstad, og hlaða dugguna með trjám
til byggingar í Reykjavík. Kom eg so þar frá með öðrum skipherra, er hét Jens
Rasmussen, sem ætlaði að sigla til Kaupinhafnar.

Við sigldum austur með landinu til
þeirrar hafnar, sem hét Hestagarður. Vindurinn var oss mótfallinn, og mátta eg
lossera í landi hjá gömlum hjónum, gaf 2 sk. fyrir sængina hverja nótt og fjóra
skildinga fyrir máltíðina. Eg vildi hafa mjólkurgraut, sem og fékk. Hann
smakkaði mér sem vatnsblandsgrautur, og sagði, hún hefði komið vatn í mjólkina.
Hún sór það lygi vera. „Kom með mér á morgun“, sagði hún, „þegar mjólka kýr
mínar í fjósinu“, hvað eg og gjörði og sá eftir, að ei kæmi vatn í mjólkina.
Kogti hún so aftur graut til mín. Þá smakkaði grauturinn eins og hinn. Varð eg
so að segja henni frá Íslands mjólk. Kunni þó ei útþýða henni allt Íslands
ásigkomulag, þar ei kunni dönsku rétt tala. Þaug gömlu hjón vildu mikið við mig
tala um eitt og annað, voru mikið góð og skikkanleg, gáfu mér epli og perur að
eta fyrir utan betaling. Þar var og ei dans eður drikk utan kaffi.

Eg var vel í fjórar eður fimm nætur.
Þá síðustu nótt, er eg lá þar, kom hennar bróðir, er bjó hátt upp í landinu.
Hann hafði belghempu og kollótta húfu á höfði sér. Eg þenkti, hann hefði verið
í Íslandi, því hann talaði íslenzku við mig. Þar eftir fórum við að syngja
nokkra kveldsálma, so sem þennan: „Dagur og ljós þú Drottinn ert“ og „Sá ljósi
dagur liðinn er“, sem mest komu út á íslenzku, utan nokkur orð voru öðruvísi.
Sá sami maður gaf mér belti um mig með stórum kníf á síðunni. Um morguninn
snemma kom lossinn eftir mér. Tók eg so afskeið við þaug gömlu hjón, er mér
gáfu hafurköku so stóra sem kjaraldsbotn.

Kom so um borð til skipherra Jens
Rasmussen, og vildum sigla til Kaupinhafnar. Vorum konmir átta mílur til sjós,
fengum mótvind og máttum reisa til Noregs aftur. Komum til þess plátz, sem
kallaðist Búvík. Þar skylda eg og í land, fékk herbergi hjá einum stýrimanni,
er lá sjúkur í sænginni af brennivíni; var ógiftur. Hans móðir hélt búið. Hún
var háöldruð og ellióra. Eg var þar í þrjár nætur. Hún gaf mér tvo potta gott
öl fyrir einn skilding, sem annars kostaði fjóra skildinga, og þar eftir voru
matkaupin, so eg eyddi þar ei mörgum peningum. Ei fór stýrimaður á fætur alla
þá tíð, eg var þar, en drakk mikið brennivín. Hans móðir gaf mér kaffi, þegar
eg tók afskeið með henni. Um morguninn tíðlega kom lossinn eftir mér.

Kom til míns gamla skipherra, Jens
Rasmussen, fórum af stað og settum vorn koss til Kaupinhafnar. Þegar við vorum
komnir 14 mílur frá Norge, varð vindurinn austan, so við kunnum ei leggja
Skagann yfir, því vindurinn var alltíð meir til suðurs með stormvindi.
Hröktumst undir Julland og höfðum mest strandað á þeim józka skaga. Nóttin var
löng og ekkert tunglsljós. Þegar dagaðist sáum við, Klitmulla var oss mikið
nær. Skerin voru kring oss og vindurinn mikið gangstæður. Settum við vort flagg
upp á stóra toppinn. Lossinn kom út til okkar, sem vísti oss veginn, so við
urðum fríir frá skerunum, héldum so rúmsjóinn í stórviðri í fimm daga, misstum
vort fukkuskaut og hundahúsið.

Nú forandraðist vindurinn, so við
fengum góðan vind gegnum Kattegat, sigldum so þann juzka skaga fyrir bí kl. 8.
Það var mest um náttmál. Vorum mest komnir upp á Svíaríkis sker, sem kallast
Paternostersker, þar nóttin var löng og þykkt veður. Kunnum ei til lands sjá
fyrr en um morguninn í dögun. Sáum við skagans eld, áttum þá fimm mílur til
Helsingjaeyrar, varð klárt veður. Komum kl. 12, það er um hádegi, til
Króknuborg, máttum í land að vísa vorn tollseðil, sem voru 500 tunnur
Þrándheims síl og 400 skpd. salt torsk. Þaðan fórum við upp á kóngsins vaktskip
frá Kaupinhöfn að framvísa, að kóngsins tollur af vorri last væri betalaður.
Gengum við so frá Helsingjaeyri til Kaupinhafnar, sem voru fimm mílur.

Á landinu sá eg margar vindmullur,
sem mér varð mikið starsýnt á, að þær með sínum stórum vængjum skyldu hlaupa so
hart um kring af sér sjálfum. Eg sá og þar koparmulluna, að þegar heitt af
eldinum varð koparið, komu hamrarnir hátt upp frá steðjanum, tveir að tölu, og
slógu koparið so lengi sem smiðurinn hélt því á steðjanum. Og þegar það kom í
eldinn, blésu belgirnir af sér sjálfkrafa, sem mér þótti undarlegt, að hamrar
og belgir skyldu af sér sjálfir sitt erfiði fremja.

Nú komum vér til vaktskipsins í
Kaupinhöfn. Þar máttum við og so framvísa vorn tollseðil frá Krónuborg upp á
vora last. Eg mátti og framvísa minn pass frá Íslandi til kóngsins kommandör.
Þaðan fórum við til kóngsins tollkammer og eg til vakthafandi kapitainlautinant
að framvísa minn pass. Og þegar eg var þangað upp genginn, spurði fólk minn skipherra
að, hver sá framandi hefði verið, sem gekk til vaktin með sinn pass. Í bland
þessara var viktmeistarinn. Skipherrann sagði, það hefði verið einn Islender,
fortalti þeim þar með, að landið væri mikið slétt, í því þar sáðist ekkert
korn. Viktmeistarinn segir: „Það fólk mun ei stóra krafta hafa, eftir því þeir
eta ei brauð“. Skipherrann segir: „Hann er ei so kraftalaus, því þegar hann
tekur í kaðla hjá oss á skipinu, er hann so sterkur sem tveir af mínu fólki.
Kallaðu á hann þegar hann kemur frá vaktinni“. Þegar eg kem, verður til mín
sagt, eg skuli upp til kóngsins viktmeistara. Eg var hræddur þangað að fara,
þar eg vissi mig ekkert hafa með hann að gjöra. Kem þó upp til hans. Hann spur,
hvert eg kunni létta þessum lóðum, sem voru 10 lísipunds lóð. Eg segi, það muni
ei stór kúnst vera að létta einu upp af þeim. Tek eg vasaklút minn og hnýti
hönum í handtakið á því eina 10 lísipunds lóði. Síðan tek eg minn hálsklút og
hnýti í það annað. Létti þeim síðan báðum upp, það eina með löngu tönginni á
þeirri hægri hendi og annað með löngu tönginni á þeirri vinstri hönd, og rétt
mig so upp með báðum, 10 lísipund í hverri hendi. Þann tíma voru yfir 300 manns
á tollbúðinni, og kunni það enginn gjöra utan einn frá Borgundarhólmi, en
hverigur okkar kunni ganga með þeim.

Síðan gekk eg upp í Tollbúðargötuna
til míns skipherra konu, Mörks, er eg reisti með frá Íslandi til Noregs. Eg bar
henni helsu frá hennar mannig og það með, að hann væri heill og ósjúkur og
mætti nú vera frá konu sinni so lengi. Eftir áliti mínu varð hún ei so
hjartasjúk, þó hún bæri þann kross. Kannske hún hefði meðöl nærri sér, sem
sorgina deyfðu. Hann í Norge og. Hún spyr mig eftir, hvert eg hefði nokkra vini
eður ættingja hér í Kaupinhöfn. Eg segi það vera satt, eg hefði hér einn
holdgetinn bróður, sem hefði eftir mér skrifað. Var mér þó hryggð í hjarta af
þönkum mínum, sem eg vildi öngvum dönskum manni opinbera. „Þú skalt vera hér í
húsi mínu án betalings, þar til eg fæ talað með einhvern íslenskan, sem færir
mér vissar fréttir, hvar þinn bróðir er“. Fór eg so að borðinu og fékk mat að
borða og öl að drekka. Þetta var mér þó sorg, eg fékk öngvan minna landsmanna
til mín. Þetta var um einn laugardag.

Á sunnudaginn kom einn íslenzkur þar
inn, hét Þorlákur, ættaður úr Vestmannaeyjum, sem kenndi minn bróður.
Skipherrakonan segir til þessa manns: „Þú gjörðir mér þénustu, ef hingað aftur
kæmir á morgun og gengir með þessari persónu til hans bróður“. Þorlákur segir,
það skuli ske. Um morguninn kemur Þorlákur, og göngum við til Malenborg
(Amalienborg). Þar sýndi hann mér borgina, sem herrann bjó í, hvar minn bróðir
þénti. Hann þorði ei að ganga lengra með mér. Þar sá út sem slot væri. Eg,
ókenndur, vissi ei, eftir hverjum spyrja skyldi. Þegar eg kom til portsins,
hringdi eg á klukkuna. Kom þar einn fram, sem spurði, eftir hverjum eg leitaði.
Eg spurði hann aftur, hvert þar væri ei nokkur þénari hjá herranum, sem væri
frá Íslandi. Hann sagði nei, „Hér er einn, sem heitir Monsr. Magnus, en hann er
frá Svíaríki“. „Verið þér so góðir og látið hann koma til mín“. Hann segir: „Nú
vil eg ganga til hans“. Að vörmu spori kom minn bróðir. Hann var prúðbúinn,
nýlega heim kominn með sínum herra. Hann tekur mig með sér upp á sitt kammer.
Eg segi hönum frá högum mínum og það verst – „að mitt töj er hjá skipherra Jens
Rasmussen, sem liggur í Nýjöfn, og eg hefi öngva peninga að leysa það út með“.
Hann segir: „Hér er ei gott að fá peningalán. Þó vil eg sjá til, hvert eg hefi
so marga peninga hjá mér sem við þarft. kondu með mér til skipherrans. Eg vil
sjálfur tala við hann“. Nú göngum við báðir og fengum töjið, sem kostaði 10 mk.
og eg skyldi betala fyrir minn kost.

Eg bar mitt töj, þar til eg kom með
bróður mínum inn í Stóru Kóngsins götu. Þar var Jón Jónsson, bróðir Jóns á
Gróustöðum, sem hafði lært að ofurskera klæði, en var hjá þessum manni til
herbergis. „Þú skalt taka minn bróður í sæng til þín fyrir mín orð“, – og segir
mér að koma til sín á morgun snemma. „Minn herra er að láta byggja hús. Þar
inni skulu vefast silki, þegar húsið er búið. Þú fær 16 skildinga um daginn.
Þar verður erfiði í vetur, og þegar illt veður er, skaltu tala við kúskinn,
hvert hann hafi ei þörf“, eg skyldi hjálpa hönum með hestana í stallinum. Eg
játa þessu, fer að erfiða um morguninn, verð þar so lengi að þar er nokkuð að
gjöra. Kom í eldhúsið til stúlknanna, þegar ei var erfiðað fyrir illu veðri.
Þær gáfu mér oft smjör og brauð. Kúskinn og.

Nú kunni eg ei út að koma með þessa
peninga, sérdeilis þegar veðrið var ei gott. Eg skyldi og gefa fyrir rúmið um
vikuna sjö skildinga. Fyrir að þvo mínar skyrtur. Mátti því taka peninga til
láns, sem eg ei þorði að láta minn bróður vita, þar hann vildi ei vita af, að
allt væri ei nóg fyrir mig. Hann gekk og át við síns herra borð og vissi ei af
bágindum að segja. Hann afræður mig að gefast til handverks, sökum þess, eg
væri of gamall.

Einn dag kemur hann til mín og segist
hafa talað með einn yfirkaupmann, sem hafi verið í Grænlandi. Hann hafi eggjað
sig mikið á að láta mig þangað fara fyrir erfiðismann og vera þar í þrjú ár,
annars kunni eg ei þangað koma. Þar væru og margir íslenzkir, sem eg kynni tala
við. Bland þessara var Guðmundur Guðmundsson frá Dölum og annar úr Miðfirði,
hét og Guðmundur. Við þessa báða talaði eg. Eg segi til bróður míns, það væri
bezt þangað að fara. Mátti þar fyrir segja til síns herra um þessar sakir og
vera minn borgunarmaður, því eg þyrfti peninga við. Tók eg svo hálf árslaun í
forvejen eður fyrir mig fram. Það, sem eg þyrfti til reisunnar, skyldi bróðir
minn mér innkaupa, sem var heldur upp á hans en minn ábata, þegar til efnanna
kom.

Eftir það eg var antekinn að fara til
Grænlands, skylda eg erfiða upp á því Grönlandske Kompagnie fyrir sama peninga
sem eg hafði fyrr. Gegg eg so við skipið, sem fór til Grænlands, þegar tíðin
kom. Eg þenkti, þegar eg þar kom, yrði aldrei so kunnugur, að ganga kynni um
staðinn, því hann er so þéttur í byggingunni. Þar er og margur skálkur og
illræðismaður. Þar eru 22 kirkjur með smáum og stórum. Þó er staðurinn ei
stærri en eg kann ganga frá einum enda til annars á fjórða parti úr tíma, ef eg
er hraður til fóts.

Þá tíð, eg var þar, mættu allir
soldater fyrir slotsporten, er skyldu parera fyrir kónginn. So lífgardarar
ríðandi á sínum hestum með þeirra þverbakspoka aftan við hnakkinn. Ei er nýtt
að sjá, einn soldat er pískaður, á stundum fyrir lítið. Þeir stóru þjófar ganga
frí, en þá smáu taka þeir. Það land er aumt, er öngvan kóng hefur.
Kaupmannahöfn er góð fyrir þá, sem hafa nóga peninga. Þar er allt að fá fyrir
peninga, hvert það er til matar eður fata. Þar kann mann marga hluti sjá, illa
og góða. Þar voru góðir predikanter í mín tíð. Þó kunni presturinn bæði heyra
axarhögg og sagargang, þegar hann var í sínum prédikunarstór. Fullt með
skipstimburmenn og boltaslagara, sem eru flestir af Hólminum. Orsökin er þessi:
Kóngur gefur þeim lítið fyrir Hólmsins erfiði, en þeirra sunnudagserfiði vill
hann ei hafa. Nú eru þar so margir kaupmenn, sem brúka sunnudagserfiði, sem eru
Kínafarar, Vest- og Stratstúrar og þar fyrir ótal annað erfiði, bæði hjá
skipherraum og kaupmönnum, sem enginn um talar, þó fátækir bjargi sér upp á
hvern ærlegan máta. Þetta skipar kóngur ei, og hann bannar það og ei heldur.
Þar fyrir er so mikið straff upp komið yfir Kaupinhöfn, síðan eg kunni fyrst
hugsa, mest með eldsbruna og dýrtíð. Eg hefi ei heyrt, að nokkurt slot hafi upp
brunnið utan í Kaupinhöfn, og hefi eg þó víða farið um veröldina. Jarðskjálfti
foreyddi Lissabon, en hvað viljum vér segja um Kaupinhöfn? Slotið brann fyrst
og so staðurinn.

Þann vetur, eg var þar, sem var 1754,
varð Magnús Ketilsson sýslumaður í Dalasýslu og Jón Árnason í Snæfellsnessýslu.
Þann vetur varð hálshöggvinn eitt kansellíráð og hans fullmektugur, er gjörðu
falska bankoseðla.

Í vist með Grænlenzkum

Nú fer eg að búa mig til að fara til
Grænlands með skipherra Lars Pedersen og presturinn Nikolaj Rask. Fórum frá
staðnum um sumarmál, vorum lengi fyrir framan Norge, þar vindurinn var oss
mótfallinn. Við vorum vel í 14 daga, fyrr en sunnanvindur kom, er við hélzt í
fimm daga, so við fengum Hetland í sikti. Það land heyrir þeim engelska kóngi
til. Þar er fiskirí og gott gras fyrir fénaðinn. Annars er það versta þar með
þokur og damp, sem ei vill burt ganga. Eg hvefi verið þar títt og oft. Hefur
veðrið verað annaðhvert með stormi frá sunnan eða þoku og fýling, sem er
óheilnæmt veður. Margir verða þar sjúkir af skyrbjúg, sem loftin með sér færa.
Skyrbjúgur gjörir bólgu í holdið, tennur lausar í höfðinu, sinar í kroppnum
saman dragast, aflar lúsa. Þeir deyja með matinn í munni sér. Skarfagras er
lækning á móti öllu því.

Nú kemur norðanveður, sem er oss
mótfallið, so við komumst ei fram í átta daga. Kort að segja: Við vorum sex
vikur frá Kaupinhöfn og til Grænlands. Eg sá þar so stór ísfjöll sem hæstu
kletta í Íslandi, og það versta er það, að þaug drífa mest á móti vindinum, þar
þaug láta meir að straumnum en vindinum, eftir því sá mesti partur íssins er í
sjónum, so það er hættulegt fyrir öll skip þangað reisur að gjöra, sem eru þó
bæði hollenzkir, franskir, engelskir og so frá Holsten og Pommern. Nokkrir fara
til hvalfangs, aðrir til selfangs eður klappjakt, þar er þeir slá selinn á
ísnum, og er það mest sá stóri eður blöðruselur af oss kallaður. Nokkrir kaupa
með grænlenzkum, bæði refaskinn, hreinskinn, hvalskíði, líka haraskinn, er þeir
brúka ullina eður harahárið réttara sagt til hattamakara, sem eru þeir dýrustu
í öllum stöðum.

Þegar þessar þjóðir koma í land, hvar
þeir hafa sín óhult lélegheit, kannske því sjötta og sjöunda boði guðs verður
ei so eftir lifað sem skyldi. Guð veit bezt alla hluti. Þó sá eg börn, bæði hjá
okkar fólki, eg eina skírðum grænlenzkum, sem bjuggu við kaupstaðinn, að þeirra
börn voru blendingar. Eg segi ei öll. Þessar framandi þjóðir keyptu og mörg
þúsund af tóbaks skinndósum, sem voru so meistaralega útsaumaðar að undrum
gegndi. Þær brúkast til að forvara píputóbak í. Til klæðnaðar keyptu þeir kjóla
af selskinni, er voru fóðraðir með hreinskinni, og nokkrir brúkuðu fóðraðan
hreinskinnskjól formaðan eftir útlenzkum máta, – skinnpeysur, buxur, stígvél og
loðna sokka af sama töju, allt vel gjört. Þeir kaupa þar og lýsi. Allt þetta,
alla þessa vöru, betala þeir mikið betur en danskir, so sem fyrir fimm
refaskinn gefa þeir einn lítinn koparketil, og eftir þessu eru öll þeirra önnur
kaup. Þeir dönsku gefa fyrir 70 refaskinn gamla byssu, sem sér vel út, því hún
er nýlega upp pússuð, en þegar grænlenzkir fara að brúka hana, er stálið ónýtt
eður og vel bommen. Verða so að nýju kosta upp á hana hjá kaupstaðarfólkinu.

Nú vil eg hætta viðtali mínu til yðar
um þá útlenzku þjóð. Heldur kem eg til þess, sem eg hvarf frá, eg meina um
ísinn í Grænlandi.

Nú er eg fyrir utan og sunnan landið.
Skipherrann sagðist hafa 15 mílur til landsins. Eg leit fyrir vestan og
suðvestan so mörg stríðsskip, hundruðum saman, já í þúsundatali. Eg sá stórar
borgir. Eg sá hákastille. Stríðsskipin voru að skjóta, so eg hefi aldrei heyrt
soddan hvell eftir nokkurt fallstykki. Það söng fyrir eyrum mínum. En nú var eg
fulltrúa, að þetta hefði sín rímilegheit: Danskir voru að narra mig. Eg hafði
og nokkuð að bera í samvizku minni, þegar eg hugsaði til Íslands og hvör orsök
var til reisu minnar. Eg sá til landsins, að það var með háum fjöllum og litlu
undirlendi. Kemur so skipherrann til mín og segir mér um íssins ásigkomulag, sem
eg vildi ei trúa í fyrstunni. Þegar við vorum að tala um þetta, sá eg tvo
skinnbáta og einn mann í hverjum bát, er hrópuðu og sögðu „Omiasuak“ þrisvar
sinnum. Það er: „Ó, þú stóra skip“. Við gáfum þeim kaðal til að binda um bát
sinn og höfðum þá upp í skipið. Sjór og hafbylgjur gengu í meira lagi. Þessir
grænlenzku áttu að fylgja okkur til vors kaupstaðar. Þeir urðu báðir sjósjúkir
og seldu upp.

Við vorum í þrjá daga fyrir utan
landið. Þann fjórða dag komum við inn á höfnina, sem heitir Friðriksvon. Þá urðu
mín augu opin. Eg sá ekkert annað en angur og sorg fyrir augunum. Kom Dalager
kaupmaður um borð og sagði okkur velkomna. Eg fór að tala við minn landsmann,
Guðmund Jörensson frá Miðfirði. Hann var stórlátur og þóttist ei kunna tala
íslenzku, því nú hefði hann verið fjögur ár þaðan. Þeir dönsku, sem skyldu vera
mínir samþjónar, voru að deila og drekka brennivín, kaupmaður að straffa,
presturinn að prédika um þá, allir áttu óskilið mál. Þegar nokkuð átti að
vinna, vorum við Islender settir í þann stað, sem hinir vildu ei í vera. Nú var
eg sem í fangelsi, því langt var nú til Íslands, eður til hvörra skylda eg
flýja? Ekkert var nú að heyra utan bölv og bann. Þegar út gekk, sá eg ekkert
annað en snjó, kletta og ís og þessa skrælingja. Þó vildi lesa og biðja guð að
hjálpa mér, var eg hafður fyrir heimskulegan narra. Kort sagt: Eg skyldi
afneita guði og hans heilaga orði. Eg sló sorgina burt með drykk, þó aldrei eg
kunni það gjöra fyrir einum hlut, guð vissi hann.

Nú fórum við í bringjuerfiði um
morguninn og assistentinn með að slá oss, ef það kæmi illt í oss hvern við
annan í Kopagniets þénustu. Brennivín fengum við nóg, og þeir, sem höfðu verið
gangkunnugir þessu öllu standi, urðu þó leiðir á því að vera þar lengur.

Nú fór kaupmann Dalager heim, en
Wulf, sem þá var assistent, varð kaupmaður. Hann hafði verið matrós upp á Kína,
var öngvu vanur utan óguðlegu athæfi. Þegar hann var kaupmaður, sagði hann sem
Róbóam, að sinn minnsti fingur skyldi verða þyngri en síns föðurs hendur. Wulf
sagði oss, Dalager hefði verið oss of góður, en hann skyldi kenna oss að vera
sér undirgefnir og hlýðnir. Þessi aumingi, sem vera skyldi prestur, var
norskur, þó stoltur, átti ei klæði upp á sinn kropp, keypti af heimfarandi
kaupmanni nokkur Grænlands klæði, er hann hafði sér gjöra látið. Til vorsins
vænti hann eftir konu sinni, er var skómakaradóttir.

Þessir tveir þrælar höndluðu harðlega
með oss um þann vetur. Hann las um miðnættið og um miðjan morgun. Þeir, sem þá
ei voru upp komnir, máttu vænta straffs. Nú var frostið so hart, þó við legðum
í kakalóninn so mikið, að vér kynnum kveikja í pípum okkar, fyrr en til sængur
gengum, sem var um miðnætti, fyrir miðjan morgun var kominn so mikill ís og
héla í gluggana, að við ei sjá kunnum, hvort það var nótt eður dagur. Loftið
yfir okkur ei til að sjá annað en sem íshéla væri. Skyldum þó úr kaldri stofu
inn í aðra og syngja danska sálma, í hverjum eg lítið skildi um þá tíð.

Þegar kost fengum, sem var um
mánuðinn fimm pund smjör, fjögur pund flesk, átta pund Jullands gamalkúket og
28 pund skipsbrauð, og tunnu öl í níu vikur, brennivín á morgnana, þegar
kaupmaðurinn sá oss það þénanlegt. Eftir það við höfðum útlosað skipið og það
aftur hlaðið, ef so mikið var í spekkhúsinu af selspikstunnum og annari vöru,
sem voru skinn og hvalbarðar, refaskinn og hara, skyldum við upp á mosann að
skera torf til eldiviðar um veturinn. Vera uppi um miðjan morgun. Um dagmál eta
vatnsgraut. Ef við höfðum smjör að koma í hann, það var gott fyrir okkur, en ef
ei hefðum, fengum við ei meir fyrri en tíðin var úti. Nú var soðið fyrir oss
ket um þriðjudaginn og fimmtudaginn og ærter til, sem var einn peli til hvers
manns. Það skyldi kokkurinn matreiða um miðdaginn. Á mánudaginn, miðkudaginn,
föstudaginn og laugardaginn graut; hvert við vildum slá öl í hann eður smjör var
vor eigin sök.

Þegar við gjörðum nokkuð, áttum við
að fá staup, ef kaupmaðurinn hefði það. Annars voru tvær tunnur brennivíns til
niú manns um árið. Eg seldi mitt kýrket til prestskonunnar fyrir krúð og blý,
stundum saumnálir. Þegar við höfðum skorið torfið, skyldum vér út í eyjarnar og
langs landið, 15 vel 18 mílur, að snuðra eftir rekavið til eldiviðar. Vorum
burtu fjórar – fimm vikur. Stundum urðum vér matarlausir, skutum fugla, endur,
rjúpur og hara. Stundum kunnum vér ei komast fyrir ís, þegar sunnanveður gengu.
Það skeði oft við þaug lélegheit.

Við kunnum fara upp á þaug hæstu
fjöll í Grænlandi og aldrei sjá so mikið opið vatn sem einn fugl skyldi kunna
setja sig á. Sá ís kunna fara burtu á einni nóttu, so mikið að segja, það við
kynnum fara ferðir vorar. Hann kunni og vera í mánuð, so kaupmaður mátti senda
grænlenzka á þeirra smábátum til okkar með fæðu, því þeir eru so léttir, að
þeir kunna bera þá á höfði sér sem létta byrði. Þeir kunna og sofa í þeim á
landi, því þeir eru umvafðir með skinni. Í þeirra botni er innst tvöfalt
hundaskinn. Þeir eru niðri í þeim mest undir bringu. Á efri kroppnum hafa þeir
fyrirskyrtu af fuglaskinni og snúa loðnunni inn til kroppsins. Þar yfir hafa
þeir peysu af hreinskinni, sem er so heit, að þó þeir væru í mestu hörku, sem
hér gengur í landinu, skaðaði ekkert. Þar yfir eru þeir í vatnsheldum
skinnstakki með áfastri hettu. Þegar þeir á leiðinni kunna fanga sel og fugla,
eru þeir í góðu standi, því þeir eta selspik í mjóum lengjum rist með skinninu,
– er þeirra bezta fæða. Þeir eta hjartað, lungun og lifrina, og blóðið sjúga
þeir. Þetta þurfa þeir ei að láta matreiða fyrir sig. Þeir fara og aldrei
nokkra ferð, að ei hafi þeir með sér vindþurr síl og selspik. Þetta er þeirra
fæða. Eg þekki þann Grænlandsmann, sem hefur góða krafta og hefur þó lítið að
eta á stundum. Það hefi eg séð með mínum augum.

Nú, þegar við erum nú heim komnir,
gjörum við oss til góða fyrir langa og slæma burtuveru. So þegar brennivínið
fer að verka í höfðinu, vill hver verða mestur. Þar af kemur ósamlyndi, eiðar
og allar skammir. Stundum verður straffið að gjöra frið. Í minni tíð var slæmt
að vera í Grænlandi, fyrir þá skuld, að þeir sögðu so illa af landinu, hvar
fyrir þeir höfðu ei gott að fá fólk þangað, sem var gjört í þeirri veru, að
kaupmaður og prestur skyldu hafa frítt uppheldi sína lífstíð, þegar þeir hefðu
verið þar ákvarðaða tíð, prestur í sex ár. Skyldi hann fá það bezta brauð, og á
meðan það ei til félli, þá kóngsins pension, sem eru 300 rd. Þeir gjöra so
aumkunarlegar reisubækur, hverja kvöl þeir hafi þar úttekið, sem einn biskup í
Íslandi hefur ei so góða daga sem þessir menn, sem er soleiðis, að þeir eru
komnir þar til að uppfræða þessa heiðingja, kenna þeim veg sáluhjálparinnar
eftir því, sem þeirra kallsbréf útvísar. Þeir ganga í skóla ellegar gengu hjá
sá. Herr Egede, sem var þar í 14 ár með sínum sál. föður, Hans Egede, er var
prestur í Norge og fékk vitran í draumi, að skyldi kristna þá grænlenzku. Eg
vil segja eftir fáfræði mínu og óska, að það aldrei hefði skeð, því þeir, sem eru
við þeirra uppfræðingu eður hvað eg skal kalla það, þeir gjöra sér þá skömm, að
heiððingjarnir kunna yfirbevísa þeim þeirra óguðlegt athæfi eftir náttúrunni.

Fyrst segi eg, þegar þeir eru komnir
undir þeirra uppfræðingu, læra þeir með það sama að drekka brennivín, hórast,
stela, ljúga, hæða aðra. Þetta allt forðast heiðingjar. Presturinn kærir sig
lítið um þá. Meðhjálparinn hefur það þyngsta erfiði í því að kenna þeim að
lesa, og þegar þeir eru so komnir, þá koma þeir inn í prestsins stofu og lesa
fyrir hönum einu sinni í viku um veturinn.

Um sumarið fer hver til sinnar
atvinnu. Þeir, sem eru norður frá landinu, þeir fara suður, þeir, sem eru
sunnan, fara norður, báðir upp á hreindýraveiði, hafa með sér konur og börn og
allt, sem þeir eiga, hunda og hlandkollur. Þegar þeir eru burt frá húsum sínum,
hafa þeir vel þeirra vetrarbjörg heima, sem eru síl, spik og selkjöt, sem
liggur í gröfunum. Ei þurfa þeir óttast, að nokkur steli frá þeim, því sú synd
er í forakti hjá öllum heiðingjum, að einn steli frá öðrum. En kunni þeir koma
til að stela frá kaupmanninum eður framandi fólki, er ei haldið fyrir synd, því
þeir eru ríkir og stela frá þeim í kaupum og sölum.

Nú eru þessir grænlenzkir á þessari
hreindýraveiði, so vel þeir kristnu sem heiðningjar, til Mikelsmessu. En fyrr
en heiman fóru, afla so mörg síl, og það á einum degi, að eþri með konum og
b-rnum hafa meir en nóg það ár, jafnvel þó þar séu þeir heiðnu grænlenzkir, sem
hafa tvær eður þrjár konur að forsorga, og það sem er enn nú mest, að þær og
maður þeirra hefur allar eins kærar, og þær forlíkast vel innbyrðis.

Þegar hreindýrajaktin hefur enda eður
slær feil, er tíðin þeim ei ónýt, heldur iðka þeir sína selaveiði og koma heim
með mikið selket, hreindýrs og hara, já, þeir koma með bátinn fullan heim. Þessi
bátur er með innviðum sem annað skip og yfirdreginn með skinni. Eru gjarnan
þrjár árar á borð. Hann er langur og mjór, langur er hann sem útlenzk jakt.
Þegar sjór gengur, eru tvær kajaker á hverri síðu, að ei skuli um veltast af
öldunum. Þegar hann er í sjó tvo daga, verða skinnin vot, og má þurrkast þann
þriðja dag. Þessum báti rær kvenfólk, en einn karlmaður stýrir hönum. Þeir
brúka tvö segl úr skinni. Það eina mastur er í miðju skipinu, það annað á
framstefni. Þar eru og tvö horn af tré, að ei skuli skaðast af ísnum.

Nú finnast þessir landsmenn. Þeir að
sunnan mæta hinum, sem koma að norðan, hver með sína vetrarbjörg. Verður þar
fagnaðarfundur á báðar síður. Þeir setja landtjöld sín þétt hvert hjá öðru,
taka trumbu sína, sem er ein gjörð af tunnu. Þar yfir er þanið skinn hárlaust.
Nú brúka þeir spýtu að slá með á skinnið, so það heyrist aðeins. Allt kvenfólk
er úti, þegar þessi leikur hefst. Spilamaðurinn syngur sjálfur og allt
kvenfólkið með. Þegar það kemur að atriðisorðunum í þessum söng, verður spilamaðurinn
frá sér og sem vildi falla í öngvit. Allt so má þó kvenfólkið halda þjónustunni
fram, að ei verði messufall. Nú kemur spilamaðurinn til síns forstands, verður
öruggur í slættinum, grettur í andliti og afskræmdur í öllum líkamans limum af
þessu. Ei skildi eg inntak í þessu leikfangi. Eg dæmdi með mér, að þetta væri
heiðingleg skemmtun.

Að því búnu fór hver að sýna öðrum
sinn aðdrátt og ríkdóm. Að síðustu héldu hver öðrum veizlu, kunnu vera saman í
3-4 daga. Þessir eru nú réttirnir: 1°vindþurr hafsíl, 2°rotið selket,
3°vindþurrt selket, 4°kogt selket, 5°selkets bóðsúpa, 6°hreindýragor í skálum
fram borið með spikbitum í, 7°krækjuber með selspik, 8°marhnútasúpa með lýsi í,
9°sjósöl eður þess konar, sem er í þaranum, með löngum blöðum, 10°hart haraket.
Þar eru vel fleiri, en eg hefi gleymt þeim.

Nú fer hver sína heimreisu. Mennirnir
fara hver til síns heimilis, og sem þeir heim komnir eru, iðka þeir selveiðir
sínar, en konur fara að gjöra að bæjum sínum, að það kunni verða vörm híbýli
þeirra. Nú höfum við öngvan frið í kaupstaðnum, því þegar þeir fara að veiða
selinn, koma þeir strax til kaupmannsins, og báturinn út með assistentinn og
5-6 menn. Þetta varir so lengi sem sjórinn er opinn. Við kunnum fara 12, 17, 18
mílur burtu, og hver hefur sinn mat með sér og eitt brekan, svæfil og
undirdýnu. Þar sem höfnin er slæm, skiptunst vér til að aðgæta bátinn.

Þó höfum við alltíð með oss byssur og
korða, ef nokkuð kann í skerast. Þegar kaupmaður er ei sjálfur með, kaupum vér
allt, sem kunnum kaupa, so sem skinn til klæða. En refaskinn þorum vér ei að
kaupa, því þó vér keyptum þaug og þeir, sem oss seldu, þegði, þá fær þó
kaupmaðurinn það að heyra af öðrum, bæði það, sem vér gáfum fyrir, og hvað mörg
refaskinn, so kaupmaðurinn hefur það löngu heyrt, fyrr en heim komum, so við
megum sjálfir afhenda hönum þaug eður missa vor laun. Hann veit og, hvert vér
höfum forlíkazt á reisunni, – allt þetta veit hann mikið gott, – hvert nokkur
af oss hefur falað þær grænlenzku stúlkur og hver það var af oss.

Grænlenzkir eru eins og fugl
fljúgandi á vatninu. 12, 16 mílur æstimera þeir ei meir róa með þeirra
skinnbátum en vér með vorum tvær mílur. So þegar þeir hafa róið so langan veg,
kannske erindið er mikið lítið. Þeir hafa vel tvær rjúpur, þá einu skal
kaupmaðurinn hafa og aðra presturinn. So til baka hefur hann tvo þumlunga
tóbaks. Kannske reisan er 16 mílur. Þar eru og þeir, sem fóru fyrir oss 30
mílur til Godthaab (Góðrar vonar) fyrir fjórar brauðkökur og hálfalin tóbaks,
því þeir fanga á reisunni til fæðunnar annaðhvert sel eður fugla. Þegar þeir
heim koma, kunna þeir ganga í kaupstaðnum vikum saman, bara ef einhver gefur
þeim tóbaksþumlung, og selveiðina forsóma þeir. Þegar einn grænlenzkur hefur
fengið sel, hann skal aldrei fara á sjóinn, meðan hann hefur nokkuð af hönum til
baka, bara að slóra hjá presti og kaupmanni, því þó hann hafi spik að selja,
fær hann so lítið fyrir það, kannske eitt krúðskot.

Fyrir eitt pílujárn fær hann
kaupmanni fjögra sela spik. Pílujárnið kostar sex skildinga. Þegar
Grönlenderinn hefur so mikið spik, sem hann brennir í lampa sínum, hefur og nót
til fæðu, – það, sem er til baka, hefur hann ekkert gott af. Því eg vissi,
þegar eg var í landinu og grænlenzkir höfðu fangað, að þegar þeir fyrir krapís
kunnu ei koma til hans (kaupmannsins), varð spikið ónýtt um vorið, þegar vér
komum til þeirra, því krapís eru þeir hræddir fyrir, því það hefur við borið,
að þeir hafa orðið að láta sitt líf við sömu lelighed. En hvað mikið brim sem
gengur, virða þeir að litlu, því ef sjórinn velti bátnum, eru þeir eins glaðir,
so lengi þeir missa ei ár sína, því þegar einn drengur er 10 til 12 ára að
aldri, þykir hönum mesta gaman að vera þar, sem boðar ganga yfir eitt sker, og
láta boðann slá sér yfir skerið. Þá veltur skinnbáturinn um koll, kannske
tvisvar, þrisvar. Þar af hefur hann gaman. Ellegar þeir koma til skipsins,
þegar það liggur á höfninni, og þeir dönsku biðja þessa drengi að velta bát
þeirra um koll, gjöra þeir gjarna fyrir eina saumnál, eg má víst segja tíu
sinnum, því þegar höfuð er undir, snúa þeir sér upp með árinni, og ekkert vatn
kemur á þá, því allt er þétt. Þeir láta vel hvalbeinshnappa upp í nasir sér, en
munninum halda þeir saman.

Nokkrir af dönskum fóru að róa í
þessum bátum og kunnu ei læra það. Guðmundur Guðmundsson vildi og læra þessa
list, hvar fyrir hans vinstri armur gekk úr liði og varð aldrei jafngóður til
hans dauða. Þetta skeði hjá okkur á Friðriksvon. Síðan sagði Wulf, hver af
okkur, sem reri í skinnbát, skyldi straffast á kroppnum og gefa fátækrapeninga,
en það dirfðist enginn, því til þess þarf daglegur barnsvani. Líka so að skjóta
með pílum. Þar skal daglegur vani. Þó grænlenzkir sjái ekkert fyrir augunum,
sem fanga kynni, skjóta þeir samt, so að þeir skyldu vera vissari upp á hendur
sínar, þegar á þyrfti að reyna. Þeir hafa og brúkað píluboga. Vængirnir voru af
hvalrifi og örvarnar af hvalbeini. Eg talaði með einn gamlan Grænlending. Hann
sagðist hafa skotið tvö hreindýr í einu skoti. Þaug höfðu verið hvört hjá öðru.
Nú eru þessar byssur komnar, sem hver einn brúkar. Einn drengur 10 ára er so
viss upp á byssu sem sína pílu. Eg tala ei um, ef þær væru að gagni. Á
Friðriksvon voru so margir drengir, sem út gengu fyrir oss að skjóta til jóla
rjúpur og hara með vorum eigin byssum. Stundum fengu þeir góðan afla. Þessir
drengir gengu hjá kokknum. Þeir urðu glaðir að njóta þeirrar æru fyrir alls
ekkert. Danskir voru aldrei so góðir sem þessir drengir. Vor assistent,
Roderigo, deyði á rjúpujakt, varð úti í kafaldi lítið fyrir jó, varð keyrður á
sleða heim og sex hundar fyrir.

Við keyrðum títt með þeim upp í
Hvannafjörðinn, sem var 12 mílur að lengd, þegar þar fiskaðist heilafiski.
Stundum fiskuðu grænlenzkir karfa. Þeir voru mikið stærri en þeir, sem hér
fiskast á 120 faðma djúpi. Þeir gjörðu snjóhús við vakirnar, höfðu hvalbarða
fyrir færi, hnýttu endunum saman, sem var ei gjört í hast. Heilafiskið var mest
svart á báðum síðum, var mikið feitt, því þegar það skyldi matreiðast, varð það
sem súpa saman blandað við soðið. Eg fékk þar og smáþorsk. Hann var mikið magur
á sama dýpt.

Kort að fortelja: Þar var ekkert
fiskirí hjá okkur utan marhnútar og þessi síl, sem eg hefi um talað. Eggver og
ei heldur. Eg keypti einu sinni sjö andaregg af einum grænlenzkum á þeirri
Góðuvon. So heitir sá kaupstaður. Hann var sá fyrsti, sem Friðrik fjórði
innréttaði. Hann vildi vita, hvert ei gæti kristnað landið. Þá fengu slafar
eður fangar þá skipun, að þeir skyldu, ásamt kvenfólki frá spinnhúsinu, mæta í
soldátakirkjunni í Kaupinhöfn, – og var bundið fyrir augu þeirra, – að hver
slave skyldi taka sér konu af þessu kvenfólki, sem og skeði. Þeir fóru til
þessa kaupstaðar, sem eg um talti, en þegar þangað komu, varð landið þeim allt
for kalt að lifa þar upp á slafa fæðu, hvar fyrir þessir aumingjar dóu þar út,
og þeirra legstað hefi séð. Það var í ungdæmi mínu, eg heyrði um getið, að fólk
skyldi út takast frá Íslandi til Grænlands. Það var til þessa sama plátz.

Þessi Góðavon er betri kaupstaður en
sá, eg var á. Þar var Síra Egill Þórhallason prestur og prófastur. Þar var og
Guðmundur Guðmundsson. Þar er mikill æðarfugl, og erfiðisfólk hafði stóran
ábata á eggjum og dún, því Guðmundur sendi Stykkishólms kaupmanni æðardún. Þá
óreglu afskaffaði Egill Þórhallason, af fáum vel upp tekið, því það kom hönum
ei við, en fyrir að koma sér í vinfengi við kompagniet skrifaði hann þessa sök
soleiðis, að þessi dún skyldi leggjast til höndlunarinnar. Síðan varð undir
straff afsköffuð þessi óregluleg meðhöndlan. Þetta er hið fornemsta, þessi
íslenzki prestur gjörði í Grænlandi. Allir hinir, sem voru danskir, kærðu sig
ei um höndlunina. Íslenzkir yrðu ei dönskum betri í sumum sökum. Nú er hann
dauður og begrafinn. Eftir lifir mannorð mætt, þó maðurinn deyi.

