Veglegur járnskjöldur mætir gestum uppi á vegg í fornleifakjallara Bessastaðastofu, þar sem komið er ofan stigann. Skjöldurinn, sem fannst í geymslu á staðnum, hefur enga augljósa tengingu við Bessastaði en ofarlega á honum eru stafirnir W og R upphleyptir, sitt hvoru megin við mannsmynd sem líklega er af konungi. Neðst á skildinum er ártalið 1698.

Sú hugmynd kemur fram í skýrslu um Bessastaðarannsóknina að skjöldurinn hafi verið gerður í tilefni af krýningu Jóhanns Vilhjálms III hertoga af Saxen-Eisenach árið 1698 og borist frá Þýskalandi með amtmanni eða þýskum kaupmönnum. Hann hafi ef til vill verið notaður sem skrautplata á ofni á Bessastöðum.
Þá er til að taka, að persónan á járnplötunni ber þau þrjú tákn sem hefðbundið var að konungar bæru við krýningu; kórónu, veldissprota og ríkisepli. Fyrir vikið er það freistandi að álíta að hér sé frekar skjöldur til heiðurs William III af Englandi (Vilhjálmi af Óraníu). Stafirnir má þá ímynda sér að standi fyrir „William Rex“. Ártalið 1698 væri hægt að tengja við það að þá undirrituðu William og Loðvík XIV svokallaðan Haag-sáttmála, sem var ætlað að ná diplómatískri sátt um yfirráð á Spáni. Spánsk yfirráð náðu jafnframt meðal annars til stórra landsvæða á Ítalíu og Niðurlöndum. William var prins af Óraníu og ríkisstjóri í Hollandi. Ekki er ólíklegt að skjöldurinn á Bessastöðum hafi verið gerður til minningar um samninginn sem átti að festa William í sessi sem ríkisstjóra í Hollandi.
Þetta er vissulega aðeins hugmynd en vel má gera sér það í hugarlund til viðbótar að skjöldurinn sé kominn til Bessastaða í þakkar- eða greiðsluskyni vegna hjálpar landfógeta við hrakta hollenska sæfara árið 1710, sbr.:
„Þetta haust, nokkrum dögum eftir það kaupfarið í Hafnarfirði var burt siglt, kom um veturnætur hollenzkt skip (hér) í Hafnarfjörð að kvöldi dags, á hverju sagðir voru 70 manns, hvert skip að brákazt hafði og laskazt í ísnum með 2 skipum öðrum. Tóku þessir fólkið af öðru upp á sitt skip, en það þriðja varð eftir í hafísnum. Þetta fólk var mjög máttdregið af matarskorti, og fékk herra landfógetinn, Páll Beyer á Bessastöðum, þeim 60 sauði tals og tvo eður 3 stórgripi. Þeir undu skip sitt upp á þurrt til aðgjörðar. Gengu margir menn af því skipi út um Álftanessveit sér matar að biðja. Höfðu þá ekki allir stóran skaða í kaupum og sölum íslenzkir, sem víxluðu við þessa bjargþrota menn. Þessir menn sigldu úr Hafnarfirði mánudaginn annan í vetri. Mælt var eftir þeim, að 19 vikur hefðu þeir fastir í hafísnum verið. (Setbergsannáll, B. IV, bls. 210).“