Annálar greina frá því að árið 1627 hafi höfuðsmaður Íslands, Holger Rosenkranz, fregnað af strandhöggi sjóræningja í Grindavík og gert ráðstafanir til varnar ef ræningjar sæktu að setri höfuðsmannsins á Bessastöðum. Meðal þess var að klárgera herskip og útbúa skans (virki), og búa hann þeim byssum sem tiltækar voru. Þetta voru eðlileg viðbrögð því ekki var frítt við að útlendir raufarar hefðu áður brotið upp fjárhirslur á Bessastöðum og haft skattfé kóngsins á brott með sér auk annars þess sem fémætt var.

Ránsskipin komu eins og menn hugðu að verða myndi, og kom til skammvinns bardaga milli ræningjanna og varnarliðsins í skansinum. Þar var á meðal Jón Ólafsson, nefndur Indíafari.
Eftirfarandi er lýsing sonar Jóns í viðauka við reisubók hans, eftir minni sonarins um það hvernig Jón hafði lýst fyrir honum atburðum:
„Og þá þeir á landi voru svo til varnar búnir, uppbyrjuðu ránsskipin að leggja inn á höfnina. Og þá þeir af skipunum og skansinum það sáu, fýruðu þeir nokkrum stykkjum þeim á móti og ránsmenn í sama máta af sínum skipum á land upp.“ Hin fyrirhugaða ránsferð á Bessastaði reyndist ræningjunum sneypuför en nánar má um það lesa í ýmsum heimildum og lýkur hér frá henni að segja.

Aftur greinir frá skansgerð á Bessastöðum í annálum ársins 1667. Í Kjósarannál segir til dæmis:
„10. Septembris kom kongsskip í Hólminn. Þar kom einn herramaður Otte Bielcke, er setti upp skatt á landsfólkið, hver kallaður var Skanstollur, því hann átti að festa eitthvert pláss, hagkvæmt hér á landi, til varnar fyrir útlenzkum hervíkingum. Lét svo um vorið byggja skans í Bessastaðanesi og þangað færa nokkur fallstykki; skildi hér eptir eina byssuskyttu og sigldi síðan.“

Í því sem ritað hefur verið um atburði á seinni tímum, er almennt gert ráð fyrir að skansinn sem reistur var vorið 1668, hafi í raun verið endurbygging hins eldri skans. Jón Helgason segir í bók sinni um Tyrkjaránið að skansbyggingin árið 1627 vafi verið í Bessastaðanesi og er ekki að vita hvert hann sækir þá vissu sína. Benedikt Gröndal gerir ráð fyrir hinu sama. Halldór Baldursson segir beinlínis í grein sinni, Fallbyssubrot frá Bessastöðum“: „Skansinn var endurbættur 1668…“
Skansen
Mynd: Hluti af uppdrætti frá 1720, þar sem Skansinn er sýndur auk „Gamle Skanse“.
Höfundur þessa pistils hafði lengstum sama skilning og lyfti því brúnum þegar hann fann í skjalasafni Konunglega danska bókasafnsins sjókort / dýptarkort af innsiglingunni til Bessastaða (Indlöbet til Bessested), ársetta 1720 (http://www5.kb.dk/…/2012/jul/kortatlas/object67627/da/). Kortið er landfræðilega ónákvæmt og má frekar kalla uppdrátt. Þar eru þó sýndir „Skansen“ á „réttum stað“ og annar óvæntur sem kallaður er „Gamle skans“ á öðrum stað, úti á Eyri rétt handan Seylunnar (sem er skipalægið í mynni Bessastaðatjarnar). Ekki er óvarlegt að ætla að „Skansen“ sé sá skans sem byggður var árið 1668. Freistandi er að álykta að „Gamle skans“ sé þá sá sem hrófað var upp til varnar áhlaupinu 1627 og enn hafi sést menjar hans þegar uppdrátturinn var gerður. Sú hugmynd fær stuðning af orðalagi annála (Skarðsár-, Grímsstaða- og Setbergsannálar) sem greina frá byggingu skansins 1627 og víðbúnað þar, að hann hafi verið reistur í Seilu / Seylu (Bessastaðanes er ekki nefnt í því samhengi). Annálar ársins 1667 herma að Otto Bjelke hafi átt að velja hentugan stað fyrir skans „til varnar við illþýði.“ Fyrirmælin sem hann hafði voru m.ö.o. ekki að styrkja eða endurreisa hinn fyrri skans. Þessa árs annálar, sem á annað borð tilgreina staðsetningu (Kjósarannáll, Fitjaannáll) segja líka að skansinn hafi verið reistur í Bessastaðanesi (ekki er þá talað um Seyluna). Í samhengi við „Gamle skans“ vestan Seylunnar koma í hugann upplýsingar úr fornleifaskráningu á svæðinu þar sem hafa komið í ljós gamlar tóftir.