Nú er eg á reisunni eftir rekaviði,
nokkuð til byggingar og nokkuð til eldiviðar. Á þessari reisu mættum við mörgum
grænlenzkum. Þessu gleymda eg, þegar fór að tala um þessa eður þeirra flutning.
Þegar við áttum fimm mílur til kaupstaðarins, varð vindurinn oss mótfallinn, so
við máttum sigla til einnrar eyjar og vera þar um nóttina. Þar voru tvö
grænlenzk tjöld. Við komum þangað. Þar var ekkert að heyra utan grát og gól.
Allt kvenfólkið sat í einum hóp og karlmennirnir fyrir sig. Allt grét.
Kvinnurnar grétu sem hundar setja upp spángýlur, en mennirnir voru allt hægari.
Orsökin var þessi, að þeir sunnlenzku og norðlenzku, sem á þeim skipum voru og
eg heyrði, að skyldu vera í ætt hver við aðra, höfðu lengi ei saman talað.

Nú fóru þeir að tala um tíðina, hvörnin
hún hefði sig umbreytt á þessu ári. Því sögðu mér margir danskir, að þetta fólk
hefði saman búið þar syðra, þó lengi væri nú síðan. Orsök til þessa gráts var
ástvinamissir og giftingarstand. Við heyrðum so lengi uppi vorum sömu hryggðar
atferð, og alla tíð mitt í harminum var Angegok nefndur. Það var þeirra
spámaður eður prestur, sem heiðingjarnir setja sinn átrúnað á. Og viti menn:
Þessi heiðingi verður í mörgu sannorður í spádóm sínum. – Allir prestar í
Grænlandi eru hönum mótfallnir og vita ei, hvar frá þessi speki skuli koma, að
einn heiðingi skuli hafa so mikinn klókskap um guðlega hluti, eg meina að spá
um hulda hluti, sem er um gæfu og ógæfu. Presturinn á Góðuvon, Herr Brun, var
oft í ósamþykki við þennan Angegok, það er spámaður. Þó heyrði eg sagt, að
grænlenzkir hefðu drepið einn fyrir rangan spádóm.

Þessi spámaður er heiðingjanna
hjáguð, sem þeir ráðgast við í upp á fallandi nauð og bágindum, en Nalegasuak
er þeirra ypparsti og mesti guð. Hann hefur skapað sól og stjörnur, himin og
jörð, og allt gott gjörir hann. Sá annar er Tornasuak eður underjords guð. Hann
gjörir ei annað en það, sem þeir hryggjast af, so sem er hörð veður, aflaleysi
upp á alla atvinnu bæði til sjóar og lands. Þennan eru þeir hræddir við. Þeir
segja, að þessi himins og jarðar guð, hann gefi þeim so ágæta jörð að vera á,
þegar þeir skulu héðan fara fyrir þann tímanlega dauða, að þar séu so margir
selir og fulgar, að þeir kunni afla þar á einum degi meir en þeir kunna hér á
heilu ári, og jörðin, sem þar er, sé so græn og blómleg með alls konar ávexti,
so sem krækjuber, bláber og einirber, þar fyrir utan so mörg hreindýr, harar,
rjúpur og aðra landfugla. Þar fyrir þegar þeir deyja, láta þeir sig inn setja í
helluhús hæst á fjöllum uppi í þeira skinnbát sem þeir lifandi væru, í bezta
búningi og veiðarfærum. Því hærra fjallið er, því betra er það eftir þeirra
meiningu. Þegar þeir eru þar upp bornir, er ei annað en sorg og harmur að
heyra.

Eg hefi aldrei heyrt nokkurt fólk
syrgja so aumkunarlega sem þeir grænlenzku hver aðra, en kvenfólksins harmur
yfir gengur. Það er ei gjört einn dag eður og mánuði, heldur til þeirra dauða,
því það hefur óviðráðanlega geðsmuni. Það sá eg á einni konu við kaupstaðinn.
Hún hét Helvig. Þessi ekkja hún skreið á hnjánum öll þaug ár, eg var þar, hafði
þó ei börn, sem lifðu. Halldór Eiríksson átti barn við henni eftir lýsingu
hennar, þó ei meðganga vildi. Hún var bæði skírð og kunni sinn kristindóm. Það
voru og so þær aðrar kvinnur, sem voru giftar í kaupstaðar nábýlum, so sem
beykirs konan, meðhjálpara eður djákna konan, Jóns Jónssonar kona. Allar þessar
vildu sér sjálfar ráða, þegar til efnanna kom; voru annar hlýðnar og
undirgefnar, þegar að óskum gekk.

Eg vissi einn grænlenzkan prest,
ættaðan frá Jullandi. Eg talaði við hann í Sjálandi. Þar hafði hann fengið
prestabrauð. Átti grænlenzka konu, er hann hafði með henni saman búið í
Grænlandi víst fimm ár. Áttu þaug saman þar tvö börn, dreng og stúlku. Þegar
hingað kom átti hún tvíbura, og dreng og stúlku. Gaf þeim báðum að eta og
drekka af brjóstum sínum. Nú var gott á milli hjónanna. Hún var óvön landsins
ásigkomulagi, hvar fyrir presturinn mátti taka sér jómfrú, sem bæði skyldi taka
á móti prestum og öðrum nafnkenndum mönnum, sérdeilis þegar hann var ei sjálfur
í nærveru; einninn sjá eftir hússins eður heimilisins háttalagi í einn og annan
máta, sem hann kunni ei sjálfur úr ráða, því sú grænlenzka kona vissi ekkert um
þvílíkar sakir að sýsla. Þegar hún var komin þar, varð madaman undarleg í
orðum, so presturinn mátti ganga úr vegi frá henni. Hún var karlmaður í
kröftum, saumaði kvenna bezt bæði klæði og léreft. Þegar þessi reiði kunni ei
dempast, heldur fór vaxandi, fór hún gangandi út í sóknina, óð bæði sjó og
bleytu sér í mitti og var með mikillri sönglist, sem enginn af dönsku fólki
kunni skilja, því hennar tungumál var ei skiljanlegt fyrir þá dönsku. Nú, sá
bóndi, sem hún til kom, mátti færa hana heim til prestsins aftur. Á veginum var
hún alltíð syngjandi, og bændur sögðu mér, að það hefði títt verið, að hún
hefði tekið þá í hrygginn og hrist þá. Þó sögðust þeir hafa verið mest hræddir
fyrir hníf eður öðrum voða. Þessir gjörningar höfðu skeð oft, eftir það
jómfrúin hefði þar komið. Þó mátti hann láta konu sína ráða uppteknum hætti og
reisa heim til síns föðurlands, fyrst til Kaupinhafnar og þaðan yfir 600 mílur
til sjós, allt upp á sinn bekostnað. Og að henni burt restri kom biskupinn að
vísitera og heyrði um þetta talað. Hótaði hann prestinum, að sitt kall missa
skyldi, ef ei sína konu aftur fengi. Þetta skrifa eg til bevísingar upp á mína
ræðu, þegar talaði um stífsinni grænlenzkra kvenna.

Nú vík eg hér frá og fer að tala um
þann grænlenzka spámann, sem eg fyrr um talaði við víkjandi hans embættis
útréttingum í giftinga sökum. Þegar einn yngismaður vill gifta sig einni
stúlku, sem fyrst er undirtalað þeirra á milli, þó heimuglega, – hann fer til
spámannsins og fortelur hönum sinn ásetning og óskar hans nærveru og embættis
útréttingar í þessum hjónabands undirbúningi. Og so er þar viss tíð upp sett,
sem spámaðurinn lofar sér þangað komnum að vera. Dagurinn kemur og margir
grænlenzkir þangað safnast, sérdeilis vinir og ættingjar. Nú eru giftar konur
fyrir sig og giftir menn, stúlkur fyrir sig og yngismenn fyrir sig. Þar varða
nokkur orð töluð, sem eg skildi ei, þar til eg sá, að þessi ungi maður gengur
þangað, sem þær mörgu stúlkur voru, tekur eina af þeim í hárið og dregur hana
til spámannsins og segir: „Þessi er sú, er eg vil hafa“. Nú mega aðrar stúlkur sjá,
að hún nauðug má afbrjóta stúlkna selskapinn, hvar fyrir þær kunna henni ei
reiðar vera, því þetta er á móti hennar vilja, sem þær sjá mega, að hún með
harðneskju er slitin úr þeirra selskap. Þessar persónur koma fram fyrir
spámanninn, og talar mörg orð með fingranna bending til sólar, stjarna og
pláneta. Hann benti og til jarðarinnar undirdjúps, sem var Tornasuak. Það er að
segja, hann talaði um guð himnanna og djöful helvítanna fyrir þeim. Aðrir
grænlenzkir sáu mikið upp á hann. Að síðustu segir hann þeim þeirra lukku og
ólukku, þeirra lán og ólán til sjós og lands, þeirra barnafjölda og langlífi,
hvert þeim sé ætlaður langur aldur eður ei, hvert af þeim fyrst burt kallist og
fyrir hvern sjúkdóm, og lengi það síðara lifi og fyrir hvern sjúkdóm í burtu kallist,
eður og, ef það er maðurinn, sem lengur lifir, hvert hann sig aftur gifti.
Þetta hefur hann allt þeim fyrir sagt í so margra manna viðurvist sem orð hans
heyra.

Í minni tíð voru ei utan tveir í
Grænlandi, sem eg heyrði um talað, annar norður á landinu og annar suður. Þeir
kunna að reisa 80 – 90 mílur upp á þetta gjöglerí. Þeir hafa og bevísað þeirra
sannsögli, sem mönnum er kunnugt þar í landinu. Eftir allt þetta er farið að
halda gestaboðið með áður sögðum matar tilbúningi, og so neftóbak. Þessir aumingjar
vita ei af betru að segja en sagt hefi, eru so vel ánægðir með hver annan utan
kífs og haturs. En gamanvísur brúka þeir, hverjar þeir kveða á samkomum um ný
tíðindi, so sem um giftingar, ef ungur maður á gamla konu eður gamall maður á
unga konu, eður um þann, sem ei fangar gotselinn eður missir sín veiðarfæri af
ógáti eður gleymir þeim. Þetta gefa þeir spilamanni til vitundar, sem slær það
á trumbu sína, og allt kvenfólkið syngur undir, þegar vísurnar eru út lærðar.
Þetta gjöra þeir sér til gamans með öðrum leikum, sem þá upp koma, so sem er
trekkja króka með fingrunum eður að vita, hver er sterkastur í andlits og augna
brögðum. Líka hver kann vera sterkastur í handleggjunum og krækja handleggjunum
saman um olbogabótina. Sá, sem getur upp rétt annars handlegg, hann hefur
unnið. Einn er leikurinn þessi, að þeir taka einn skinnböggul á vetrartímanum
og fylla hann upp með hey, þegar þeir koma að sunnan og norðan. Þar skulu vera
álíka margir í hvörjum hóp. Þeir kasta þessum skinnböggli með fætinum. Verði
hann að síðustu norður upp á, hafa þeir norðlenzku unnið, en verði hann suður
upp á, hafa þeir sunnlenzku unnið. Þetta gjöra þeir sér til gamans, en ei til
illinda. So þegar leikurinn er úti, fara þeir til kaupmanns og fortelja hönum
tíðindin. Hann gefur þeim tóbaksþumlung fyrir þeirra sigur. Kvenfólk hefur og
leikfang með því, að sú eina heldur í höndina á þeirri annari og gjöra sem
kvíar, að þegar sú síðsta út gengur, hana fanga þær. Þær hafa og skollaleik og
hnappleiki. Aðra man eg ei að segja. Alla tíð eru þeir kátir og lystugir, mikið
nýtnir upp á fæðu. Þegar þeir eta selket, kroppa þeir so vel af beinunum, að
það er ei mögulegt betur að gjöra. Það sýndist mér vest að sjá, þegar þeir átu
lýsnar af sér, bæði karlmenn og kvenfólk, og það annað, að þær sleiktu börn sín
með tungunni, þegar þaug höfðu gjört sig óhrein, og hræktu so út af munni
sínum.

Þó þú sjáir einn grænlenzkan upp á 80
ár, skaltu ei sjá skegg á hans andliti meir en á mínu handarbaki. Kvenfólk og
so á þeim leynilega stað. Það uppreytist með rótum frá fyrstu tíð, það lætur
sig sjást, og þar til brúka þeir kníf.

Grænlenzkir eru litlir að vexti með
söðulbakað nef, svart hár og gulleitir í andliti. Þar eru þeir, sem eru stórir
sem kóngsins lífgardarar, en þeir eru fáir.

Þar eru og margir blendingar, sem eru
af útlenzkum þjóðum, því það þykir þeim virðing að liggja undir útlenzkum, þó
giftar séu, og kannske maður konunnar bjóði hana fram fyrir lítinn betaling,
því það sagði vor kaupmaður til okkar, þegar við vorum á spikreisum og hann lá
hjá þeim um nóttina og við í bátnum, því þar var plátz fyrir fjóra menn, sem
var eins og káveta aftur í bátnum. Þessir giftu menn vildu koma sér í meiri
vináttu og virðingu hjá kaupmanni, að hans kona fengi börn af kaupmanni gjörð.
Þó við aðrir vildum fá þær grænlenzku stúlkur til frillulifnaðar, kynni gjarnan
ske, en það er verst, að þær vilja ei yfir því þegja við þeirra vini, sem eru
þær aðrar stúlkur. Þær af heimsku og málæði kunna ei slíkt dylja fyrir
grænlenzkum. Sá fyrsti, er það heyrði, tekur bát sinn og fer til kaupstaðarins,
fortelur þetta prestinum, ef kaupmaður er ei heima, og jafnvel þó heima sé,
skulu báðir þessa ávirðingu fá að heyra, að sá sekaði fái sín laun. Það er
straff af kaupmanni og harða leysingu af prestinum í allra viðurvist í
kirkjunni. Því þeir sögðu oss, eg meina prestur og kaupmaður, að ef við ættum
börn við þeim heiðnu grænlenzku stúlkum, kostaði oss kóngsins ævarandi slaverí,
– forordningin var oss ei opinberuð, – en ættu við börn við þeim skírðu
grænlenzku stúlkum, kostaði það, að vér skyldum taka þær til ekta og vera þar í
landinu vora lífstíð, vera í kompagniets þénustu so lengi erfiða kynnum, og þá
vér ei kynnum, þá lítið til lífsuppheldis.

Margir íslenzkir dóu í minni tíð af
fyrr um töldum skyrbjúgi. Þar til var mesta orsök of mikið saltfæða og lítil,
sem vér Islender erum ei vanir til, mest það mjólkin er í burtu og það bara
vatn að drekka, frostin meiri þar en hér, og eg má segja, eg drakk meir vatn í
Grænlandi en öl. Hvað lengi skylda eg vera um að drekka um daginn 3 merkur öls,
sem eg brúkaði mest til að varma og drekka mér til hita. Þar er mikið erfiði,
sérdeilis þegar vér erum á spikreisum. Kunnum ei öl með oss hafa, þó hefðum.
Höfum ei annað en þessar tvær svartabrauðskökur um daginn og lítið smjör til,
sem eru þrjár merkur um vikuna og tvær merkur af saltgamalkýrketi bæði seigu og
mest horuðu. Grjón og baunir fáum við ánægjanlega af, þegar heima erum. Vor
laun eru 30 rd. um árið. Þar fyrir kaupum vér léreft, peysur íslenzkar á sjö
mörk, duggarasokka, klúta um hálsinn og allt vort tóbak, nú krút og blý, ef ske
kynni við fengjum rjúpur eður hara til hjálpar og drýginda við vorn litla kost.

Þegar heima erum, finnur kaupmaður
upp á eitthvað erfiði fyrir oss, sem er um veturinn að hjálpa timburmanni með
hans timburmanns verk, beykirnum með hans tunnur, sem eru til ætlaðar undir
spikið, að fylla þær upp með vatn, moka snjóinn frá öllum húsum, sækja vatn
fyrir kokkinn og brugga öl, þegar þess við þarf, með öðrum til fallandi erfiðis
útréttingum bæði heima og með sleðaferðum, þegar ísinn lagður er, til
grænlenzkra eftir spiki eður til rjúpna, ef kaupmannsins skjötter hafa fengið,
sem eru kannske langt burtu. Það er so vandasamt að vera í þeirra þénustu,
sérdeilis þegar þeir mega ráða og regera sem þeirra stoltheit þeim fyrir
skrifa, og þeir eru óhultir, að enginn þorir að tala þeim í móti, so sem eru í
Grænlandi. Þar eru þeir sem kóngar og herrar og hafa öngva yfir sér. Þenkja
grænlenzkir, að þeir séu guðir á jörðinni, og heiðra þá sem sinn kóng.

Nú eru orðnar stórar forandringar,
síðan eg fór þaðan. Þar var hverki fé eður kýr, svín eður höns í minni tíð. Nú
þegar hingað reisti, þá talaði eg við einn prest þaðan nýkominn. Hann sagði
mér, þangað komnar væru yfir 200 kýr, sauðpeningur í mengd, höns og svín líka
so. Tvö yfirvöld, sem væri einn jústizráð og kansellíráð væru þar yfir komnir,
sem skyldu eftir sjá og í dæma öllum þeim sökum, er tilfalla kynnu milli
kaupmannanna og fólksins, og ekkert undir stól stinga af því, sem væri fyrir
þeim klagað. Þar fyrir kynni og öngvir til landsins brúkan takast, sem ei hefðu
skýlaus attester að framvísa upp á báðar síður so vel fyrir yfirhafandi sem
undirgefna. Og þeirra laun forbetruð.

Eg þori að segja, að Grænland er í
mörgum póstum betra en Ísland er. Fyrir það fyrsta sá eg það land þar, sem hér
eigi hefi séð so gott fyrir fénað, sem var við marga firði. Þar voru hálsar
milli þeirra, allir með lyng og smá töðugresi á báðar síður, hvar í bland var
einir og aðalbláberjalyng. Þessir firðir skáru sig inn í landið sjö eður átta
mílur.

Þegar eg kom inn í fjarðarbotnana,
voru þar þurrir og breiðir harðlendisbakkar með töðugrasi. Mitt í dalnum var
ein á, sem hafði sín upptök við fjallakantinn eður upplandið. Hún rann í
fjörðinn, var full með silunga, en grænlenzkir höfðu ei net eður önnur
veiðarfæri til að fanga hann með, utan hvað þeir tóku hann undir þeim hnausum,
er fallið höfðu af bakkanum og silungurinn undir lá. Við fengum ein deil af
þeim fyrir tóbak. Þegar eg kom að hálsarótunum, var birkiskógur á báðar síður
árinnar, því mér sýndist, hér ekkert á vantaði utan alleinasta fiskiaflann.
Annars var þar selveiði hin bezta, útigangur fyrir fénað og so hinn bezti,
allir sjófuglar og úteyjar margar, í hverjum þeir grænlenzku íbjuggu. Annars
hefði þar verið varp mikið gott. Hvar þessir grænlenzku, sem ekkert hafa sér
til fæðu utan sel og fugl, hafa sín híbýli, hræða þeir fuglinn burt. Eg hefi og
aldrei etið so mörg bláber sem í Grænlandi og harasteikur.

Þegar vér gengum fram eftir dalnum
til fastalandsins og vildum kanna landið, sem var með klettum, fúamýrum og mosaþúfum
fullum með fjallagröum, komu í mót oss jökla endar. Á þeirri leið sáum við hara
og rjúpur í mengd, tóur margar og bjarndýrsspor. Við fórum enn lengra upp í
landið, inn til að síðustunni vorum umkringdir með jöklum á allar síður, og það
mest var, þó vér hefðum lyst hærra upp í landið að ganga, komu á móti oss
sprungur í jöklana, so breiðar, að enginn kunni yfir að koma, so djúpar, að eg
hefi heyrt eftir hollenzkum, sem eru forvitnir um að rannsaka veraldarinnar
ásigkomulag, er skriftir þeirra út vísa, þeir hafa viljað finna botn í þessum
sprungum, með færum 200 faðma löngum, og hefur þó verið forgefins. Þó er hér um
að segja, að öll hreindýr hafa sitt uppheldi upp í landinu, því þaug koma ei
til undirlandsins, fyrr en kálfar þeirra eru so stórir, að sér forða kunna, ef
þeirra óvinum mæta. Eg meina þeim, er vilja skjóta þá. Þar eru og bjarndýr, er
aldrei koma til byggða eður til strandar fyrr en í stærstu nauð. Hreindýrin
koma og ei til sjóarsíðunnar fyrr en á milli krossmessu og fardaga, fara burt um
Mikelsmessu. Endilega má upplandið vera gott, þar hreindýrin sjá vel út á
vorin. Annars lifa þaug mest við gras og klettamosa, er þaug skafa með tönnum
sínum. Þessi er hinn meiri grundvöllur ræðu minnar, að bjarndýr sér þar
upphalda, hvör eð þurfa sérdeilis til fæðu sinnar ket og fisk, þar ei kunna
gras eður mosa éta sem önnur dýr, er næra sig af jarðarinnar ávexti.

Nú hefi eg sagt um það, eg sá á
þessari reisu, sem var um haustið 1755. Það sama haust byggðum vér upp vort
bruggarhús í betra formi en það var fyrri og ristum þar upp á torf á þeirri
mýri, er vér torf skárum, og fórum ei burtu, fyrr en spikferðir gjörðum. Nú
höfðum fengið nýjan assistent, er Roderigo hét, ónýtr til lands og vatns,
fæddur í Nakskov í Lolland, er dyeði um veturinn lítið fyrir jó og g hefi áður
um talt. Hann stýrði julunni, en kaupmaður bátnum.

Þetta var um veturnætur, er heiman
fórum. Urðum lengi burtu fyrir illviðris sakir. Þegar komnir vorum til
Samiliasok, sem var fjórtán vikur (sjávar) frá heiman, kom öskumold upp á oss,
so við lágum þar þrjá daga og nætu. Einn dag fór maðurinn (Grænlendingurrin,
sem bjó þar) að fiska marhnúta á víkinni, því þar var logn undir þeim háu
fjöllum, er þar voru. Snart eftir maðurinn var út genginn, kom hans kona til
kaupmannsins og segir: “Nú máttu láta þénara þína ganga í burtu inni í húsið,
sem það ógifta fólk er í, því í dag leggst eg á gólf og kannske nú strax”.
Kaupmaður fortelur sögu hennar, og við fórum strax inn í þetta hús, en þar var
ei á milli utan selskinnatjald, so við heyrðum mikið vel, hvað þar inni fram
fór. Var kallað á eina grænlenzka gamla konu, er skyldi yfir henni sitja og
aðgæta í hennar barnsnauð. Og so snart hún hafði lagt sig niður, heyrðum við,
að hún einu sinni gaf sig lítið eður stundi. Heyrðum vér barnsgrát, en móðirin
þagði. Sú gamla kona tekur barnið og ber það þrisvar um kring húsið eftir
þeirra skikk og máta, kemur inn aftur og fær henni sitt barn. Konan spur, hvert
hún hafi gefið gætur að manni sínum eður ei. “Eg sá hann, mér sýndist hann væri
á heimferð”, sagði sú gamla kona. “Eg vil fara á fætur og taka á móti ans
fiskiafla. Fáðu mér mitt skinnfat”. Hún gjörði so sem hún bað. Þær klæddu
barnið í fuglaskinnsskyrtu með áfastri húfu á. Barnið tekur hún og lætur á ak
sér og bindur fyrir neðan með ólarbandi, gengur síðan til mannsins og tekur
úlkukippuna (marhnútakippuna) af hönum og ber heim til bæjarins. Þetta sá eg og
heyrði. Eg fornam og ei heldur, að hún hefði nokkur harmkvæli eftir
barnburðinn.

Nú var kafaldið eins mikið sem fyrr,
og urðum þar um nóttina, höfðum enn nú fjórar mílur til þess síðasta plátz, er
við til ötluðum. Um morguninn var gott veður. Voru margir skinnbátar komnir að
sunnan, sem höfðu spik að selja hönum, eg meina vorum kaupmanni. Það plátz
heitir Tikssalamik. Þangað komum við um kvöldið. Voru þar aðkomandi yfir 40
Grænlendingar, sem allir höfðu vöru hönum að selja, selspik, refaskinn,
hvalbarða, hreinskinn. Kaupmaður opnaði og sína höndlunarkistu, hvar í var öll
sú grænlenzka vara, sem þeir höfðu lyst til með klæði og kramvöru. Síðan fóru
heimabúendur að traktera þá framandi upp á þann grænlenzka máta, sem umtalað
hefi, og í máltíðinni kemur margt tal á góma, segja menn. Bland annars var
þetta, að heimamenn og aðkomandi sögðu so í uppbyrjun ræðunnar: “Nú erum vér so
margir saman komnir hér, og þessir framandi eru so fáir mót oss. Nú viljum vér
drepa þá í nótt og skulum so skipta vörunni millum oss”. Þar segir einn: “Eg
vil drepa kokkinn alleina, því hann er ei so sterkur. Þetta skulum gjöra í
kvöld”. Þar kom so mikið annað baðstofuhjal fyrir þeim. Þetta skildi ei
kaupmaður allt, en vor tömmermand skildi og í grænlenzku. Kaupmaður segir oss
að fara í þann stóra bát, – “og komið með korða, hnífa og byssur so margar sem
við erum og nóg krúð. Skuluð vaka í nótt og skjóta mínútuskot hér fyrir utan
gluggana og komið inn með mína pistole og hlaðið hana. Færið mér og korða [og]
kníf, en hver ykkar skal hafa korða við síðuna og byssu á öxlinni”. Við gjörðum
sem kaupmaðurinn sagði. Þegar inn komum, voru þeir allir að tala við
kaupmanninn um höndlunina. Þeim sletti í þögn, þegar þeir sáu pístóluna og
korðann. Spurðu að, hvað þetta þýða skyldi.

Hann sagði: “Mínir þénarar fengu mér
þetta. Ei veit eg, hvað þeir þenkja þar með. Annars er það einn tími á hverju
ári, sem þeir verða frá sínu forstandi, því þeir hafa verið í stríði utan
lands”. Í þessu fórum við að skjóta fyrir utan gluggana. Og það skalf undir;
bæði bærinn og fjöllin tóku undir.

Þeir sögðu til kaupmanns: “Farðu út
og seg til þeirra, að vorar konur og börn eru hrædd fyrir þessum ósköpum.
Segðu, þeir skuli vera góðir”.

Kaupmaður segir: “Ei þori eg að fara
út til þeirra fyrr en á morgun. Þá vil eg spyrja þá að, hvar fyrir þeir hafi
gjört sig gala, því ef eg fer nú út til þeirra, er eg hræddur um mitt líf. Nú
verðum við allir að tala ei hátt um okkar kaupmannsskap fyrr en á morgun, þegar
dagur lýsir”.

“Það er mikið, að þú efr með soddan
þénurum”.

“Eg verð það að hafa”, segir
kaupmaður. “Það er nú bezt, að við allir göngum til sængur og tölum ei so hátt,
að þeir heyra megi. Annars er eg hræddur um, að þeir taki lífið af okkur öllum,
því það kunna þeir gjöra með einu skoti”.

“Meinar þú, að þeir komi hér ei inn á
oss, ef vér þegjum”.

“Meining mín er sú, að þeir ei til
okkar komi”.

“Vér þorum ei sofa í nótt, ef þeir
skyldu drepa okkur með konu og börnum”.

“Það er nógu vel, að þið vakið, en
kallið á mig, ef þeir skyldu inn koma, því eg er líka so hræddur sem þið. Á
morgun, þegar upp stend, skal eg tala við þá, þegar við heyrum allir til, hvar
fyrir þeir eru og hafi verið so illir og reiðir í nótt. Þá fáum vér að heyra þeirra
svör”.

Gengu so allir í sæng sína með litlum
svefni um nóttina.

Um morguninn sagði kaupmaður, hvar
fyrir við höfðum gjört oss galda. Við sögðum, að þeir í þeirra samkomu hefðu
sagt, að þeir vildu myrða oss alla saman, og sýndum hönum þann, sem sagt hefði:
“Eg kann alleina drepa kokkinn”. Og þann, sem uppbyrjaði ræðuna, að það væri
skömm, að þeir létu so fáa menn með lífi burt fara, og höndlunargóssinu skyldu
þeir í millum sín deila, þegar við drepnir værum. Nú hefðum við fullkomið leyfi
og myndugleika að drepa þá alla saman. Sá, sem byrjaði ræðuna, hann fékk yfir
80 eður 90 slög af digrum kaðli, og hinir sáu og töluðu ekkert. Og sá, sem
sagðist kunna alleina drepa kokkinn, fékk og mikið straff. Að þessu búnu sýndi
enginn sig mótfallinn í nokkru viðmóti, hverki með orðum eður óþægum svörum
móti oss, heldur sögðust hafa gjört þessa ræðu að gamni sínu og aldrei þenkt
oss nokkurn skaða að gjöra. Hjálpuðu oss allir með spikið í bátinn og urðu
glaðir, þegar burt reistum. En við höfðum tekið ráð vor saman, að sá fyrsti,
sem hefði gjört mótstand, að skjóta hann strax fyrir hans hjarta án nokkurs
umtals og vonuðum stórrar premíe af kónginum þar fyrir. Sem fór bezt sem fór.
Þetta voru þó manneskjur og áttu einn skapara og frelsara yfir sér. Og endar so
þessi frásögn.

Við fórum til baka með hlaðin fartöj
og komum til Samiliasok, hvaðan við fórum frá. Þaðan og undir tindinn. Fengum
slæma höfn fyrir bát vorn og máttum vaka þá nótt. Þaðan til Nasalik, áttum sex
mílur heim. Þar lágum við í fimm nætur. Fékk kaupmaður bréf frá prestinum, Herr
Rask, um okkar viðskipti í Tikssalamik, sem með grænlenzkum þangað borizt
hefði, meir í stíl fært en þörf gjörðist. Komum við so heim lítið eftir fyrsta
sunnudag í aðventu. Vorum so heima um veturinn og komum þessu selspiki á tunnur
í spekkhúsinu. Við fórum og um kring oss eftir spiki, og þegar sjórinn var
tillagður, þá með sleða.

Grænlenzkir geta allar tíðir komizt á
sjóinn, því þeir bera bát sinn með sér upp á hæstu snjóskafla og renna sér so
niður í sjóinn. Þegar heim koma aftur bera þeir bátinn á höfði sér, en selinn
draga þeir á snjónum, festa band í hann. Og þegar heim kemur, skera þeir eitt
langt stykki eftir hans kviði og láta skinnið með fylgja, ganske mjótt, skera
það síðan í sundur í smástykki og fær hver í húsinu einn munnfull, sérdeilis ef
hinir Grönlender hafa ei aflað. Þeir eta bæði hunda og hrafna. Og strax þegar
hláka kemur, fara þeir út á berjamóann og tína ber, þó frosin séu, koma þar í
spiki og eta so með skeljum. Mennirnir gjöra ekkert utan passa upp á sínar
kajaker, að þær séu í góðu standi, sem og þeirra flutningsskip, hverjir eru á
lofthjalla bæði vetur og sumar, að ei fúna skuli.

Þeirra hús eru sem loft. Það er að
skilja, þaug eru flöt á þakinu eins og pallur, að hitinn skuli betur duga, því
þegar kveikt er á öllum lömpum, er enginn í stand að vera utan bara í
skyrtunni, og þegar þeir eru úti eður útslökknir, er snart kominn kuldi. Nú
egar þakið fer að uppþiðna so sem um vortímann og fer að leka, er þá út flutt í
tjöldin, sem eru líkust hrauktjöldum hér. Þar eru dyr á þeim sem öðru húsi og
þéttar stengur, sem er uppreftið. Sá eini endi er upp, annar á jörðunni. Þier
yfirklæddir fyrst með loðnum hreinskinnum, hárið inn í tjaldið so þétt sem
verður. Þar utan um eru selskinn loðin. Þar utan um er hárlaust og vel smurt
skin af þykkvu lýsi sem tjöru, er skal halda vatni og ei verða gegnum vott. Þar
utan um eru og so gömul vatnsskinn hinum til hlífðar. Um kring tjaldið er
hlaðinn garður af torfi. Í dyrunum er eins og sparlak, er mann kann draga frá
og til. Þar í eru uppblásnar selgarnir, saumaðar saman á jöðrunum. Sér út í
fljótu tilliti sem líknarbelgur væri. Þar fyrir utan er fortjaldið, sem er og
til lokað á nóttunni. Inn í tjaldinu hanga á báðar síður skinntjöld, ótrúanlega
vel saumuð, til prýðis með alls kyns lit og allra handa myndum fugla og fiska,
og þetta er þó allt af selskinni, so ótrúanlega vel til búið, að eg kann það ei
útskrifa með pennanum. Þar á hanga smálitlir speglar til prýðis, hver á einn
skilling.

Á gólfinu er lampi þeirra, so að
formi sem hefði mann hálft tungl. Á þá löngu síðuna koma þeir þurrum mosa og
koma so lýsi í. Þegar þessi langa síða brennur, gefur hún hita í húsinu. Þessi
lampi stendur á einum stóli með þremur fótum. Yfir hönum hangir þeirra
matketill, er þeir sjálfir af veggsteini gjöra. Hann er rauðlitur að sjá. “Þar
í verður sætur matur”, sögðu grænlenzkir mér. Hann hefur fjögur bönd að hengja
í, sem er hvalseymi. Þegar lampinn brennur vel, verður kogt ótrúanlega fljótt
soðningin. Vor kaupmaður kogti alltíð sinn teketil yfir þessum lampa. Heila
tjaldið er so hreint sem bezta kirkjugólf. Þar eru og margir posar af skinni,
sem grænlenzkir, bæði karlar og konur, hafa sínar sakir. Þessir posar eru
hvítir, rauðir og svartir. Þann rauða farfa fá þeir af tré, sem kemur frá
Amerika. Hann melja þeir smátt og koma hönum í vatn, þar til allur liturinn er
kominn í vatnið, leggja þar í það hvíta selskinn og láta það vera þar fjórar
eður fimm vikur. Verður skinnið so rautt sem blóð. Eg hafði oft þessi rauðu
kamakor, það er stígvél upp á íslenzku. Þeim sleit eg upp, og voru þó bæturnar
rauðar mest eins og þær væru nýjar. Eg brúkaði og hvítar komaker. Þaug voru
hvít sem pappír, og þegar þaug urðu óhrein, var mikið gott að fá þaug hrein. Eg
brúkaði og hreindýrastígvél, voru loðin. Innan undir hafða eg selskinnssokka.
Altíð skal mann hafa hey í stígvélunum, að hann haldi vel varmanum, því þar er
mikið frost og mögur fæða.

Þennan vetur dó vor assistent, fannst
af sex grænlenzkum, heim aktur með hundum. Það bar so til, að fjórir af oss
fóru út að fá oss lítið til jóla, annaðhvert rjúpur eður hara. Þegar við komum
upp í landið, skildums´t vér að, og gekk hver sína leið. Nú var mikill bakki í
norðversturloftinu, er snart varð stærri. Í þessu kom eg á haraspor, og undir
eins sá eg, hvar hann lúraði undir einum steini. Eg skaut hann strax og tók
hann undir mitt belti. Í þessu kom ösku stormivðri með hörku límings frosti. So
sárt andlit mitt brenndi af því! E komst undir stein, og þar ætlaði kafaldið
mig aldeilis að kæfa. Nú var nóttin löng og veðrið hart, eg matlystugur, því eg
át ei meir en hálfa brauðköku fyrr en heiman fór. En það spögerí, sem sá illi
óvin lét mig sjá um nóttina, kann eg ei allt hugsa, sem var þó það
markverðugast, að eg sá höfuðlaust fólk á hestum ríðandi, og nokkrir voru að
berjast, en höfuðin sneru aftur með hljóðum. Eg tók mér fyrir að skjóta, og þá
minnkaði það mesta spögerí. Nú sá eg nokkrar stjörnur, sem mér sýndist að væri
Karlsvognen. Þó sá eg það ei fyrir víst, og eg var orðinn máttlítill af því eg
mátti ganga so hart fram og til baka undir steininum og svangur. Risti so á
kviðnum á haranum og tók hjartað og lifrina og át. Þá varð eg betri að kröftum.
Smásaman birti upp þetta kafald, so eg sá betur til lofts en fyrr. Eg var að
skjóta, þegar missýningarnar komu. Einu sinni ætlaði eg að sofa. Var þá kallað
so hátt í eyra mér: “Sof ekki”. Eg hrökk upp í mesta ofboði. Nú var orðið mest
fjúklaust. Eg sá sjöstjörnuna, og hún var vel í nónstað, fór frá þeim kletti og
gat varla gengið, mínir kraftar voru burtu. Fór eg so að skríða á hnjánum, og
so skaut eg á milli, ef nokkur væri úti að leita eftir oss, því mig uggaði, a
ðallir væru ei heim komnir. Nú fór eg að ganga, þar sem slétt var, en skríða,
þar sem voru klettar eður stórar þúfur. Eg skaut á millum. Nú dagaðist, og eg
heyrði bæði skot og kall. Eg skaut strax aftur á móti og litlu síðar sá
grænlenzka, fjóra að tölu. “Arne, nict ducuok”, “þú ert ei dauður, Árni”, sögðu
þeir. Þessir fortöldu mér, að tveir væru heim komnir af voru fólki, nú vantaði
assistentinn. Þeir grænlenzku höfðu til mín pel fransk brennivín og tvær
hveitibrauðskökur. Eg var feginn að eta þá. Tveir af þeim fylgdu mér heim. So
þegar heim kom, gaf prestur mér brennivín í vörmu öli, og mat kunni ei spísa.
Þegar eg hafði drukkið, fór í rúm mitt og svaf, en þegar lítið sofið hafði, heyrða
eg, vor assistent var heim aktur andvana. Vor prestur skipaði að fylla
bruggarakarið með vatn og láta hann þar í, ef lifna kynni, en það kunni ei
hjálpa. Dauður var hann og dauður bleif hann. Guð gefi þeim dauðu ró, en líkni
oss, sem lifum. Eftir þetta gjörði kaupmaðurinn stórt begrafelsi eftir hann,
sem kostaði hans peninga, eg meina assistentinn. Komu og hans klæði, bæði
sængur og gangklæði upp á auktion, sem voru 60 rd. Eg keypti hreinskinnskjól og
gaf 9 mk. danske og buxur, gaf 3 mk.

Nú vorum við heima í ró, og bar ei
neitt til tíðinda utan hvað beykirinn fannst hjá kaupmannsins pige, Else
Símonsdóttur, og vildi ekta hana, sem og skeði fám dögum eftir, að þeirra
brullaup varð haldið í kaupmannsstofunni með stórri trakteringu. Þar eftir
skyldi hún liggja hjá hönum, eftir kaupölið, í kaupmannsstofunni, ef ei fengi í
fólksins stofu, hvað við afsögðum, að hún með hennar hráætum skyldi vera í
okkar stofu. Þar í var eg hinn frekasti, sem kaupmaður gaf gætur að. Þegar
voraði, fórum við eftir spiki að venju og urðum lengi úti, matarlausir yfir níu
daga. Þá át eg spik af hungri og það af því, sem í bátnum höfðum, og vindþurr
síl til, sem eg fékk hjá grænlenzkum. Þegar heim komum, fórum að brugga og
síðan skera spikið á tunnurnar. Þetta gekk vel út, að við höfðum fulla last til
skipsins, þegar þangað kom. Síðan fórum við að skera torf, og þegar við vorum
búnir með það, kom vort skip frá Kaupinhöfn. Þar var með einn íslenzkur maður,
er Magnús hét, varð okkar kokkur, því Páll kokkur reisti til Kaupinhafnar.

Nú voru þrír af oss, sem skyldum
annaðhvort vera eður aðrir í þeirra stað, er skrifast átti til Kaupinhafnar.
Kaupmaður falaði oss heima, en enginn vildi vera. Eg skrifaði sjálfur til
yfirkaupmannsins, Gilmeiden, að eg vildi vera á Fiskanesinu hjá kaupmanni Skadu,
þar sem Guðmundur Guðmundsson var, hvað mér var eftirlátið, þegar skipið kom
árið eftir til Kaupinhafnar. Það forhindraði kaupmaðurinn, so að eg var að fara
til Kaupinhafnar með skipinu.

Kom eg so til bróður míns, Vigfúsar,
og fortalti hönum, so sem farið hefði. Hann kunni ei annað segja en eg skyldi
gefa mig til skips. Fór eg til kóngsins kommandör og lét mig enrolere. Það er
að vera skipum hans fylgjandi, þegar með þyrfti.

Í förum til Bordeaux, Pétursborgar og Königsberg

Fór eg fyrsta reisu til Aalborg eftir
kóngsins rúgi og var þar um veturinn allt til jóla, kom so til Kaupinhafnar og
var þar þann tíð, eftir var af vetrinum. Um vorið fékk eg mislingasótt og lá
lengi í henni. Þar eftir kom eg með einum skipherra, sem hét Martin Domstrey.
Hann tók mig fyrir kokk á þeirri reisu. Við misstum einn mann yfir borð, er
Niels hét, og kom hans töj upp á auktion. Við komum til Pardo í Frankaríki og
fengum vora last, sem var með vín og brennivín, kaffebönner og aðrar sakir, sem
voru dýrar að verðaurum, so vor last hljóp sig upp á 40000 ríxdali. Fórum frá
Pardo strax eftir jól og vorum fyrir þeim juzka skaga í tvo daga og kunnum hann
ei fyrir bí koma, fyrr en nóttina eftir kom þoka og veðrið gekk til nord-vest.

