Grímur Thomsen

Eftirfarandi er ágrip greinar eftir Sigurð Nordal, sem hann skrifaði og birtist í Eimreiðinni 1-2 tbl. 1923. Ágripið birtist í bókinni Baugabrot, sem gefin var út af Almenna bókafélaginu, Sigurði til heiðurs árið 1957 og innihélt sýnishorn af helstu skrifum hans um fræði, heimspeki og skáldskap.

„Vitanlega átti Grímur sín ítök í mannheimum. Hann átti sér vini og þótti innilega vænt um suma þeirra, eins og Brynjólf Pétursson, en yfirleitt munu þeir fremur hafa verið málkunningjar en hann hafi deilt við þá öllu geði sínu. En til eru aðrir heimar, ofan og neðan við mannheima. Maðurinn vex upp úr ómótaðri og óspilltri náttúrunni áleiðis til hins guðlega, og það er ekki nema á kafla af þeirri leið, sem hann hefur á sér öll einkenni hins mannlega, kosti þess og galla, er mótaður af þjóðfélagi og siðmenningu. Grímur var trúmaður, hann elskaði guð og guðsneistann í mannssálinni. Hann elskaði líka það, sem var alveg einlægt og eðlilegt, dýr og börn og barnseðli mannsins. Hann elskaði guð sinn og hundinn sinn, en ekki þessa málamiðlun milli guðs og hunds, sem kom til hans grímuklædd og prúðbúin og kallaði sig konung jarðarinnar eða jafnvel tilverunnar, þegar mestur gállinn var á henni.“

– – –

„Grímur bóndi á Bessastöðum. Fátt er hljómmeira í íslenzkri sögu seinni alda. Um þennan mann, sem undir fimmtugt hvarf heim til Íslands, afsalaði sér embætti sínu og heimsborgaralífi og gerðist bóndi suður á Álftanesi, á óborna Íslendinga eftir að dreyma. Þeir munu sjá hann, eins og honum hefur verið lýst fyrir mér, sitja við opinn ofninn, skara í glæðurnar og stara inn í glæðurnar. Í þessum glóðum sá hann fleiri forna stafi, gamlar minningar og torráðnar rúnir en aðrir menn, sem honum voru samlendir.

Grímur kom að nokkuru leyti heim með brotin skip, en jafnframt af eigin hvötum. Hann notaði sér að tilefni breytingu á utanríkisráðuneytinu, en í raun og veru var hann orðinn þreyttur á starfi sínu og baráttu, kom lítt að skapi sínu saman við valdhafana og sá engin líkindi til þess, að birta mundi fram undan. Ísland dró hann að sér. Meðan hann dvaldist erlendis, neytti hann hvers tækifæris til þess að bregða sér heim á sumrin, en utan fór hann aldrei, eftir að hann flutti búferlum til Íslands.

Hvernig fórst Grími að vera Álftnesingur? Hann var kominn af þeim árum, er umhverfið hefur úrslitaáhrif, var kominn í sínar skorður, og áhrifin urðu ekki sterk. Hann var nú með fólki, sem talaði ekki eins vel og hann, hann varð að gefa meira en hann þá, og það vildi til, að af nógu var að taka. Bæði á alþingi og í samkvæmum sóaði hann andríki sínu og fyndni, en skotspænir voru þar oft skeytunum ekki samboðnir. Þau yrkisefni, sem umhverfið hafði að bjóða, færði hann sér sjaldan í nyt. Honum varð það að vísu á að yrkja eitt kvæði um aukaútsvörin í Álftaneshreppi. Það minnir á, að Bólu-Hjálmar varð að yrkja um hrossakjötsverð í Akrahreppi, – og bendir um leið til þess, hvert hefði orðið hlutskipti Gríms í skáldskapnum, ef hann hefði alið allan aldur sinn sem fátækur sjómaður þar suður á nesinu.

