
Hér á eftir koma nokkrar frásagnir úr væntanlegri bók um reynsluheim lögreglumanna, með þeirra eigin orðum.
„Eftir fyrstu nótt mína í þessu starfi, þá hugsaði ég með mér þegar ég kom heim um morguninn, í hvað ég væri kominn eiginlega. Hvað ég væri að hugsa. Að fara úr fínu djobbi, vinna innan um sívílíserað fólk og vera svo kominn í þetta greni. Að vinna í þessu starfi. Því þetta var algjörlega ný uplifun og það verður að segjast að þetta var bara ekkert óvenjuleg nótt. Þetta var bara venjuleg helgarnótt í lögreglunni.“
„…þá kemur sjúkraflutningamaður á móti mér. Hann segir svona við mig…mér fannst hann virka rosa…hann var svo alvarlegur á svipinn og hann segir: „Bíddu, ert þú ekki lögreglukonan sem lást hér í götunni?“ Ég horfi á hann: „Jú.“ Þá setur hann eiginlega í brýrnar og segir: „Áttarðu þig á því hvað það var sem þú varst að gera?“ Ég var að spá í hvort ég ætti að segja já eða nei. Var að spá í að labba í burtu og ég segi: „Nei.“ „Nei, ég held að þú hafir ekki gert það“, sagði hann, „en þú varst að bjarga mannslífi…“, sagði hann. Og ég man bara að ég ætlaði ekki að leyfa tárunum að koma en það var stutt í þau. Ég horfði á félaga minn og sagði: „Hvað get ég gert, hvað á ég að gera?““
„Þegar ég hugsa til baka, um minn útskriftarárgang, við vorum eitthvað í kringum þrjátíu og það eru þrír fallnir frá. Einn af veikindum og tveir féllu fyrir eigin hendi. Það eru sem sagt tveir af þessari tölu – sautján – sem ég er búinn að upplifa að á mínum þrjátíu og þremur árum, sem hafa fallið fyrir eigin hendi. Það er ansi há tala og ef maður horfir á aðrar starfsstéttir, þá er erfitt að finna aðra eins tölu.“
„Fjölbreytileikinn einkennir starfið en að öðru leyti veit ég ekki hvernig ætti að útskýra eðli þess fyrir almenningi, þetta er engu öðru líkt. Bæði ótrúlega skemmtilegt og krefjandi – og líka alveg ótrúlega erfitt og leiðinlegt stundum. En þetta er ein skemmtilegast vinna sem ég hef unnið á ævi minni. Gefur og tekur frá þér.“
„Þeir sem sjúga einhvern veginn inn allan ömurleikann og ömurðina, þeir endast ekki. Þú getur þetta bara ákveðið lengi, þá ertu bara búinn að fylla kvótann eða þú verður alveg kaldur. Og það er það sem ég fann vera að gerast til dæmis í kynferðisbrotadeildinni þegar ég hætti. Ég var farinn að vera kaldur, ég var farinn að missa samkennd með þeim sem ég var að díla við. Var farinn að segja bara svona…og heyra innri röddina í mér þar sem ég var jafnvel farinn að gagnrýna einhverja sem urðu fyrir brotum, og hugsaði: „Nei, nú þarf ég að fara. Nú verð ég að fara.“ Þegar ég hef ekki lengur samkennd eins og ég hafði, þá þarf ég að fara til þess að fá hana aftur. Því að þú getur líka ofgert henni. Þannig að ég held að þetta sé bara það. Ég held að þetta sé ákveðið bjargráð til þess að eiga við aðstæður sem eru ofboðslega erfiðar.“
„Mér finnst ég vera rík af mörgu úr vinnunni. Til dæmis fannst mér skemmtilegt einmitt þetta, að alltaf þegar ég var að vinna, þá var ekki hugsunin sú að ná einhverjum fyrir að keyra of hratt – ég var alltaf að hugsa á þá leið að inngrip lögreglunnar væru forvarnir. Hugsunin var alltaf sú að ég ætlaði mér að gera samfélaginu gott í starfi mínu.“
„Ég tók af mér úrið fyrsta daginn í sumarfríi. Maður er bara pínu einhvern veginn að losa sig. Maður reynir að slaka á í fríinu og þarf ekki að tímamæla sig…ekki nema þá tímann á hamborgaranum á grillinu. Það er það eina. Ég fer ekki á löggustöðina þegar ég er í sumarfríi. Alls ekki bara, ég yrði að eiga eitthvað brýnt erindi. Maður væri annars alltaf kominn í eitthvert vinnuskak. Það tók mig nokkra daga að hreinsa þetta út úr svefninum og svona. Þar var ég að klára einhver verkefni, af því að það voru þung verkefni þarna rétt fyrir frí.“
„Svo kemur að því að þessi maður kemur keyrandi og hann er ennþá svo svartur og illur í skapinu að ekki er nóg með að hann hægir ekki á eða stoppar þegar honum er gefið stöðvunarmerki, lögreglumenn voru sitt hvoru megin við veginn. Annar að fylgjast með og hinn að stoppa. Hann reynir að keyra niður þann lögreglumann sem er að stoppa. Hann fer út í kantinn og lögreglumaðurinn verður að kasta sér út fyrir vegöxlina til að verða ekki keyrður niður. Það hefst eftirför sem endaði með því að við hálf misstum af bílnum en það var bara ein leið sem kom til greina þannig að við keyrðum fram á hann þar sem hann hafði keyrt út af og velt. Þessi ágæti lögreglumaður sem hafði þurft að forða lífi sínu þarna áður, það þurfti að taka í öxlina á honum og segja: „Heyrðu, við skulum ekki gera honum þann greiða að meiða hann.“ Þannig var nú það sko, þegar menn verða svona hræddir, þá kemur reiðin oft í kjölfarið og hún getur stuðað mestu rólyndismenn.“
„Ég man eftir því þegar ég lenti í fyrstu átökunum, hvað mér var brugðið. Þetta voru hópslagsmál, það voru alls konar hnúajárn og fleira sem var verið að nota. Ég man ennþá eftir blóðlyktinni á vettvangnum…og þessi ótti að stíga inn í þetta. Sem betur fer vorum við vel mönnuð, akkúrat þetta kvöld, og þetta var úti á landi. Ég horfði bara og: „Einmitt. Hvað er ég búin að koma mér út í?“ Auðvitað kom þessi ótti og hræðslan og: „Verð ég lamin með þessum keðjum eða verð ég slegin, eða hvað verður“? Þetta var fyrsta útkallið mitt þar sem ég fór fyrir alvöru sem afleysingalögreglumaður. En ég kom aftur á vakt. Þetta var fyrstu vikuna mína sem ég er í lögreglunni, bara fyrsta vikan.“