Vindurinn var lítill, og öngvan eld
kunnum vér sjá á Skaganum, héldum so sjóinn gegnum Kattegat. Var nú undirsjór
mikill. Skipherrann fór að sofa, en stýrimaðurinn stóð fyrir vaktinni, sem var
ei réttur sjómaður í sínum sjómanns hlutum. Þegar vaktin var mest úti, sáum
vér, að komnir vorum millum skerja þétt við það svenska land. Kölluðum á vorn
skipherra, og þegar hann út kom, höggði skipið tvisvar sinnum á skerinu, so vér
höfðum mest fallið á ilfarinu, og þar eftir fórum að sjá, hvert skipið ei skaða
fengið hefði. Sáum strax, að það var fullt með vatn, því þegar pompa fórum, var
sá út pompaði sjór ganske blóðrauður af þeim svitsku fötum, er vér í lastinni
höfðum. Að þessu búnu dagaðist. Komu þeir svensku losser um borð og höfðu oss
til Kleikshólm, settu oss með flóði upp í eina sandvík. Og þegar út féll, var
skipið þurrt, so það pompaði sig sjálft, en vér sáum nú gjörla skaðann, sem
fengið hafði, sem var tvö hol við kjölinn. Þaug tróðum vér full með mosa og
þurrum þara. Nú voru send boð til Marstrand eftir tollbeþénturum, og vér
athugaðir, að ei tækjum neitt frá skipinu af okkar töji, því þeir sögðu oss, að
vort skip heyrði þeim svenska kóngi til. Nú vorum vér illa á oss komnir. Í
þessu komu þeir frá Marstrand, er skyldu besikta skip vort, og virtist þeim, að
vér kynnum sigla því til Marstrand, en þó voru beþéntarar settir oss um borð og
soldátavakt, er skyldu passa upp á skipið, þar til kæmum til Marstrand, er
skeði um kveldið. Og að því búnu var skipið útlosað og öll last af tekin. Hana
forvarti vor patrón þar, er forsvara skyldi, að það eður þess last ei heyrði
þeim svenska kóngi til, þar vér tókum öngva af landsins fólki til hjálp að
pompa það.

Nú voru teknir 22 timburmenn að
rearera það. Skipherrann gaf þeim leyfi að reisa heim til sín, sem vildu, og
taka sína til góða hafandi peninga, þegar til Kaupinhafnar kæmi, hjá
reiðurunum. Nú varð eg og Martin Mante hjá skipherranum, sem og
kávetudreingurinn, er skyldi upppassa hann. Eg og Martin skyldum upppassa
timburmennina. Skipherrann skyldi oss skaffa kostpeninga og 3 rd. um hvern
mánuð, er vér þar værum.

Eg og minn kammerat, Martin, vorum í
lossamenti hjá meistaranum, er var fyrir skipsbyggingunni. En þessi meistari
átti eina dóttur, sem var mikið eftirlát og góð, so og líka hennar gamla móðir.
Á morgnana, þegar til erfiðis gekk, fékk eg góðan frúkost, og so annan hjá
dótturinni, er hún stal til mín, en þegar heim kom um miðdaginn, var fullkomin
fæða lögð upp á minn talerk. Af þessu varð minn kammerat mikið reiður og
óþolinmóður við þessar mæðgur, sagði, þetta hæfði ei mér, so vel framandi sem
hann væri. Skipherrann brosti að þessu og talaði lítið. Einn sunnudag bað
dóttirin mig að ganga með sér út í staðinn til sinna ættingja, bara að láta mig
traktera með kaffi og góðri fæðu. Eg þáði þetta og hugsaði, að vant væri vel
boðnu að neita, þakkaði fyrir hennar velvild og góðmennsku mót mér, henni
ókenndum. Þegar heim komum, sagði hennar móðir, að dóttir sín hefði mikinn
kærleika til mín. Eg kynni vera hjá þeim eftirleiðis og fara héðan frá staðnum
sem stýrimaður; skipherrann skyldi fá annan í minn stað, það skyldi hún afgjöra
með hægu móti við hann. Eg sagði, ei mundi eg neita sóma mínum, ef þetta kynni
sinn framgang hafa. Hvað eg hafði gott fyrr, þa hafða eg nú betra í öllum
hlutum. Dóttirin vildi giftast, en þar var enginn, sem skeytti um hana. Það
heyrða eg, þó í kyrrþey, af timburmönnum, sem voru í þessu skipssmíði. Þessi
ræða kom fyrir vorn skipherra, en hann lét já við þessu, en talaði þó sína
meiningu við mig, þegar enginn til heyrði. Nú varð eg að húsgangast með henni í
staðinn hvern sunnudag til hennar ættingja, bara fyrir þeirra forvitni að sjá
mig og heyra mig út, so eg mátti gefa gætur að hverju orði, er eg þaim svaraði.
Og þegar heim kom og skyldi leggja mig í sængina, var eg að hugsa mig um,
hvörnin eg kynni hér út af lempilega að sleppa, og títt lá eg vakandi í rúminu.
En minn kammerat hafði mig að háði og timburmennirnir líka so. Minn skipherra
talaði so við þær mæðgur sem þeim bezt líkaði, so allt stóð nú upp á mér, og eg
vissi ei, hvörnin eg hér út af sleppa kynni. Nú leið tíðin, og hlakkaði til
heimferðar fyrir mér. Alltíð var eg að grufla, hvernin eg óvirðingarlaust kynni
hér frá komast, og það mest, eg var framandi og hafði öngva upp á mína síðu, er
vildu standa straum af mér. Mitt í þessu kom bréf frá mínum bróður í
Kaupinhöfn. Það vissu þær mæðgur. Það var í íslenzku. Eg útlagði bréfið so, að
mér væri tilfallinn arfur í Íslandi, og hefði minn bróðir peningana. Þar fyrir
skylda eg koma strax og sækja þá. Eg sagði, þegar aftur kæmi vilda eg strax
hald brullaup. Þær trúðu þessu.

Vér fengum lastina inn og fórum til
Helsingjaeyrar, er losa skyldum vora hálfa last. Tókum svenskan stýrimann og
matroser með oss.

Marstrand er fallegur lítill staður
með tveimur kirkjum sem og einum sóknarpresti og kapellan. Sú þriðja kirkja er
kastillið, er allir fangar eru. Meðal þeirra var prestur, er hafði
magistertitil frá Stokkhólm, er var þess svenska kóngs residensstaður. Vora
hálfa last losuðum vér í Kaupinhöfn, fengum strax orður að sigla upp á frakt að
Pétursborg að færa proviant til þess rússiska armejden, er lá í Königsberg.

Vér sigldum fyrst til Kronstad, hvar
eð þaug rússisku orlogsskip lágu, sem voru mörg. Þar í landi lágu so mörg

fallstykki og margir háir hólar af kúlum sem og önnur krigsverkfæri. Þaðan sáum
vér slotið í Pétursborg og tvær kirkjuspírur eður turna. Sá eini sá út sem gull
og annar sem silfur. Þessar tvær kirkjur voru strax við slotið. Tveim dögum þar
eftir fórum vér upp til staðarins, sem var vel byggður, en óþéttur. Við
tollbúðina voru lastir af hamp og hör sem og járnstengur upp á mörg skip, er
var keisarinnunnar skattar frá landinu. Þar var gott kaup upp á segldúk,
léreft, segl og allra handa trévöru, bik og tjöru, brauð, smjör og flesk.
Annars var þeirra brauð bagt í olíu, er ei var gott fyrir framandi fólk. Rússar
eru hart fólk viðureignar, hafa hörð lög að lifa eftir. Í staðnum sá eg eina
brú, er lá á milli staðarins og slotsins. Þar lágu mörg skip fyrir arnkerum. Á
þeim voru lögð borð, er menn kunnu á ganga frá staðnum til slotsins, sem var
kort bæjarleið að lengd. Í gegn um þessa brú skydlu öll skip, er gjörðu kauphöndlan
með staðarins innbúendur. Máttu þá tveir eður þrír bátar af veginum og þaug
anker upp halast með þeirra köðlum, so ekkert skyldi í vegi vera fyrir þeim
framandi, er höndla skyldu og þeim inn komandi skipum. Verður so brúin gjörð
sem fyrr var.

Eg sá þær rússisku konur drekka meir
brennivín en maður þeirra, sem með fylgist í vertshúsið, – drekkur ei meir en
hann kann leiðsegja konunni heim til bæjarins. Þar stendur ketill með brennivín
á gólfinu með járndísu í. Þeir, sem drekka vilja sem einn pela brennivíns,
skulu sjálfir taka glasið og dísuna í katlinum og hella í glasið. Segir
vertinn: „Farðu nú, lagsmaður!“ Þó fá þeir borð að sigja við, þegar þess óska
og þeir eru drukknir. Þá syngja þeir og dansa so lengi þeir hafa peninga, so
vel um nætur sem daga. Eg sá þar og brauð, sem var steikt í olíu. Þeirra öl var
ekki gott. Það var vel malt í því, en það hafði so undarlega smekk, að það voru
margir af voru fólki, sem fengu blóðsótt þar af, og við misstum vorn dreng í
Königsberg af þessum sjúkdóm. Eg sá mikið þar af hör og hamp, já, marga
skipshlaðninga. Þeir komu frá landinu. Eg þenkti, keisarinnan fengi það í skatt
sinn af bændum upp á landinu, og járn var þar í mengd. Þessir bátar er færðu
vöruna annaðhvert til kaupmannanna eður keisarinnunnar, kunna að búa kannske
100 mílur upp í landinu, fara með einni á og láta strauminn bera bát sinn niður
til kaupstaðarins. Báturinn er langur og mjór. Þar hefur maðurinn konu sína með
og liggja í tjaldi, hafa þar eld og kokka mat. Þaug leggja sinn bát við anker
allar nætur. Maðurinn stendur aftur á skipinu og stýrir, konan matreiðir og býr
um sæng þeirra. Þegar þaug nú koma til kaupstaðarins, selja þaug bæði vöru og
bát, so kannske þaug eru ei heim komin fyrr en um jól. So er farið að byggja
nýjan bát aftur og vöru að innkaupa til sumarsins. Þetta er þeirra lífsbrauð og
fæða.

Þegar eg var í Pétursborg 1759 var
staðurinn ei fullbyggður, því Pétur Sari tók þennan grunn frá svenskum í
stríði, sem þeir kunna ei aftur að fá, og mörg önnur plátz og kaupstaði so sem
Kolberg, Riga og Reval. Frá Ríga koma öll masturtré. Keisarinnan af Rússlandi
kann bjarga sér sjálf af allri vöru, bæði til lands og vatns, en allir aðrir
potetater mega sækja til hennar bæði masturtré, skiptstimbur, tjöru, harpeis,
bik, segldúk. Þeir færa henni aftur peninga – hún hefur og silfurberg – utan
þeir engelsku færa henni steinkol. Það kaupa af henni þessa vöru danskir,
engelskir, franskir, hollenzkir. Eg veit ei um Spaníóla. Ef kóngurinn af
Dannemark vill byggja eina fregat, kostar hún hann meir en hana, eg meina
keisarinnuna af Rússlandi, að byggja fimm orlogsskip hvert upp á 70 fallstykki,
því hún þarf ekkert að innkaupa, en hann má allt, so að hans fregat upp á 28
fallstykki verður hönum dýrari en henni þessi fimm orlogsskip. Hún hefur og
Hollands dúkat á móti hans 10 sk. Sama er og um kornvöruna að segja. Hún hefur
so mikið af hirsegryn, sem eru haldin fyrir stór raritet í Kaupinhöfn. Þeirra
rúgbrauð í Dannemark vildi ei Rússinn eta, því við höfðum 10 skippund brauð frá
kóngsins kostgarði, þegar eg fór með Rússunum, og var þar enginn af þeim, sem
vildi eta það. Var það þá slegið í sundur og komið í vatn með edik í blandað,
sem við höfðum í staðinn fyrir öl. Og þeir brauðmolar, sem svínum gefnir voru,
voru so útbleyttir og útpísaðir, að þar var enginn kraftur í, heldur inn kominn
í vatnið, er vér drukkum, – í þessu vatni, sem vér í staðinn öls höfðum.

Eg hefi og ei séð betri kaup upp á
allan línvefnað og boldan en þar, eg meina í Pétursborg. Þar var og erfiði og
peninga að forþéna. Þegar hennar fólk gekk um slotsplátzið, tóku þeirra
höfuðfat af, sérdeilis soldátar og matrósar, er fá þaug sömu laun hvert þeir
eru heima eður úti með hennar skipum, sem er föt og fæðu. Annars gefur hún þeim
nokkra peninga hvern þriðja mánuð, sem er einn dúkat og 65 skildinga, er þeir
skulu drekka hennar skál í og halda sig lystuga.

Þegar vér höfðum verið í staðnum
fjóra daga, fengum við orður að halda til tollbúðarinnar og inntaka vora last
sem voru mjölsekkir í strámottum, og færa þá til Königsberg, – og 1100 rúbúla
fyrir hverja ferð, sem var, mig minnir, hér um tvö hundruð mílur. Enginn af
okkur voru heilbrigðir af Rússanna öli, sem oss ei smakkaði gott. Það sumar
gjörðum við þrjár reisur með hennar hlaðning. Nú, sem við komum til Königsberg,
voru þeir rússisku officerer, sem eftir sáu, hvert vor last væri óskemmd,
annaðhvert af vatni eður öðrum ólegheitum. Fengum so kvittering með oss til
baka, að varan væri óskemmd og sekkjanna tal hefði og sin rigtighed. Þessi
veikleiki á oss vildi ei aldeilis burt fara. Urðum þó betri, þegar doktorarnir
í Königsberg gengu til okkar. Við fengum uxaketssúpu hvern dag, er þeir þýzku
doktorar ordineruðu. Við fórum að sjá staðarins legheit, sem var, að hann var
stærri en Kaupinhöfn, en var ei so þétt byggður. Á rann eftir staðnum, sem
aðskildi hann í miðjunni. Þar voru allir hlutir að kaupa, þó bezta verð á keti,
osti og smjöri. Það besta uxaket kostaði ei meir pundið en einn skilling í
þeirra peningum. Fólkið artugt að tala með. Þar var so fullt með það rússiska
fólk, að einn kjallaramaður skyldi hýsa tvo soldáta. Þar voru margar kirkjur.
Við vorum í Nikolajkirkju. Þar var ei annað að heyra en grátur og armæða, að
þessir Rússar væru þar inn komnir að öllum óviljugum og þeirra kóngur væri í
stríði á móti þeirri ungarisku drottningu, sem gaf þeirri rússisku keisarinnu
underretning, að nú væru hin beztu tækifæri fyrir hana að inntaka Königsberg,
eftir því þar væru nú öngvir soldater eður krigsfólk henni til forhindringar, –
þessar tvær voru sömu trúarbragða, sem var sú katólska religion, – sem og skeði,
að það lúteraniska fólk í Königsberg mátti sverja þeim rússisku trúnaðareið, að
þeir skyldu vera þeim hollir og trúir og keisarinnunni hlýðugir, sem hún væri
þeirra réttur kóngur. Sá eiður varð ei haldinn, sem raun gaf vitni síðan. Þegar
þessir framandi Rússar voru nú þar inn komnir, skrifaði borgmeistarin kónginum
til um þessa Rússa og borgaranna sem og alls staðarfólksins sorg og harm, að
þeir í nauð sinni og hræðslu máttu sverja þeim trúnaðareið og ei vissu, hvert
þeir hefðu kóng eður ei. Svar upp á þetta var so látandi, að borgarar og
staðarins innbúendur skyldu sig fríska og glaða halda, því hann kynni ei liggja
hjá utan einni konu í senn, en þegar hún hefði fengið það, hún skyldi hafa,
mundi hann snúa sér við í sænginni til hennar, sem hann hefði ei hjá verið. Því
eftir so væri fyrir sér nú, að tvær konur hefði, sem hann fyrr ei af vissi, er
var sú rússiska, þá vonaði hann, að báðar þær skyldu ei þurfa upp á sig klaga,
að ei gjörði sitt bezta, so hverig hefði aðra að öfunda. Þegar borgarskapið
heyrði, að þeirra kóngur var með glöðu sinni, vann og hvert slag móti þeim
ungarisku, sögðu þeir í Königsberg, að Rússar sjá skyldu, hvert eið sinn halda
skyldu, er þeir í neyð gjörðu. Að ef þeirra kóngur sjálfur kæmi og innkalla
staðinn vildi, skyldu þeir sjá hverjum fylgja skyldu, Rússanum eður vorum
kóngi.

Reistum vér so aftur til Pétursborg
og tókum so vora síðustu frakt inn, sem ver mest af fleskitunnum og proviant
til þeirra rússisku kaupmanna. Og þegar komum til Königsberg, var staðurinn að
mestu inntekinn, er vér heyrðum, með politesser gjörzt hefði, og allur sá
proviant og aðrar sakir, sem vér og aðrir um sama tíð þangað færðu, sem var
langt yfir tunnu gulls, var skiptur millum þess fátæka borgarskaps.

Nú er að segja frá voru skipi það, að
vér allir vorum sjúkir og enginn af oss frískur, en vor drengur allt að fram
kominn. Skipherrann bað eina konu að taka hann af sér nokkra tíð. Hennar mann
var reistur til Amsterdam. Hún tók þennan dreng, og var hjá henni í tvær nætur.
Kom aftur til skipherrans, og grét, sagði drengurinn hefði besmittað sín tvö
börn, og þaug hverðu fengið sjúkdóminn af hönum. Mætti nú skipherrann sjálfur
hans dreng aftur taka. Fórum vér so í land eftir drengnum og létum vorn dreng í
kabelrúmið fram á skipinu, því við vorum hræddir, að við skyldum fá sjúkdóminn
af hönum. Þar var ekkert hold á hans líkama utan bein og sinar. Kraftarnir og
burtu, so hann skreið á hnjánum. Við fórum inn í rúffið að borða, því vorum
matlystugir. Á þessari tíð skreið drengurinn úr rúffinu, tók bátinn og reri í land.
Mætti hönum gamall maður. Fortelur drengurinn þeim gamla manni um sitt
ásigkomulag, að hann hafi blóðsótt, sem kynni ei kureres, og nú í þessum stóra
kulda og frosti hafi hans skipherra kastaði sér í kabelrúmið, það er það plátz,
sem lífkaðallinn og hinir kaðlarnir eru í geymdir – þetta plátz er fram á
skipinu – eftir því að hans kammerater ei vildu leyfa sér hjá þeim að lossera í
rúffinu. Að endaðri ræðunni segir sá gamli þýzki maður: „Berðu þig að koma heim
með mér. Kannt þú ei ganga, skal eg útvega þér hest að ríða á“. Kom so
drengurinn ríðandi ásamt þeim gamla manni til herbergis. Sá gamli maður færði
hann af öllum fötum og klæddi hann í hreinan klæðnað og lagði hann í uppbúna
sæng og gaf hönum mat, er hann þola kynni. Að þessu gjörðu fór hann upp á apótekið
og kom með nokkur medikamenter, er hönum þéna skyldu. Þetta var um
fimmtudagskveld, en um föstudagsmorguninn kom sá gamli maður um borð til
skipherrans og lét hann vita, að drengurinn væri hjá sér í lossamenti; bað og
skipherrann um nokkra peninga drengnum til aðstoðar í hans veikleika.
Skipherrann segir: „Þar sem þú gamli maður eður slæmi gikkur fer ei frá mínum
augum, skal eg gefa þér mörg högg af þykkvum kaðli. Þú fær öngva peninga“. Sá
gamli maður sagði: „Eigi hefi eg högg forþénað, þó eg tæki á móti dreng yðar í
hans neyð. Og þó skipherrann vilji mér ei betala, hefi eg von til míns guðs, að
hann mér betali“. Að þessu búnu fór sá gamli maður í land og varð frí fyrir
höggum af skipherranum.

Um sunnudaginn komum við þrír í land
og fórum að sjá vorn dreng og hans lélegheit. Komum inn til þess gamla manns, –
og drengurinn liggjandi í sæng þeirri, sem enginn barón eður stórherra feilaði
sér í að liggja, með mörgum meðölum og doktorasökum í smáglösum við sængina.
Þar var og so kaffitöj og tinborðbúnaður með aðskiljanlegum réttum. Einnin
fengum vér góðar trakteringar með víni, frönsku brennivíni, sykurkökum. Sá
gamli maður sagði oss, að skipherrann hefði verið mikið reiður við sig, sem
hann ei forþént hefði, bað guð hönum fyrirgefa sína höstuga reiði. Vér sögðum,
drengurinn hefði 16 eður 17 ríxdali til góða hjá skipherranum fyrir
sumarreisuna. Sá gamli maður sagði: „Ei mun eg koma til skipherrans að fá
peninga meir. Gjöri guð við mig, hvað hönum bezt líkar“. Á þriðjudaginn kemur
sá gamli maður á skip vort og var í svörtum klæðum og svart silkiflúr í hatti
sínum og bað skipherrann, að skipsfólkið mætti leiðsegja drengnum til síns
legstaðar, sem forliðna nóttu hefði sá almáttugi guð frá sínu eymdarfullu
tilstandi í burt leyst fyrir eitt sætt og sáluhjálplegt andlát og viðskilnað
frá þessum táranna dal. Skipherrann sagði: „Þú gamli narri. Eg vil ei heyra á
þínar prédikanir. Þó skal eg láta mitt fólk í land fara og kasta hans kropp í
jörðina“. Sá gamli tók afskeið með oss, þó með grátandi tárum. Á næst komandi föstudag
fórum við í land, sem var sú ákvarðaða tíð, er drengurinn begrafast skyldi. Við
komum í land, máttum afklæða oss vorum skipsklæðum og taka sorgardrakt upp á,
sem voru svartur klæðiskjóll, vesti og buxur með svartri kápu yfir og langt
flúr í hattinum. Vorum so það þriðja sorgarpar eftir landsins skikk og máta, og
djákninn með skólapiltum söng. Það fyrsta sorgarpar var sá gamli maður og
presturinn. Annað var tveir meistarar við gullsmíðið. Það þriðja voru tveir af
oss; sá þriðji var ei brúkaður, sem var minn kammerat, er eg hafði í Svíaríki,
þegar þar strönduðum. Að þessu búnu máttum við heim til þess gamla manns með
prestinum, tveimur meisturum og djáknanum að láta oss traktera. Skólinn fékk
peninga og grafarinn með sínu fólki. Í erfisdrykkjunni var ei sparað, hverki
ýmislegur matur, rarar sínsúpur og allra handa drykkir til um náttmál. Tókum so
afskeið með þann gamla mann, hver eð bað skipherranum ástsamlega að heilsa með
þakklæti fyrir liðveizluna og stóra æru þeim burtkallaða yngismanni. Við komum
um borð og sögðum skipherra sem fram fór og hrósuðum þeim gamla manni fyrir
staðfasta tryggð og elskusemi við þann framandi Samarítan. Skipherrann sagði,
það hefði verið sá mesti fantur og stærsti narri að gjöra so mikið af einum
kokkadreng, sem ekkert til hafði að betala með. Hann hefði alla sína peninga
upp tekið, hvar fyrir sá gamli maður hefði ei peninga að vænta.

Við höluðum vort skip hátt upp í
ströndina við býinn og tókum pommernska bálka við timburplátzið, hvar um fengum
orður frá þeim engelska rifslagara í Kaupinhöfn. Að því búnu tókum inn rart
sendingsgóss, sem skyldi til Kaupinhöfn, gjörðum oss aldeilis klára þaðan í
burtu að fara. Nú er tollbúðarinnar port og brú læst, so enginn kann í gegnum
fara, fyrr en upp lokið er. Við komum að brúnni um morguninn eftir dagmál.
Máttum vera þar mest til miðaftens fyrir því, að kommandör á tollbúðinni
framvísti skipherranum eitt dokument frá politikammeret, að skipherra Domstrey
hefði ei betalt þeim gamla manni fyrir allan umkostnað, er sá gamli mann gjörði
í mót hans afdauða skipsdreng með víðara, hvar fyrir skipherra Domstrey skyldi
fyrir pólitíréttinn og sá gamli maður, er var hans anklagari, um daginn klukkan
tólf, það er um hádegisbil, og afleggja sínar anklager og forsvar í þessum
málaferlum, hvar upp á sá gamli maður framlagði fyrst fyrir herbergið, sæng,
mat og þjónustu samt doktorasakir, begrafelsi, líkfylgtd og annan þar að
lútandi bekostning samt skipherrans óskikkilegheit mót þeim gamla manni um
borð. Reikningurinn varð upp á 85 ríxdali, 3 mörk, 12 skildinga, sem sá danski
konsul eður borgmeistari mátti án uppihalds strax betala. Urðu so þessir tveir
málspartar fyrir réttinum forlíkaðir án frekari útsvörunar. Við vorum tveir frá
skipinu, er fórum í land á julunni með skipherra Domstrey, eg og minn kammerat,
Martin. Vorum hjá pólitístofunni og töluðum til þess gamla manns með þakklæti
fyrir hans artugheit, so vel í begrafelsinu eftir vorn afdauða dreng sem aðrar
trakteringar í hans húsi. Hann sagði, þetta væri nú allt betalt, sem ei skyldi
hafa orðið yfir 15 eður 16 ríxdali, hefði ei skipherrann sjálfur gjört það með
sínu óskikkanlegu athæfi og nízkheitum. Endar so þessa frásögn um skipherra
Domstrey og þann gamla mann.

Höluðum vér so í gegnum tollbúðina um
kveldið og sigldum til Kaupinhafnar klárir í allan máta. Vorum á leiðinni þrjár
vikur og tvo daga. Komum til tollbúðarinnar um kveldið þann 28. október 1759.
Þá var minn bróðir orðinn tollbetjenter og forsiglaði vort skip, það er að
segja allar lúkur og laungang, so ekkert kunni þaðan burt flytjast fyrr en
kemur til losastaðar. Koma so sömu tollbeþénter og taka þeirra segl af lúkunum.
Er það í minnsta máta uppbrotið, kostar það 50 rd. Nú höfðum við svín á skipinu
sem gekk laust á þilfarinu. Það hafði brotið hreint af seglið eður kóngsins
signet. Minn bróðir lét þá að orðum mínum og pardonneraði skipherrann um
peninganna útlát, að ei komst til kammeret þessi skipherrans ávirðing.
Skipherrann forærði honum flöksufóður með 14 flöskum í fullum af Danzigar
ákavíti, so þessi sök kom ei víðara. Hann fortalti mér, að tveir af okkar
bræðrum væru andaðir í Íslandi. Sá eini hét Jón, hinn Sigurður, er drukknaði á
Barðaströnd, hvar á voru sex eður átta menn, er hröktust undan Jökli á
Barðaströnd. Skipið fannst vel, en mennirnir ei.

Kínaferð

Þegar vér höfðum útlosað skipið, varð
eg að ganga í Khöfn, stundum lítið að forþéna, stundum ekkert, hafði og ei
peninga, sem eg kynni mér uppi halda í nefndri Kaupinhöfn. Resolveraði að ganga
upp á Kína Kompagnie. Tók með mér smiðinn Benedikt Magnússon er kom hingað
aftur með konu sína, sem er yfirsetukona í Reykjavík. Og þegar eg hafði fengið
þá 20 rd., er eg skyldi útreiða mig til þessarar löngu reisu, fór eg heim með
fyrrtéðum smiði Benedikt, er var og minn kautionisti fyrir nefnda 20 rd. Gekk
hans kona út með mér og keypti það, eg með þurfti til ferðarinnar. Var og þá
tíð til heimilis hjá smiðnum, er mig skyldi levera um borð til Kína kapitainen
Holm. Vér höfðum fríheit í landi að vera átta daga, eftir það vér höfðum fengið
peninga. Síðustu nóttina, sem eg var í landi, svaf eg ei, heldur gjörði mér til
góða með góðum drykk og fæðu og tók afskeið með alla góða vini og kunningja og
meinti, þá aldrei sjá kynni meir.

Að morgni dags sló trumban á öllum
götum í Kaupinhöfn, að allir Kínafarar skyldu án dvala og það undir korporal
straff, ef forsómaði sér að anstilla klukkan 12 upp á Kínafarann, skipið
Drottning Júlíana María, er kapitain Holm skyldi færa til Kanton, sem er
höndlunarstaður og keisarans residens, 4500 vikur sjóar frá Kaupinhöfn. Eg
mætti með mínum kautionista, smiðnum Benedikt, kl. 11 f.m. og varð uppstilltur
með öðrum fyrir kaiptain Holm kl. 12. Tók eg so afskeið með smiðinn Benedikt og
hefi hann aldrei síðan séð. Allir þeir, sem komu þann sama dag, sluppu
strafflaust, en þeir, sem komu daginn eftir, fengu 27 kaðalshögg. En þeir, sem
ei komu fyrr en tveim dögum þar eftir, fengu þrisvar sinnum 27. En þeir, sem
höfðu forsómað lengri tíð, voru settir upp á vatn og brauð í fangelsi um borð
eftir sakarinnar ásigkomulagi, og fyrr en lausir komu, fengu í það minnsta 80
slög með tampi. Annan daginn, er eg var á skipinu, komu 28 menn, fengu allir 27
högg – og strax til erfiðis. Eftir sex daga var haldin general munstring, það
er fullkomið manntal. Þar eftir máttum vér gjöra vorn eið, að ei skyldum spara
líf og blóð fyrir kompagniet, ef nokkrir sjóræningar vildu oss plundra eður
ofríki veita. Að því búnu fór prestur vor að prédika um hættusama sjóferð og
áminnti oss að treysta guði, hvert vér lifðum eður deyðum. Að endaðri
prédikuninni fengum vér nokkuð brennivín að hressa samvizkuna með. Þann heila
eftirmiðdag gjörðum vér ekkert erfiði. Nokkrir drukku sig drukkna og fengu
högg. Nokkrir vildu strjúka um nóttina og komu í járn og bolta.

Nú lágum vér 14 daga á Köbenhavns
rei og fengum bæði frost og snjó. Misstum vorn kvartermeistara, Holm, er var í
tengdum við vorn kapt. Holm. Hann begrafinn upp á hæsta máta með stórri
viðhöfn. Vorir yfirvaldsmenn voru sem fylgir: Fyrst var kapitan Holm. Ypparsti
stýrimaður, Kney, hafði farið til Vestindien sem kaptein. Þar til átta
stýrimenn, sex kvartermeistarar, bátsmann einn, skipmann einn, vor
skipsassistent. Þar næst voru á hina síðuna: Vor superkargo eður yfirkaupmaður,
sem innkaupir skipsfraktina til okkar, þegar til Kína komum, og hans sex
assistenter. Vor prestur og ober og undir doktor, sem skulu lækna þá sjúku eður
beinbrotnu. Þar voru og tveir seglmakarar, einn kaperal eður járnsmiður, einn
beykir og einn meistarakokkur, annar skipskokkur, einn bakari, einn
slátrunarmaður, einn hofmeistari, einn botoleur með sínum undirhafandi
botoleurs mát. Það eru þeir, sem hafa undir höndum allt vín og brennivín, vatn
og brenni. Nú hefi eg gleymt ober eður yfirtimburmanninum með sínum tveimur
undirhafandi, sem er einn timburmann og einn snikkari. Konstabel og hans
meðhjálpari. Plundurgreifi og hans þénari. Það er hann, sem hefur undir höndum
kýr, fé, geitur, hænsni, gæs, endur. Upp á allt þetta skal hann gætur að gefa,
að ei til skaða komi, hverki af illu veðri eður nokkurri vangæzlu. Hann skal og
mjólka kúna, ærnar og geiturnar, þegar þess við þarf, og öll egg skal hann
levera til hofmeistarans, mjólkina til meistarakokksins. Sjálfur etur hann með
matrósunum. Mig minnir vér vorum að tölu 95 fyrirutan alla stýrimannsdrengi,
kávetuskrifara, prestsins og doktors upppassara.

Nú vorum við reisubúnir að taka
afskeið frá Khöfn, þegar vindur vildi gefast, og til Helsingjaeyrar, hvar eð
vér skyldum kaupa allan lifandi fénað, vín, brennivín, öl og fínt brauð til
kávetunnar. Vér eftir sáum vorum kanónum, sem voru 28 að tölu. Vér höfðum og
öll verkfæri með oss, sem einum stríðsmanni til sjós tilheyrir. Var nú fólkinu
skipt í tvær vaktir, sem voru kóngsins og drottningarinnar. Sjóvaktin er fjórir
tímar, og þá koma hinir, sem eru fríir. Eg sá eður heyrði ekkert annað en blót
og formælingar, högg og slög, hvar maður kom eður var hljóð og skræki. Af þessu
höfðu yfirvöldin mikla skemmtun og dægrastyttingu. Nú tókum við frá Kaupinhöfn
og skutum 27 skot, fengum þrjú frá kastillinu. Um kvöldið lögðumst til ankers
utan fyrir Krónuborg í Helsingjaeyri, skutum níu skot fyrir kastillinu, fengum
eitt aftur. Fórum so í land og tókum á móti 30 svínum, 15 ám, tveimur hrútum,
tveimur geitum, einnri kú, sem var hennar þriðja reisa til Kína, yfirvaldanna
víni og brennivíni. Eg man ei hvað mörg naut, mig minnir 14. Þar lágum við, eg
meina á Helsingjaeyri, mest í þrjár vikur. Allt þetta var frá víntappara
Hansen, maður upp á 12 tunnur gulls, tímdi þó ei að kaupa sér úr í lummuna eður
nokkur klæði, sem væru í nokkru verði. Aldrei heyrða eg annað en blót og högg.
Prestur og doktor voru þeirra narrar, sem átti að vera í gamni, varð þó alvara
af upp á síðustuna.

Að þrem vikum liðnum fórum við til
Helsingjaeyrar aftur að gjöra oss klára við tollbúðina og kommandantinn. Skutum
27 skot fyrir kastillinu og settum vorn koss NV. Fengum góðan vind, allt þangað
til vér vorum komnir þann juzka skaga fyrir bí. Fengum sterkan vind á
norðvestan. Þar vorum vér milli Noregs og Julllands í átta daga. Sögðu
matrósar, að ef þeir fengju Noreg undir fótum, skyldu þeir aldrei koma að Kína
með þessu skipi eður þessum óguðlega kapteini. Þeir skyldu fara með öðrum
skipherrum. Þetta heyrði kapt. Holm, hélt því sjóinn og þorði ei inn í Noreg,
jafnvel þó lossar væru um borð.

Ei man eg fyrir víst, hvað lengi
við vorum að ráfa fram og til baka í Norðursjónum. Vindurinn umbreyttist, so
vér kunnum að koma fyrir bí Noreg. Höfðum góðan vind, þartil komum til Irland.
Fengum sterkan norðvestanvind með hörkukafaldi og sterkustu frosti, so allur
sjór, sem inn kom á þilfarið, varð að hörðum ísi. Öngvir kaðlar kunnu ganga í
gegnum blokkirnar bæði fyrir snjó og ís, so við gátum ei við seglin ráðið
hverki að reifa þaug eður beslá. Einn dag misstum vér tvo norska matrósa, þann
eina af fukkumersuránni um stýrborð, Envold að nafni. Hann nam fyrst staðar á
arnkerinu, er lá á skansdekkinu rétt á móti fukkumastrinu. Þaðan féll hann í
sjóinn, og varð sjórinn rauður af hans blóði. Logglínan var köstuð út til hans,
en kunni ei hjálpa. Skipið var undir stórum fart, en eg sá hann lengi upp á
sjónum. Kom það til af því, hann var í norskum skinnstakk, er fylltist upp með
vind, þegar hann féll í sjóinn. Matrósar sögðu, hann hefði fylgzt með skipinu,
þangað til vér komum til Portopray, sem voru 1200 vikur sjóar. Sama eftirmiðdag
féll af stóru mersuránni norskur matrós, er var sundur parteraður fyrr en kom niður
til þilfarsins. Þeim sundur slegna líkama var innsveipt í hans sæng og þar
eftir fyrir borð skotinn að vörmu spori. Þann sama dag fiskaði vor norski
stýrimaður hinn stærsta þorsk, eg hefi séð með mínum augum. Hann sagði, að við
hefðum 140 vikur sjóar til Íslands. Við vorum allir orðnir í gegnum frostnir,
votir og svangir, því ei varð matur kokkaður sökum illviðra, og fengum lítið að
sofa, en högg í mengtd á votan, frosinn og svangan kropp. Þegar við höfðum nú
verið að ráfa fram og til baka um þann spánska sjó marga daga í mótstæðilegum
vindi, langaði eftir umbreyting, sem og skeði. Þann 17. Febrúar fengum vér NO
vind, en vor rétti koss var SV. Vort skip gjörði nú 18 mílur í fjórum tímum. Þá
áttum vér langan veg til þess staðar, hvar eð vér væntum frískrar fæðu.

Þegar vér höfðum nú siglt í fimm
daga með þessum stöðuga norðaustan vindi, fórum vér merkilega að formerkja, að
kuldinn í veðrinu tók til að réna, so tveim dögum þar eftir vorum vér einasta í
vorum peysum og nærbuxum. Underofficeres urðu nú glaðir við, að þegar þeir
tömpuðu oss með þessum þykkvu köðlum, og vér höfðum fá klæði, hljóðuðum vér so
hátt, að undrum gegndi. Kom sú befalning frá vorum kapteini, að þeir gömlu
kaðlar skyldu ei brúkast, so lengi vér værum í hitanum, heldur skyldu þar
gjörast mjóir tampar af ráböndum, og fyrr en þá brúka skyldu, áttu þeir að
sýnast aftur upp á skansinum, hvar allir officerer væru saman komnir. Þessu
varð eftirlifað.

Um þessa tíma tók stýrimaðurinn
Salve mig til að skrifa í sín journal, og varð því mest frí fyrir skipserfiði,
utan þegar lífsháski er fyrir augum. Þá er mest allra vakt, so vel prests sem
doctoris. Þá er þar ekkert manngreinarálit. Alltíð óx varminn og vindurinn
minnkaði, sem var þó á samri veðurstöðu. Nú voru stýrimenn að vænta landsins,
sem skyldi vera vort forfrískningsplátz. Vindurinn tók mikillega að stillast og
hitinn meiri og meiri.

Einn dag kom orður frá vorum
kapteini, að vor lífkaðall skyldi halast upp á þilfarið og þurrkast af sólunni.
Þetta erfiði skyldi byrjast kl. 8 form.d. Varminn var mikill, og þrjá pela
vatns höfðum vér í 24 tíma, sem er ei fyrr út gefið en kl. 12. Nú var þar einn
af voru fólki, sem bauð 3 mk. Fyrir pott vatn, en allir voru eins ríkir, og
lykillinn að vatnsfatinu var hjá kapt. Holm. Þegar það var lítið af dagmálum,
bað þessi maður enn um vatn. Við aðrir vorum og þyrstir og vildum ei um tala,
sem ekkert gagn kunni gjöra, heldur skyldum vér bíða þess réta tíma, sem var
kl. 12 eður hádegi upp á vort mál. Litlu síðar fölnaði þessi maður upp og datt
niður, og mest þar eftir hálfan tíma var hann dauður. Doktorinn skar hann upp,
og var hjartað gróið við síðuna af hita og þurrki. Þar eftir var líkaminn
lagður í hans sæng og steinkol við höfuð og fætur, síðan bundið um hana og
varpað í sjóinn utan söng og ceremoníum.

Nú voru allar okkar sængur upp
bornar á þilfarið til að þurrka þær eftir það illa veður, er vér höfðum í þeim
spánska sjó. Einnin vísitera eftir lúsum og óhreinindum. Ef þetta finnst,
verður eigandinn straffaður fyrir hirðuleysi og dofinskap. Þegar nokkur finnst
sofandi á sinni vakt, verður hann arresteraður og straffaður með 50
kaðalshöggum, ef það er í friðstíð. Er það í ófriðstíð, straffast hann upp á
lífið. Nú er orðið so heitt af sólunni, að það má slá sjóvatn upp á þilfarið
hvert annað glas. Annars bræðist bæði bik og tjara af skipinu. Berfættur kann
hann ei að ganga á þilfarinu, því þá brennur hans iljaskinn af hitanum, sem
sólin gefur af sér á þilfarsplönkunum. Mest plágar oss nú þorstinn, lítil fæða
og hart kommandum. Um dagvaktina hafði vor oberstýrimaður vakt einu sinni sem
oftar og var að sjá eftir landi í sinn stóra kikkert. Sá, sem stýrði, var
norskur matrós, Jens Lange. Vor oberstýrimaður gekk inn í sitt kammr að vökva
sér á brennivíni eftir venju, því hann drakk gjarnan pott brennivín á vakt
sinni, sem voru fjórir tímar. Leggur sinn stóra kikkert á kompáshúsið, þegar
inn gekk. Jens Lange fann stóra lús í höfði sér, lagði hana á glasið í
kikkerten. Vor stýrimaður tók strax sinn kikkert, og þegar hann hafði séð lítið
í hann, lofar hann guð, að vér séum nú ei langt frá landi, því nú komi jula til
okkar með þremur árum á borð. Gengur til kapt. Hólms og segir hönum þessi
markverðugu tíðindi. Hann, úrillur og nýlega upp vaktur af sænginni, tekur og
sinn stóra kikkert og fær öngva julu að sjá. Vor yfirstýrimaður segist hana
gjörla sjá, – „en þeir forustu eður fremstu menn halda árunum upp í loftið“.
Þeir þrætast á um þetta. Að síðustu tekur vor kaptein oberstýrimannsins kikkert
og fer að reyna, hvert sjá kunni þessa julu, en þegar hann tók kikkerten, sneri
það fremsta glas niður, so lúsin af féll, hvar fyrir vor kaptein fékk ekkert að
sjá, vor yfirstýrimaður og ei heldur, þegar hann tók við kikkerten. En hefði
hann heyrt það, er sá norski matrós gjörði við hans kikkert, var hönum víst hið
stærsta straff. En vor yfirstýrimaður var ei so vel kynntur, að nokkur maður
unnti hönum góðs, þar hann var hinn versti að straffa fólk og það fyrir
smámuni.

Tveim dögum hér eftir fengum vér
land í sikti, sem var Portopray, eitt lítið eyland og heyrir til kónginum af
Portúgal. Vér vorum þrjá daga, fyrr en komunst til landsins, því vindurinn var
lítill, en undirstjór eður lognöldur. Sýndist því bezt að halda út til sjós,
þar til betri tækifæri gefast kynnu. Kort þar eftir komum vér til landsins. Við
lögðum vort skip á rúmsjóinn langt frá landi, höfðum þó góðan leirbotn fyrir
vor arnker, en fórum með vorn stóra bát í land hlaðinn með tómum vatnsfötum, er
uppfyllast áttu í landi með vatn. Vér höfðum og lítið arnker í bátnum, sem vér
létum falla, þar sem í land fórum, fyrir afturstefni, en létum einn synda í
land með landkaðalinn og gjöra hann fastan. Nú gekk mikið brim í landi. Vér
köstuðum út þeim tómu fötum út í sjóinn, en þeir, sem ei kunnu synda, máttu
hala sig í land eftir kaðlinum, og kunni sjórinn ganga yfir höfuð vort, máske
yfir tvær mannshæðir, en þegar sjórinn út rann, áttum vér við harða kosti að
búa að halda oss so fast við kaðalinn, að sjórinn oss ei með sér tæki. Í þessu
brimi vor ei fáir Portoprayerer að synda til gamans, þar sjórinn var
hálfvolgur. Þeir voru svartir sem sót með svart hár, líkast þeim svörtu
unglambaskinnum hjá oss, er voru krulluð með lítið hár. Þegar í land komum,
sáum vér kvenfólk með viðlíkum farfa. Þetta fólk var allt með söðulbökuðum
nefjum. Gekk mest nakið, utan um mittið höfðu þeir svirgul af líni. Öngvan
dreng sá eg þar, sem ei hafði sabel við síðu sér, þó hann væri ei eldri en tíu
ára.