En einmitt á Bessastöðum fékk Grímur fullt næði til þess að skapa sér sinn heim á sína vísu – og oft í sjálfráðri andstæðu við nágrenni og samtíð. Hann hélt áfram að lesa þau rit, sem hrifið höfðu hug hans í æsku, fékk alltaf nýjar bækur og tímarit og jók í elli við menntun sína með því að sökkva sér ofan í grískar bókmenntir. Þar fann hann heim, sem að ýmsu leyti minnti á íslenzk fornrit, nærri sjálfum upptökum menningar seinni alda, frá þeim tímum, er menn voru í senn börn og spekingar. En á öllum lestri sínum fór hann ekki í mola, því að hann orti sjálfur um leið, tengdi saman andstæðurnar í menntun sinni og reynslu með því að glíma við að fella hugsanir og sýnir í rammíslenzkt form. Hann var eins og sverðasmiðurinn, sem hann sjálfur hefur lýst:

Áður var eg víða á ferðum,

varla fer eg nú af bæ,

áður hjó eg oft með sverðum,

út eg nú og til þau slæ.

Honum er þessi samlíking töm um skáldskapinn. Um þýðing Stormsins efir Eirík Magnússon segir hann, að hún sé kaldhömruð og á henni sjáist hvert hamarshögg og hvert þjalarfar, en um sálma Hallgríms Péturssonar, að þeir séu einsteyptir og heilsteyptir, en þar á móti hægsorfnir og seinfægðir. Rangt væri að segja um Grím, að hann hafi verið skáld fremur af vilja en mætti, en hitt er satt, að hann var skáld bæði af vilja og mætti. Hann var fremur „hagsmiður bragar“, eins og Bragi Boddason kallaði sjálfan sig, en innblásinn söngvari. Þetta sést berlega á því, að hann yrkir meira í elli sinni en æsku, sleppir sér aldrei, velur yrkisefni miklu oftar að yfirlögðu ráði en eftir geðkvæmdum líðandi stundar. Kvæði hans eru sannkallaðar ljóðfórnir, utan og ofan við dægurþrasið, lögð á altari listarinnar með hreinni lotningu. Í kvæðunum sést þó ekki allt, sem Grímur fórnaði. Kringum þennan aldna sverðasmið var kvikt af myndum og hugsunum. En af því, sem glóði í aflinum og sindraði í síunum, komst ekki annað í kvæðin en það, sem dregið varð gegnum hið þröngva laðarauga íslenzkrar braglistar, – og það var Grími jafnvel enn þrengra en mörgum öðrum. Mikið af auði hins aldna þular fylgir samt verkum hans eins og geislabaugur, svo að ókveðin kvæði leiftra milli lína hinna kveðnu, ef vel er lesið.“

– – –

„Bestu vini sína hygg eg, að Grímur muni eignast meðal þeirra Íslendinga, sem dveljast svo lengi erlendis, að þeir neyðast til þess að fara að mæla gildi íslenzkrar menningar á alþjóðakvarða. Ef þeir ætla að fá glýju í augum af menningarljóma stórþjóðanna, þá er gott að leita til skáldsins gamla á Bessastöðum. Hann var sjálfur enginn heimdragi, hann fékk ærið tækifæri til þess að reyna, hverjar taugar tengdu hann fastast við land sitt og þjóð, og hann valdi togann í kvæði sín í samræmi við þá reynslu. Sú menning, sem var svo máttug í eðli, að hún sleppti aldrei tökum á honum, hvar sem hann fór, og dró hann að lokum heim til sín aftur, – hún er nú orðin einum traustum þætti sterkari, eftir að hún eignaðist hann og kvæði hans. Slíkir menn, sem eru svo einstakir, að enga uppbót er hægt að fá fyrir þá annars staðar, eru hinn nýi sáttmáli Íslendinga, og vér höfum aldrei haft annars sáttmála þörf til þess að sanna tilverurétt vorn meðal þjóðanna. Einmitt þess vegna verður Grímur gott athvarf fyrir íslenzka víkinga, hvar sem þeir eiga í vök að verjast. Og lífsskoðun hans er ferðamanninum holl: að glúpna ekki fyrir smámununum, kveða heldur en kveina, en muna þó jafnan, að mannlegum mætti eru takmörk sett. Um Helga magra er sagt, að hann trúði á Krist hversdagslega, en hét á Þór til sæfara og harðræða. Hér skal ekki farið út í að jafna Grími við önnur íslenzk skáld. En hvenær eignumst vér annað skáld, sem betra er á að heita til sæfara og harðræða?“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s