Allt þetta hyski var þjófgefið og
morðingar. Kort sagt: Það var það versta fólk undir sólunni, sem eg hefi heyrt
og séð. Þeir eru opinberlegir þjófar. Þegar þeir fá nokkuð, sem þeir látast
kaupa vilja, hlaupa þeir frá manni út í skóginn, so maður sér þá aldrei meir.
Þar er vel einn kommandant, sem er frá Lissabon, með konu og börnum, sem skal
gjöra þeim framandi sjómönnum rétt.

Þegar nú komum í land, veltum vér
vorum vatnsílátum til brunnsins, sem var í skógnum, – lítil bæjarleið að lengd.
Þar voru so margir karlmenn og kvenfólk, að undrum gegndi, er allir höfðu að
selja oss ávexti, sykur, höns eður hænsni bæði lifandi og steikt á eldi þar í
skógnum þétt við brunninn, er við fengum vatn í. – Góðan, stóran og feitan
fyrir lakan þumlung af því þykkva tóbaki. Fyrir gamla skyrtu, sem ei var hreint
í sundur, fengum vér gamalt stórt svín, sem fyrir víst hefði kostað 5 til 6 rd.
Fyrir gamlan hatt, sem ei voru göt á, einn sykurtopp, sem var 3 pund að vikt.
Fyrir pott vín tvo skildinga.

Fátt kvenfólk sá eg þar, sem hafði
allan klæðnað. Svartar voru þær sem kol á kroppnum, hverjar þó vildu narra vort
fólk til holdlegs samræðis þar út í skógnum. Og kannske nokkrir af vorum
stýrimönnum urðu af þeim narraðir og fengu mörgum peningum tapt við sömu
lélegheit, er skeðu við þá orsök, að þeirra eigið fólk kom yfir þá, þegar þessi
verknaður var framinn, sem var undirtalað af þeim, áður en þessi gjörningur
skyldi gjörast. Þetta strax sagt til kommandanten og síðan til vors kapteins,
er skyldi útbetala peningana. Þegar nú kvöldaði, mátti vor kaptein begjöra
soldáta frá kastillinu með hlaðnar byssur og korða við síðuna, er skyldu taka
vara á oss fyrir þessum Portoprayurum, því þeirra lög eru soleiðis, að enginn
má vera í þeirra landi eftir sólarinnar undirgang. Finnst þar nokkur, hefur
hann lífið forbrotið, sérdeilis þeir, er ei kunna þeirra mál.

Annars sá eg þar nokkra hollenzka
og engelska, er höfðu strokið frá þeirra kapteinum. Vér misstum þar fjóra
matrósa, og enginn af þeim hafði verið þar fyrri. Orsökin er þessi, að þeir
líða bæði högg og slög, lítið til fæðu og eru í stórum skuldum, hafa útsóað
þeirra peningum í brennivíni og tóbaki og bíða so eftir hollenzkum eður
engelskum, ef kynni þeir lífi héldu. Því ekkert er verra en að vera peningalus
í framandi landi, og það enn verra, að skilja ei þeirra sprog, so mann ei af
veit, fyrr en þeir taka lífið af honum, so hann er á milli steins og sleggju,
sem menn plaga að segja.

Þegar við vorum búnir að fá vatnið
í bátinn um nóttina og það keyptum í landi og áður er sagt, vorum vér kallaðir
fyrir kapteininn, er sagði oss, að það vér keypt höfðum í landi, skyldi takast
frá oss til skips brug. Þo skyldum vér fá okkar peninga af sér, sem vér höfðum
fyrir gefið. Um morguninn tíðlega fórum vér aftur í land með vorum
skipsassistent, er innkaupa skyldi allt það, er skipið með þyrfti á reisunni
til Kína, sem voru naut, sauðir og svín samt jarðarinnar ávexti, sem voru
appelsiner, pissan, lemoner, kukkuser, sem eru beztir ávextir til fæðu.
Kukkuser vaxa á vissum trjám. Þeirra skalli eður skurmur er harðari en eik og
ullu vaxinn. Inni í skurminum er vatn sætt sem hunang, og þegar það er út
drukkið, er til baka hvítur kjarni sem úr eggi væri, sætur sem sykur. Þegar nú
skallinn er út tæmdur, tekur hann frá hálfum potti til þriggja pela. Þennan
skalla selja þeir í Norðurhálfu heimsins, sem verður besleginn með
silfurböndum, handraði og loki og hafður fyrir ölkrúsir á stórum stöðum.

Vér gengum lítið upp á landið. Kom
mót oss ríðandi maður í hnakki. Kona hans reið og í kvensöðli, rétt eins
lagaður og hér brúkast. Maður þessi kunni nokkuð í því latínska tungumáli, en
þar voru fáir af oss, sem kunnu tala það tungumál. Hann fortaldi oss, að þetta
fólk, sem bjó við sjóinn, lifði af landsins ávexti og því, er þeir kynni stela
og ræna af sjófarandi fókli, er þar kæmu bæði frá Hollandi, Svíaríki, Danemark,
Englandi, Frankaríki, Lissabon, Spanien. Líka frá Austursjónum. Upp á landinu
væru skikkanlegir bændur. Þar væru og stór vötn með silungi og laxi, egg af
skógarfugli í mengd með öðrum landgæðum, kvikfénaður í mengd, so hér á vantaði
ekkert utan þá kristilegu trú. Þar kom enginn vetur, so þegar eitt tré hafði
gefið sinn ávöxt, – fám dögum þar eftir færi það að framleiða vísir af eftirkomandi
ávöxtum.

Þegar höfðum út talað og eftirspurt
því, er kunnu, fórum vér til strandarinnar til vors skipsassistents, er þá
hafði innkeypt það með þurftu. Við ströndina voru nokkrir bændur, þó meir frá
landinu. Nokkrir af þeim riðu á ösnum og aseninnum. Þeir báru á borikum ávexti.
Þær voru álíka og ösnur í skapnaði, en minni að vexti. Þær hneggja viðlíkt og
lómur kallar, eru ótrúanlega sterkar að bera. Landið var með fjöllum og
undirlendi með vínviði. Við sjóinn var engin rétt bygging, heldur litlar búiðr
hér og hvar langs með sjóarströndinni, utan hvar kommandantinn bjó, sem var
kastillið. Þegar vor skipsassistent var nú ferðbúinn, voru nautin bundin saman
í hóp og látin synda að skipinu og so höfð lengja af kabelgarni, er bundin var
um horn þeirra – og hissuð um borð. Líka so með fé og geitur samt ölkönnur,
matvæli og proviant, er við komum með frá landi. Vorum vér so ferðbúnir frá
Portopray um nóttina kl. 11. Kunnum þó ei burt koma fyrr en með sólunni, er vér
skyldum taka afskeið með kastillið og gáfum því 27 skot og fengum níu aftur.

Tókum vorn kors SSV, það er
suð-suð-vest. Nú var vindurinn hægur og hitinn mikill. Við tókum öll vor
vetrarsegl niður, en hengdum upp aftur þaug gömlu. Þetta góða veður varaði
lengi, mig minnir um þrjár vikur, so vér ekkert gjörðum á vorri vakt utan að
svara til vorra nafna og leggja oss niður á þilfarið, annaðhvert að sofa eður
að fortelja hvör öðrum historíur.

Þessi góða veðurátta varaði yfir
þrjár vikur, og vindurinn var VNV og vér sigldum nú mest SO. Einn morgun kl. 8
kom einn svartur maður með niu englum ofan frá bramránni og spurði eftir kapt.
Hólm. Hann kom strax. Sá svarti maður spur eftir, hvaða hæð hann nú hafi undir
sólina. Kaptein segist ei vita það, annars þenki hann sig nú snart undir
línunni. Sá svarti segir, hann sé nú undir henni, segist kominn vera að skíra
þá, er ei hér fyrr verið hefðu. Verður settur altunnustampur upp á þilfarið með
sjóvatni í og svertu. Tekur sá svarti maður alla þá framandi og dýfir þeim í
þennan stamp, öllu höfðinu undir axlir. Má hann so gefa til sinna kammerata í
það minnsta 1 rd., til prestsins til offur 1 rd. Þessir peningar verða
aftrekknir í Khavn af launum þeirra, þegar heim koma. Að þessu búnu hittir
skipsfólkið upp á aðskiljanlega leiki þann dag, sem þeir fá kunnu brennivín
fyrir af kapteini vorum.

Annars er fólk mikið sjúkt og illa
til passa af þessum stóra hita og óheilnæmu lofti. Hvert annað glas má hissa
sjó upp á þilfarið. Annars bráðnar bæði bik og tajara af skipinu, verði ei
þessu vatni, sem er hálfvolgt, slegið á það bæði utan borðs og innan.

Flestallat fólk, sem synda kann, er
þá í sjónum, og jafnvel þeir, sem ei kunna, halda sér fast í kaðlana. Þetta
gjörir fólk til að kæla sér í hitanum. Margt af voru fólki var nú sjúkt, en
fáir dóu. Vor stýrimann, Sommer, var að taka sólarinnar hæð, þegar komnir vorum
lítið suður yfir línuna. Eg sá, að hann tók sinn hatt af og var að hrista hann
mót sólunni með  ofsahlátri. Var síðan
kallaður aftur á skansinn til kapt. Holm, en hann kunni öngva grein gjöra fyrir
sínum galinskap. Varð so tekinn og færður í sitt kammer og tveir menn hönum til
vöktunar, og það allt til Kaupinhafnar, so hann kom aldrei til síns forstands.
Að vísu var hann nokkuð betri, þegar kom undir það kalda loft, en hans forstand
var þó burtu. Vor smiður varð aldrei sjúkur. Hann drakk so vel sinn pott
brennivín undir línunni sem annars staðar og gjörði sitt fulla erfiði þann dag
sem aðra og hans undir hafandi meðhjálpari líka so. Þessa tíma var eg ei mikið
frískur, og ei át eg mín ranson hverki af mat eður drakk mitt brennivín. Þar
voru og margir kaupmenn, sem gjarnan vildu kaupa þessa vöru. Eg var líka sem
drukkinn væri og máttlítill. Vor undirdoktor deyði um þessa tíma. Hann hafði
tekið of mikil medikament inn. Sagði og, þegar matrósar voru sjúkir, þeir segði
það ósatt, heldur væri það af leti og ómennsku. – Sagði, þeirra sjúkdómur mundi
burt fara, ef þeir fengju vel högg. Allt so urðu nú matroser glaðir við hans
burtför. Heldur urðu fúsir hönum í sjó að varpa.

Ei man eg, hvað lengi vér vorum í
þessu ráfi báðum megin línunnar, því þar var mest logn og lítill vindur. Um
þessa tíma sá eg mikið af fiski þeim, er þeir bonitter kölluðu. Þær héldu sér í
þeim straumi, sem stýrið af sér gaf. Þessir fiskar voru að lengd sem
meðallaxar, en mikið þykkri og blóðmiklir. Þeir voru að átu mikið svipðair
háfi. Óheilnæmir fyrir sjúkt fólk. Þessar bonitter drifu þá fljúgandi fiska upp
úr sjónum, þar þeir áttu líf sitt verja fyrir þessum fjandmönnum. Eg vissi ei,
hvað þetta vera skyldi, þegar sá, so mörg þúsund upp komu af sjónum, er voru
líkastir smáfuglum og flugu hátt upp. Þeirra vængir voru þeirra eyruggar, er
voru og stærri en kroppnum til heyrði. So lengi uggarnir voru votir, kunnu þeir
vel fljúga, en þegar þurrir urðu, duttu þeir strax iður, hvað sem undir var. Nú
er að lítill tími, sem þessir uggar eru votir í þessum stóra hita. Þessir
fiskar eru að stærð sem almennileg síl, sæmileg til fæðu. Þaug féllu títt á
vort skip við sömu lelighed. Á þessari reisu fundum vér bæði þara og marálm. Í
þessum þara og marálmi voru óþekkjanlegir ormar og fiskamyndir, sem voru settir
í vatn í stórum glösum, er þeir með sér færðu til Kaupinhafnar, hvar þeir fengu
stóra peninga fyrir þessi glös hjá þeim lærðu. Þetta gjörðu öll vor
skipsyfirvöld, þó mest vor doktor. Flestir af voru fólki, sem í þessum varma ei
fyrr verið höfðu, urðu annaðhvert sjúkir, ringlaðir í höfðinu og undarlegir í
þeirra umgengni, allra helzt þegar í þessum ofhita voru. En þegar vér vorum
komnir suður yfir línuna, og sólin var fyrir norðan oss, voru loftin so
undarleg með svörtum, þykkvum skýjum. Því lengur vér komum suður, því kaldari
urðu loftin, og það so bitur kuldi, að vér að fám dögum liðnum frá línunni
máttum færa oss í fóðraðar mussur.

Ei man eg, hvað langt vér sigldum
suður frá línunni, en það man eg, að veðrið var mikið biturlega kalt og
óviðkunnanlegt. Eg sá þar og ekkert markverðugt að skrifa. Eg sá þar hverki
fiska eður fugla, sem mér þótti neitt nýstárlegt. Þessa okkar resiu sunnan yfir
sólina orsökuðu þær tyrknesku eylendur, sem á nánd vera skyldu. Vér vorum að
exercere hvern dag með byssur og fallstykki, einnin að kasta raketter, fekta
með korða, og alls konar stratagemmata. Nú héldum vér til línunnar aftur til að
ná Caput de bone Speranse, hæð, sem er sá syðsti partur af Afrika, og þaðan
setum vér vorn koss yfir Morien eður Mórland. Það voru 500 vikur sjóar, er og
þar hjá vanskilegt og háskasamt þar yfir að reisa, mest fyrir orkanen. Það er
sá vindur, sem kemur af öllum áttum, so skipið kann ei bjarga sér fyrir sjónum,
heldur má sjórinn ganga yfir það á allar síður eins og það væri sker. Margir
missa mastur og rár í þessum lífsháska. Annars gjörðum vér að nokkru leyti
skikkanlega reisu, utan hvað vindurinn var oss mótfallinn. Vér fengum og
nokkurn smekk af orkanen, sem varaði ei yfir tvo tíma, og vér fyrir guðs náð komum
kallaust til Jager, sem eru þaug háu fjöll, fyrr en vér komum til Ostindien.

Þaðan fórum vér að Stralsund, sem
er einn vegur, er þeir skulu ganga í gegnum, er setja sína reisu til Kína, og
þessi vegur er 90 mílur að lengd og liggur í gegnum Indien. Innbúendur við
sundið skulu halda þessu sundi so djúpu, að skip kunni ganga í gegnum, því þar
er grunnur sjór, en þeir hafa mjóa og langa báta, er þeir taka leirinn úr
botninum og koma í þessa báta, að sjórinn skuli dýpri verða fyrir þá reisandi.
Fyrir þeirra ómak fá þeir 300 rd. af hverri nation, sem eru danskir, svenskir,
engelskir, franskir, Portugiser, Spaníóler og margir fleiri, so þeir fá vel
betalt þeirra erfiði. Þetta fólk var um borð hjá oss í eintrjáningsbátum tveim
að tölu. Þeir voru gulir að lit, höfðu engin klæði á sínum kropp, hverki hátt
nég lágt, voru með ávexti og bómolíu, er þeir vildu hafa silfurpeninga fyrir.
Þeir vildu, að vér skyldum koma í land og sjá þeirra bústaði og kvenfólk samt
landsins pródúkt og ásigkomulag. En þeirra meining var mest að narra peninga
frá oss, hvað þeim sló feil, því vér höfðum nokkra matrósa hjá oss, sem þekktu
þeirra artugheit, so þetta þeirra forslag sló þeim merkilega feil. Þeir fóru í
land eftir ávöxtum til okkar aftur. Nokkrir urðu um borð að segja oss, hvar dýpst
væri. Á þessu faravatni voru mikil lögn. Sundið var mikið mjótt og byggðir við
báðar síður. Þar voru apakettir til sölu. Þessir heiðingjar fylgdust með oss um
þrjár vikur, því sundið var vanskilegt að koma í gegnum fyrir sandhaugum og
leirvogum. Það var sá dagur, vér máttum láta anker falla kannske fimmtán eður
sextán sinnum. Í midlertid voru þessir heiðingjar að finna oss annan veg, og
þannig gekk veginn upp og niður, inn til þess vér vorum heila veginn áfram
komnir til Prinzin Eyland og þaðan til Tranzvebar í Ostindien, sem er eitt
kastill, er tilheyrir kónginum af Dannemark og hann hefur soldater upp á, er
þar skulu vera í átta ár, fyrr en aðrir þá af leysa, er koma frá Khafn. Vér
höfðum tvo með oss, er höfðu verið á kastillinu í átta ár, og voru þó báðir
þýzkir, er fylgdust með oss til Kanton í Kína.

Vér lágum við kastillið Tranqvebar
í átta daga, fengum þar rís, jams, er þeir brúka þar fyrir brauð, – það er
stærra en jarðepli – og kalebasser. Þær eru stærri en baunir. Það gáfum vér
vorum geitum, er vér keyptum í Portopray. Vér fengum þar og rautt tré, er
brúkast til háfarfa og er mikið dýrt í Amsterdam. Þaðan kemur það klæði, er
þeir fá 7 rd. fyrir eina alin í Kína og taka til andvirðis flauel og silki, sem
verður einn skildingur af þeirra rauðu háförfuðu klæði, kannske fyrir 4 mk.
Eður einn sléttur dalur, þegar þeir koma hér til Evrópu. Ullina kaupa þeir í
Jullandi eður í Sjálandi, gefa fyrir pundið 2 eður 2½ mark dönsk. Þeir gjöra
vel klæði í Kaupinhöfn, en þaug eru ei að reikna mót þessum. Það mesta af þeim
er til soldáta. Hin betri kaupa þeir frá Hollandi. Það er sú ull, er vex á fénu
frá vorkrossmessu til haustkrossmessu. Er þá féð látið niður í stamp, upp
fylltur með kalt vatn. Síðan er það vaskað þar í, fyrst á eina síðu og so á
aðra síðu. Gengur so tvo eður þrjá daga, inn til þess það verður klippt. Um
Marteinsmessu koma þeir juzku ullkramarar og kaupa þá ullina. Selja bændur þeim
hana kannske fyrir 28 skildinga eður 30 pundið. Koma so smáskip frá Hollandi,
er kaupa mörg pund, já, fyrir 6 eður 7 hundruð rd., er þeir aftur selja til
vefaranna í Hollandi, er gjöra þessi góðu klæði og selja þeim kínisku
kaupmönnum.

Nú fórum vér að gjöra við vort
skip, fengum það fyrst beygt á eina síðu, so kjölurinn var uppi. So máttum vér
skraba það gras, er vaxið hafði á skipsplönkunum í þeim sterka hita undir
línunni, og maka aftur með tólk og tjöru, so meiri ferð gjöra kynni í gegnum
sjáarins bylgjur. Sömu aðferð brúkuðum vér við hina síðuna, – og bara tólk
framan á brjóstið, – so skipið kunni nú gjöra í vakt 10 mílur, sem varla gjörði
fimm, þegar það hafði þetta mikla gras á báðum síðum. Að þessu gjörðu eftir
sáum vér, hvert reiðinn hefði fengið nokkurn skaða, því enn nú höfðum vér 500
mílur til vors rétta plátz, sem var Kanton í Kína. Vor yfirvöld voru í landi að
forfríska kroppinn með fæðu og góðum drykki, kannske nokkrir af þeim vildu tala
við fallegar stúlkur. Og þegar vér vorum ferðbúnir, tókum afskeið við plátzið
og skutum 27 kanónuskot, fengum níu aftur og tókum og afskeið frá kommandanten
upp á kastillinu og gáfum honum níu skot, fengum þrjú aftur.

Þessi staður var lítill, þó vel
innréttaður með góðu kastilli, er kann forsvara þann heila bý. Landið var
ávaxtarsamt bæði með fénað og ávexti. Það innfaædda fólk var svargult í
andliti, var klætt í nankins klæðum. Þaug eru bæði gul og blá og eru gjörð af
tréull, sem vér annars köllum bómull, er það sama, því að bóm er tré upp á
þýzku. Þar voru og margir morianer eður svart fólk, er komið mun hafa frá
Morien ellegar frá þeim tyrknesku eylöndum. Annars er þetta fólk aðskilt yfir
heila Afríka og Ameríka, það er Suður- og Vesturálfu heimsins. Fyrir framan
staðinn lágu mörg skip, þó smá væru, öll komin frá Jappa. Það er sá næsti
kaupstaður við Kanton í Kína. Þaug höfðu öll strásegl, og þeirra lífkaðall var
og af stráum. Seglin voru ótrúanlega þétt og vel gjörð. Þeir sóttu til
Tranqvebar eftir jams og því rauða tré, Komu með kóngóte, sem er það bezta af
öllu te, því vér höfðum og nokkra kassa með kóngóte, er voru afhentir upp á
slotið. Þar stóð á loki þeirra: Friðrik fimmti. Þessi skip fengu ein deil af
því rauða tré, hvert eg hefi fyrr um talað. Þaug voru þar liggjandi, þegar
burtu fórum.

Vér héldum út til sjós, fengum
temmilegan sunnanvind og undirsjó ei lítinn, so það gaf á skipið. Við
sólarinnar niðurgöngu og so heila nóttina var sjórinn so varmur sem hálfkokkað
tevatn. Um sólarinnar uppkomu var sjórinn varla volgur. Þar er nótt og dagur
eins löng árið út og árið inn og umbreytist aldrei, so lengi veröldin stendur.
Á þessari reisu sá eg nokkra fugla mér ókennda. Þeir voru litlir vexti og höfðu
rödd sem lómur. Lönd sá eg engin til hægri handar, en til vinstri handar voru
mörg háfjöll og lítið undirlendi. Og eftir þriggja vikna tíma fengum þá gleði
að sjá Bambo kastell. Mátti vor kapteinn í land og framvísa sinn pass og hvað
hann inni hefði fyrir vöru, sem voru 34 kistur af stangasilfri og 24 stykki af
blý. Þetta var öll sú vara, er vér færðum með oss frá Khafn. Að þessu búnu
skyldu betjeterer með oss að vita, hvert þetta hefði sín rigtighed. Fengum so
rigtighed að passera til staðarins Kanton, er var vort destinerað plátz. Tókum
so afskeið frá plátzinu og skutum 27 skot fyrir kastillinu, fengum níu aftur.

Fórum so upp eftir fljótinu með
hjálp engelskra, sem vörpuðu oss upp á vort vanalegt plátz, rétt til móts við
vorn bangsal. Vorum þar komnir kl. 8 um kvöldið. Fór so vor kapteinn og
superkargo eður yfirkaupmaður með sínum sex assistenter til staðarins um
nóttina, sem var hér um fimm eður sex vikur sjóar. Þeir, sem voru með vorum
yfirvöldum, komu ei aftur fyrr en um kveldið eftir.

Nú kom vor konfedor, sá sem skaffar
oss til fæðu allt það með þurfum, á meðan þar verðum, og so allt til
heimreisunnar. Hann hafði þrjá bústaði og konu á hverjum bústað. Sá eini var í
staðnum Kanton, annar í Bambo og þripji þar sem vér tókum vora síðustu last inn
og vort vatn, þar í eylandinu utan fyrir Bambo. Nú gaf vor konfedor oss tvö
naut og nokkra sauði sem og eitt fat mandarínvín að halda oss lystuga með.
Þetta gjörir hann við hverja nation, sem þar kemur, sem eru fyrst danskir,
svenskir, engelskir, franskir, Portugiser, Spanioler og frá Valllandi samt
mikið fleiri, jafnvel þó ei alla muna kunni. Sú rússiska keisarinna hefur sína
Kínareisu til lands með elefanter, er fara frá Pétursborg og yfir það Rauða
haf, allt þar til þeir koma til Kanton, og hafa heim með sér þá kínisku vöru.
Eg meina þeir eru á reisunni hér um tólf eður þrettán mánuði, og að þeim heim
komnum fara strax aðrir á stað, en hvað margt fólk fylgist með þeim, veit eg
ógjörla. Hitt veit eg, að þeir hlaða kastilli á hrygg þeirra, ef þeim skyldi
mæta ræningjaflokkur, er vildi stela þeirra vöru frá þeim.

Þegar vor konfedor fer frá skipinu,
er hönum veittur konunglegur heiður með mörgum skotum og mikillri virðingu og
viðhöfn. Allir matrósar hrópa hönum æru með húfum af og háu hrópi og segja
húrra þrisvar sinnum. Sluppu fólkið, sem er með konfedoren, segir einu sinni
húrra. Þann heila dag eru matrósar vel lystugir og glaðir og hafa nú gleymt
allri mæðu, höggum og hungri, er þeir á reisunni hafa útstaðið, so lengi
brennivínið er í höfðinu.

Um morguninn, þegar höfðum út
sofið, var nóg að gjöra, sem var að aftakla skipið og flytja skipsins reiðskap
upp til bangsalinn samt allan vorn proviant, og skyldi skipskokkurinn vandlega
eftir já, hvert skaða fengið hefði. Vorar 34 kistur með silfurstöngum og allir
blýkassarnir með voru upp fluttar til faktoriet í Kanton, er faktoriets
kapteinen skyldi láta inn setja í handelshuset og vakt fyrir utan dyrnar, sem
var so innréttað, að einn undirofficeri með sínu bakksfólki, það er átta
mönnum, skyldu halda vakt á faktoríinu, og þegar fríir væru fyrir vakt, þá að
innkaupa sér nauðvendugt töj til heimreisunnar fyrir þá peninga, er þeir lána
af vorum kapteini, sem er 8 rd. Hver undirofficeri hefur vakt á faktoríinu um
viku tíma, og so kemur annar frá skipinu með sitt bakksfólk og verður þar og
viku, sem gengur so lengi, að allt fólkið hefur verið í landi og keypt sér til
heimreisunnar, það er klæði og te með undirkoppum. Nú er skipið gjört aldeilis
tómt og vandlega eftir séð, hvert nokkrun skaða hafi fengið. Vér höfum vel þrjá
timburmenn, en það er ei mikið. Vér tökum vel hér um 40, þegar komum til Kína,
sem ekkert annað gjöra en kalfatre skipið, fyrst utan borðs, so innan borðs,
sem lengi stendur yfir. So lengi þetta yfir stendur, verður ei á móti lastinni
tekið. Þar er og einn undirofficeri á bangsalnum, er eftir sér, að allur
skipsins reiðskapur sé í góðu standi til heimferðarinnar. Nú þegar skipið er nú
þétt og vel við gjört, er superkargóinn látinn vita, að skipið er í stand.
Kemur sú ordre frá hönum, að á morgun komi fyrst postulínskassar, sem gjarnan
koma að kveldi dags og eru losaðir um nóttina. Þar eru tveir Kíneser með, því
þeim tilherir báturinn, sem kassarnir í færast. Þegar lastin er nú inn tekin,
hvað lítið sem það vera kann, er það lag upp fyllt með þurrum sandi á milli
kassanna, so þeir nái ei til að skrölta í sjóganginum. Vor yfirstýrimaður hefur
að móttaka lastinni og svara til hennar, að ei til skaða koma kunni.

Ærið nóg er að bestilla um þessa
tíma. Hér grasserar stór sjúkdómur bland matrósanna. Orsök þar til er þessi, að
þegar komum af langri reisu til Kína, höfum haft þrjá pela vatns í 24 tíma. Nú
eru þarmarnir innsmognir. Þegar vér komum til Kína, fáum vér vatn so mikið sem
viljum. Þar næst etum vér þá kínisku ávexti, sem mann hissar eftir. En fari
menn að drekka vatn upp á þessa ávexti, verður á stundum of mikið, so mann fær
þunnt líf. Hann heldur áfram líka vel að eta þessa sætu ávexti og drekkur til.
Nú magnast þessi sjúkdómur so, að það gengur blóð frá hönum. Alltíð hefur hann
stóra lyst til matarins, en hann kemur frá hönum aftur að vörmu spori. Margur
var til stóls kannske tíu sinnum á tíma, en þar kom ekkert utan blóð. Og það,
sem mér þótti undarlegast, að þegar þeir gengu til sinnar sængur, voru þeir sem
drukkinn maður og töluðu yfir sig. Þegar þessi sjúkdómur var mestur, var vor
doktor upp á faktoriet, því vor yfirvöld voru og illa haldin af þessum
sjúkdómi. En þegar nokkrir eru mikið sjúkir, má doktor koma til skipsins. Meðal
þeirra sjúku var einn matrós að nafni Kaspar. Doktorinn fór til hans og tók á
hans lífæð, fer strax upp til prestsins og segir, að hann skuli tala gott fyrir
þessum sjúka manni, sem og skeði. Hann vill lesa fyrir hönum, en sá sjúki
talaði ei annað en bölv og bann til prestsins og skipaði hönum burt, en prestur
fór ei að heldur, Að síðustu sagði Kaspar Faðir vor og so framvegis, inn til
hann sagði „Því ríkið er þitt“. Þar eftir deyði hann strax og varð begrafinn af
þeim kínisku hjá hinum dönsku. Annars kastaði vor prestur þremur sandrekum á
hann, fyrr en frá borði fór. Og er so til enda þessi historía um Kaspar
Norðmann.

Eg lá í þessum sjúkdómi, en þorði
ei eta utan hvað doktorinn anordnerede, sem var bouillon-súpa og ekkert annað.
Þessi bouillon-súpa er soleiðis, að það er tekið lærket og kokkað í vatni so
vel, að allur krafturinn fer í vatnið. Þetta bara vatn var mér gefið, tvær
spilkommur, ein um morguninn og önnur um kveldið, og þetta varaði vel í fimm
eður sex daga. Þá fékk eg brauð, en ei smjör. Þrem dögum þar eftir fékk eg bæði
smjör og brauð sem vildi. Allir, sem dóu, átu það, sem þeim var fyrirboðið, og
þar fyrir deyðu þeir. Því þegar þeir höfðu fengið þennan blóðgang, var engin
redning fyrir þeim utan svelta sig og halda sér frá allri fæðu, sem þeim manni
var fyrir sett, er skyldi þeim þjóna í þeirra sjúkdómi. Ef þar fannst forsómun
hjá hönum hér út í, mátti hann taka 50 slög fyrir kanónunni á þunna undirtreyju
í doktorens nærveru, sem var hart straff. Þegar eg kom mig nokkuð, var mér
skipað í þetta vandasamt embætti, sem í 14 daga mátti vera þar þvert á móti geði
mínu. Eg þakkaði mínum guði, að eg slapp, og vildi heldur erfiða með fólkinu,
þegar til krafta kom. Því að heyra til þeirra sjúku, sem voru hungraðir og
höfðu sterka matarlyst og mátti ei kaupa neina fæðu til þeirra, þó þeir
grátandi bæðu, og sumir af þeim hótuðu manni hörðu straffi, þegar á fætur
kæmust, jafnvel að kasta hönum yfir borð, því þeir höfðu sterka matarlyst. Og
þó maður klagaði þetta fyrir doktoren, sögðust þeir aldrei hafa það talað,
heldur gjörðu þetta til lygi og stærstu ósannindi. Eg var og hræddur að ganga
með þessum mönnum upp í reiðann, annaðhvert að reifa eður meðslá seglin, að
þeir mundu kasta mér af ránni ofan í sjóinn. Eg var einmana og forsvarslaus, en
guð vissi, hvað eg hafði í þönkum, þegar upp fór með þessum skálkum. En guði séu
þakkir, sem hjálpaði mér, so eg komst slysalaust til Kaupinhafnar.

Nú fer eg að tala um fólkið í Kína.
Það er að minna lagi að vexti, dökkbrúnt í andliti með rakaðan skalla. Utan frá
hvirflinum höfðu þeir langan topp, sem náði ofan að buxnastrengi, og allir
þeir, sem hann ei höfðu, voru latroner eður óærlegir. Af þessu fólki voru
margir, sem lágu út á sjónum og eigi máttu á land koma fyrir þeirra þjófnað og
rán. Þeirra klæðnaður var blá nankinsföt. Reyktu mikið tóbak, er soleiðis var
lagað, að þeir tóku langan miða af pappír, komu þar í skorið píputóbak, brutu
so þennan miða saman og kveiktu so á endanum og reyktu so lengi inn til að
skeggið fór að sviðna. Köstuðu hönum burt og tóku annan frískan. Þessir menn
eru vinsamlegir að tala við, eru hin vanskilegasta þjóð að gera kauphöndlan
með, því þeir eru hinir nærfærnustu þjófar, so mann skal ei af vita, fyrr en
peningarnir eru af hans lummu, er þeir gjöra á þann hátt, að þeir standa so
þétt saman rúnt umkring mann, þegar þeir af vita, að hann hefur peninga. Nú eru
þeir kínisku koparpeningar með gati í miðjunni, og eru á einum þræði 16
skildingar. Og þegar vér höfðum fulla vasana, kunnum vér ómögulega af vita,
áður peningarnir voru burtu, er skeði með áður fortöldum vélabrögðum.

Í staðnum Kanton var mikið viðhafnalítið
fólk, bæði kaupmenn og þeir stórríku. Allir hafa þessir belghempur og víðar
buxur annaðhvert af nankini eður silki, annaðhvert dökkbláar, gular eður hvítar.
Kollhúfur á höfði. Þetta var forskilið, að þeir stórríku kaupmenn, er áttu
kannske upp á 1000 tunnur gulls, höfðu stóran gullknapp í þeirra húfum.
Kvenfólk sáum vér þar eigi utan vísitörins konu, er maður hennar og hún lágu ei
langt frá voru skipi að sjá, hvað frá því kom og hvað í það aftur færðist.
Fjórtán dögum fyrr en skip koma, er allt kvenfólk úr staðnum látið fara upp á
landið, og eru þar so lengi sem höndlunin yfir stendur, en beþéntara konuna sá
eg oft. Hún hafði hennar hár upp bundið í hvirflinum eins og þær grænlenzku.
Var þessi kona mjög vinleg þeim, er kunnu tala hennar mál. Þar voru og nokkrir
latroner, er lágu ætíð með konu og börnum á sjónum. Þetta fólk sá brúngult út í
andliti, magurt með lítil klæði á kroppnum. Kvenfólkið hafði járnskó á fótum
sér, ei stærri en passa kunni átta vetra gömlu barni. Þetta skyldi vera þeirra
straff fyrir undan farin svik og pretti við þeirra keisara, og skyldi sú
kynkvísl bera þetta straff, so lengi þar var einn maður af henni lifandi.

Eg sá þar og allan fénað, bæði kýr,
hesta og sauði, ær og geitur. Allt var þetta mikið félegt, þrifalegt og
ásjálegt, ei mikið stórt, varla sem vor íslenzki fénaður, að því skapi upp á
mör og feitindi. Ketið hafði einhvörn hniss að smekk fram yfir vort kjöt. Var
og ei heldur so kröftug súpa af þessu kínisku kjöti sem af þeim nordisku
löndum, sem er Ísland, Írland, Færeyjar og so Norge. Ætáll var þar í mengd.
Hann kunnum vér fá, þegar máttum eður kunnum kaupa. Hænuegg og þetta var mikið
gott til átu. Fisk var og lítið að fá, er var lítill að vexti, góður að átu.
Hann tók sig hátt upp af vatninu strax við landsteinana og kom niður á landinu,
so hann kunni ei til vatnsins komast. Þetta skeði oft, þegar í land fórum, að
vér fundum þessa fiska og höfðum þá til skipsins með okkur og suðum þá, en þeir
voru sem silungur að smekk.

Landið í sér sjálfu var sem sú
jarðneska paradís með óteljanlegum ávöxtum og hrísgrjónum, er voru hvít sem
mjólk og sæt sem hunang. Þegar vér etum þaug mikið heit, missum vér sjónina, en
vér gjörðum ost af þeim og átum þaug so, þegar köld voru. Þeir kínisku bökuðu
brauð af þeim, er vér höfðum til heimreisunnar. Brauðið var mikið gott átu, en var
illt að forvara í varmanum fyrir ormi, er í því kviknaði. í Kína er enginn
vetur, heldur er þar ævarandi sumar. Dagurinn er 12 tíma, nóttin líka so. Þegar
einn ávöxtur er fullvaxinn, fellur hann af trénu, og strax sér maður, að nýr
aftur mun koma. Þeirra sykurplantage er og kostulegur. Þó er þaðan ei flutt
nokkurt sykur, þar teið er dýrari vara og postulín, þar eitt par tekoppar kosta
ei meir þar en tvo skildinga, en þegar hingað koma, þá 18 eður 20 skildinga.

Eg sá og þeirra postulínssmiðju.
Hún var sem hár turn með mörgum vel byggðum húsum, hvar þeir brenndu þeirra
postulín. Þegar vér komum til fabrikken kl. 8 formiðdag og pöntuðum undirkopp
og yfirkopp, á undirkoppnum skyldi mitt kontrafej  vera bæði í ásýnd og klæðaburði, — sá kíniski
sér lítið upp á mig, segir, eg skuli koma á morgun kl. 8. Og þegar eg sjálfur
eður minn kammerat komum þar, eru þessir tekoppar ferðugir, meistaralega
gjörðir.

Enginn af voru fólki mátti koma inn
í staðinn, og þó vor kaptein vildi tala við nokkra þar, komu tveir af þeim
kínisku eftir hönum og létu hann fara inn í einn portosceys, það er lítil
karetta, og er so bundið fyrir augu hans, allt þangað til hann kemur til þess
staðar, er hann ætlaði sér. Og að erindi afloknu bera þessir tveir Síneser hann
aftur af staðnum og binda fyrir augu hans sem fyrr, inn til hann kemur út af
portunum. Utan portin eru tvær götur, sem eru faktoríis götur, hvar inni
kaupist öll vara til heimreisunnar.

Tekassarnir munu koma frá landinu,
því eg sá, að tveir Kíneser voru um einn tekassa að bera inn í faktoríið, hvar
eð allt te kemur, sem færist á skipið, því þar er superkargóinn með hans sex
eður átta assistenter, er sortera teið, vega það og koma í kassana. Að þessu má
faktoríis kapteininn gefa gætur, að sá, sem vakt skal ganga, svari til, ef
nokkuð kann burt blífa á hans vakt.

Nú þegar skipið hefur fengið so
mikið sem varla flotið getur, verður það flutt til Bambo. Þar er sjórinn dýpri,
en vegurinn lengri upp til faktoriet. Vor konfedor fylgdist með oss og útvegar
oss, hvað með þurfum, sérdeilis þeim, sem sjúkir eru. Nú er farið að líða að
heimferðartímanum, sem er að venju eftir þrettánda, því um þá tíð snýr
vindurinn sér, er þeir passat kalla. Það er: Hvert hálft ár snýr vindurinn sér
frá nordvest eður suðvest til nordost eður suðost, er þeir kalla heimpassat og
byrjast eftir nýjárið. Gjörðum vér vort skip ferðugt til heimreisunnar tveim
dögum eftir þrettánda. Kom vor kaptein og öll vor yfirvöld þann dag upp á
skipið, er hét Júlíana María eftir vorri drottningu.

En þann dag 8. januarii 1761 tókum
vér afskeið frá Bambo og gáfum kastillinu 27 skot, fengum níu aftur, settum
vorn koss suðvest með hægum vindi frá nordost. Vér höfðum vor sumarsegl undir
slegið. Vindur þessi var sem kæmi úr kakalónsstofu. Vér höfðum ekkert erfiði
með vor segl, heldur létum oss standa. Vor yfirvöld voru þá mikið góð og
skikkanleg. Eitt var það, að vindurinn var góður, hitt annað, að nú hlakkaði
til heimreisunnar, so þeir, sem voru verstir á útreisunni, voru nú beztir á
heimreisunni. Þeir þenktu til Kaupinhafnar að vera vorir góðir vinir, ef ske
kynni, að vér hugsa mundum, hvörnin þeir breyttu við oss á útreisunni.

Hvört sunnudagskveld fengum vér
einn pott púns. Það fyrsta sunnudagskveld, er vér fórum frá Kína, var mikið
tunglsljós, lítill vindur og allt lék nú að óskum. Vér fengum vort púns og
vorum að spatsere um þilfarið, hver með sínum kammerat. Heyrða eg um
bakborðssíðuna, að sagt var: „Guð fyrirgefi þér!“ Vér komum þangað og
sáum, að sá eini af þeim tveimur, er saman drukku, lá flatur á sínum hrygg og
blóðið fossaði af hönum, því hann var gegn stunginn undir bringunni. Prestur
kom út og talaði við þann seka, er var stálharður sem ekkert illt hefði
aðhafzt, og þessi var norskur matrós. Hann sagðist nú fá það, sem lengi hefði
eftir þreyð, að láta sér í sjóinn kasta. Þar eftir urðu bæði bökin saman lögð á
þeim dauða og lifandi og bundin saman með blýlóð bundin við fæturnar og í
sjávardjúp sökktir. Eftir þá tíð var undirofficerum uppálagt að patrullera um
þilfarið, þegar púns var drukkið, og heyra eftir, hvert allir væru sáttir og
samráðir. Meining manna var, að þessir tveir matrósar vildu báðir eiga eina
stúlku í Kaupinhöfn, og þar af hefði þeirra ósamheldi orsakazt.

Vér héldum nú sjóinn hér um þrjár
vikur, eftir það fórum frá Kína, og vér komum til St. Helena, hvar vér fengum
vatn og nokkur naut sem og sauðfénað. Annars lágum vér fyrir framan Kap í
sterkum stormvindi og fengum lekt skip, sem vér fengum nokkuð við gjört í St.
Helena. Á þeirri leið bar ekkert til tíðinda. Vér vorum allir frískir og vel
til passa. Þetta eyland, St. Helena, heyrir engelskum til. Þar er artugt fólk,
sérdeilis kvenfólkið, sem liggur í blóðinu. Annars var þar öll vara dýr. Vatn
var þar mikið slæmt, því það var so mikið korgótt, er kom af bergi því, er rann
eftir söndugum dal og óhreinum grundvelli. Þar lágum vér í fimm daga. Vorir
yfirmenn voru í landi að leika sér við stúlkurnar og forfríska kroppinn. Vor
kapteinn fékk bréf frá Khafn þar í landi, sem ekkert markverðugt fortaldi utan
frið og samþykki allra þjóða. Þegar vorir yfirmenn um borð komu, skyldum vér
fyrst skjóta eftir venju fyrir kastillinu 27 skot, fengum níu aftur, gjörðum
oss so seglferðuga um kveldið kl. 8 og héldum vorn vana koss suðvest. Bar
ekkert til tíðinda. Veðrið gott og passatinn enn nú stöðugur, allt þar til vér
komum á St. Croix hæðir, sem er í Vestindien. Þar féll sú óheilnæma þoka, er
kostar margra lífsdaga, ef hún fellur á sofandi fólk á þilfarinu, því þá kunna
menn ei að liggja niðri í skipinu fyrir þeim sterka og mikla hita, er þar um
grasserar. Annars var vort fólk ei mikið sjúkt um þann tíma, og á heimreisunni
dóu ei yfir fjórir matrósar, er féllu af reiðanum, og einn drengur. Því nær vér
komum til Khöfn, því betri voru yfirvöldin oss. Nú fengum vér brennivín tvisvar
um daginn, hvert vér gjörðum mikið eður lítið, og aldrei fékk nokkur maður illt
orð, langt síður högg, so nú óskuðum vér, að reisan kynni lengi vara.

Þegar vér komum norður yfir línuna
hér um 7—8 grader, fór vindurinn að forandra sig, því þá kom hann stundum rétt
mót oss. Þegar vér höfðum hér um tvö hundruð vikur sjóar til Englands, mættum
vér engelskum kapara. Hann skaut til okkar, að vér skyldum koma um borð til
hans og framvísa vorn pass, en vor kaptein sagði með hans hrópara, að hann
sjálfur skyldi koma um borð til okkar og framvísa sinn pass, hvað ef ei skeði,
skyldi það kosta púður og kúlur. En sá engelski kaptein lét sér það að góðri
kenningu verða og kom um borð til okkar með nokkur engelsk faar eður sauði og
gaf þá vorum kapteini, so þeir urðu beztu vinir og drukku saman þann heila dag.
Veðrið var gott með litlum vindi frá nordvest. Þessir engelsku sauðir voru að
stærð sem veturgamalt naut, með krullaða ull mikið þelgóða. Ei vissa eg, hvað
mikinn mör hver sauður hafði, en þegar kroppurinn var siginn, var þriggja
fingra þykkt ket og spik á síðunni inn til rifbeinsins. Eftir því var hitt
annað kjötið á þeim.

Eftir það skildust vorir herrar, og
tókum vorn koss norðan til austan, fengum óstöðugan vind. Vér fengum nú stundum
mikið að gjöra, sérdeilis þegar þaug hörðu veður komu, þó enginn slægi oss
mikið utan vor skipmann, er hafði gaman af að heyra matroser hljóðuðu. Eina
nótt heyrði kapteininn, að fólk blessaði so oft skipmanninn og bað hann að vera
náðugan og slá ei so mikið. Þetta var fram á skipinu. Skömmu síðar kom þar
mikið hark, eftir hvert matroser hróptu og sögðu: „Æ, herra guð! Vor skipmann
er dottinn yfir borð“. Það heyrði vor kaptein, kom fram á skipið og spur
eftir, með hverjum atburðum þetta skeð hefði. En matrósar voru so hryggvir, að
ei létust kunna gjöra rétta undirrétting í þessari sök, en þegar kapteininn
gekk frá þeim aftur á skipið, hlógu þeir allir saman og fóru að syngja
háðvísur. Skipmaðurinn kom aldrei síðan og enginn saknaði hans af matrósunum,
en yfirvöldin söknuðu hans mikið, því hann var mikið fyrir að bera beim
fréttir. Kapteininn hótaði þeim, að þeir skyldu koma fyrir ráðstofuréttinn,
þegar heim kæmu til Köfn. En þegar þar komu, var öllu gleymt, so ekkert varð
hér um talað meir.

Nú sigldum vér 14 daga tíð og
þóttust sjá þær engelsku eylendur, en níu dögum þar eftir fengum ver England að
sjá. Komum ei so nær, að vér fengjum fólk nokkurt í tal, af því að vindurinn
var oss með. Að þessu búnu fengum vér ei land að sjá, fyrr en fengum Norge í sikti
um morguninn kl. 8. Á þessari leið, eg meina frá Englandi og til Noregs, var
brennivínsfatan upp á þilfarinu á hverri vakt, so vér vorum hálfdrukknir allar
tíðir, lágum á þilfari eins og hundar af fögnuði, því vér þenktum upp á
Kaupinhöfn og þær fallegu stúlkur. Síðan héldum vér frá Norge um kvöldið til
Kattegat, vorum í Helsingjaeyri kl. 12 um daginn, skutum fyrir kastillinu 27 skot,
fengum níu aftur. Fengum gjört oss klára við tollkammerið á tveim tímum og
fórum so til vaktskipsins strax og gjörðum oss klára. Tókum lossinn með oss til
Kaupinhafnar, fyrst til kóngsins vaktskips og so til tollbúðarinnar, og sagðir
velkomnir heim af þeirri löngu reisu. Vér létum vor anker falla á Khafns rei,
fórum so í land í vorum silki og flöjelsklæðum.

Eg fór til herbergis hjá Rasmus
Bager í Laksegaden, sem var sá ypparsti hóruvert í heila Khöfn. Þar voru
musikanter þrír að tölu. Þar var dans nótt og dag og ei annað erfiði en drekka
og hórast fyrir þá, er þar höfðu lyst til. Eg fór upp á Björnsplátz að erfiða,
inn til mínir peningar féllu, sem var um sex vikna tíð.

Frakklandsferð

Tók eg mér reisu að Frankaríki með
skipherra Ole Kiölling, er skyldi taka sína timburlast í Frederiksstad í Norge.
Fyrr en fór frá Khöfn var eg með mínum tveimur kammerötum, er fóru og með þesum
skipherra, að spatsere um Kaupinhöfn og eftir sjá þaug fornemstu vertshús.
Komum til eins brennivínsbrennara, er bevísti oss mikil höjflegheit með vín og
kaffi fyrir utan betaling. Hann var í silkislafrokk, og allt hans taffel var af
silfri. Hans madame var klædd sem geheimeraadinde með gullúr, er hengdi á
hennar klæðum. Maður hennar hafði tvö úr, eitt af silfri, annað af gulli. Hann
sagði til okkar, vér skyldum lána sér 50 rd. hver af oss þremur. Vér gjörðum
það, þar vér og vissum, að sú danska mynt var ei gangbar í Frankaríki. Hann lofaði
að senda oss rentuna með milli farandi pósti, sem hann og gjörði um veturinn.

Vér fórum frá Kaupinhöfn, mig
minnir þrem vikum fyrir Mikelsmessu, komum til Norge innan 14 daga að
Frederiksstad. Þar er kastill. Eg var þar uppi með mínum tveimur kammerötum,
Diðrik Fester pg Elías, svenskur að ætt, hinn hæsti maður, er eg hefi séð. Á
þessu kastilli voru þrír slafar frá Íslandi. Einn þeirra var frá Völlum í
Hítardalssókn. Allir þessir voru dæmdir upp á kóngs náð. Þeim gáfum vér nokkra
skildinga. Þar var þurrlegt kvenfólk, en þar sem vor loss bjó, var mikið
þægilegt og góðviljugt fólk og þar um kring.

Nú fórum vér að taka vora last inn,
sem voru borð, er vor franski kaupmaður hafa skyldi. Og þegar vér höfðum nú
fengið vora last inn, vorum vér þrír so innilega um beðnir að koma til
brullaups, er vera skyldi í hestagarðinum strax við þar sem vort skip lá, en
það skyldi vera fátækt fólk, er saman kom. Vor skipherra sagði, að vér mættum
gjarnan fara í þetta brúðkaup og biðja guð fyrir þeim, að þeirra ráðahagur
mætti ske guði til æru og þeim og þeirra vinum til gleði. Vér klæddum oss í vor
klæði og fórum í land, fylgdum þeim í kirkjuna og gjörðum mikið af þeim með
stærstu komplimentum. Þaðan til þeirra heimilis. Þar var drukkið og vel veitt.
Vér gáfum brúðhjónunum 1 rd. hver af oss, höfðum so í ráði að fara um borð. Þar
var ein kona, sem Karen sig nefndi; bauð oss heim til sín fyrr en til skips færum.
Vér skyldum fá þar kaffi og te, er tæki svírann úr höfðinu, fyrr en um borð
gengjum. Oss sýndist gott um þetta tilboð, fórum með þessari hóruvertinnu,
komum í hús hennar. Voru þar þrjú uppbúin rúm og þrjár hórur. Vér fórum að
drekka kaffi og te hjá þessari konu. Síðan skyldum vér dansa með þessum hórum,
en eg afsakaði mig frá þeirra dansi, setti mig á einn stól og féll í svefn og
vaknaði ei, fyrr en vor loss kom eftir oss um morguninn tíðlega. Þá vöknuðu
mínir tveir kammerater, og hafði hver þeirra eina hóru í sæng hjá sér. Lossinn
og Karen komu í stórt klammerí, og hótaði henni börnhúsinu í Kaupinhöfn, en að
síðustunni urðu þaug þó góðir vinir. Fórum vér so um borð með hönum, en hann
forþýddi þetta upp á hinn bezta máta, so skipherrann varð góður. Að þessu búnu
fórum vér að forhala skipið betur niður á höfnina og taka vorar vatnstunnur inn
og gjörðum oss reisuferðuga til um morguninn tíðlega. Eg fór í land um kvöldið
til þessarar Karenar, en hún talaði mér illa til, að eg hefði verið so
stórlátur, að ei vildi þiggja uppbúna sæng hjá sér, en mínir kammerater hefðu
verið mikið skikkanlegir. Eg sagði henni, eg hefði ei haft neina hórupeninga
hjá mér að betala henni með. Eg hefði og annað að brúka peninga til en að gefa
þá út fyrir hórur, sem væri bæði skaði og skömm, en hún hótaði mér so miklum höggum,
þegar í land kæmi. Síðan hefi eg aldrei talað með þessa konu. Lossinn sagði mér,
að þessi Karen hefði átt einn matrós, sem hefði farið til Kína, og þá hann
aftur kom, var hún ávaxtarsöm með drengjabarni, og urðu þaug að skilin. Hann
gifti sig, en hún hélt hóruhús síðan með framandi matrósum, bæði frá Englandi
og annars staðar. Þar af hafði hún sinn ríkdóm og auðæfi. Og er so út talað um
þessa Karen. Um morguninn snemma kom vor skipherrakona, er bjó í næsta kaupstað
austan fyrir Frederiksstad, sem kallast Frederikshald. Hún var klukkarans dóttir
þar og ætlaði að taka afskeið við sinn mann fyrr en frá Norge burt tæki, sem
henni og auðnaðist. Þar var mikill grátur að heyra af konunni, því þessi
skipherra hafði ei hjá konu sinni verið í þrjú ár, sem hann uppihélt sig til
lossament í Kaupinhöfn, þegar af reisum kom, sem almennt passerar í útlöndum,
að maðurinn kann vera burt frá konu sinni kannske í 10—12 ár, en skrifar henni
þó til og lætur vita, að lifandi sé. Eg vil þenkja, þó þetta varaði heila mannsins
aldur, þá kann konan ekkert hönum gjöra, einna helzt, ef hann sendir henni
nokkuð og hún líður öngvan skort. Og þó hún skort líði, má hún slétt ekki gifta
sig, en láti hún sig besvangre, hefur hún að vænta þess straffs, sem maður
hennar vill á hana leggja. En um þær fjærvistir, sem hér í landi um talast
milli manns og konu, er oss útlenzkum ganske óvitandi, sérdeilis sjófólki. Eg
víl nú slútta mitt interlocutorium með þessu: Sinn er siður í landi hverju.

Vér settum vorn koss til suðvest
frá Norge til Kanalen. Það er lítill sjór milli Frankaríkis og Englands. Vorum
á leiðinni þangað, mig minnir í þrjá daga. Þann fjórða daginn fórum vér í
gegnum Kanalen og komum í þá frönsku bugt um kveldið. Vindurinn var oss
mótdrægur, en kunnum ei ná Cordan, sem er í því Ravere, er vér skyldum í gegnum
til Pardeux. Skipherrann sagði, vér skyldum nú taka tvo kosti: Annaðhvert að
halda sjóinn í nótt eður halda til lands, sem vera skyldi til St. Martin. Vér
tókum þann kost að halda til landsins heldur en að halda sjóinn, þar loftið sýndist
út til órólegs veðurs. Annar pósturinn væri þessi, að næturnar væru langar og
ekkert tungl, er gæfi birtu frá sér. Vér sögðum, að skipherrann vissi bezt
kóssinn til St. Martin, héldum so af og stýrðum til landsins eftir því, sem
skipherrann fyrir sagði oss, en vér áttum von á að sjá eld á landi. En þann
fengum vér aldrei að sjá og ekkert af vissum, fyrr en skipið stóð á einu sandrifi.
Vatnið var í útfalli, nóttin svört og löng, og ei vissum, hvar vér vorum. Þegar
nú sjórinn féll frá skipinu, tók það til að höggva í þennan sandbotn, þar til
vatnið var hreint út fallið, so vér misstum kjölinn um nóttina. En þegar
sjórinn tók til að vaxa eftir miðnættið og skipið fór að létta sér upp, fékk
það enn meiri skaða, so það flaut á lastinni, þó fullt með vatn, en borðin
héldu því upp. Með morgunflóðinu komu tveir franskir losser til okkar, hjuggu
vorn lífkaðal og létu dufl á vort anker, sigldu með oss til Laflot, er var
lítil höfn og kaupstaður. Þegar vér komum þar, tókum vér allt af skipinu. Þegar
sjórinn nú út féll, lá skipið í bleytunni, hverja vér máttum frá því moka, so
þeir frönsku fengi skaðann að sjá. Þetta skeði með útfallinu. Þegar flóðið var
komið, var vatnið undir bitana, sem undirdekkið á lá, so vér kunnum nógu vel
matreiða fyrir oss, þegar vatnið var hálf útfallið og hálf aðfallið. Kunnu
timburmennirnir ekkert við skipið gjöra, sem þó annars voru 22 að tölu, og
fengu það viðgjört á 12 vikum, so vér höluðum því út á reiinn þá þrettándu
vikuna og fengum vora barlast til okkar þangað. Fórum so að takla skipið til,
so ekkert á skorti nú, að vér værum ferðbúnir, utan þetta, að vor skipherra
hafði ei fengið nokkra klarering fyrir sína last hjá þeim franska kaupmanni.
Hvað skipsins reparation viðvék betalar assúranskassinn. Það kom ei lastinni
við.

Um morguninn vildi skipherrann í
land. Var so vor vakt upp sett um kveldið kl. 8. Kom eg á vakt kl. 12 um
nóttina. Sá eg ei alllítinn eldsbruna í landi, eftir minni gisningu ei langt
frá vors kaupmanns verelsum. Vildi þó ei láta á mér heyra, hvar helzt eldurinn
var, því eg var og ei viss hér út í. Vor skipherra reisti í land og talaði með
vorn kaupmann, er fortaldi, að hans pakkhús væri í ösku lagt af nú í nótt kl.
12 um grasserende eldibrandi. Hvar inni var vor last og fjórir hestar, sem var
þó sá ringasti skaði, en allir hans fémunir væru nú í ösku lagðir. Og vildi
hafa þetta fyrst til héraðsþings og þar eftir til kóngsins æðsta réttar, sem
var í París. Þetta þótti oss mikið, að verða nú að liggja um borð gagnslausir.
Að sex vikum liðnum féll soleiðis dómur fyrir hæstarétti, að kaupmaður skyldi
hafa þann hálfa og skipherra þann hálfa skaða.

Að því búnu fórum vér frá Laflot
yfir þá frönsku bugt og vorum á leiðinni til vors bestemda plátz, Pardeux, hér
um níu eður átta daga. Vor kaupmaður þar hafði lengi síðan heyrt vorar ófarir í
Laflot. Annars var vor last ferðug, og fengum vér hana í hast, sem ei var yfir
14 daga, er vér lágum í Pardeux. Þar var brennivín og ávextir yfirfljótanlegt
að fá fyrir lítið verð. Vér fengum þar keypt mat til heimferðar og höns í
mengd, en brennivín og vín kunnum vér drekka so mikið sem vildum, bara vér
drukkum ei meir en það, að vér kynnum gjöra allt vort erfiði óhindraðir. Að
öllum skipsverknaði í góðu standi fórum til baka og máttum taka vorn franska
loss, er skyldi losse oss til Blaye. Þaðan fengum vér annan og til Cordan. Það
er sem eitt kastille upp byggt af sjávarbotni, er ein fornemme matrone lét upp
byggja, því so margir sjómenn komu til skaða á þessu sandrifi, er bæði misstu
þar líf og góss. Þar brenna Ijós sjófarandi til leiðarvísirs.

Þegar til sjós komum, tókum vorn
koss nord-ost eður norð-austur allt að Kanalen. Þegar þar komum, sem var að
þrem dögum liðnum, mætti oss einn hollenzkur, sem sagði oss í fréttum, að það
væri stríðstilbúnaður milli danskra og Rússa og öll kóngsins skip skyldu út. Þá
hugsuðum vér með oss, ef þetta fyrr heyrt hefðum, skyldum vér aldrei hafa komið
til Kaupinhafnar. Og þess iðrast eg enn nú í dag, að eg lét mig enrolere. Það
er að skilja: Þegar maður vill sitt brauð forþéna af sjóferðum, er hann aldrei
óhultur fyrir kóngsins skipum, því ef kóngurinn með þarf, verða menn hans
skipum að fylgja eftir þeim eið, er þeir hönum sverja, þegar þeir eru
innskrifaðir í kóngsins rulle. Allir vilja þéna hönum, sem fá stór laun og
ekkert erfiði, en þéna hönum fyrir matros eður soldat, það vill enginn, heldur
svíkja þeir þar til ókennda, bæði þýzka og aðra útlendinga, fyrir lítil laun og
fáa handpeninga, sem eru kannske 30 rd. til soldaten í 8 ár og 4 sk. að lifa af
um daginn, en 3 rd. til matrosen fyrir 3 ár og með mundering, kost og ölpeninga
kann reiknast fimm skilling um daginn. Þegar þessir þýzku soldater formerkja,
að þeir eru narraðir af þeim, er tóku þá í þénustu þessa í Þýzkalandi, — þar
eru kóngsins vervarar, er fá góð laun fyrir það að narra þessa bóndasyni í
Þýzkalandi í Danmerkur kóngs þénustu, — leitast þeir við á allar síður að
sleppa af þessu fuglabúri, strjúka burtu upp á Sjáland, verða teknir af bændum
og fluttir til Kaupinhafnar. Þar fyrir fá þeir 6 rd., er soldátinn má betala.
Nú fær hann fyrst straff, það er tólf gang spidsrod. Þar eftir upp á vatn og
brauð, so lengi sem peningarnir eru að fullu betaltir. Sama er að segja um
matrosen. Nú strjúka þessir aftur, verða náðir, fá tvöfalt straff. En í þriðja
sinn er lífsstraff og lífstíð í slaveriet, so eg sá marga unga og röska þýzka
soldáta ganga með járn um vinstra fótinn, sem áttu að vera í þessum kvölum sína
lífstíð. En satt er það, að þeir, sem eru frómir og skikkanlegir, kunna koma
til að ganga hjá kommandanten, og eftir nokkur ár kann hann sækja um kóngsins
náð fyrir þá, so þeir komast lausir. Þetta skeður af heppni, en óráð upp á það
að stóla.

Nú komum vér til Kaupinhafnar.
Strax vorum vér teknir frá vorum skipherra utan kokkurinn, Matthies, 23 ára
gamall, og kávetudrengurinn 12 ára. Annan dag þar eftir fengum vér vora peninga
upp á kommissaríó, og so keyrðir upp á kóngsins skip. Höfðum þó fríheit að fara
eftir vorum til góða hafandi peningum hjá vorum skipherra, Ole Kiölling.

Lagt upp í hernað

Eg fór með orlogsskipinu
„Lovise“. Vér vorum 700 manns fyrir utan soldater, og hélt nú heili
flotinn, sem voru vel 50 í allt. Var grátlegt að sjá til Kaupinhafnar, því þá
hélt eg, að aldrei mundi meir sjá staðinn. Orsökin var þessi, að það bezta fólk
frá Norge var komið til Englands. Sumt hafði stolið sig burt, aðrir höfðu
fengið sig burt fyrir peninga, þó í leyni, en á skipunum voru eldgamlir menn og
ungir drengir, sem ekkert dugðu, ef á hefði reynt. Þegar vér höfðum nú legið
hér um vikutíma í Holstein utan fyrir Hekkelfyr, heyrðum vér, sá rússiski
keisari væri nú fyrir tímanlegan dauða undir lok liðinn, sem var opinberað yfir
allt á flotanum, að vor óvinur, það var sá rússiski keisari, væri nú burt
kallaður, og upphissað sigurflagg. Þann dag hélt allt skipsfólk sig lystugt, og
var margur leikur hafður um borð. Að þessu gjörðu urðu vor yfirvöld slæm til að
straffa og slá oss, því nú var ekkert að óttast, og það rússiska stríð hafði nú
enda. Nú með það snarasta skyldum vér sigla til Kaupinhafnar, þar kóngurinn
brúkaði oss ei meir. Vér urðum glaðir, að sleppa kynnum frá þessu volæði.
Annars stendur nú veturinn fyrir hendi, og eigi gott að fá nú reisu annars
staðar til, og lítið höfðum vér forþént í sumar með þeim dönsku orlogsskipum.
Nú þegar heim komum til Kaupinhafnar, skyldum vér um viku frest taka á móti
okkar til góða hafandi peningum, og þar hjá, að ei mættum burtu með nokkrum
skipherra frá staðnum burt reisa, í fall kóngurinn kynni þurfa okkar þénustu
til vorsins, heldur skyldum vér lifa af kostpeningum, það er 3 rd. um mánuðinn,
sem er næsta lítið í Kaupinhöfn, þar allir hlutir voru so dýrir, að undrum
gegndi. Kom það mest þar af, að mannfjöldinn var so mikill, sem var með
skipunum, að hvergi var að forþéna. Og ei kunnum vér burt koma annaðhvert upp á
landið eður út að Dragey, sem ei var so dýrt sem í staðnum. Þetta var sá versti
pósturinn.

Nú er að segja frá vorum
brennivínsmanni, er vér lánuðum vora peninga, að þegar vorum komnir upp á
reisuna til Hekkelfyr með kóngsins skipum, fengum vér lof að fara í land og
taka vora peninga hjá þessum svikara. En þegar vér þar inn komum, var hans hús
fullt með býfóvetans fólki og staðarins magistrat. Allir voru að skrifa. Vor
brennivínsmaður gekk um gólf og reykti tóbak. Vér segjum hönum vort erindi, sem
var að taka á móti vorum peningum, er vér hönum lánuðum þá tíð, er vér fórum
til Pardeux með skipherra Ole Kiölling. Hann þegir, en býfóvetinn sagði oss, vér
kynnum öngva peninga af hönum fá, því hann ætti ei þaug klæði, er hann hafði á kroppnum.
Vér kynnum setja hann í slutteriet og gefa 3 mk, fyrir það að fá hann þar inn
og 6 sk. Að lifa af hvern dag, er þar væri, og 3 mk. fyrir að fá hann út aftur.
Kort sagt: Vér fengum ekkert af hönum. Og þegar vér nú komum aftur til
Kaupinhafnar, heyrðum, að hann var kominn út á landið að þéna brauð hjá bændum.
Það var það síðsta, eg heyrði frá hönum, hann fór milli bændanna og betlaði
sitt brauð með konu og börnum.

Nú gekk eg hjá einni madame í
Nýhöfn og gjörði lítið í garði hennar og fékk máltíð mat hjá henni stundum. Hennar
maður hafði farið upp á Ísland fyrir undirkaupmann, mig minnir hún segði mér
upp á Stapa. Var hann nú orðinn grosshandler og átti skip í sjónum. Hann var
dauður fyrir þremur árum, þegar þangað kom. Hann átti dóttur. Hennar maður var
kóngsins taffeldekker upp á slotinu og hafði góð laun. Þetta fólk var mikið
gott, þegar þangað kom.

Minn bróðir var þénari hjá einum
kammerherra. Hann hverki kunni eður vildi hjálpa mér í nokkru, jafnvel þó hann
væri orsök í því, eg skyldi gefa mig til sjós.

Nú var eftir sá versti pósturinn,
sem er þessi, að þegar komu jól, var vorum kostpeningum upp sagt. Nú þyrfti
kóngurinn oss ei lengur við. Skyldum vér sækja eftir brauði, hvar það væri að
bekomme, so nú var fokið í flest skjól.

Nú var stór sjúkdómur kominn í
staðinn af þessu mörgu sjófólki, so hvern dag var borið út af staðarins porti
sjö eður átta lík og begrafin utan portin. Þetta gekk mest til páska. Þeir, sem
nú áttu góða vini, annaðhvert í Jullandi eður Sjálandi, Fyn, Holstein, — allir
þessu fóru nú heim, en nokkrir gáfu sig í kóngsins þénustu til matrósanna.
Nokkrir tóku sér þénustu í staðnum. Það voru þeir, er þar höfðu slekt og góða
vini. Aðrir gengu svangir á götunum og höfðu ei að lifa af. Nokkrir stálu og
komu þar fyrir í slaveríið eður og gáfu sig í kóngsins þénustu.

Eina korta ferð gjörða eg upp á
Kristjánshöfn. Kom eg í tal með einn matrós, er fór með mér upp á Kína. Hann
bauð mér 30 rd., ef eg vildi taka þrjú ár upp á fyrir sig, og skylda eg koma
þar inn fyrir byssuskjötter, kynni og snart avansere eftir því eg kynni skrifa
og reikna, og verða konstabel við söartilleríið. Mér sýndist gott um þetta
eftir því, sem komið var. Gekk með hönum til hans kaptein, en að morgni dags
skylda eg koma aftur. Urðu mínir handpeningar 3 rd. og eins mánaðar handkost.
Þessi strákur var alls staðar skyldugur og átti ei þrjá skildinga, heldur varð
kapteininn að lána hönum þá.

Með kóngsins matrósum

Nú sá eg fyrst, að kominn var í
harðan skóla, hafða ei neinn, er mér hjálpa kynni. Annars er það að segja, að í
Kaupinhöfn kann enginn öðrum hjálpa, hver hefur nokkuð með sig sjálfan. Fór eg
so upp á Hólminn með þessu illþýði, er eg aldrei heyrði annað en óguðlegt
framferði. Sá, sem mest bannaði, var mesti maður haldinn. Nú skylda eg ganga
með þessum þrælum í fjögur ár. Eg tók vel þrjú ár upp á fyrir þennan þræl, en
kapteininn setti mér eitt ár til. Þetta varaði eg mig ei við, að þetta ólukku
fólk heldur saman, allra helzt, þegar það á við útlendinga að skipta.

Eg passaði mitt erfiði og hélt mér
aldrei í matrósanna konflot. Það líkaði kapteini mikið vel, að ei sótti
vertshús með þeim. Eg gekk til minnar gömlu madame í Nýhöfn, þegar eg kom af
erfiði, gekk í staðinn og keypti það hún sagði mér og var henni vel kominn,
þegar hún sá mig í garðinum. Nú var hún kennd með einn lautinant. Hvern þriðja
dag deildi hann út Hólmsins fólki til erfiðis. Þann dag, er hann útdeildi,
mátta eg fara heim til madammen og gjöra það, er mér tilsagði. Þetta stytti
tíðina fyrir mér. Þá var eg orðinn feginn, að eg fékk nokkur fríheit. Keypti eg
margar skipsfraktir af múrstein, hvern hún seldi um veturinn til
byggmeistaranna og heila skips-hlaðninger af saltsíli. Þetta var henni eftir
látið, af því hennar maður var grosshandler. Í þessum garði gekk eg so lengi
sem eg var byssuskjötter.

Þegar eg hafði verið 2½  ár við Hólminn, var eg útkommanderaður í
Austursjóinn með kóngsins fregat. Í þeirri ferð varð eg konstabel, þó ei
fullkomlega, heldur stóð til forbetrunar. Nú átti eg ei utan eitt ár að þéna
kónginum. Minn kaptein talaði oft við mig um Hólmens vesen, en mér fannst
ekkert til þess. En hann sagði, eg skyldi ei út steypa því óhreina vatni, fyrr
en vissi, að hreint kynni aftur bekomme, og spurði, hvað eg vildi taka mér
fyrir, þegar eg tæki mitt afskeið. Eg sagði, eitthvað yrði mér til.

Þegar eg fór upp á Hólminn, var eg
hjá því fólki, er upp fyllti plátzin með þá bleytu, er þeir tóku af sjávarbotni
þar við Hólminn. Fyrir því erfiði voru matroser. Þegar þeir komu með þessi
fartöj eður báta, er þessi blauti leir í var, fundu byssuskjötter nokkra járngadda,
er voru kóngsins, því á þeirra höfðum stóð: Friðrik fimmti. Þessi saumur hafði
glatazt frá þeim, er byggðu kóngsins skip, er þar nærri voru. Nú sáu vorir
underofficeres, að þessi byssuskjötter lét þá í vasa sinn, en hann var strax
tekinn og færður til vakthafandi kaptein. Voru so út teknir tveir af vaktinni
og einn undirofficeri að fylgja þessum syndara í Holmens arrest. Þann sama dag
mættu þeir kónginum, er ganga vildi upp á Hólminn og sjá eftir skipsbyggingu
sinni. Mættu þessir hönum. Kóngurinn spurði þennan syndara að og sagði: „Hvað
hefur þú gjört, minn son?“ Hann segir: „Eg fann í bleytunni í dag þrjá
járnnagla, sem heyrðu Hans Majestæt til, er skipstimburmenn höfðu tapað í
sjóinn“. Kóngur segir: „Hvað vildir þú brúka þá til, minn son?“
„Ekkert annað, Hans Majestæt, en þegar eg fengi minn mánaðarkost, vilda eg
hengja mitt flesk upp á þann eina, mitt ket upp á þann annan, en upp á þann
þriðja kóngsins klæði, sem hann hefur léð mér að hafa upp á mér, þegar eg stend
á hans vakt“. „Þetta kann að vera sannferðugt, minn son. Gakk til þíns
erfiðis. Nú hefi eg reynt, að mitt fólk fangar þá smá þjófa, en þá stóru láta
þeir frí ganga. Það reikna eg fyrir lítinn skaða, þó þessi aumingi vildi brúka
mína þrjá sauma, þá tvo að hengja sitt flesk og ket upp á og þann þriðja að
hengja hans mundering eður klæði upp á. Eg vil óska, að þér væruð mér so trúir,
þegar á þyrfti halda, og gjörða eg rétt, skylda eg afskeið gefa vakthafandi
kaptein, því að dæma einn í ævarandi fangelsi fyrir þrjá járnnagla var stór
synd, og eftir þennan dag skal enginn arresteres utan eg fyrst vita fái þeirra
gjörning. Hér passerer so mikið, er eg ei af veit, og þér kallið mig þó kóng,
en eg trúi, þér gjörið yður sjálfa til Hólmsins kónga“. Þessi orð talaði
hann, þegar upp á Hólminn kom, við vakthafandi kaptein, so allir matrósar urðu
nú mikið glaðir. Og eftir þessa tíð var rart, að nokkur matrós eður
byssuskjötter kom í arrest, og vor yfirvöld voru mikið þagmælsk einn langan
tíma þar eftir, og matrósar gjörðu marga hluti um þessa tíma, sem ei kynnu
forsvara, ef til réttargangs komið hefði. Er so út talað um þessa þrjá járnnagla.
Eg fór heim um kveldið og fortaldi þetta minni madame, en hún hló að þessu — og
so hefði þetta fyrr verið, að bæði byggmeistarar hefðu sent lítil skip til
Julland og Holmens lautinanter, er voru hlaðin með kóngsins saum og skipsplanker,
og selt þar fyrir góðan prís. Þetta hefði skeð á hennar ungdómsárum, þegar
heima var í föðurgarði. Madamen var fædd í Randers í Jullandi.

Tveim dögum hér eftir heyrða eg,
minn bróðir, Vigfús Magnússon, væri kominn upp á hospítalið illa fótbrotinn, er
skeði fyrir þá skuld og orsök, er eg vil nú fortelja. Minn bróðir, Vigfús, var
þénari hjá kammerherra Schumacher í átta ár. Þessi kammerherra hafði og
inspektion yfir kóngsins tollkammer og tollbeþénturum. Hann lét minn bróður
komast í þessa tollþénustu. Þessir tollbeþénter eru að tölu hér um 34, er verða
af kammerherranum út deildir hvern sunnudag, sem þeir skulu hafa uppsikt með
heila vikuna. Nokkrir koma upp á myllurnar og eftirsjá kóngsins komsumtion, að
ei verði hönum nokkur svik gjörð. Nokkrir koma til portanna að passa upp á,
hvað bændur inn keyra með í staðinn, og hvert þeir hafi nokkuð í vagninum, sem
tollheimtumönnunum er ei frá sagt og kóngurinn missir sinn toll af. Hvað
smálegt er, fær kóngur ei að vita. Því stinga þeir í sinn vasa. Nú er bæði
fiskur og egg, sem inn kemur frá landinu, að bændur gefa tollheimtumönnum
lítilræði af þessu, so ei séu so harðir með tolltekjuna. Þar eru og margir af
þessu fólki, sem eru mjög fátækir, því launin eru lítil, en þeir sitja með mörg
börn og fátæka konu. Nú eru staðirnir misjafnir, að ei tilfellur so mikið á
sumum sem sumum, so sem á myllunum. Þar er mikið magurt, en við portin er mikið
betra, sérdeilis við Vesturport um vetrardaginn og Tollbúðina um sumardaginn.
Þessa tvo staði hafði minn bróðir, Tollbúðina um sumarið en Vesturport um vetrardaginn.
Þetta mislíkaði tollheimtumönnum, en þorðu þó ei um tala við kammerherrann,
heldur söfnuðu móði og kannske undirfundugum svikum við minn bróður, að hann
ógiftur fengi stöðug plátz, sem voru hin beztu, en kóngsins meining væri þó
þessi, að sá, sem hefði magurt plátz þessa viku, hann skyldi hafa betra hina
vikuna. Þessi Islender gengi með tvö úr í lumunni, — „en vér kunnum ei fá so
mikið brauð, sem kunnum seðja oss með og vora fátæku konu og börn. Þetta má ei
so vera“. Einn góðan veðurdag kom minn bróðir frá Vesturport. Mig minnir
það væri einn miðvikudagur, á hverjum margir bændur inn keyra til Kaupinhöfn
með smjör, ost, egg, fisk, flesk og þess háttar og selja það á torginu. Um þessa
tíma fá tollheimtumenn alltíð nokkuð, sérdeilis ef þeir eru skikkanlegir og
kænir í tali. Um þessa tíma drakk minn bróðir slétt ekkert. Nú komu hans fjórir
kammerater til hans og buðu hönum upp á vínkjallarann með sér. Hann fór með
þeim. En um nóttina komu fjórir vægtere með hann berandi, — og hans vinstri fótur
illa sundur marinn sem með hamri gjört væri, og hans gullhringur burtu, því
hann sagði mér, að einn hefði gengið með síðunni og verið lengi að plokka hann
af fingrinum á sér, en hver gjörði hönum þann stóra skaða vissi hann ei, því
það skeði um nóttina. En allir peningar voru burt af hans lumme, er þeir tóku,
er hann heim báru. Og daginn eftir kom hann upp á hospítalið, og þá heyrða eg
það fyrst upp á Hólminum mér fortalt af einum konstabel. Eg fór strax til
vakthafandi kaptein og bað um lof að sjá minn bróður, er eg fékk strax, og fór
so upp á hospítalið og sá hann. En hann sagði, hjartað væri þó enn nú frískt,
jafnvel þó kroppurinn hefði harða pínu, en nú hefði feldskerarinn nýlega
forbundið sig og tekið þaug brotnu smábein út. Eg sagði: „So verður á svinnum
sem ósvinnum. Þú hefur títt talað um minn drukkinskap, en þó á eg annars slags
fólk að umgangast en þú. Vel eru tollheimtumenn ei það bezta fólk, en það er þó
betra en Holmens fólk“. Hans fyrrverandi húsbóndi, kammerherrann, sendi
hönum alltíð sinn talerk niður með sama mat og sjálfur spísti með hans húsholdersku,
er hann vildi, að verða skyldi míns bróður ektakona. Hvörn sunnudagsmorgun kom
hún með kaffi og frúkost til hans upp á hospítalið, og það þá heilu tíð, er
hann lá á hospítalinu, sem var yfir hálft ár.

Nú þegar hann kom sig, fór hann á
fætur og tók sér logement hjá einum urmager, er var Islender og hét Jón
Sigurðsson. Þegar hann þar verið hafði 14 daga, kom kammerherrans þénari fyrst
og sagði hönum, að hann skyldi gjöra sig kláran að reisa með skipum til
Jullands, því á morgun kæmi hans sonur með bestallingsbréf til hans, að hann
skyldi vera kontrolör í Hobro í Jullandi, sem og skeði, að um morguninn kom Mr.
Peder, kammerherrans sonur, og afhenti hönum hans bestallingsbréf og instrux,
er kostaði 12 rd., er herrann hafði út lagt. Og tveim dögum þar eftir reisti
hann til Kaupinhafnar Börs og fékk þann skipherra, er skyldi færa hann til
Hobro í Jullandi, er og skeði. Innan fjögra daga var hann allt kominn til hans
plátz.

Nú er eg alleina í Khavn blandt
úlfa og löver, en þenkti þó að koma til Julland, því nú átti eg korta tíð til
baka að þéna í Hólmens þénustu og hafði fengið mörg boð, bæði frá mínum
kapteini sem og divisionschefen, að eg skyldi ár upp á taka og fá góða handpeninga,
en eg sendi þeim skensboð aftur. Nú leið að jólum. Fjórtán dögum fyrir jól
gjörði minn kaptein og kommandör mér boð þar um, hvar fyrir ei vildi kónginum
lengur þéna. Eg sagði, fengi eg so góð laun sem þeir, munda eg ei mín afskeið
begera, því það væri stór mismunur á milli 15 rd. um mánuðinn og ekkert erfiði
fyrir gjöra en að fá varla 2 rd. og erfiða hvern dag, og að síðustu, þegar ei
lengur þéna kynni, þá upp á Sjáland að betla af bændum og deyja so milli
býjanna, þegar ei hús fá kynni, sem er bændanna máti, að þegar einn er
klæðlítill og sjúkur til, er illt að fá náttar legu utan lands. Nú ætlaði minn
kaptein að arrestere mig, en aftraði sér þó, so eg slapp frá hönum, en minn
kommandör var öllu stilltari. Daginn eftir fór eg upp á Hólminn. Voru mínir
kammerater að segja, eg skyldi ei burtu fara, heldur verða hjá þeim. Eg svaraði
öngvu, kom til mín vært.

Hann sagði, að það hefði einhver
spurt eftir mér í dag, er ætlaði að koma á morgun fyrr en upp á erfiði gengi,
sem og skeði. Þegar eg ætlaði að fara upp á erfiði, kom þessi ungkarl og bað
mig að skrifa par orð þess innihalds, að hann ætti að taka 10 rd. hjá vissum
manni undir annars manns nafni. Seðlinum hefði hann týnt, en sagði mér nafnið.
Það var í allt fjórar línur. Eg fór til míns erfiðis. Milli jóla og nýjárs var
eg stefndur upp á politikammeret. Átta eg þá fimm daga eftir að þéna. Eg kom
þangað og varð eftir spurður, hvert þetta væri mín hönd. Eg sagði það satt
væri, eg hefði það skrifað eftir því, sem þessi persóna hefði mig um beðið, er
þar stóð og hafði þá verið þar í arresti í fimm daga. En þessi persóna hafði
öllu þessu upp logið. Nú vildi hann ei meðganga, að þessa mig um beðið hefði.
Mátti því fá stórt straff, fyrr en meðkenna vildi. Minn kaptein sendi mér boð,
eg skyldi taka nokkur ár upp á, skyldi hann mig lausan. Eg sagði, þó þeir dæmdu
mig tólf ár í fangelsi, skylda eg aldrei gefa mig í þá andskotans Hólmens
þénustu, því slafar hefðu betra en kóngsins matrósar. Varð eg síðan heim
fluttur í Holmens arrest og var þar þrjár vikur fyrr en minn dóm bekom, sem var,
eg skyldi vera þrjú ár í fangelsi. Þá sá eg, nú væri eg kominn temmilega hátt í
Hólmens ágæti. Eg lét fátt um þetta, þegar eg kom þar sem þeir mörgu fangar
voru. Sumir sáu vel út, sumir illa. Meðal þeirra var einn prestur, er Herr
Kolling hét, og einn kommandörsergeant, þýzkur að ætt. Þessir gjörðu ei erfiði,
heldur máttu vera inni luktir í þessu fangelsi. Eg gekk í kastillinu hjá
kóngsins proviantskrifara. Þar var og bakað brauð til kóngsins regiment. Hjá
þessum gekk eg um daginn, en mátti liggja hjá kóngsins föngum á nóttunni. Átti
nú betra en þegar upp á Hólminn gekk utan næturhvíldin. Kort sagt: Greifi
Laurwig tók mig út fyrir begering minnar kapteinsfrue. Mátta eg nú taka fjögur
ár upp á fyrir litla handpeninga, og það á móti vilja mínum, sem eg aldrei ætlaði
mér. Hér má sjá, hvað fljótt ólukkan kann ramma mann.

Eg kem nú í Hólmens þénustu þvert á
mót vilja mínum, en þorði ei annað, þegar laus var orðinn. Eg kom til minnar
madame og var vel móttekinn, hafði mín frihed sem fyrr hvern þriðja dag, er eg
forþénti lítið til hjálp við kóngsins laun.

Eg gleymdi að fortelja, að eg kom
og í stór labet með einn lautinant, að eg í drukkinskap gaf hönum á kjaftinn,
því hann drakk upp á minn pung, en lastaði mína landsmenn, þó fyrir lognar
sakir. Nú kostar það lífið eftir stríðslögum að slá sinn yfirmann. Eg var
færður í Holmens arrest og skyldi harponeres. Það er so að skilja, að það
verður krítað so sem hjarta á kjólinn. Þar eftir skjóta þeir tveir
underofficeres, sem eru vissastir upp á sínar hendur. Verður so þessi, er lífið
hefur forbrotið, út færður á það rétta plátz, hvar eð hann skal lífið missa.
Verða so þessir tveir underofficeres uppstilltir, sem er að lengd fjörutíu
faðmar frá þeim, er skal harponeres, því ef sá eini tekur feil, þá ei báðir.
Þegar eg hafði nú verið tvo tíma í arrestinu, kom minn bróðir og spurði, hvað
eg hefði nú syndgað á móti því ellefta boðorði. Eg sagði, á morgun yrði eg vel
harponeret. Hann gengur til þess vertshúss, hvar þetta klammerí hafði sín
upptök, og kom með þeim boðum frá hans kammerherra, að eg skyldi á morgun út
takast og mæta fyrir kóngsins krigsrétti, sem og skeði. Þar kom og þetta
vertshúsfólk, hvar eg og lautinantinn komu í þessi disputer, og að hann lastaði
mitt föðurlandsfólk, en drakk upp á mína peninga. Dómurinn var þessi, að hann
skyldi degraderes í sex mánuði og lifa af matrósa traktamenter. Eg slapp með
æru, og hefði ei minn bróðir verið, hefði eg ganske víst komið til að missa
mitt líf, en nú skylda eg lengur lifa. Og er so út talað um þessa historíu.

Í stríði gegn Tyrkjanum

Þegar eg hafði nú verið tvö ár við
Holmen eftir að út kom af arrestinu, heyrðist, að sú rússiska keisarainna vildi
begjöra fólk með sínum skipum inn í Tyrkiríið. Nú voru allir að láta sig skrifa
með hennar væntanlegum skipum frá Austursjónum, því um jólatíðir reistu þeir
tveir, kontra-admiral Arf og kommandör Basballe, er höfðu báðir verið í
franskri þénustu og skildu öll tungumál. Þeir höfðu og angefið fyrir Hennar
Majestet, keisarinnunnar af Rússlandi, að þeir yrðu nauðsynlega að hafa nokkra
danska matrósa með sér til þessarar reisu, sem og stýrimenn, timburmenn,
skipherra og bátsmenn. Þar til voru allir fúsir, so eg trúi fyrir víst, að
kóngur hefði aldrei haldið einum manni í Hólmens þénustu, hefðu allir komið,
sem vildu. Þar var eg og með, er mig út gaf fyrir konstabel, það er hafa
uppsikt með fallstykkin. Daginn eftir kom sú ordre frá Admiralitetet, að skrifa
skyldi 10 menn af hverju kompagnie. Urðu margir þungsinnaðir af þessu.

Nú liðu stundir, þangað til þessi
rússiski floti inn kom til Kaupinhafnar. Margir af þessum, er voru skrifaðir,
gengu til Laurwig, sem var greifi og ypparsta yfirvald yfir Hólmens fólki, að
leggja góð orð til með sér, að anteknir yrðu með flotanum. Þegar Arf og
Basballe komu, höfðu þeir orður, að ei fleiri taka mættu en tvo af hverju
kompagnie, og þeir sömu skyldu hafa góð attester að framvísa frá þeirra
kapteini, að þeir séu skikkanlegir og góðir sjómenn. Nú kemur sá dagur, er vér
skyldum mæta í greifans garði, er admiral Arf og kommandör Basballe voru. Þá
voru margir hræddir og skjálfandi, að ei anteknir yrðu. Nú voru þó tíu
uppstilltir af hverju kompagnie, er þeir skyldu útvelja tvo. Hinir skyldu þéna
þeim danska kóngi, sem öllum var þvernauðugt. Þegar vér vorum anteknir, fengum
vér vora þrjá mánaðarpeninga, sem voru 15 rd., og að þrem dögum liðnum skyldum
vér mæta um borð á þaug rússisku orlogsskip. Vér lifðum eftir þessum orðum og
komum nokkrir til admiralen og nokkrir til kommandören. Hinir þriðju til þess
rússiska kapteins upp á orlogsskipið „Asia“, er var það þriðja og síðsta
orlogsskip, er vor admiral hafði kommando yfir. Á öllum þess um þremur
stríðsskipum voru danskir bátsmenn, timburmenn og einn stýrimaður, er skyldu
kenna þeim Rússum þá réttu skipsaðferð. Þar voru og anteknir í þessa ferð bæði
lautinantar og fáir kapteinar, er voru allir danskir. Eftir þetta vorum vér uppstilltir
á skipinu og máttum gjöra vorn eið, að voga skyldum líf og blóð fyrir Hennar
Majestet keisarinnunnar af Rússlandi, Katrine Alexandria. Að þessu búnu sögðu
oss allir Rússar velkomna um borð, og næstkommanderandi sagði. vér skyldum
öngvan skort líða, hverki til fæðu eður klæða.

Nú lágum vér á Kaupinhafns reið hér
um níu daga og fengum tíu skippund brauð af kóngsins proviantgarði sem og
ferskt uxakjöt hvern dag. Þegar Rússar smökkuðu það danska brauð, vildu þeir
það eigi, heldur komu þeir kogtu vatni upp á það og knúsuðu í smáparta, og
þegar krafturinn var kominn í vatnið af brauðinu, höfðu þeir það í staðinn
fyrir öl og komu edik í bland, sem smakkaði mikið vel. Þeirra fæða var bæði mikil
og góð, so vér óskuðum, að reisan lengi vara skyldi. Vor vinna var nú ei stór,
— og sérdeilis góða undirofficere, sem voru Rússar, en þeir dönsku voru mikið
verri bæði að straffa og láta oss vinna eftir sem vanir til voru á Hólminum. En
vor kommandör sagði, þeir skyldu vera skikkanlegir og ei taka sér af því, sem
þeim ekkert við kæmi. Þeir skyldu vera sem mestir, þegar vér kæmum til Tyrkjans.
Þá vildi hann sjá þeirra dugnað og karlmennsku. Hér eftir urðu þeir mikið
þegjandi og þankafullir, en Rússar voru ætíð glaðir og góðir, helzt yfirvöldin.
Eg var alltíð við fallstykkin og þess á milli að gjöra karduser og forladninger
til fallstykkjanna, en þegar vakt hafði, var eg aftur upp á skipinu, því þar
voru mínar tvær kanónur eður fallstykki, er eg skyldi upppassa, þegar með
þyrfti, því ætíð skyldu þær vera hlaðnar með púður og kúlur nótt sem dag, helzt
þegar inn komum í Tyrkiríið.

Kort sagt: Eg vil heldur þéna
Rússum í tíu ár en þeim dönsku í fimm daga, bæði upp á atlæti og aðbúnað, því
þeir Rússar hafa meiri uppsikt til þeirra kóngs eður keisara en þeir dönsku. Vor
kæra keisarainna heldur mikið meir með þeim gemena manni en hennar officere.
Hún er hörð við hennar officere, en góð við matrósa og soldáta, hvar fyrir að
hennar officeres eru henni stórlega undirgefnir og kannske hræddir fyrir henni,
af því að hennar sjófólk og soldater hafa frí inngang til hennar, en generaler
mega vænta lengi eftir leyfi að koma henni í tal. Af þessu eru þeir mikið hræddir,
að þetta undir hafandi sjófólk og soldater hafi kannske þá plátzborið við Majestet,
sérdeilis ef þeir eru sér nokkurs ills meðvitandi, sem er ganske fornuftigt af
einum potentat að vera góður við almúgann, því þá fær hann bezt að heyra,
hvörnin þeir stóru hegða sér. Hitt annað, að þeir taka sig betur í akt.

Nú fórum vér burt frá Kaupinhöfn,
höfðum engelskan loss með oss, er fylgdist með skipinu frá Pétursborg og átti
ei við það að skiljast, fyrr en kæmum í Tyrkiríið. Vér komum innan átta daga
til Englands til þess plátz, er heitir Hafragras. Þar fengum vér það bezta
nautaket, er eg hefi séð, bæði feitt og gott, og grænar urtir til súpu. Þegar
búið var að reiða það til matar, var súpan so góð, að enginn borgmeistari í
Kaupinhöfn skyldi ei vera vel ánægður að spísa hana. Nú þegar Rússar sáu, að
máltíðin var í stand, tóku þeir vel sinn part af ketinu, en súpuna vildu þeir
ei smakka, tóku fötu og fylltu upp með vatn, komu þar í salt og grábeins síl,
er þeir skáru í smástykki og komu þar í salt, átu þessa súpu með skeiðum og voru
betur ánægðir með þeirra súpu en vér með vora. Á þessu plátzi lágum vér hér um
sex daga og höfðum ferska súpu hvörn dag. Nú þegar vér vorum í standi og
reisubúnir, fórum vér þaðan og héldum fyrir vestan Frankaríki. Þar mættum vér
einum engelskum kapara. Þetta var um næturtíðir. Vér höfðum mest skotið þá í sjó,
en þegar töluðum við þá, formerktum vér, að þeir voru frá Englandi, sem var so
gott sem vort eigið fólk. Skipið hafði vel skaða fengið, en fólk ekki. Þessi
kaptein vildi oss anklaga fyrir Hennar Majestet í Rússlandi. Vér báðum þá vel
lifa og héldum vorn koss allt til bess Miðjarðarhafs. Tveim dögum fyrr en komum
til Algeir, hvaðan ræningjarnir voru, er plundruðu ísland, skyldu allir
soldater slípa sína korða. Vér, sem vorum við artilleriet eða fallstykkin,
skyldum probera vort púður og hvað mikinn kraft að það hefði, er skyldi
skrifast á púðurtunnurnar, so sæist í fljótleika á tunnubotnunum þess kraftur.

Nú þegar vér komum móts við
kastillið, er skeði um nóttu, héldum vér oss til Spanien til þess staðar, sem
Gibralter heitir og engelskir hafa frá spönskum tekið, er búa á fastalandinu.
Þessi ey, Gibralter, er þétt við Spanien. Hafa so engelskir á þessari áðurnefndri
ey bæði kastill og stríðsfólk. Milli Spanien og Tyrkiríið er ei mikið yfir mílu
að lengd. Spanien er á vinstri, en það heila Tyrkiríið er á hægri hönd. Þeir
spönsku hafa frið með Tyrkjann so lengi sólin er uppi, en þegar hver þeirra er
í annars landi um nætur tíðir, er lífið forbrotið. Kort sagt: Hvern dag höndla
þeir hver við annan, stundum Tyrkinn í Spanien, stundum Spaníólen í Tyrkiríið,
eru góðir vinir um daginn, en hvors annars óvinir, þegar sólin er undir gengin.
Þar, eg meina í Gibralter, fengum vér smáfisk fyrir billega peninga, er þeir
fanga í þessum sjó, sem er á milli Spanien og Algeir. Fyrir innan Algeir sá eg
þann akur, er Kain sló sinn bróður, Abel, er enn nú í dag kallast Abelklettur,
sem er strax við akurinn. Nú vorum vér 14 daga að sigla í því Miðjarðarhafi og
urðum engra skipa varir utan smáduggna, er voru visiteraðar af oss, hvar vér
fundum nokkra þá hluti, er kunnu hjálpa Tyrkjanum í nokkru, annaðhvert með fæðu
eður púður og kúlur, fallstykki og annað þvílíkt, er hann kynni oss mótstöðu
veita. Þaug skip tókum vér upp og færðum til þess næsta plátz og tókum þeirra
last, er oss kunni þéna, en hitt var upp brennt og skipið með. Stundum fóru
þessir til baka með tómt skíp. Þetta voru mest franskir, er voru Tyrkjum í
þessar tíðir mikið hjálplegir. Eftir þetta komum vér til eins plátz, sem heitir
Portenhom. Þetta plátz heyrði þeim engelsku til. Þar var hin bezta höfn og gott
kastill. Vér lágum þar lengi og repareruðum vort skip, er hafði fengið skaða í
þeim spanska sjó. Þaðan sigldi vor Asia frá oss og admiral Arf, er þaug tvö
skip fóru nú lengra inn í hafið til þeirra tyrknisku grensa. Vér vorum í þessu
plátzi langt fram yfir jól. Þegar vér vorum nú búnir að gjöra við skipið,
fengum vér lof að fara í land. Eg hafði einn hollenzkan dúkat, og ei vissa eg,
hvað fyrir hann fékk, því þar voru allir hlutir so dýrir, að vér fengum lítið
fyrir peninga. Eg keypti þar máltíð mat, en eg mátti betala fyrir hana, eg þori
að segja yfir 3 mk. danske. Eg lá í rúmi eins soldats, er vakt hafði, en hann
hafði visiterað mína vasa um nóttina, en eg hafði þá forvarað í mínum hálsklút,
so hann fann þá ei. Mínir kammerater höfðu slegizt um nóttina, og einn þeirra hafði
brugt hníf. Voru þar fyrir straffaðir, þegar um borð komu. Þeir stálu tóbaki
frá mér. Eg fékk það aldrei síðan. Þeir dönsku eru aldrei trúir sínum eigin lagsmönnum,
því síður oss íslenzkum, sem þeir vilja gjarna hafa fyrir sína þénara. Eru mikið
ótrúir í orðum og verkum, so eg hefi aldrei fengið nokkurn trúskap hjá danskri
nation. Oft gengu Rússar í land, en þar engin klögumál upp á þá í Portenhom. En
danskir urðu oft straffaðir, bæði fyrir klammerí og þjófnað. Eg hitti mig vel á
öllum stöðum. Rússar voru kvensamir, hvar þeir sáu tækifæri. Nú fórum vér frá
þessari ey. Þar voru tveir býir á þessu plátzi, allt engelskt fólk, þó fátt frá
Vallandi, so sem frá Livorno og þeim næstu plátzum þar um kring. Og að teknu tækifæri
fórum vér inn eftir hafinu.

Eg gleymdi að fortelja, að í
Portenhom voru tvö, dönsk orlogsskip, sem var Prins Frederik, er færði kommandör
Becker, og orlogsskipið Slésvík, er voru af þeim átta, er vor kóngur út sendi
að inntaka Algeir. En þegar þeir höfðu út skotið púðri og kúlum, er ei kunnu
fanga staðinn, því þeir lágu so langt út á sjónum, að ei kunnu þessir eður
Tyrkinn að ná með skotum til hvors annars, — fóru síðan í land og gjörðu frið
við Tyrkjann, hvar af þeir komust í slétt umtal hjá öllu fólki, að sínum kóngi
so ótrúir væru og ei vildu voga sér í hættu fyrir hann og föðurlandið. Matrósar
voru hugprúðir og vildu fegnir hafa slegizt með Tyrkjann, en yfirvöldin voru
hrædd að voga sér í hættu. Nú þegar frið gjört höfðu, urðu þeir so slæmir við
fólkið að plága það með erfiði og litla fæðu, að þar kom stór sjúkdómur í
skipið, so þar voru yfir tvö hundruð manns í húsi einu, er var byggt á einnri
ey við Portenhóm. Þar komu þaug rússisku yfirvöld og sáu upp á þessa menn, sem
bæði höfðu lítið að eta og sjúkdóm í meira lagi. Fjöldi allur dóu þar, þegar
vér vorum þar. Þeir rússisku officeres eftir spurðu, hvert sá danski kóngur
hefði ei annað að gefa sínum matrósum en vatn og grástein, og sögðu, þeir
skyldu koma upp á sín skip og yfir líta sitt fólk, hvert so illa út sæi sem
þeirra. Og vor dönsku yfirvöld sáu oss og kenndu oss ei. Vér vorum bæði feitir
og vel til fara. Það var ei oft, að sjúkir væru hjá oss yfir tvo eður þrjá í mesta
lagi af 700 manns á vorri heilu reisu. Eg tala ei um, þegar komum í Tyrkiríið
og komum í lag með vora mótstöðumenn, sem síðar mun sagt verða.

Vér héldum nú lengi ferðinni fram,
til þess vér komum til Malta og sendum boð undan oss, hvert ei mættum þar inn
koma og kaupa af þeim, það vér með þyrftum. Oss var svarað, ef vér brúkuðum
dansk flag, værum vér velkomnir þangað að innkoma, en ei með það rússiska flag.
So komum vér þar inn með það danska flag. Maletesser voru mikið skikkanlegir
mót oss, því sá danski kóngur hefur verið þeirra skyssherra í gömlu tíðum.
Þessi ey er sú, er sá heilagi Paulus leið skipbrot á ferðinni til Róm, sem
kannt sjá í þeirri heilögu skrift. Þar er jafnan brim og óhreinn sjór og ei
utan eitt innhlaup. Þessi ey er ávaxtarsöm af öllum jarðarinnar ávexti,
sérdeilis af hunangi. Er og lítil að vexti, mér virtist hér um fimmti partur af
þingmannaleið. Þar var og ei utan einn kaupstaður, er var lítill, en þó vel
byggður. Kastill á báðar síður, þegar inn komum á höfnina. Þar keyptum vér eitt
grátt naut. Eg hefi aldrei séð so stórt naut sem það var. Ei var það so
mikillega feitt sem það var stórt. Var og mjög dýrt, mig minnir 25 rd. Þeirra
brauð var af hveiti, ganske sætt. Einn pottur vín kostaði þar þrjá skildinga,
er sama slags vín kostar í Kaupinhöfn einn sléttan dal. Allir ávextir voru
eftir þessum prís. Vér lágum þar í fimm daga. Eg var þar einu sinni í landi og
drakk þar vín og át ávexti so mikla sem vildi fyrir átta skildinga, er eg ei
kunni fá í Kaupinhöfn fyrir 2 rd. Flesk og ket var mikið dýrt. Þessi ey var
slétt yfirferðar. Þetta fólk gjörir ei frið við Tyrkjann, heldur er þar
ævarandi ófriður og barátta, og þegar þeir sjá, að Tyrkinn vill og kann þá
yfirvinna, koma þeir eld í þeirra púðurhús á skipinu, so það flýgur í loftið.
Því þeir vita, að ef skyldu verða herteknir af hönum, er þeim engin lausn væntanleg,
því Tyrkinn vill gjarnan hafa frið við þá, ef fá kynni. Þessi þjóð er katoliker,
eru mjög harðir viðureignar og eru alltíð á flakki, stela og myrða þá tyrknesku
og eru hönum í öllu mótsnúnir.

Þegar þaðan fórum, fengum vér einn
loss með oss, er skyldi vísa oss veginn til þeirra grekisku eylanda, því hvar
vér komum í þeirra grenser, voru þeir oss undirgefnir, fyrir hverra skuld að
stríðið við tyrkneska hafði sín upptök, því Rússar og Grekar eru sömu
trúarbragða. Þeir klöguðu fyrir Majesteten af Rússland, að Tyrkinn vildi þá
yfirfalla, skáru skeggið af þeirra prestum og drápu fólkið. En það hendir sig
oft, að einn grískur tekur tyrkneska konu og einn Tyrki tekur grekiska konu. Þó
kunna þeir aldrei að forlíkast, því Grekar hafa ekkert yfirvald utan Tyrkjann,
er þá undiroka með skatt og ólöglegar tributer. Þegar vér þar inn komum, hafði
þetta stríð yfir staðið í þrjú ár, og höfðu Rússar haft alltíð sigur, en fjölda
fólks höfðu þó misst, og flestir Tyrkjar frá þessum eylöndum voru í land
drifnir. Fyrr bjuggu þeir saman, þó ei forlíkast kynnu. Þegar vér komum nú í
þessar eyjar, hvar Grekar í bjuggu, voru þeir oss undirgefnir í öllu. Þeir komu
til okkar með mjólk og ost, brauð og ket, olíu, er þeir brúka að steikja fisk,
er þeir kalla ríba, er mikið smár vexti og sætur að smekk. Þeir steikja og
þeirra brauð í þessari olíu. Þeir komu með mjólk bæði kokkaða og ókokkaða. Vor
prestur messaði í þeirra kirkjum, sem voru sérdeilis vel byggðar með artugu
málverki, so röru, að eg ei séð hefi betra. Alla sunnudaga var so fullt í
kirkjunni, að fjórar, fimm raðir stóðu fyrir utan kirkjudyrnar. Allt fóru
Rússar í góðu skikki að þessum tíðagjörðum, voru títt að signa sig og bukta.

Nú vorum vér að heyra af þeim
grísku, hvar fá kynnum naut og sauði hjá þeim tyrknesku, annaðhvert hjá þeim
fáu, er enn nú kynnu að búa í þessum eylöndum. Það gjörðu þeir gjarnan, fóru
sjálfir með vorum báti, komu aftur með nautaket, er þeir tóku hvar helzt sem fá
kunnu hjá þeim tyrknesku. Stundum máttum vér brúka púður og kúlur, þegar þeir
gjörðu mótstand. Einu sinni fengum vér fjegur gömul naut, er þeir slátruðu í
landi soleiðis, að þeir hjuggu kroppinn í fjóra parta með skinninu á. Innýflin
létu þeir liggja í landi. Ei var þetta feitt ket. Veldur það því, um veturinn gengur
þar stórkraparegn, en peningurinn gengur úti. Þegar vér fengum ei nautaket, þá
fé, er var með sama slag á sig komið sem nautin. Bæði var það lítið vexti og
sármagurt, þó mergjað. Þegar vér nú ei kunnum fá meir í þessum stöðum, máttu
Grekar flakka með oss, hvar vér það fá kynnum, annaðhvert í næstu eyjum eður á
landi.

Þegar þaðan fórum, sem varaði í 14
daga, er vér höfðum ferska súpu hvern dag, fórum vér til Imbros. Þar bjuggu og
grískir, er sköffuðu oss sama slags viðurlifnað í þrjár vikur. Þetta kostaði ei
Majestetið í Rússland hið ringasta, en það vér fengum af þeim grísku, máttum
vér að fullu betala. Um þessa tíma fengum vér bréf frá vorum danska admiral,
Arf, að strax skyldum koma til Paro, hvar það rússiska admiralitetet haldið
var, og fá nýjar orður, hvað vér skyldum oss fyrir taka. Gjörðum oss reisubúna
og vorum í Paro innan níu daga. Fengum mótvind og misstum vort stóra mastur, er
brotnaði í sundur hálfan annan faðm fyrir neðan mersið. Máttum so liggja í Paro
í sex vikur. Þar eftir fengum orður að fara til Nigrapontus, og uppbrenna þann
stað, er var skrifaður fyrir ellefu þúsundum manns. Þessum admiralitetsorðum
vildi vor admiral ei vera hlýðugur, er var móti þeirri instrux, er Majestetið í
Rússlandi hefði hönum út gefið, sem var, að þessi þrjú orlogsskip, er hann á
móti tók í Pétursborg, skyldu vera undir hans kommando, en ei þess rússiska
admiralitets. Vor admiral tók sitt afskeið og reisti frá Livorno í Italien,
þaðan til lands að Pétursborg, og er hann so úr þessari sögu. En Basballe, vor
kommandör, gaf sig strax undir þess rússiska general-admirals kommando, so vor
kommandör reisti með tvö önnur skip til Nigrapontus, sem var ein freigat upp á
28 fallstykki og einn bombadör. Á voru skipi, Sivalot, voru 72 fallstykki.
Þessi bombadör er soleiðis lagaður: Það er eitt lítið skip með sérlega sterkum
innviði sem væri það sterkasta orlogsskip, sem kóngur hefði í öllum sínum
flota. Hann hefur eitt fallstykki, sitt á hverri síðu. Þessi eru so stór, að
fullorðinn maður kann komast í þær. Þeirra kúlur, sem eru holar innan í
meðstóru holi á síðunni. Þessi er að skapning allri sem álftaregg, að stærð sem
fjórðungsfata. Nú verður bomman upp fyllt með brennisteini, harpeisi,
glerbrotum af því svarta glasi, sem er vel þykkt, og ryðgaða járnmola og so
púður. Nú verður tekinn pappír af þeim þykka karduspappír, sem verður lagaður
sem kerti, upp fylltur með saman bræddan harpeis og brennistein. Sá eini endi á
þessu kerti nær í innýfli bommunnar, og annar nær í munninn á fallstykkinu. Nú
skulu þar víst 50 pd. púður eður kannske meir til að færa bommuna til síns
staðar, er kann vera fimmti eður sjötti partur af þingmannaleið. Þessi 50 pd.
eður 60 pd. — allt eftir því, sem púðrið er sterkt — verður fyrst inn komið í
fallstykkið, er skal út færa bommuna. Og so snart sem út fer, kveikist á hennar
kardus, so mann kann sjá eins og stjörnu á nóttunni, því um næturtíma verður
þetta helzt brúkað, en á daginn verður allt gjört í stand. So útreiknast hvað
langt vér liggjum frá staðnum og hvað lengi bomman verði á veginum. Því ef
annar endinn á kertinu, sem liggur inn í innýfli bommunnar, fer að brenna á
veginum, blossar hún í þúsund stykki öllum sínum banvænum innýflum í loftinu,
hvað hún ei skyldi, fyrr en kemur á sitt tilætlað plátz í staðnum, hvar hún
skal gjöra mesta manntjón, og er að sjá sem staðurinn væri í Ijósum loga fyrir
þeim, sem eru á skipunum. Annað er og athugandi, að ef þessi kardus er ei nærri
kominn að brenna bommunnar innýfli, þegar kemur á sitt plátz, kann óvinurinn
slökkva hennar kardus, sem brennur, so hún gjörir öngvan skaða. í loftinu
gengur hún sem regnbogi, en ei sem kúla af fallstykkinu.

Nú komum vér upp að kastillinu í
Nigrapontus. Strax sem þar köstuðum vorum arnkerum, fengum vér skot frá
kastillinu, er vér misstum vora pergínurá vorn kranabjálka, vora forebramstang
og kúlurnar gengu þétt við oss, so vér heyrðum þeirra hvin í loftinu, en sáum
ei fyrr en þær komu í sjóinn, kannske tíu—tólf faðma á hina síðuna skipsins,
sem sneri frá landinu. Eg var konstabel með þeim, og mínar tvær kanónur voru aftur
á skipinu. Þegar vér höfðum skotið um stýrborðssíðuna, undum vér skipið við á
bakborðssíðuna, og eg hafði nú níu menn undir mér, sem skyldu hlaða og baxa
henni eður sikta eftir staðarins ásigkomulagi. Mér varð litið snögglega til
fólksins, að þeir skyldu hækka kanónuna með munni hennar. Sá eg bara hár og
nokkuð af heilanum af mínum vicekonstabel. Annað sá eg ekkert af hönum.
Skothríðin var hörð í skipinu, reykur og dampur yfir allt. Vér settum tvisvar
sinnum eld í staðinn, en þeir Tyrkjar slökktu hann aftur. Vor kommandör hrærði
sig ei þennan heila dag, en um nóttina höfðum vér þá æru að heilsa þeim tyrkneska
kommandant og gáfum hönum 60 bommur inn í staðinn, so hann hafði í þönkum að
drepa alla Greka, sem bjuggu í Nigrapontus.

Um morguninn kl. 9 kom vort
admiralsskip, er hafði hvítt friðflagg og sendi einn Greka í land til
kommandanten og bað sér underretning gjöra, hvort vér hefðum skaða gjört í
staðnum, er hann sig bauð fullkomlega betala, því vér værum þangað inn komnir
að sér óvitandi. Nú fær hann aftur bréf þess innihalds, að skaðann á staðarins
byggingu og öðru þar að lútandi kynni hann vel betala, en það marga fólk, sem
hefði misst lífið í nótt og í gær, kynni ei betalast. Þar að auki væru so mörg
hundruð, sem enn nú lifðu og aldrei sjáanlegt væri, að til nokkurrar heilsu
koma kynnu, þar sumir hefðu misst handleggina, hendurnar, fæturna, lærin. Sumir
hefðu fengið bæði járn og glasbrot hingað og þangað um kroppinn af bommunum,
þegar þær sprungu í staðnum. Nú tóku þeir fyrir alvöru að skjóta upp á oss bæði
frá staðnum og kastillinu, þegar þeir vita fengu, að vér án lof værum þar upp
komnir og hefðum gjört so stóran og óbætanlegan skaða. Vér fórum að hala oss
lengra burt frá kastillinu, en meðan vér vorum að láta kaðalinn í bátinn, kom
ein kúla frá landi, er gekk í gegnum hann og nam staðar í barkholdinu á
skipinu, kunni þó öngvan skaða því gjöra, því hennar kraftar voru burtu. Fólkið
komst upp í skipið, en báturinn sökk. Kaðlinum náðum vér og fórum nú lengra út
á djúpið, so skot náðu oss ei.

Fengum orður af vorum
general-admiral, sem nú kom með friðflaggið, að vér skyldum til Agrippa, hvar
eð mörg af vorum skipum lágu þá tíð, er vér vorum fyrir staðnum. Á þessari ey
gengu allar staðarins skapaðar skepnur, bæði kýr, hestar og naut, lömb, ær,
sauðir, geitur. Þar var og Tyrkjans kornhús, sem allt var frá hönum tekið. Vér
fengum 30 naut á vort skip og so margt fé, að tveir matrósar um eitt fé að
slátra. Nú lifðum vér sem herrafólk, hvern dag nóg fersk fæða. Þó var enn nú ei
allt búið. Þaug 30 naut, sem slátruðum, máttum þriðja dags yfir borð kasta, því
vort salt dugði ei. Það hafði brúkað verið til að salta með flesk, hvar fyrir
kraftarnir voru burtu. Vér höfðum nú ei brauð, en last upp á 40 skerbekker
fengum vér í Agrippa. Þar voru 45 hestar skotnir í hel, að Tyrkinn þá ei brúka
kynni. Þessi last, er eg um talti, var bæði malað og ómalað hveiti. Það malaða
höfðum vér til Tasor, er Tyrkjar skyldu upp reisa oss sjö bakara óna, höfðu
ærið strangt erfiði að fá þetta í stand, fengu ei að sofa meir en fjóra tíma,
en vaka þá 20. Ef ei vildi, var lífið forbrotið. Einn Rússi var settur yfir tíu
Tyrkja. Þessi ey er lítil að vexti, en hin ávaxtarsamasta af öllum ávexti. —
Vér vorum þar lengi, mig minnir þrjár vikur, og lifðum mest af eyjarinnar
produkt. Þar voru vel hér um 30 skip með smáum og stórum. Allt skipsfólkið
hafði lof að fara einn dag í land. Eg var með þeim síðustu af voru skipi, og eg
fór inn í þennan stóra víngarð, er þeir um töluðu, og sá ei að vínþrúgurnar
hefði fætkað, því þar var yfirfljótanlegt enn nú til baka. Þar voru vel 12 til
13 landtjöld, og máttu Tyrkjar þaug upppassa so vel með fæðu sem drykk. Vor admiral
spísti oft hjá þeim tyrkneska kommandant. Þar var vel lítið kastill, en það
kunni ei so mörgum skipum stóran skaða gjöra, því so snart kommandantinn hefði
byrjað að skjóta upp á oss, hefði þar ei lifað eitt mannsbarn á allri Tasor. En
Tyrkinn byrjaði ei með þann leik, heldur át sá tyrkneski oft með vorum admiral,
og þeir voru góðir vinir á vörunum. Að þessu búnu, að vér höfðum fengið vort
malaða hveiti til brauðsbaka og það ómalaða heim til Paro sent, nóg vatn á
skipin og eldivið, — allt þetta máttu Tyrkjarnir gjöra í stand, — sá eg ei, að
eyjarmenn hefði að lifa af um veturinn. Öll þeirra svín, fé og geitur voru nú
undir lok liðnar af þessum skipaflota, er þeir máttu með þolinmæði líða. Annars
var dauðinn vís.

Fórum vér þaðan og vildum fara til
Mikona er vér höfðum fyrr legið, því þar er grekiskt fólk. Mætti oss einn
Fransfari, er fortaldi oss, að hefði bæði fallstykki, púður og kúlur, er
Tyrkinn brúka ætti til þeirra tveggja orlogsskipa, er nú væru byggð og ferðug í
Mittelena. Skyldi nú allur flotinn fylgjast með þessum Fransfara, so hann var
vor loss allt til þessa plátz. Þorði þó ei inn á höfnina, þegar þangað komum,
heldur lá út á reiinn, en öll orlogsskipin urðu deild í tvo parta. Sá eini
partur fyrir þeim syðsta parti staðarins, hinn annar fyrir þeim norðasta. Báðir
partarnir voru að skjóta upp á landið, að enginn Tyrki kunni koma til að hindra
Rússanna landgang. Nú sáum vér þessi tvö orlogsskip, er voru upp byggð og voru
bæði, eg meina hvert fyrir sig, upp á 72 fallstykki, og einn galei upp á 15 árar
á hverri síðu. Nú þegar Rússinn sá, að enginn af þeim tyrknesku voru nú við
sjóinn, fór vort landfólk í land og höfðu hér um 40 feldslanger, það er fallstykki
úr metalli með pálum og rekum og 80 körfum, er gjörðar voru í Tasor, er vér þar
lágum. Þær voru so háar, að þær náðu vel í bringu á fullkomnum manni. Þegar
vort fólk kom nú í land, gjörðu soldater skans af þessum körfum og fylltu þær
upp með leir og mold, er þeir grófu í landi. Og so fallstykkin á milli
karfanna.

Þegar þetta var nú í stand, var kommandantinum
gjörð boð, að sitt fólk út koma láta skyldi til bardaga eður og hitt, að
uppgefa oss kastillið. Að vörmu spori komu þar 8000 soldater, og so yndissamleg
hljóðfæri sem sú tyrkneska fylking hafði hefi eg aldrei séð eður heyrt. Það var
eins og basuner. Þegar þeir voru nú komnir í það rétta skotmál á móti voru
fólki, var vort púður mikið sterkara en þeirra. Alltso mátti sú tyrkneska
fylking hörfa til baka. So tóku þessir Rússar sinn skans upp og helltu upp
jörðinni af körfunum, fóru so nær staðnum og gjörðu so frískan skans. Það gekk
á þann sama veg. Að síðustu fór heil fylkingin inn í staðinn og lauk öllum
portum til, en að hálfum tíma liðnum voru yfir 50 eldar í staðnum, og þar eftir
var staðurinn í Ijósum loga. Vér skutum nú ei lengur í landið eður í staðinn,
þegar vort fólk var þar inn komið, er voru vel 60 þúsundir, en staðurinn
skrifaðist að skyldi hafa 12 þúsundir fólks í allt. Nú þegar eldurinn var yfir
allt í staðnum, var so bjart upp á skipunum, að vér kunnum gjarnan sjá einn
höfuðprjón á þilfarinu um svartnættið, og skipin lágu þó frá landi 3/4 mílu,
það er þrjá parta af einnri viku sjóar. Að þessu gjörðu kveiktu þeir eld í
þessum tveimur orlogsskipum, er byggð stóðu á landi, og galeiðen, og þá var enn
nú stór blossi, og þeim húsum, sem galeiðinnar og þessara tveggja orlogsskipa
takkelas, sem voru segl og kaðlar, inni voru, samt tjörutunnur og önnur
materiel, er kostuðu mörg þúsund rd. Um morguninn kl. 8 kom eg í land. Var
allur staðurinn uppbrenndur utan tvö hús, er voru yzt út við volden. Konur voru
að bera börn sín á hryggnum upp í kastillið, en Rússar voru að gjöra grafir
undir öll hornin á kastillinu og vildu uppfylla þær með púðri og láta so
kastillið springa upp í loftið með öllu því fólki, þar inni var. Eg sá og so
elfur, er runnu frá kastillinu eður þeim pakkhúsum, er þar voru um kring. Í
þessum elfum voru blandað saman bæði brennivín, sápa og vín, er saman blandað
var, þegar þessi pakkhús voru að brenna, so það var hörmulegt að sjá.

Í þessu kom kommandantens kona um
borð á admiralsskipið og betalti hönum allan umkostnaðinn, er hann hafði, eg
meina admiralen, til að uppbrenna staðinn. Var strax upphissað flag, að allir
þeir, sem í landi voru, skyldu koma án dvalar hver upp á sitt skip og ei ræna
meir í landi. En það fengið höfðu, skyldu þeir behalda. Komu so vorir soldater
um borð fullir og drukknir, en voru allir saman reiðir, að ei máttu láta kastillið
í loft upp springa, og sögðust vilja skrifa Majestæten af Rússlandi til um
þeirra athæfi. Fengu því nokkrir af þeim straff. Nú um miðdaginn komu allir kapteinar
um borð upp á admiralsskipið og héldu samtal um þennan bruna með víðara, sem
almúgafólk ei vita fékk. Þar eftir var skotin victoria, og héldu þeir messu með
mikilli viðhöfn.

Að þessu búnu héldum vér þaðan til
Michel og lágum þar lengi. Þar fengum vér orður að fara til Síon með þremur
orlogsskipum og svelta þá sídorjisku út og fyrirbjóða öllum þar inn að koma og
öngvum frá staðnum út að fara til aðdráttar. Að síðustu heyrðum vér, að eitt
brauð, sem vegur 7 lóð, kostaði 24 skildinga. Eitt kvöld sáum vér, að einn
skerbekker fékk so marga menn með sér og læddist fram með landinu út í
eyjarnar, hvar hans kornvara var. Þetta fortöldu oss þeir grekisku, er voru
ætíð hjá okkar skipi, ef eitthvað kynni að koma upp á, annaðhvert að fara um kring
eyjarnar, hvar þeir Tyrkjar bjuggu, ef ske skynni, að þeir sjálfir, eftir því
að so kunnugir væri alls staðar um kring, einhvörs staðar naut, sauði, geitur
og kornvöru, sem og skeði oft, að þeir til okkar komu með þess háttar. Nú vorum
vér á vakt eftir þessu tyrknesku skipi, þegar til baka kæmi. Þegar klukkan var
þrjú um nóttina, sáum vér þeir komu þétt með landinu og héldu upp að staðnum.
Fórum vér í vorn stóra bát, er þeir kölluðu barkasse, með svingbasser, það eru
litlar kanónur eður fallstykki. Allir soldater með hlaðnar byssur og slípaða
korða. Nú fóru þeir grekisku með. Þegar þeir Tyrkjar sáu þetta, sendu þeir boð
eftir höfuðvaktinni til styrktar þeim, þegar í orustuna kæmu, so það var so
fullt af fólki, að það var maður við mann á þilfarinu. Vér skutum nú á báðar síður,
þeir grísku á eina síðu, en vér á aðra. Að síðustu komum vér þeim so nær, að
við köstuðum vorum litla dreka á skip þeirra og höluðum það til okkar. En þegar
þeir tyrknisku soldater sáu þetta, hlupu þeir allir í sjóinn og syndu sem
selir. Vér slógum þá flesta, er ná kunnum, í hel með vorum árum, en þegar upp
komum á skipið, sáum vér þar dauða kroppa og blóð á þilfarinu. Voru þá ei til
baka nema tveir menn, sem var faðir og sonur, er voru skipseigendur. Faðirinn var
so stór og sterkur sem risi. Hans handleggir voru so þykkvir sem fullkomins
manns lær, og eftir því var heili kroppurinn. Hann hafði tvö sverð, eitt í
hverri hendi, og slóst með báðum. En einn Greker, er var af þeim Albaneser, sem
eru hið grimmasta fólk, hann kom á bak þessum tyrkneska stóra manni og lagði hann
á milli herðanna, og kom oddurinn út fyrir neðan bringspalirnar. Og þegar sá
stóri, gamli maður fékk sitt banasár, kastaði hann báðum sverðunum upp í
loftið, so það söng í þeim, og féll á hrygginn, meðan blóðið út rann af
kroppnum. Þannig deyði hann með hreysti og hugprýði. Sonurinn var fram á skipinu.
Og þegar sonurinn sá, að faðirinn var nú dauður, varð hann sorgfullur og varði
sig ekkert, heldur gekk viljugur til síns dauða, og Rússar hjuggu hans höfuð
af, en færðu hann fyrst úr klæðunum. Nú fórum vér að gjöra þilfarið hreint með
sjóvatni og út köstuðum þeim dauðu kroppum, sem dauðir lágu á þilfarinu, utan
þá tvo feðga. Þá færðum vér til vors orlogsskips, en höfðum það tyrkneska skip
með oss, er var hlaðið af kornvöru. Þetta var undir dag. Vor kommandör, Basballe,
var uppi, er vér fortöldum tíðindin. Voru allar lúkur á því tyrkneska skipi
aftur læstar, því vor kommandör þenkti, að peningar væru í skipinu, eftir því
so margar manneskjur hefðu látið sitt líf, en aðgætti ei, að hungrið er hart
sverð, því þar var stórt hungur í staðinn inn komið. Um morguninn snemma var nú
skipið vísiterað, sem ekkert hafði inni utan hveiti, mig minnir 300 tunnur.
Þeim feðgum var í sjó varpað, og voru talin á þeim gamla manni 18 fárleg sár og
það nítjánda, er hann af deyði. Þegar þeir komu í vatnið, var höfuð og fætur í
sjónum, en mittið líkamans flaut so lengi sem sáum, en vor doktor sagði, þeir
kynnu ómögulega sökkva, því allt blóð væri af þeim. Nú tókum vér kornvöruna og
allt, er var á skipinu, er hafa vildum, en skrokkinn brenndum vér upp. Og er so
út talað um þetta efni.

Nú vorum vér á Síonsbugt enn nú,
utan hvað vort skipsfólk flakkaði með þeim grekisku hingað og þangað um
eyjarnar, hvar Tyrkjar sig upp héldu, sem þeir grekisku oss undirvísuðu, ef ske
kynni vér fá kynnum naut eður sauði oss til viðurlífis. Einn dag var gott
veður. Skyldum vér nú fá eitthvað lífs upphold. Komum vér upp á ey nokkra, er
Tyrkjar í bjuggu. Þegar þeir sáu oss, hlupu þeir allir út í skóginn, utan tvær
konur voru heima. Sú eina var ólétt, en önnur ei. Henni lágu þeir hjá. En þá
óléttu uppskáru þeir og tóku fóstrið út af hennar lífi — og það gegnum stungið.
Hrærðust bæði lærin og handleggirnir á því, er þeim þótti gaman upp á að sjá.
Þegar fengið höfðum eitthvað með oss til baka, sem var naut og sauðir mjög
margir, fórum til baka og fortöldum Basballe sem séð höfðum um Rússanna aðferð
með þessar tvær konur. En hann sór það, að þessa skyldi hefnt verða. Soleiðis
hefðu þeir sig að borið fyrr, en nú skyldi þeim ei vægt verða. Skrifaði til
þess rússiska admiral um sökina og fékk orður, að þeir skyldu kattast í þrjá
daga, 50 slög hvern dag. En þeim var þó lítið vægt, so þeir fengu þó ei
fullkomið straff. Annars voru þeir lengi að ná sinni heilbrigði, sem vonlegt
var.

Að þessu búnu fengum vér orðu, að
vér skyldum nú strax koma til Paro og fá nýjar orður, sem voru þessar, að þeir
dönsku timburmenn og skipherrar skyldu nú fá sitt afskeið, en ef matrósar blífa
vildu, var þeim það eftirlátið, hvar um Basballe sig heyra skyldi. En þar var
enginn af oss, sem vildi eftir verða, einna helzt þar Basballe lét okkur á sér
heyra, að ei mundi þar lengi verða, þar stríðið hefði nú snart sinn enda, —
„þar Tyrkinn biður um frið, sem hönum mun ei neitað verða“. Þetta hefði
hann heyrt af þeim, sem fyrir kortri tíð hefði verið upp á því rússiska
admiraliteti. Eg iðrast, að ei varð hjá þeim rússisku. Þeir dönsku hundar vildu
fara heim til þeirra kvenna, er margar af þeim höfðu látið sig besvangra. Nokkrar
höfðu átt börn, en voru nú aftur ávaxtarsamar. Þá var slétt um forlíkun þeirra
á milli, sem vonlegt var. Eg lét mig yfirtala að fara með þessum þrælum í þetta
þrælaplátz, en hafði þó nokkra ólukku til baka, sem eg enn nú ber í dag, sem er
þessi, að vér skyldum salutere fyrir þeim rússiska general-admiral, Orlov, en
minn vicekonstabel hafði drifið so hart niður járnið í afturhjólinu undir
rapertunni, að hún ei kunni ganga um kring. Þegar eg skaut með fallstykkinu,
kastaði það mér niður í skipið, og nam eg staðar á einu járnbandsfati, so mín þrjú
rifbein brotnuðu og lærið gekk af mjöðminni. En vor doktor var ei á skipinu. En
þaug hljóð, sem hafði af þeirri pínu, er eg hafði af sinunum fyrr en í sitt
rétta stand koma kunnu, er mjög fárlegt að fortelja og enn meira að líða. En
hitt tók yfir, að eg var mest hræddur fyrir mínum kammerötum, að mér í sjóinn
kasta kynnu, þar eg var einmana, og enginn af þeim dönsku þrælum vildu mér
aðstoð eður hjálp veita. En so lengi eg var á því rússiska skipi, hafði eg ei
nauð. Þeir voru mér góðir. En nú áttum vér að fara með engelskum skipherra til
Kaupinhafnar, og eg var so á mig kominn sem sagt hefi. Annars fór einn danskur
lautinant með oss, er skyldi eftir sjá, að vér fengjum vor rigtigheit. Hann
skaffaði mér þann, er mér skyldi þjóna í mínum sjúkdómi. En það gjörði hann
eftir sem hans manndyggð var, sem var sú að eta frá mér matinn, er hafa skyldi,
en sveikst um að sjá til mín eður hjálpa mér í minni nauð, so eg lá sem
útkastað hræ, sem enginn vildi til sjá. Eg óskaði mér, að dauður væri og
sjórinn hefði orðið mín gröf. So gekk þessi reisa, og ei bar neitt til tíðinda
á þessari reisu, utan það, að tveir matrósar af voru fólki urðu straffaðir
fyrir þjófnað, og einn matrós af voru fólki var í járnum, er hafði skorið sinn
kammerat, og skyldi skrifast til Majestetið af Rússlandi. En þegar komum til
Kaupinhafnar, var þar hungur og dýrtíð. Eg átti brauð, sem eg dró af mér á
reisunni. Það hafða eg með mér í land. Nú skylda eg betala þeim matrósum, er
báru mig heim í þetta líðilega þjófasamkvæmi, er eg átti nú í að lossera, sem
var blant matrósafólks út í Nybur. Nú var allt þetta pakk soltið og hungrað og
sjálfur sergeantinn með. Ei kunna eg að fá boð til neinna, er eg kenndi, fyrr
en seint, þegar peningarnir voru úti.

Kom til mín sonur minn Þorleifur,
er lærði garfarahandverk í Prinsensgötu hjá þýzkum meistara. Hann kunni mér ei hjálpa.
Þar kom og Teitur Ólafsson, stúdent, alleina að narra peninga út, ef fengið
hefði. Eg heyrði ei annað en blót og bann. Þeir stálu frá mér peningum, er
lánað fékk í staðnum inn til þess mínir reisupeningar féllu. Kunni og ei koma
úr rúminu fyrr en síðar, og kunni ei fá boð til þeirra, er mér hjálpa kynnu.
Þetta var vel harður skóli. Að þessu búnu kom einn timburmaður til mín. Hann
gjörði mér tvo stafi, einn undir hvern armlegg. Þá fór eg út í staðinn og fékk
annað lossament. Það var skikkanlegt í fyrstunni, en þegar eg fékk mína peninga,
fóru þessir þjófar að stela, so eg mátti nú fá annað lossament. Flutta eg þá
upp á Kristjánshöfn til þeirrar konu, er átti Stefán Björnsson timburmaður, er
var væntanlegur frá Vestindien. Hún var mér skikkanleg í fyrstu, þó drykkfeldug
væri. Hennar maður fékk hrakreisu og lá lengi í Norge um veturinn að endurbæta
skipið. Hún skrifaði hönum til, en fékk aldrei bréf frá hönum. En þegar skipið
var ferðbúið, kom skipherrann til Kaupinhafnar, en Stefán tók sér reisu til
Amsterdam og gifti sig þar og er so úr sögunni. Konan varð gal og sló sér til
drykk og hórurí, en eg mátti flytja þaðan, þar hún þenkti, að eg hefði hönum
til skrifað um sitt líðilegt vesen, er eg var þó saklaus frá hennar meining.
Annars var nefndur Stefán sá þriðji, er soleiðis hafði frá henni farið, því hún
var eyðslusöm með öðrum ódyggðum, er hún hafði með sér. Hún hafði systurdóttur,
er var og gift, — maður hennar á sama máta burt farinn. Þorleifur, sonur minn,
besvangraði hana með drengjabarni, er Markús hét eftir afa sínum. Mátti því úr
læri og slapp strafflaust og fór til Íslands.

Íslandsferð

Um mig er það að segja, að eg var
tvö ár upp á keisarinnunnar kost, þangað til eg kunni sjálfur mér hjálpa og
fékk reisupeninga hingað til landsins. Og það sama sumar fór og minn sonur
hingað til Reykjavíkur, en eg til Keflavíkur. Var hjá síra Egli Eldjárnssyni um
tíð. Fór þaðan til Reykjavíkur og talaði við son minn, meir mér til angurs en
gleði. Þaðan til míns fólks í Dölum. Var í Ljáskógum hjá Brynjólfi frænda mínum
um veturinn. Það sama sumar giftist dóttir mín Þorkeli Guðmundssyni á Brekku,
er Kristín hét og deyði ekkja 1798 í Flatey að mér hjáverandi. 1775 sigldi eg
frá landinu aftur með Vopnafjarðarskipi.

Og fyrr en fer að tala um reisu
mína nú frá landinu, verð eg að tala um það, sem við bar hér á þeim tíma, sem
liðinn var frá því eg fór frá landinu, sem var 1753, er voru 21 ár. Nú hafða eg
tvö börn eftir hjá systur og bróður, eitt stúlkubarn, þriggja ára að aldri,
þegar burt fór. Annað, sem var drengur, fimm ára, hjá vandalausum, er voru
uppriktugir og góðir við hann fyrir litla meðgjöf, allt til þess er sjálfur sér
brauðs vinna kunni. Dóttir mín, Kristín, bar mest upp að meðgjöf, en verst með
hana farið. Hún lá mér mest á hjarta, er fortalti mér sinn viðurgjörning. Höfðu
selt níu hundruð í jörðu, er mér til heyrðu, og lítil eður engin föt fengið og
mikið erfiði og magra fæðu. Þetta líkaði mér illa og seldi aftur þessi níu
hundruð og tók það til reisupeninga, utan hvað eg gaf dóttur minni, fyrr en
burt reisti. Magnús Ketilsson, sýslumaður, var mér í öllu mótfallinn. Sýndist
bezt að reisa burtu. Fór fyrst til Reykjavíkur, þaðan að Helgastöðum til síra
Jóns, frænda míns, og að síðustu til Hofs í Vopnafirði. Þar var síra Guðmundur,
frændi minn. Síra Skafti Árnason átti dóttur hans, Guðrúnu. Prestinum, síra
Skafta, selda og hest minn, en reiðtygin eru óbetöluð inn til þessa dags og
presturinn lengi síðan dauður. Þar var eg mest í þrjár vikur og var að slá og
binda alla vikuna fyrir lítið eður ekkert. Nú að þessu búnu fór eg til
Vopnafjarðar og talaði við kaupmanninn, er sagði mig velkominn með sér að
reisa. Þaðan aftur til Hofs og var þar, til þess boð fékk frá kaupmanni. Þegar
um borð kom, var eg vel metinn af matrósum og tók stýrið að mér og stýrði mín
tvö glös, reifaði og besló seglin sem skipsfólkið, hvar fyrir að frí varð fyrir
reisupeninga að betala.

Vér vorum fimm vikur á reisunni í
allt. Komum í Arendal, er vér dvöldum um vikutíma. Fengum einn kaupmann með oss
þar, er kominn var frá Finmarken og sótti um betra brauð í Kaupinhöfn, en varð
þó, þegar voraði, að reisa til Finmarken aftur, þar enga kondition fá kunni.
Hann talaði mikið um sinn amtmann, Fjeldsted, og hélt mikið af íslenzkum. Hann
var mér mikið innan handar í Kaupinhöfn. Eg erfiðaði upp á kompagníenu með
Einari Þórólfssyni og Guðna frá Ólafsvík, er út lossaði skipið, en fyrir storm
og óveður kunni ei til lands koma og fylgdist þar fyrir með skipinu til
Kaupinhafnar. Eg fortalti Jóni Eiríkssyni um höndlunina í Íslandi og agent
Borre, líka so þeim gömlu kaupmönnum, er verið höfðu í Íslandi. Hjá þeim unga
Wulf var einn undirpakkhússkrifari, er Kyhn heitir, en Wulf var
yfirpakkhússkrifari á allri þeirri vöru, er kom til landsins, en bróðir hans,
Davíð Wulf, hafði í sínum reikningsskap alla þá vöru, er kom frá landinu. Þessi
Kyhn hafði so mikið með íslenzka að bestilla og rógbera oss fyrir Jón
Eiríksson, annaðhvort það, að vér værum latir að erfiða og ei pössuðum vort
erfiði, eður hitt, að vér værum so svörulir, að hann ei kynni brúka oss. Vér
sögðum það ósannferðugt væri, sem og til baka barst, þegar hann talaði við þann
unga Wulf. Orsökin var þessi, að þessir kaupmannskarlar héldu, vér íslenzkir
vildum taka brauðið frá þeim og yrðum anteknir í þeirra stað að fara upp á
landið, en Kyhn var þeirra bezti vinur. En það brann mest í þeim um Jón
Eiríksson, að so stór völd hefði yfir fartinum til íslands. Hann væri þó ei
meir en Islender, er gjarnan hafa lítinn honör hjá þessu fólki. Jón Eiríksson
hafði stóran vanda að sigla á milli skers og báru. Íslenzkir voru hönum á
hálsi, ef ei gjörði það um báðu; danskir á hina síðuna, ef gjört var þeirra
vinum móti. Það heitir: Mann skal lykta af því landi, sem í er, og dansa með
þeim fuglum, hann er í bland. Nú fóru skipin til landsins með þeim skilmála, að
þeir kaupmenn, er þangað færu, skyldu verða þar, og bara íslenzkir þeim til
aðstoðar. En beykir skyldi með hverju skipi og vera þar í tvö ár, á hverjum
þeir skyldu læra þeim íslenzku þeirra handverk. Hvað þeir voru nú fyrr galir
upp á oss, urðu nú þúsund sinnum verri, bæði kaupmenn og erfiðisfólk. So þegar
þeir höfðu nú gjört þessa reisu, skyldi þessi befalning standa.

Það sumar var eg í Kaupinhöfn, þar
til Íslandsfarendur heim komu. Þegar þeir aftur komu, vildu nú allir hafa
pension, þar þeirra lifubrauð væri frá þeim tekið. Og þegar direktionin haldin
varð, var upp lesin þeirra begering. Þar var öngvu til svarað en þessu: Þeir
yrðu sjálfir sér um brauð leita. Annars yrði þar fólk út tekið, sem skyldi
forblífa í Grænlandi hjá kaupmönnum þar. Nú stóðu þeir fyrir matrósa í þeim
grænlenzku rullum, allir, er erfiðuðu á þeim grænlenzku kolonium. Nú var gjörð
ný ansögning af þessum Íslandsfarendum, að þetta matrósa nafn skyldi umbreytast
og kallast arbejdeskarlar. Annars vildu þeir ei þangað fara. Þeirra suppliqve
fékk góðan framgang og áheyrslu, so þeir urðu nú kallaðir arbejdeskarlar og ei
matrósar. Þar eftir gáfu þeir sig til Grænlands, einna helzt þeir ei giftir
voru. Nú fór að lækka drambið í þessum höfðingjum. Fyrr voru þeir vanir að taka
þénara að bera þeirra erfiðisklæði upp á kompagniet, þegar þar erfiða skyldu,
sem var að koma mél í tunnur og skipsbrauð með öðru erfiði, er þar fyrir fellur.
Nú var sú drambsemi úti. Þegar vissir voru um, að ei til landsins koma kunnu,
voru þeir sem vér aðrir og báru sjálfir sín erfiðisklæði með sér. Borgarar
gjörðu nú ei mikið af þeim, þegar vissu, að íslandsfartin var frá þeim tekin.
Þegar komum af erfiði, gengum vér inn í vertshús með þeim og kölluðum þá Íslands-professores.
Þeir áttu bágt við að fortelja lygafrásögur um ísland, þegar vér íslenzkir til
heyrðum. Annars kunni hr. Kyhn að forljúga oss so fyrir Jóni Eiríkssyni, að ei
kunnum fá erfiði upp á kompagníenu og ei fengum að tala við hann, því fólk hans
sagði oss eftir hans skipun, að ei heima væri.

Reikar um Danmörku

Nú var fátt til ráða. Þetta var á
öndverðum þorra, og eg hafði ei reisupeninga. Tók þó fyrir mig að reisa út á
Sjáland og fékk marga peninga hjá bændum. Skrifaði forskriftir fyrir þeirra
börn, kenndi sumum að draga til stafs og nokkrum að reikna lítið af þeim fjórum
species, so eg safnaði mér mörgum skildingum, er eg brugte til minnar reisu að
Julland, er eg byrjaði strax í apríl 1776. Fólk var mér mikið gott og
skikkanlegt, so eg sá og formerkti, að guð hjálpaði mér vel frá þessu
ræningjabæli, Kaupinhöfn, sem eru margir kaupstaðir í Dannemark og Norge með
óguðlegleika, þá með þjófnaði í kaupum og sölum, þá með hórurí og drykkjuskap.
Já, margir ómiskunnsamir tyranner, sérdeilis fyrir að narra ókennda. Í bóndabyggðinni
er skikkanlegt og greiðasamt fólk, er kvíða fyrir að verða kaupa við kaupstaðarmanninn,
og oft er stolið frá þeim þar, sem gjöra mest soldater og matroser, er fá lítil
laun af kónginum, so það var venjulegt, þegar þaðan komu, að eitthvað var frá þeim
stolið, en kaupstaðaryfirvöldin sjá jafnan í gegnum fingur við þessa þjófa, þar
þeir eru þeim handgengnir og gjöra oft fyrir þá án nokkurs betalings, og það
skal bóndinn betala, þegar í kaupstaðinn kemur.

Eg reisti nú frá Korsör í Sjálandi
yfir að Nyborg í Fyn með kóngsins póstduggu, sem voru fjórar mílur, er mig
kostaði ekkert fyrir þá skuld, að eg hafði þént kónginum. Minn ásetningur var
þessi, að eftirsjá, hvert ei fengi nokkurn arf eftir minn sál. bróður, Vigfús
Magnússon, er var nýlega dauður í Hobro í Jullandi og hafði þént þar í fjögur
ár fyrir kontrolör eður tollheimtumann. Eg reisti í gegnum Fyn, sem er tíu
mílur, á sjö dögum. Þar var gott að koma. Fólkið var bæði greiðugt og gott
viðureignar. Nökkrir, sem var borgmeistarinn í Nyborg, gaf mér einn rd. og
tveir kaupmenn 24 skildinga hver, mest fyrir það eg íslenzkur var og kunni so
mikið þeim fortelja. Fékk og frí fart þaðan að Fredericia, hvar þeir mörgu
Juder eru saman komnir. Þegar kom nú til Jullands, hélt eg spurnir um bróður
minn, Vigfús, í hverju standi verið hefði. Eg vissi vel, að hann var mjög
sparsamur, hægur og skikkanlegur þá tíð, eg hann kenndi í Kaupmannahöfn, og
þénti í átta ár hjá sínum herra þar, hver eð hönum útvegaði þessa bestalling í
Jullandi. Nokkrir sögðust ei vita um hans ásigkomulag. Hinir sögðu, hann hefði
verið í sléttu standi, er hefði orsakað hans drykkjuskapur og líðilegheit.
Þegar kom að Randers, talaði eg við hr. Kierketerp, er var hinn ríkasti
kaupmaður í Randers, og hans bróðir var og kaupmaður í Hobro, hvar minn bróðir
andaðist, er fortalti mér hið vissasta af mínum oft nefnda bróður. Hann hefði
vel haft 150 rd. af kóngsins kassa og þar fyrir utan í það óvissa, sem hlypi
sig meir en þaug vissu laun, þar hann skyldi inquirere alla bændur, hvert ei
brenndi brennivín. Nú gáfu allir proprietarii hönum í það minnsta 20 rd., hvar
fyrir að skikkanlegur vera skyldi við þeirra bændur, þar fyrir utan allir
prestar og djáknar, mullarar og smiðir. Allir þessir offruðu hönum, að hann
þeim vera skyldi góður og skikkanlegur. Allir þessir brenndu brennivín. En þegar
minn bróðir var skikkaður af borgurunum í kaupstaðnum að vísitera hjá bændum,
hvert ei brenndu brennivín, og tveir tollbeþéntara með, gjörði hann bændum boð,
að sig vara skyldi, því á morgun kæmi hann með tveimur tollbeþéntum. Borgarar
skrifuðu til kammeret um þessar sakir, en fengu ei andsvar það þeim hjálpa
kunni. Kom þó ei víðara, jafnvel bó stefndur væri til býþings. Þegar vísiteraði
á landinu, var hann þrjár og fjórar nætur hjá þeim ríku bændum í góðu yfirhaldi
bæði með öl og brennivín, stundum peninga með. Nú þegar guð hann burt kallaði
eftir 14 daga banalegu, hafði hann ei so marga peninga, sem kynnu svara hans
útfararkosti, og þegar hans töj var auktioneret, resteraði enn nú 100 rd. til
skuldalúkninga. Hann var ógiftur, og enginn sá hönum til góða, heldur var hann
sem framandi Samarítan, hélt sig vel til klæða og fæðu, so gildur, að fæturnir
kunnu ei bera kroppinn. Kort sagt: Hann var aldeilis frá sér numinn, strax sem
kom til Jullands. Eg vil þenkja, að sú ekkja, er hann lofaði að ekta í
Kaupinhöfn og var í góðu standi, hún, segi eg, hafi orðið hönum bænheit, þegar
burtu reisti. So enduðust hans armæðu og útlendings dagar, og er so minn bróðir
úr sögunni.

Nú kem eg aftur til míns góða
Kierketerp, er sagði mér hið mesta óráð að fara lengra áfram, þar enginn arfur
væri væntanlegur eftir bróður minn. Eg skyldi vera á sínum herragarði í sumar,
og skyldi hann gefa mér mín laun, þegar haustaði. Eg skyldi fylgjast með
drengjum sínum, er vöktuðu 90 naut, og skyldi þó ei neitt erfiði gjöra, bara að
eftirsjá, að þaug væri út látin og inn drifin í rétta tíð. Mat skyldi eg hafa
góðan og mikinn. Eg hugsaði mig um þetta boð og staðnæmdist þar um sumarið.
Þetta var um Jónsmessuleytið. Var þar til 14 daga eftir Mikelsmessu, fékk gott
uppheldi og ekkert erfiði. Nú var korn inn komið, og bændur fóru að terska kornið.
Eg fer að Randers og kom til Kierketerp. Hann gaf mér 3 rd. 2 mk. og sagði, eg
skyldi tala við bróður sinn í Hobro, er vissi mitt ásigkomulag. Hélt og, hinir ríku
kaupmenn, er þekktu bróður minn, mundu mér eitthvað gefa og ráðleggja, er
hjálpa kynni, þar auðsjáanlegt væri, að eg væri hans bróðir. Eg var hjá hönum
enn nú í Randers níu daga, fór so að Hobro, sem var fjórar mílur, kom þar um
kveldið og talaði við grosshandleren Kierketerp, sem minn bróður lét begrafa.
Hann sagði mér, hann hefði til góða 120 rd., er það fátæka sterbú ei betala kunni.
„Annars“, segir hann, „vil eg þó gefa þér tvo bankoseðla, því þú hefur
verið skikkanlegur í míns bróður þénustu í sumar, því eg hefi sjálfur við hann
talað“. Þar var eg 14 daga. Eg fékk þar og peninga hjá kaupmönnum. Hugsaði
með mér, hvað afráða skyldi. Og af þessum þönkum gaf mig til líðilegheita og
var drukkinn daglega og þenkti með mér sjálfum: Vinopelle curam, það er: Lát
brennivínið burt drífa sorgina. Þegar peningarnir burtu voru, fór eg burtu frá
Hobro og til þess herragarðs, er Krastrup heitir. Þar var minn landsmann, Jón
Jónsson, bróðir Björns apoteker, er þar þénti fyrir fodermester. Hann gaf mér 3
mk. og skyrtu. Eg fór að Valfelli, drakk peningana upp, seldi skyrtuna fyrir
hálft verð og þeir peningar fóru sama veg. Nú var kominn vetur og frost. Eg
kenndi nú öngvan, og enginn kenndi mig. Nú var eg kominn í stór bágindi á allar
síður. Hefði eg kunnað terska kornið, þá var alls staðar að fá, en það kunna eg
ei. Annars var eg um þessar grenser til þess í miðju góu. Hvar eg kom, var fólk
mikið fyrir að heyra af mínum reisum og af Íslandi. Gáfu margir bændur
brennivín og sumir skildinga, so hvern dag var eg drukkinn. Stundum selda eg
klúta og skyrtur af mér, so eg var nú klæðlaus og mátti ganga á tréskóm, er mér
féllu illa í fyrstunni, Nú var kominn sterkur ís á fjörðinn, sem er á milli
Krastrup og Thyland, so þar var ísinn ¾ alin á þykkt. Á þessum ís voru yfir 100
manns, allir að stinga ál á 7 álna dýpi. Nokkra af þeim þekkta eg. Þá gáfu þeir
mér so mikinn ál, að eg hafði nóg með að bera hann yfir um fjörðinn. Þegar kom
að Thyland, selda eg álinn fyrir brennivín. Þar var brennivín hjá hverjum
húsmanni, pelinn fyrir þrjá skildinga. Hvað eg ei drakk fyrr, þá drakk eg nú.
Annars var fólk ei mikið fyrir að lána mér herbergi, en vildi þó gjarnan tala
við mig. Það kunni ei skilja mig vel, þar málið þar er ei sem í Sjálandi eður
Jullandi.

Eitt kvöld var eg lengi að biðja um
hús og kunni ei fá í þeim heila bý, er voru að tölu 16 bændur. Eg var vel
drukkinn, en var þó sáttur og sammála við allt fólk, er flestir bændur þar
höfðu annaðhvert gefið mér brennivín eður peninga. Hörkufrost og moldöskukafald
var úti. Þessir bændur sögðu mér, að kortur vegur væri til næsta býjar, þegar
eg væri kominn í gegnum skóginn, kynni eg utan tvíl að treffa þennan bý. Eg fór
burtu og villtist í skógnum, sá og engan hlut fyrir mér utan dauðann. Bæði var
nú veðrið hart og snjókoma mikil. Frost úr máta og eg klæðlítill. Eg var að
ráfa fram og til baka um skóginn langan tíma. Klukkan var fyrir víst 11. Um
þessa tíð sýndist mér, eg sæi Ijós fyrir vestan mig eður stjörnu. Eg gekk betur
áfram, so eg var viss um það, að þetta var þó Ijós. Eg kom til þessa býs, er
bjuggu átta bændur. Eg barði að dyrum. Kemur þar ein roskin kona, er var
hálfhrædd, þegar mig sá, og spur mig, hvað til þess komi, að eg er nú á ferð.
Eg fortel henni hið sanna. Hún segir mér, að hún hafi tvisvar ætlað að leggja
sig, en það hafi eins verið og sagt hefði verið til sín: „Þú skalt eigi leggja
þig“. „Og nú var eg farin að sofa við minn rokk, í því þú barðir, og mig
dreymdi þig. Nú er klukkan 12. Kondu inn með mér. Eg skal varma öl og brauð, að
þú kynnir að koma þig“. Hún gjörir sem sagði og segir: ,,Mig furðar, þú
ert so lítilfjörlega klæddur. Eg held þú sért gefinn fyrir brennivín, og það
máttu ei brúka. Þú skalt kaupa þér klæði á kroppinn“. Hún varmar nú öl og
brauðið, gjörir og sængina heita með fýrbekken, so eg fæ nú nóg að eta og hina beztu
sæng að liggja í. Um morguninn er gott veður. Fór mín gamla kona að tala við
mig, þegar eg vaknaði. Eg segi henni hið sanna frá högum mínum, og hún segir
mér, að hún sé fátæk skreðerakona; hennar maður hafði fyrir kortri tíð andazt,
og þaug engin börn saman átt hefðu. Og hans klæði hengdi á vegg hennar, og
skuli eg þaug kaupa eftir vurdering, því hún hafi uppskriftina með sinni
vurdering mér að framvísa. Eg segi henni, eg enga peninga hafi. Hún segir: „Þá
peninga, er upp drekkur, skaltu geyma til klæða. Hér er gott land. Eg skal
forsikre þig um, þér verður vel til. Þú hefur farið so viða. Og þegar þú kemur
til vors prests, gefur hann þér annaðhvert peninga eður klæði. Þú skalt og hafa
víst herbergi, þegar til mín kemur. Láttu mig nú sjá, að þú gleymir ei orðum
mínum“. Nú nefnir hún fyrir mér þá beztu býi og hvað mennirnir heiti, er
eg skuli um herbergi biðja. Hún gefur mér nógan mat um morguninn, fyrr en burt
reisti. Eg fer í þessa býi, er hún upp taldi, talaði við marga presta og
djákna, bændur og búendur. Eg kom og að Thisted, sem er kaupstaðurinn. Þar var
íslenzkur beþénter. Hann var bæði magur og nakinn. Þar voru tveir kaupmenn, og
eg kenndi lítið til þess eina, er var frá Kaupinhöfn. Kort að fortelja: Eg var
sex vikur burtu frá minni gömlu konu og keypti af henni kjól bláan, skinnbuxur,
rautt vesti, tvö pör bláar hosur, eina nátthúfu og þrjár vel brúkandi
léreftsskyrtur, sem og gömul stígvél, so nokkrir meintu, sá gamli skreðari væri
nú upp risinn. Þessi gamla kona gifti sig nú aftur og fékk ungan mann, er ei
tímdi að eta eður drekka og lét hana illa. Hún var bæði guðhrædd og skikkanleg.
Strax eftir það hún giftist, kunna eg ei hús fá, sem varð tveimur árum eftir
mína þangað komu. Og er so út talað um þá gömlu konu.

Kennari hjá Jótum

Nú þegar eg hafði fengið föt upp á,
voru bændur að tala til mín að kenna börnum sínum að skrifa og reikna, en
launin voru lítil. Eg hafði einn vetur 45 börn í skólanum og 6 rd. í laun. Þar
var og einn prestur, er Monrad hét, er vildi hjálpa mér til fasts skólaplátz,
lét setja mig í avísurnar, en innfærði mig að vera í slekt við konferenzráð Jón
Eiríksson, sem þó ei var, so þetta fékk ei framgang. Nú var eg í þessum skóla
einn vetur. Um vorið bauðst mér 10 bændaskólar, af hverjum eg lét mig skrifa
þann eina. Þar bjó ríkur bóndi, er Andrés Rís hét, mesti drykkjumaður. Konan
var þó verri, því hún hóraðist og með vinnumönnum sínum, en maðurinn var frí
fyrir þeim pósti. Hann átti þrjá syni og eina dóttur. Sá elzti var 16 ára,
hinir yngri, dóttirin 15 ára. Þessi maður átti níu bændur undir sér. Ei voru
það margir dagar, að ei væru upp drukknir 14 pottar brennivíns. Eg var í
þessari stofu, er gestirnir voru saman komnir. Nú voru synirnir mikið fyrir að
heyra gestanna brennivínsslaður, en eg framandi og þorði ei straffa þá sem
skyldi, heldur þenkti eg, að þessi vetur tæki og enda. Eg vildi kenna þeim að
draga til stafs, sem lítinn ávöxt bar. En þegar maðurinn var ei heima, drakk
konan so mikið, að mátti til sengs. Og þegar fólkið, sem var úti í hlöðunni að
treska kornið, heyrði, að madammen var fallin í þungan svefn, komu þeir inn og
tóku sér skikkanlegan sopa sem finna kunnu. Og þegar fengið höfðu góða
hressing, gengu þeir út aftur til síns erfiðis. Og þegar þeir skyldu nú eta
miðdagsmat, var ei gott að vekja madammen af hennar djúpa brennivínssvefni, og
þegar upp kom, var hún bæði reið og harmþrungin af því mikla brennivíni, sem
upp hafði gengið. Mátti því laga brennivínstöjeð til og brenna í hast, fyrr en
sá ríki bóndi heim kom, kannske með 6—8 menn, er oft voru þar heila nóttina að
drekka og dansa. Bóndinn lagði sig gjarnan, þegar hann heim kom. Voru þá
synirnir að uppvarta gestina. Þeir voru títt drukknir á morgnana, þegar fyrir
mér lesa skyldu. Og þegar faðir þeirra spurði mig að, hvert þeir hefðu kunnað
það, er lesa áttu, sagði eg já til, því þeirra móðir hélt mikið með þeim og
varð stórlega reið, þegar faðir þeirra sló þá, sem skjaldan skeði. Dóttirin
átti barn við vinnumanni þar, sem þó var giftur, að þremur árum liðnum og var
þá 18 ára að aldri. Maður þessi hét Knud, er fólk sagði hefði verið alkunnugur
madammen, því hún hélt mikið af hönum. Kunni og ei hafa nokkra skemmtun af
manni sínum þá tíð, því hann hafði gefið sig of mikið til drykk, en át ei mat.
Að fimm árum liðnum, eftir það eg var þar, deyðí Andrés Rís, en konan fékk einn
kúsk frá einum herragarði, er kenndi henni að afleggja allt brennivín.
Dóttirin, að föðurnum dauðum gjörð jöfn bræðrum sínum að arfi, fékk einn
ekkjumann og kirkjujörð, er kostaði 800 rd., í heimanfylgju. Hún drakk meir en
móðir hennar, var ill manni sínum, hélt áfram í hóruríi sínu með Knud. Maður
hennar var hið mesta prúðmenni, skikkanlegur og meinlaus, sem ómögulegt til
reiði að koma, en var fátækur og í skuldum. Hann var gjarnan þegjandi. Engin
börn fékk hann með þessari konu, er Kristín hét. Nú missti Knud konu sína, er
eftir sig lét fimm börn, þrjá drengi og tvær stúlkur, er var í þeim mesta armóð
og sótti allt, er af lifa skyldi, til Hvidbjerg, hvar eð fyrr nefnd Kristín
Andersdóttir á bjó. Þaug héldu eitt alla þá tíð, eg var í Thyland, sem var um
17 ár, því eg kom þangað 1777, en fór þaðan 1794.

Presturinn þar, er bjó í Karby, hét
Bröchner. Var mér sérdeilis góður og skikkanlegur, þó ringur predikant. Hafði
þrjár kirkjur og messaði þar hvern sunnudag á þeim öllum, bæði vetur og sumar,
vor og haust. Var mikið þykkur og korpulent, so fæturnir gátu varla borið
kroppinn. Hann var mikið friðsamur og óhefnugjarn, lét allt passere, en í
peningasökum mikið eftirgangssamur. Eg talaði við hann síðast í Karby. Þá var
þar kominn stúdent, er var í slekt með. Hann var skikkanlegur predikant,
attestatus frá Kaupinhöfn. Var þá í áformi hans að taka hann fyrir kapelán, er
skyldi ekta dóttur hans með tíð, er var einbirni, og margir peningar
væntanlegir á þessum prestagarði.

Nú þegar voraði, vildi þessi bóndi,
að eg skyldi vera þar so lengi, að hans drengir höfðu lært það, er eg kynni
þeim, og það átti eg að gefa hönum skriflegt. Eg vildi ei það, heldur sagðist
skyldi við hann tala, þegar fram liðu stundir, en hann varð reiður, og með
mestu lempni fékk eg mína peninga, sem voru 4 rd., en fæðuna hafða eg mikið
góða og nóg brennivín að drekka. Herr Bröchner heldur en ei aftaldi mig því.
Heldur skylda eg með allri hægð koma mér frá þeim hjónum, því útdrifin yrðu oft
slétt hjá Anders Ris. Hans drengir voru bæði latir og ónæmir, höfðu og
eftirlæti, voru og til neins vanir utan til að umgangast líðilegt selskap.
Maður þessi var þó í góðu standi, hafði 21 hest á stalli. Þar voru þrír
springhestar, er importeruðu hönum stóra peninga, þar allir bændur frá þremur
sóknum sóttu til hans með þeirra merum, en fyrir hvert föl fékk hann tunnu korn
fyrir. Graðhestar hafa vissa stærð, og þegar eru so stórir sem kónglegt lögmál
útvísar, eru þeir brenndir með kóngsins járnstimpil. Þetta skeður á vorþingi,
þegar héraðsfóvetinn þingar. En þegar hesturinn er nú antekinn, gjöra bændur
bæn fyrir hönum, að guð skuli styrkja hann og gefa hönum lukku í þessu hans
embætti. Þegar merarnar kasta, eru bændur þar nærverandi, eins og þegar vorar
kýr bera hér í landi. Þegar folaldið er nú í heiminn borið, er gjörður meiri
fögnuður þar af en barn fætt væri, sérdeilis ef það væri ásjálegt. Þessi maður
átti og tvo griðunga, tók átta skildinga eftir kúna. Þangað leiddu bændur kýr
sínar mest úr þremur sóknum. Hann hafði og tvö ógelt svín, er hann og tók átta
skildinga fyrir. Mig minnir, að hann fékk í peningum hér um 74 rd. fyrir utan
kornið, er hann tók fyrir sína graðhesta. Þar að auki átti hann 42 naut, er
hann seldi öll um Jónsmessu, og keypti ungneyti aftur. Þetta passeraði hvört
ár, so lengi eg vissi og hann lifði. Hann var veikur vel hálft annað ár, fyrr
en burt kallaðist, og flestalla daga og nótt drakk einn pott brennivín og konan
þar að auki. Var oft gjörð boð eftir presti að prédika fyrir hönum, en þegar
hann kom, urðu þeir óvinir, so hann fór heim aftur með reiðuglegu yfirbragði og
vildi ei aftur koma, þó þess óskað yrði. Að síðustu, þegar tók afskeið við
þennan heim, bað hann, að prestur skyldi ei fyrir sín augu koma. Deyði so þessi
bóndi af fáum harmaður. Þegar hann dauður var, var skólinn upphafinn, og enginn
skólameistari kom þangað meir.

Þegar eg fór frá Amstrop um vorið,
kom eg til eins prests, er Biergaard hét, mikið frómur og guðhræddur maður. Hjá
hönum var eg um sumarið og kenndi börnum hans, átti gott líferni og góða sæng
að liggja í, mitt te og kaffi hvern dag, en um miðdaginn spísti eg með fólkinu.
Þessi prestur átti fimm börn, sem voru þrír drengir og tvær stúlkur. Sá elzti
tólf ára, lærði latínuglósur, en hinir yngri voru að læra að skrifa, en stúlkurnar
voru að læra Pontoppidan og skrifa þess á milli. Eftir miðdag fóru þær að lesa
fyrir far sínum, er grundvallaði þær í útleggingum fræðanna. Þessi góði maður
útvegaði mér skólaplátz hjá einum bónda í Morsey, er Christen Solbjerg hét.
Hann átti fjóra syni og eina dóttur, er Metta hét. Var fátækur maður, en þar
átta eg bezt. Drengirnir hétu: sá elzti Mads, 17 ára, Sören 13 ára, Jens 11 ára
og Christen 8 ára. Þar var eg í fimm vetur. Hann gaf mér til leyfis að taka
þrjú börn, því mín laun voru ei utan 4 rd. Þetta var roskinn maður, átti

skikkanlega konu. Hann kunni sjá og heyra, að eg lamdi börn hans, og þótti, eg
væri þeim þó of góður og þolinmóður. Konan tók oft litla Christen, þegar ei
kunni það, sem lesa átti, á morgnana, og eg bað títt fyrir hann, þegar ei til
heyrði. En hún sagði, foreldrarnir kunni ei gefa börnum sínum betri arf en lærdóminn.
Hönum kunnu þaug ei útsóa, hann væri og ei þungur að bera, þegar lærður væri.
Nú vissa eg sjálfur, að hún eður faðir þeirra hefði ei peninga, er erfa skyldu,
en oft skeði það, að ríks manns börn yrðu fátæk. „Vér höfum nú haldið
skólameistara til vorra barna í samfelld átta ár. Ei kunnum vér af vita, hvert
þaug vilja brúka lærdóminn til gagns eður ógagns, Það getum vér ei að gjört.
Kann þó fólk sjá, að vér í fátækt vorri höfum haft ástundan á að láta börn vor
læra að lesa, reikna vel sem og að skilja þó fyrst að læra allar þær
brúkanlegar glósur, er setjast í öll sendibréf og dokument. Eg skal og gefa þér
ullarhár í sokka, sem minn mann ei af vita skal“. Eg þagði og sá upp á
þessa konu; lofaði henni, þó eg kynni ei mikið, að þéna þeim það eg kynni, sem
væri ei mikið. Eg hafði bæði Cramers og Sören Matthisens reiknibækur. Þegar
þeir voru búnir að læra þær fjórar species og komnir að því brotnu tali, vildu
þeir aldrei hætta eður vera frá töblunni og forsómuðu þá tíð, er sig iðka kynnu
í skriftinni. Metta skrifaði vel settletur, en fljótaskrift var hún ei góð til.
Þann síðsta vetur ég var þar, var Mads burt lofaður til að halda skóla við
kirkjuna eftir begering sóknarprestsins, Herr Péturs Wejtorps, sem var þó vandlátur,
er velja skyldi skólameistara. Eg kom aldrei til rétta með hann, því eg vildi
ei útleggja Skriftina fyrir börnunum, því eg sagði, það ætti hann að gjöra. Þar
fyrir hefði hann og prestakallið, sem importeraði hönum 800 rd., en eg hefði
bara fjóra. Hann safnaði móð og talaði ei meir.

Mér þótti ei neitt að, utan um
jólin var so mikill leikur og dans, að eg fékk því ei afstýrt, og það sem tók
yfir, að presturinn þorði ei þar um að tala, því þar voru ríkir bændur, er
offruðu hönum stórum peningum. Nú voru þar og hesta kaupendur. Þar kom einn
mann frá Salling, er Christen Solbjerg seldi tvævetran fola fyrir 44 rd. Maður
þessi borgaði vel folann. Annars var hann ágætur að vexti og burðum. Christen
Solbjerg tók manninn vel, kom með heilt fat fullt af fleski og siktað brauð,
það bezta öl, er hafði, og pott brennivín til. Þegar þessi máltíð var úti, fóru
þeir að leika sér að þessum pott brennivíns og töluðu mikið saman. Þegar nú þessi
framandi maður hafði nú gjört sér til góða af því, sem fram var borið, tóku
þeir tveir bændur afskeið við hvor annan. Eg sá eftir flöskunni; var þá eftir
sem lítið glas. Hugsaði eg þá, að vel væri drukkið. Nú var komið að kveldi, so
Christen Solbjerg skyldi fara í sitt fjós. Eg sá lítið á hönum. En þegar hafði
fjósaverkin af gjört, segir hann til konu sinnar: „Eg vil leggja mig lítið að
sofa, mér finnst eg er svefnugur“. „Það er af því, sem drukkið
hefur“, segir konan. „Þó hefi eg meir drukkið en þetta lítilræði“,
segir maðurinn. Eg veit og ei nokkurs staðar meir brennivín drukkið en í
Jullandi, því flestir brenna sjálfir. Þetta segi eg til gamans og
dægrastyttingar, að fleiri geta sopið á en íslenzkir. Þessi drykkur var ei utan
jólin og í veizlum. Eru soleiðis innréttaðar, að þeir bjóða viku fyrr en brullaupið
ske skal þeirra ættfólki og vinum. Nú koma sendingar frá þeim, sem boðnir eru,
sem er egg, smjör. hænsni, endur og gæsir, so mikið sem þeir geta etið, þó
veizlan standi í viku, hvar um þeir fá að vita, þegar boðnir eru. Í öllum
veizlum er spilamaður og kokkur, er gestirnir gefa peninga, spilamanninum fyrir
það, að hann brúkar sitt fíól fyrir þá, sem dansa, en kokknum fyrir það, að
hann matreiðir fyrir gestina. Herr Wining hafði eina börsu, er þeir skyldu
offra í peninga til fátækra í sókninni. Það gekk hönum ei vel; þó voru nokkrir,
sem gáfu. Nú eru veizlur, sem standa í sjö daga, en venjulega í þrjá. Þann fjórða
reisir hver heim til sitt. Þegar þriggja daga brullaup er, gefa þeir
brúðagáfuna annan dag kl. 9 f. md., og þá er drukkið það bezta öl. Þeir, eg
meina gestirnir, ganga inn í þá stofu, sem þaug ungu hjón sitja á einum stól
framan borðið. Þar er dúkur á borðinu og silfurtalerkur. Þar leggja þeir
brúðagáfuna í, sem er í það minnsta einn rd. Er bóndinn með honum, þá tveir,
sérdeilis eru börnin með. Eru og þær veizlur, er brúðagáfan hleypur sig upp á
80, kannske 90 rd. Að þessu búnu leika þeir sér að brennivínsflöskunni og
ölkrúsinni. Þar eftir dansa þeir með fallegum stúlkum. Prestur er að spila kort
og drekkur blank vín með sykri í. Með þessu gengur nú tíðin. Sá, er mest
drekkur og mest dansar, er haldinn mesti maður. Það hefur og skeð, að þeir hafa
drukkið sig í hel við þessi lélegheit. Nú þegar þessi drykkur hefur enda og
boðsfólkið er heim komið, iðrast nú allir eftir, að peningarnir eru úti.
Bóndinn kemur sig ei til sinnar réttu heilsu og sansa fyrr en um viku fresti. —
Eg gleymdi að fortelja yður um prestaoffurpeningana. Allir þeir, sem boðnir
eru, mega offra presti og djákna, prestinum fyrir það hann gjörir so góða hjónavígslu,
en djákna fyrir   það   hann rífur sig so mikið upp, þegar syngur,
að hans munnur verður so stór, að ein karetta með sex hestum fyrir kann keyra
ofan í hann, og úthverfir augunum. Matur er aldrei tekinn af borðinu, ei heldur
það góða öl, eg meina í stofunni, hvar veizlan er haldin. Brennivín og ákavít
líka so, að hver mann kann drekka so mikið sem lystir. Og fátækir eru þar í
mengd, sumir fullir, sumir stela, allir fá so mikinn mat sem eta kunna.

Þegar þessir betlarar ganga um
bóndabyggðina og konan er ólétt, er ei gott fyrir þaug hús að fá, því þar hún
fæðir barnið, verða bændur að offra prestinum barnsoffrinu fyrir það hann
skírir það. Og hún, sem ber það, ei minna en 24 skildinga; til djáknans 8 sk.;
og viðhalda konunni, þar til hún er gangfær. Eg vissi og þá konu, er ei fékk
hús, mátti fæða barn sitt undir einum steini og það í illu veðri, tók barnið í
svuntu sína og kom til næsta bæjar, sem var langur vegur. En þegar þar kom, var
barnið dautt, en konan var og nær dauð. Þar lá hún um mánaðar tíð. Um þetta var
ei framar talað, því fátækir áttu í hlut. Sama er að segja um þessa fátæku, —       er sjúkir verða, er bóndinn ei viljugur
þeim hús að lána. Ef þeir deyja í þeirra húsum, verður prestur reiður að gefa
þeim peninga til jarðarfarar, því hann hefur héraðskassann þeirra fátæku. Þeir
fá vel kistu, en eru látnir í kistuna í sínum görmum, því prestur segir so
fyrir. En ef sá fátæki deyr hjá skikkanlegu bóndafólki, fá þeir um sig, því
prestar eru mikið verri en bændur. Nokkrir af þeim taka tréstaur og berja
fátæka með, þegar um ölmusu biðja, og banna bændum að hýsa þá, sem biðja um
brauð, — og ei vilja taka þá til guðs borðs, þó góð attester hafi, utan þeir
gefi þeim ríxdal í extraskatt. Fyrir þá orsök eru so margir fátækir, sem ei eru
til altaris. Prófasturinn í Róshólm skrifaði kammeret til um þessar sakir.
Eftir það tók hann við öllum, vondum og góðum. Þó máttu þeir gefa hönum nokkra
peninga, en hvað marga veit eg ei. Hann skírði og öll fátækra börn, þó fyrir
litla peninga. Í bland þessara eru bæði rakkarar og náttfólk, sem bæði stelur
og lýgur, eru líðilegir að drekka og svívirða fólk líðilega, þegar ei fá það um
biðja. Í bland þessara eru þeir, sem hafa þrjár konur, kannske fjórar. Þegar
þetta hyski er drukkið, rífst það. Þegar slotar þeirra deilum, fer hver sína
leið. Þegar aftur koma, hefur konan fengið annan mann og maðurinn aðra konu,
inn til þess þaug verða drukkin. Fer á sömu leið. Um þetta skipta sér
yfirvöldin ei af, því hér eru ei peningar að forþéna. Þetta eru og afsettir
soldater og matroser, sem ei er gott lögum yfir að koma, því þessir hafa stór
fríheit, að þar sem kóngsins ferjustaður er, komast þeir með ferjunni utan
peninga. Annars hefur general-prokurator Colbjörnsen gjört hér stóra umbreyting
á. Fyrir það fyrsta eru allir rakkarar og náttfólk afsett. Bændur skulu sjálfir
taka skinnið af hestum sínum, hundum og köttum undir hart straff, ef fyndist
nokkur hestur, sem skinnið á væri. Og þetta fólk, er soleiðis um gekk, skyldu
bændur í vist taka, sem skyldu ærlegir vera og kallast héðan í frá, og enginn
skyldi dirfast að láta þá heyra, að óærlegir væru, heldur skyldu þeir sitja við
bóndans borð með hans heimilisfólki. Þetta var upp lesið bæði á þingum og
kirkjum. Fyrr mátti enginn drekka af því glasi eður íláti, sem þetta fólk af
drakk. Þeir gengu um landið fyrr, ungir og frískir, og gjörðu ei handarvik utan
taka skinn af hestum, hundum og köttum. Þeir geltu og svín og ketti. Þegar
ekkert af þessu erfiði höfðu, máttu þeir betla sitt brauð, en bóndinn hafði
illt við fólk að fá, því allir ungir vildu sig gifta, sérdeilis síðan
forordningin kom, að það mátti þeim ei neitast. Önnur forordning var sú, að
enginn mátti þéna kónginum meir en átta ár, hvað mikla handpeninga sem fengi, —
og engin þýzk verving. Þegar bóndinn átti tvo sonu, skyldi sá eini vera frí
fyrir að vera soldat, sérdeilis ef bóndinn var gamall. Þeir sem höfðu góð
attester að framvísa um studeringar, að vel væru verðugir til að halda skóla,
er þeir skyldu framvísa við sessionina, voru og fríir fyrir kóngsins þénustu.
Þar fyrir utan þeir, sem höfðu nokkurn veikleika, skyldu sig auglýsa fyrir
sessionen. Þó skyldu þeir ei sinn pass fá, fyrr en að átta árum liðnum. Enginn
mátti sig vista í öðrum sveitum utan sóknafóvetans leyfi, og ef hann það
leyfði, skyldi sá sóknafóveti strax láta hann það vita, ef í millitíð eitthvað
upp á falla kynni, að kóngur þyrfti á hönum að halda.

Þegar mín tíð var úti hjá Christen
Solbjerg, sem voru fimm ár, sem eg hefi um getið, — þá tíð lifða eg skikkanlega
og bar ei til tíðinda, — fór eg til Örum bý. Þar hafða eg 6 rd. í laun. Þar bjó
einn kremmer, er hafði einn patron í Aalborg. Hann hafði þrjú börn hjá mér, var
mér góður og lét mig fá tóbak sem þurfti án reiknings. Í þessum bý voru átta
bændur og fjórir húsmenn, er voru fátækir. Presturinn betalti fyrir þeirra börn
af fátækrakassa, en mín skólalaun betalti kammerherrann í Vestervig. Í þessum
bý var eg, að mig minnir, tvo vetur: Þar var ein húskona, er átti balstýrugan
son, er Pétur hét. Eg sló þennan dreng og hýddi so mikið sem kunni, en fékk
aldrei tár af hans augum. Ætíð um miðdaginn áttu börnin frí einn eður tvo tíma.
Þegar inn komu, var þar ætíð ákærusakir mót þessum Pétri, Vendelbo að tilnafni.
Eg vissi ei, hvað eg skyldi af ráða, þar hann æstimeraði ei högg. Nú var þar
ein stúlka, er Kristín hét, var fátæk húskonudóttir. Eg segi til Péturs: ,,Nú
skalt þú ei högg fá. En nú skaltu vera inni í þrjá daga og ei leika með
börnunum um miðdaginn“. Pétur segir: „Þessu ráðið þér, og mig gildir og
einu. Eg kann gjöra annað í þess stað“. Nú kemur morgundagurinn, og börnin
skulu út í kirkjugarðinn. Nú var skólinn þétt við kirkjugarðinn, so mann kunni
sjá í gegnum gluggann í skólann í kirkjugarðinn. Eg segi til Péturs: „Nú skaltu
skrifa eftir þinni forskrift í dag, meðan börnin eru úti. Á morgun skaltu
reikna það stykki, sem þú áttir að gjöra í gær“. Pétur segir nú ei neitt,
heldur sér þess á milli út í kirkjugarðinn og grætur nú biturlega, so pappírið
verður vott. Eg fer til hans og spyr: „Hvar fyrir grætur þú nú, og hvör er
orsök hér til. Þú veizt, móðir þín er fátæk og hefur fáa peninga að kaupa
pappírið fyrir, er þú hefur nú fordjarfað“. Pétur fer nú að gráta enn nú
meir, kemur til mín og kyssir á hönd mína og segir með mestu harmaföllum: „Kemur
nú nokkur klage hér eftir dags, hafið þér fulla orsök að straffa mig. Eg skal
vera hlýðinn móður minni eftir þetta, so hún skal aldrei klaga yfir mér, — bara
þér lofið mér að fara nú út til barnanna og leika mér. Ei fyrir þá skuld, eg
hafi so mikla löngun til leiksins, heldur er þetta, sem mér gengur mest til
hjarta, að eg má heyra af þeim, að eg sé so grófur í skálkapörum, að ei sé
hæfur að leika með þeim. Eg er ánægður í geði mínu með það straff, er þér
viljið mér áleggja, ef mín orð standa sig eigi, sem eg nú hefi lofað og undir
gengizt, sem er þessi, að engin af börnunum eður móðir mín skal héðan í frá upp
á mig klaga, so lengi þér haldið hér skóla“. Eg segi: „Þú lofar miklu,
Pétur, en það þyngsta er nú til baka, það er að halda það, sem lofað hefur.
Vandinn liggur á þér og eigi mér“. Hann grætur nú út af hjarta og kyssir á
hönd mína. Eg segi: „Hvað kemur nú til, Pétur, að þú grætur, og eg hefi bæði
gefið þér hrís og högg, og þú hefur ei grátið, en nú sé eg, að þú grætur af
hjarta?“ „Orsökin er þessi, sem áður hefi sagt, að börnin stæra sig yfir
mér, þegar heim koma í kvöld“, segir Pétur. „Nú skaltu fara til barnanna
og seg til þeirra, að þaug skulu nú í þetta sinn vera úti í allt þrjá tíma
fyrir það, að okkar samræður hafi þó yfir staðið um tíma“. Pétur fer nú út
og leikur sér eftir venju. Börnin koma inn, og öll eru nú sátt og sameiginleg.
Það var og sama frá þessari tíð, sem var þann 12. Martii til þess 14. Maji, komu
engin klögumál upp á Pétur. Lengur hélt eg ei skóla. Hönum fór mikið fram bæði
að skrifa og reikna. Þann annan vetur hélt eg og þar skóla. En um vorið tók
kammerherrann í Vesturvík, er var skólans patron, Pétur til skrifaradreng upp á
skrif-contoieret. Seinast var hann kominn út í Fyn og var ríðfóveti hjá einum
herramanni, er var í slekt við kammerherrann. Péturs móðir gaf mér góða sokka
og fingravettlinga að skilnaði. Er so úti um þennan Pétur að tala.

Kammerherrann deyði þann síðsta
vetur, eg var í Örum, á reisu sinni til Kaupinhafnar. Var í 18.000 rd. gjald
við ekkjudrottninguna Júlíönu Maríu, hvar fyrir að herragarðurinn Vesturvík,
sem þó var stamgóss, var eftir kgl. ordre til hæstbjóðanda burt seldur, so gjaldið
yrði betalt. Þar eftir fór eg að Skyum, er voru 16 bændur. Þar var vel einn
skóli, en bændur klöguðu upp á skólameistarann, er hafði þar verið 20 ár, en
kunnu þó ei fá hann afsettan, þar so lengi hafði verið þar. En sex bændur tóku
mig, er betöldu mér með þeirra peningum, en ei af skólans kassa. Máttu þó gefa
fulla peninga til skólans. Þar var eg í fjóra vetur, átti gott ophold, en fáa
peninga í laun. Þar gjörða eg margar dósir, sem brúkast kunnu til neftóbaks, af
pappír með ýmsum kulör. Sumar voru og gylltar. Þetta lærðu og drengirnir, er
fengu ei fáa skildinga fyrir. Eg gjörði og pappírskistla með tveimur eður
þremur skúffum í. Þetta var kvöldvinna mín mér til dægrastyttingar, og alltíð
voru kaupendur, sem báðu mig um bæði dósir og kistla. Sumir báðu mig um forskriftir
til barna þeirra. Eg gjörði og húskalender, er bændur höfðu í stofu sinni,
kannske upp á 1800 ár, er útvísaði allar ársins tíðir með tunglkomum,
sunnudagsbókstafi, gyllinital og solens circule. Það var skrifað fyrst með
stórum bókstöfum rauðum af cinnober farfa. Fyrir þetta fékk eg ei peninga,
heldur ull til sokka og vettlinga. Stundum gaf eg ull með ull til klæða. Það
kunni vera það sumar, sem eg fá kunni 80 pund, er eg fékk í það minnsta 1 mk.
fyrir pundið, sem kunni hlaupa til 13 rd. Eg gjörði og vers, er stúlkur höfðu á
fatakistuloki sínu, er eg skrifaði með settletri og um kring með laufaviði af
bláum og rauðum lit. Þetta voru þjónustustúlkur, er áttu kindur. Þessi vers
fékk eg vel betalt.

Kort sagt: Eg var í góðu standi
bæði til klæða og peninga. En þessi var pósturinn, að eg var ei viss um, hvar
vera skyldi, þegar yrði gamall. So lengi eg var röskur, bæði að hausta korn um
sumarið og halda bændaskóla á vetrunum, — en ef guð sendi mér sjúkdóm, til
hvers skylda eg þá flýja? Enginn hefði sér tekið af mér. Því það er siður í
Jullandi, þegar einum framandi manni verður illt, — lát vera þeir hýsi hann so
lengi hans peningar til hrökkva. Þegar þeir eru úti, er hann burt keyrður til
næsta bóndaþorps. Þegar þar kemur, er strax hestar og vagn í stand að keyra með
þennan framandi sjúka mann. Þetta kann ganga heila nóttina, eður so lengi sem
sá fátæki lifir. Þegar það ber við, sem oft kann ske, að þessí fátæki deyr á
milli býjanna, verður stór orusta milli sóknafóvetanna að láta þann fátæka
begrafa. Að síðustu fá þeir kistu til hans og leggja hann þar í. Þetta er nú
þeirra eigið fólk. Eg talaði oft um þetta við þá, að þeir væru heiðingjum
verri. Það þeir gjörðu við þessa, er voru þeirra landsmenn, — hvað mundu þeir
gjöra á móti mér, sem var þeim framandi? Þeir sögðu mér, eg tryði illa guði, að
hann ei vildi mig forsorga. Allir vildu, eg skyldi ei frá landinu burt fara,
eftir sem eg væri orðinn so kunnugur. Eg bauð bændum, að þeir skyldu taka mig
að sér með það litla eg hefði, og skylda eg hjálpa þeim um sumarið að hausta,
um veturinn halda skóla fyrir utan betaling, en þeir skyldu allir vera um að
klæða mig. En þeir sögðust vilja betala mér bæði fyrir að halda skóla og
haustþénustu. Þegar eg heyrði þeirra orð, fór eg að Thisted og tók minn pass
hjá býfóvetanum og tók afskeið við presta, er voru guðhræddir og skikkanlegir,
er mér gáfu attester fyrir mína umgengni. Eg hefi ei skrifað allra þeirra skóla
nöfn, er eg í var, en eg hefi skrifað fyrr, eg kom til Thyland 1777, en fór
þaðan 1794, sem verður 17 ár, sem eg alloftast hélt skóla utan hjá einum manni
í Frydsbrönd í Morsey. Þar var eg að hjálpa þeim ríka manni með hans naut, sem
voru 56, en á kvöldin var eg að lesa í Almúgans kennara og halda reikning fyrir
manninn fyrir hans útgift og inntekt.

Gengið um Noreg og Svíþjóð

Að þessu út töluðu fór eg að taka
mitt töj og fór inn veg að Aalborg. Þar voru allir hlutir óguðlega dýrir. Þar
var eg í níu daga, fékk boð frá einnri persónu, eg skyldi láta sig af vita,
hvað af mér yrði. Nú fór eg með einum skipherra frá Norge skammt frá Arendal.
Eg gaf honum einn ríxdal í fraktpeninga. Kom til Noregs, var öllum ókenndur. í
kaupstöðunum var ótrúanlega dýrt. Eg fékk spurn upp á einn minn landsmann, sem
var garfari. Þar var eg í tvo daga. Eg fór þaðan að Turupstrand. Þar var einn
danskur skomager, er eg kenndi, sem Jakob hét. Hann sagði mér um þennan doktor
Jón Gíslason í Drammen, hann væri mikils metandi og víða kunnugur, eg skyldi
tala við hann, kannske hann skaffaði mér skólaplátz. „Minn bróðir er ferjumaður,
sem áformar þangað að fara á morgun tíðlega“. Þetta sýndist mér ráð með
óráði. Tók þó þann versta póstinn fyrir mig, sem var þangað að fara, er síðar
mun sagt verða. Eg kom til Drammen og upp spurði þennan doktor Jón Gíslason.
Kom til hans, er trakteraði sína gesti, sem var einn doktor og einn kaptein, en
sjálfur var so fullur, að varla kunni standa á sína fætur. Þar heyrða eg hjá
hönum þá gömlu íslenzku, því hann var að syngja í Aldarhátt fyrir gestum sínum,
er heyra skyldu hans vísdóm. Þar um kring heyrða eg Jóns Gíslasonar rykti. Eg
sá þar var ein jómfrú, er var hans husholderska eður ráðskona upp á íslenzku.
Við henni átti hann tvö börn, er var stúlka og drengur. Stúlkan var heima, en
kom ei fyrir augsjón manna, en pilturinn var dauður. Þá eg kom þar, var hans
sök úti, er staðið hafði í tvö ár, sem var þessi, að ein fátæk stúlka kenndi
hönum barn, er hann vildi fyrir sverja, en býfóvetinn vildi ei eið af hönum
taka, heldur varð skrifað til Kaupinhafnar, er hafði þá virkningu, að doktoren
skyldi fæða og forsorga barnið. Hann hefði og margar stúlkur í Norge upp á sama
máta bedregið, og kannske giftar konur væru og orðaðar af hr. doktoren. Þessa
tvo og hálfan dag, eg var þar, fékk eg lítið að eta hjá jomfruen, en hr.
doktoren var alltíð fullur og í gestaboðum, so hann kom ei heim fyrr en um
nóttina kl. 11—12 með sínum kammerötum. Þá sagði jómfrúin mér, að þessi drykkjuskapur
hefði nú kontinueret í 13 daga. Eg gat ei við þennan Jón talað utan í óráði, og
eg lá í heyi, sem hestur hans átti að éta. Þegar burtu fór, gaf hann mér 20 sk.
Eg fór út í býinn, fór að fá mér nokkuð að eta og drekka. Fór brennivínið í
höfuðið, so drengir sáu mig svíraðan og settust um mig, so eg fékk slutteren að
fá mig lausan frá þeim, og tók mig í sitt herbergi. Þar fékk eg gott rúm að
liggja í. Er eg vaknaði, vilda eg strax burtu, en slutteren mátti ganga mér til
vaktmeistarans og býfóvetans. Eg kom til vaktmeistarans. Hann sá minn pass og
talaði ei um neitt. So kom eg til býfóvetans. Hann segir til mín: „Þú varst
lystugur í gær“. „Það var fyrir mína peninga“, segi eg. Fór þá
slutteren að fortelja um þessa drengi, er settust að mér. Hann sagði, mér hefði
verið betra að drekka minna. Þegar hann sér á mínum pass, að eg var íslenzkur,
skrifar hann upp á minn pass. Spur mig eftir, hvert eg þekki doktor Jón
Gíslason. Eg segist vel þekkja hann, eg hafi í hans húsi verið. Fór út í býinn
og fór að sofa. Bað konuna að forvara mína skildinga. Þegar aftur vaknaði,
sagði hún, að býfóvetinn hefði látið sig fá sér 6 rd. af þeim fyrir það eg var
drukkinn, þegar slutteren mátti mig hýsa. Imidlertid sendi hann til Jóns
Gíslasonar um það, er eg held, hvort nokkuð vildi fyrir mig biðja, eftir því eg
var íslenzkur. En þar var ei gott hjá hönum, og þar fyrir missta eg þessa
peninga, sem fólk fortalti mér, að hann hefði upphissað býfóvetann til þessa.
Þaðan fór eg til Kongsberg. Þar var og einn doktor, sem var mikið skikkanlegur.
Eg fortalti hönum sem farið hefði fyrir mér. Hann fortalti, að það ei skyldi
skeð, hefði eg verið í Kongsberg, því þar væri mikið skikkanlegur býfóveti. Gaf
mér nokkra peninga í skarðið. Í þessum stað var eg um nóttina, og fólk var mjög
skikkanlegt. Um morguninn fór eg vestur, því eg ætlaði að komast að Arendal, ef
ske kynni, eg næði einhverjum spekúlant, er færi til Íslands, en vegurinn var
mjög langur. Doktoren í Kongsberg sagði mér, eg kynni kannske ná því skipi, sem
amtmann Wibe á væri, er nú setti reisu sína til Íslands, því hann var ei frá
Kaupinhöfn reistur, þegar þessi doktor þar við hann talaði, og skylda eg flýta
ferð minni þangað. Eg fann tvo íslenzka á ferðinni. Sá eini var bóndi, annar
skomager. Þessir báðir gáfu mér peninga. Þar voru og prestar, er vildu við mig
tala og spyrja mig af Íslandi og reisum mínum, er og gáfu mér reisupenmga að
skilnaði, so eg hafði nú fengið mína 6 rd. aftur. En eg mátti nú lifa spart og
hélt mig frá brennivíni. Eg lá um næturnar á gestgjafaragörðunum. Þar voru
allir hlutir dýrir.

Eg hélt ferðinni fram, þar til eg
kom að Breiðuvík, sem er lítill kaupstaður. Þar var íslenzkur maður, er var
skómakari, Jón Jónsson Magnússonar, bróður síra Þórðar, er var í Hítardal. Hans
kona var nú dauð, er var og íslenzk. Þessi maður fortalti mér, að hann faðir
væri að 18 börnum, en flest dauð. Mátti halda framandi stúlku til að vera
barnfóstra að því unga barni, er þá var fimm vikna. Hann var góður skomager.
Þaðan fór eg og kom til eins gestgivaragarðs. Maður sá, er þar bjó, hafði verið
í níu ár hjá Tyrkjanum, þó ei í þrældómi heldur sem frí maður, er þénti hönum
fyrir laun, og lét mikið vel um hann, að skikkanlegur væri við þá, sem gjörðu
ei á hlut hans. Segir og, hann sé mikið sanngjarn í kaupum og sölum. Mig
furðaði að heyra þetta um hann, en eg vissi, að þetta kynni og satt að vera,
því það kann eg segja, að sá, sem hefur ei stríð á móti hönum og kemur í
lossament hjá hönum, — þó sá framandi sé fullur og drukkinn, þegar kemur til
hans, — skal Tyrkinn ei stela frá hönum hálfum skildingi, þar til láta hann
liggja í góðri sæng. So þegar sá framandi hefur út sofið um morguninn, skal
Tyrkinn afhenda hönum hans peninga og slær sér á brjóst og sér upp til
sólarinnar, er á að merkja, hann hafi ei neitt af þeim stolið. Síðan gefur hann
flösku vín, þegar fengið hefur fyrir sitt lossament og annan greiða, er sá
framandi hefur fengið. Þetta veit eg sjálfur, og sama sagði mér þessi norski
gestgiver.

Eg talaði og við prestskonuna, er
hafði þént í Nýhöfn hjá madamme Tofte, þá tíð eg var þar. Hún gaf mér
reisupeninga. Þaðan fór eg og átti ei nema sex mílur til Arendal. Kom eg um
kveldið til eins gestgiver. Þar fékk eg mat sem vildi fyrir alls ekkert. Um
morguninn snemma fór eg þaðan. Kom seint um kvöld til eins stýrimanns konu. Hennar
mann var burtu að Strædet, hafði verið að heiman í þrjú ár. Hún segir mér, að
skipið væri burtu, sem sá amtmann var með, er ætlaði til Íslands, og skeð hefði
fyrir þrem vikum síðan, — ,,en þar er eitt skip, sem fer til íslands í
vor“. Hún spyr mig að, hvert eg ei hefði lyst að vera hjá sér í vetur og
kenna syni sínum að skrifa og reikna, — „skal eg taka mág minn, er hefur tvær
dætur, er skulu og læra. Skulum vér bæði vera jöfn að fæða yður og launa. Nú
þegar héðan farið á morgun, skuluð tala við mág minn um þessi efni“. Eg
kom til hans um miðdagstímann, er settur til borðs og fortel þetta manninum, er
var glaður við þetta anstalt. Eg lofaði að vera kominn þar aftur um
Marteinsmessu, lagði af mér klæði, er ei með þyrfti, því eg vildi fara til
Kristianssand, sem og gjörði, því þar bjó einn kaupmaður, er hafði og skip, er
fór til Íslands. Hans skólameistari, er hélt hans skóla, var einn af þeim, er
eg informeraði í Örumbý. Hjá hönum var eg í 14 daga og hafði gott uppheldi með
kaffi og góða fæðu. Þaðan fór eg til Jochum Lund, er var grosshandler. Hann
hafði þrjá íslenzka í sinni þjónustu. Einn þeirra var giftur þar, er fékk hans
stofujómfrú. Þessi Íslender hafði og fyrr giftur verið í Noregi og bjó korta
tíð upp í landinu með sinni fyrri konu, er deyði þar. Hans elzta dóttir var
stofujómfrú hjá þessum grosshöndlunarmanni, Jochum Lund. Hann hafði og byggja
látið stórt timburhús hér i Hafnarfirði. En þegar franskir gáfu so mikið fyrir
kornið, sem var 16 til 17 rd. fyrir tunnu korn, forhalaðist sú íslenzka handel,
so hans hús er hér fullt af ullarvöru, og hann hefur ei gjört hér höndlun í
fjögur eður fimm ár, heldur hefur sinn kaupmannsskap í Frankaríki. En þessi
íslenzki maður kom hingað; fór fyrst frá Lund og til Bergen, því eg sá hann þar
1794. Var lengi í Keflavík fyrir timburmann og snikkara, er hafði góða peninga,
þegar héðan fór. Nú er hann kominn til Eyrarbakka; hefur slétt orð á sér, að
hann spillir kaupmanni. Er þar í góðu yfirlæti og situr sjálfur oft í
kaupmannssæti. Þetta heyrða eg fyrir sunnan, þegar hingað kom.

Eg var hjá Lund í fjórar nætur, er
mig kostaði ei mikið. Lund spur mig að, með hverjum eg vilji fara til Íslands.
Eg segi hönum: „Eg fer frá Arendal, því eg vil halda skóla í einum bý þar strax
við kaupstað inn og fara so þaðan í vor, lofi guð“. „Hefðir þú ei
ráðið þig þangað, skyldir þú hafa orðið hér að lesa fyrir byens börnum“, segir
þessi Lund. Nú líður að tíðinni, er eg hafði lofað mig til, en vegurinn langur.
Fór eg so til Kristianssand og dvaldi þar um hríð. Kom so til byen, er mín
klæði í voru. Maðurinn segir mér, hann hafi verið hjá þessari stýrimannskonu,
er hefði sagt sér, að hún hefði ei við mig talað um skólavesen. Þar til: Sinn
son gengi í vetur til djáknans, því í vor skyldi hann kornfirmerast, og hann
hefði ei efni og ráð að halda mig einn, segir þessi maður. Eg fer til
stýrimannsins konu. Hún segir mér, að djákninn hafi sér forboðið að taka annan
skólameistara en sig, því þetta væri sitt lifubrauð, og það væri á móti
biskupsins ordre. Eg var sagnafár og hafði nú gengið 34 mílur fram og til baka.
Fyrir hverjum skylda eg klaga það, er var narraður af þessari fordrukknu
stýrimannskonu? Réði nú af að fara aftur til Kristianssand, sem og gjörði, og
vildi nú ganga til Bergen og tók minn presidentspass af hr. Femmer, sem eg ei
betalti, og gekk so fjallabyggðir, sem var hinn kortasti vegur. Eg keypti mér
brauð í Kristianssand fyrir 24 skildinga. Það brauð bar eg lengi, því hvar eg
kom, mátti ei mat upp taka, — annars varð bóndinn reiður. Það fyrsta eg kom inn
til bóndans, var eg að spurður, hvert eg væri votur. Sagða eg já, fékk eg strax
þurra sokka. Að því búnu dúkur á borðið, brauð, og jarðepli, hafragrautur og
sæng við kakalóninn í stofunni. Var so heitt, að eg kunni ei hafa utan skyrtuna
upp á. Það vildi og fegið tala við mig um utanlandsvesen, en eg fór oftast að
sofa, þegar etið hafði. Þessi samslags matur um morguninn var mér boðinn og
maður með mér til næsta bæjar, ef þörf gjörðist. Þannig passeraði mín reisa,
meðan hjá bændum var, sem var um þrjá mánuði og fjóra daga, sem var um
jólatíðir, að eg kom tíl Stavanger, sem var hinn versti kaupstaður, eg hefi í
verið. En strax fyrir utan staðinn var þar einn Islender, er var smiður og
giftur norskri konu, er var hinn bezti smiður og skikkanlegasti, þegar hann var
í Kaupinhöfn. Nú átti hann ei á sinn kropp utan ónýta garma. Konan var ei
betri. Þaug áttu einn son 13 ára. Hann var verst til fara. Þar lá eg um þessa
nótt, en eg gat ei við hann talað fyrir drykkjuskap og fór svangur þaðan að
þessum slæma kaupstað, er margir mig hafa vildu. Af þessum var einn skomager,
er stal frá mér 5 rd. um nóttina af minni lummu, og voru þó buxurnar undir
höfði mér. Um morguninn braut eg minn kepp, er kostaði 4 rd. Hann var vel lítið
fornbrotinn, en silfurbeslaget, var því stolið frá mér. Eg var tvær nætur hjá
einni fordrukkinni konu, en maður hennar var upp á landinu hjá sínu slekti.
Þetta var um jólin. Hún hafði einn skomager hjá sér. Þaug lágu saman sem gift
hjón. Eg mátti traktera þaug með kaffi og brennivín; ef ró hafa skyldi. Eg var
og ei ódrukkinn, sem er vani minn að deyfa sorg með víni. Hins annars vegna
skylda eg til þessa kaupstaðar, að eftir bíða lélegheitum, er falla kynni til
Bergen, sem voru 50 mílur: Þegar sá, að ei þar vera kunni, fór upp á landið og
var í 14 daga, talaði við presta og herramenn, — fékk uppreistning á skaða
mínum, — er fortöldu mér, eg hefði stórt lán, að so létt sloppið hefði, því
margir bændur, sem kæmu til Stavanger, misstu yfir 60 rd., því þar fengu þeir
ei rétt. Öll yfirvöldin héldu með kaupstaðarfólkinu. Prestur prédikaði vel um
þeirra þjófnað og hórurí, en því væri ei mikið eftir lifað. Þegar úti var
prédikunin, var lífernið hið sama. Eg hefi ei vitað nokkurt fólk vera so þjófgefið
sem í þeim norsku kaupstöðum, og aldrei so greiðasamt sem á landinu. Aldrei —
eg meina á landinu — er manni úthýst, og aldrei er þar nokkur hýstur, sem ei
fær mat um kveldið og um morguninn, þegar reisa vill með fylgd til næsta bæjar,
ut supra dictum est. Eg kom aldrei til Stavanger meir, heldur lét setja mig út
í eyjar, sem eru á Bergens vej. Þar kom eg til eins herramanns, er gaf mér 3
mk. til reisupeninga. Þaðan til úteyjanna, er allt bar nær og nær til Bergen.
Þar fiskuðu þeir þorsk og heilafiski. Að síðustu kom eg til eins bónda. Þar var
eg viku, er kostaði mig ei hálfskilding, — heldur peninga, þegar burt fór, til
þess er mig með sér tók til Bergen. Eg kom þar um kvöldið, er eg átti bágt við
herbergi að fá. Mátti upp til politimeistarara að skrifa upp á minn pass og
útvegaði mér lossament. Um morguninn hélt eg reikning með værten, hvað betala
skyldi fyrir hans kvöldmáltíð og legurúm. Hann sagði mér 2 mk. og 4 sk. En um
morguninn gekk eg um býinn og kunni vel spísa mig mettan þar fyrir 5 sk. Eg
spurði eftir íslenzkum, og var mér strax vísað til eins skomager, er var frá
Árnessýslu. Hann gaf mér brennivín og sagði mér, að þar væri og nýkominn einn
frá grosshandelen í Farsund, Jochum Lund, með konu og börn, er ásetti sína
reisu til Íslands með fyrstu lélegheitum. Eg kom til hans og talaði við hann um
Islandsfarten, en hann sagðist vera nýkominn til þessa staðar, hefði þar fyrir
ei talað við kaupmann Kaas, er var sá fornemsti þar í byen. Segir mér, hvar
hann bjó. Eg fer til hans og spur, nær farten upptækist til Íslands. Hann segir
mér, að íslenzkir ei væru þess verðir, að nokkur ærlegur maður til þeirra
sigldi, því nú hefði hann sett upp á Ísland yfir 7000 rd. og aldrei skyldi hann
eður ráða nokkrum þangað að sigla. Og ef so kynni til að bera, sem nú ei vissi,
að nokkur þangað færi, þá yrði það ei fyrr en seint í sumar. En allir hlutir
væru hér dýrir og mér ómögulegt að bekosta mig so lengi, en ekkert væri að
forþéna hér í staðnum fyrir mig. Eg fór til míns íslenzka manns og fortalti hönum
hið sanna. Hann fór út í staðinn með mér og veitti mér, so eg kom í arrest.
Þegar heim til herbergis ætlaði, var einn þræll með mér, sem stal frá mér
spanskrör og fékk mér einn birkistaur aftur. Um morguninn kom eg upp á
ráðstofuna. Pólitímeistari sagði eg hefði ei verið löglega arresteraður,
jafnvel þó drukkinn væri. Sagði, mér væri bezt að taka mig burt frá þessum
mannmarga bý.

Eg resolverti þá að fara landveg
til Khavn, sem voru 120 mílur í gegnnm Svíaríki og Norge, og fór þann kortasta
fjallaveg fyrir vestan Dofrafjöll. Þá lifða eg mikið vel og fornöjet, því þegar
framvísti minn pass gratís til Kaupinhafnar að passere, urðu allir mér
velviljaðir bæði með góða fæðu og fylgd. Þegar illt veður var úti, var eg hjá
þeim manni, sem var mestur bóndi, og þegar gott kom, var viss maður mér til
fylgdar. Eg hafði smáaar dagferðir, sérdeilis þegar kort var milli bæjanna.
Alltíð nokkra peninga í vasanum. Þegar kom inn í Svíaríki, var mikið magurt. Í
fimm daga fékk eg ei nema saltsílssúpu, og hafði eg ei so fáa peninga í vasa
mínum, en þar eftir fékk eg baunagraut og fersksíl. Fólkið var mér ágætt. Af
þeim sama mat, sem það át af, gaf það mér. Eg fann þar Holsteins skipherra, er
strandaði í Norge. Hann var í öllum kaupstöðum í Svíaríki og fékk stóra
peninga, kannske upp á 100 rd. Hann fylgdist með mér stundum landaveginn. Að
síðustu heyrða eg, að giftast vildi þar í þeim kaupstað, er Gottenborg heitir.
So eg heyrði um hann talað. Nú hélt eg ferðinni fram, utan hvað eg kom ei til
bænda þar, en til presta og landshöfðingja, er gáfu mér fáa peninga, þegar minn
pass lesið höfðu. Stundum kunni það træffe sig, að eg lá illa um nóttina, en ei
var það títt. Þannig var þessi reisa, til þess eg kom að Skáney. Þar talaði eg
við einn, sem hafði verið í Grænlandi í sex ár. Þar var eg í fjórar nætur og
fékk margar smálúður að eta hjá hönum. Hann bjó þétt við sjóinn, en konan var
burtu hlaupin. Hann fortaldi mér, að hann héldi skóla, en var þó sléttur
skrifari. Temmilega var hann og klæddur. Um hans ástand vissi eg ei. Þar var
Helsingjaborg, sá kaupstaður, er eg skyldi yfir til Helsingjaeyrar, er so þaðan
til Kaupinhafnar fimm danskar mílur, þó kortar. Eg vildi hafa komizt yfir með
þeim danska pósti, en eg kom of seint. Mátti því frá staðnum um kvöldið seint
til annars býs, er voru margir menn, sem vildu til Kaupinhafnar. Um nóttina
gjörði storm, so eg og aðrir kunnu ei yfir koma. Beið eg so þar í þrjá daga.
Þann fjórða daginn kom eg yfir. Þegar reisupeningana hafði betalt yfir til
Helsingjaeyrar, hafða eg 22 skildinga. Lá þar hjá íslenzkum soldat, er stal
minni nátthúfu og gaf mér fjóra skildinga að skilnaði um morguninn. Fór eg so
upp til Kaupinhafnar, var nótt á leiðinni hjá skikkanlegu fólki. Um morguninn
fór eg til Kaupinhafnar.

Heim til Íslands

Eg fór fyrst til Sigurðar
Þorleifssonar, er hafði skip, sem ganga átti til Íslands og var þá liggjandi
fyrir utan Kaupinhöfn. Þar var á Páll Bjarnason, sem nú var skilinn við konu
sína og forsetti sína reisu til Reykjavíkur til Bergmanns, er var meðkaupmaður
Sigurðar Þorleifssonar hér á landi. Eg bar upp vanefni mín fyrir hönum, en það
var að biðja um ull í geitahúsi. Eg bað hann um að láta mig fá að liggja
einhvers staðar. Það var af með öllu móti. Eg kom og ei heldur til neinnra, er
eg fyrr hafði kennt, þar eg hafði ei verið í Kaupmannahöfn í 21 ár, og þar fyrir
var eg nú framandi. Mátta so liggja úti um nóttina. Um morguninn snemma fann eg
einn íslenszkan, minn fornkunningja. Hann gaf mér mat og kaffi, en peninga
hafði hann ei. Síðan fór eg upp í Sjáland og talaði við bændur, er mér voru
góðir. Þetta var lítið eftir sumarmál. En í Sjálandi var eg um veturinn hjá
einum frómum manni að kenna börnum hans. Þann vetur keypta eg peysu þá, eg nú
hefi; fyrir 2 mk., ný stígvél, tvo nýja hálsklúta og lét snúa mínum hatti. Kom
so til Sigurðar Þorleifssonar og fékk hönum 24 rd., er skyldi forvara, þangað
til að alfarinn kæmi, því eg vildi fara með skipi hans til Íslands. Fór so
aftur út í Sjáland, því allt var so dýrt í Khöfn. Nú kom eg til bænda minna,
sem tóku vel á móti mér, og keyrða eg so með þeim til Kaupinhafnar. Þegar mín
tíð kom, eg skylda til farten, var skipið mest ferðugt, og mátti liggja um borð
á nóttunni, sem var í sex daga. Sigurður tók 10 rd. af mínum peningum. Hvern
dag, eg var á skipinu, mátta eg gefa 16 skildinga, sem kunni behlaupa sig upp á
7 rd., en resten fékk eg hjá kaupmanni hans. Eg kom að Reykjavík, lá hjá
Þorleifi syni mínum tvær nætur, fékk slétt herbergi.

Nú fer eg fyrst að segja frá þeim
skipherra, er eg fór með hingað, að hann var mikill í sjálfs síns augum. Var
mikið fyrir að drekka, var annars fátækur. Eg mátti so gott sem stela mig til
fæðu þeirri, er fékk á skipinu, þegar allir voru búnir að borða, sem var ganske
í minna lagi. Þegar kóngur og kompagníið höfðu Ísland, gáfu menn aldrei meir en
sléttan dal um vikuna og átu með fólkinu, sem var mikið góður kostur. En eg
mátti gefa 1 mk. um daginn eður 7 mk. um vikuna fyrir ringan kost, er aldrei
kunni að svara hálfum peningum, er gefa mátti. Og skipseigandinn var þó minn
landsmann, sem áður sagt hefi.

Eg fór í Viðey og talaði við
stiftamann um mitt ásigkomulag. Eg hafði vel skrifað hönum til frá Thyland, en
sagði mér, að of gamall væri embætti upp á að taka. Gaf mér 2 rd. að greiða
fyrir mér með á leiðinni vestur til fólks míns og léði mér hús um nóttina með
góðum greiða. Um morguninn fór eg að Reykjavík, er komast vildi með skólapiltum
yfir fjörðinn, en kunni ei koma, því bæði var vindurinn á móti og
flutningsskipið of lastað af fjölda þeim, er með fylgdu. Þá nótt lá eg í
Reykjavík, en kunni ei fá lossament hjá syni mínum. Um kvöldið tók Brynning
frihandler minn korða frá mér, er eg ei síðan fengið hefi. Um morguninn fór eg
á leiðina til Útskála, bara að korta tíðina, þar vindurinn var enn nú
mótfallinn. Á þeirri reisu var eg tíu daga, þangað til kom til Reykjavíkur. Fór
so um kvöldið með skipsfólki frá Mýrum. Maður sá, er átti skipið, bjó á Hamri.
Þar var eg í sókninni tvær nætur. Reisti so með boðsfólki að Svignaskarði, er
þá var brullaup með dóttur Jóns Ketilssonar, er Einar Illhugason átti barnið
við. En maður hennar var frá Hreðavatni. Nafn hans man eg ei.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s