a8058f7a-66ff-40ba-b076-a4c6a3aa809e

„Á landi okkar eru tveir blettir, sem einhvern veginn er svo skamt á milli í mínu höfði, að jeg get varla hugsað svo um annan, að mjer detti hinn ekki í hug um leið, og er það vafalaust af því, að mjer finnst annar vera ljósasti bletturinn á landinu, en hinn sá svartasti. Þessir blettir eru Þingvöllur og Bessastaðir, skoðaðir í sjónauka sögunnar.“

-Þorsteinn Erlingsson

Bessastaðir í tímalínu

Ártal í fremsta dálki – Atburður í öðrum dálki – Heimild í aftasta dálki

     
Þrettánda öld
1241 Snorri Sturluson veginn að boði Hákons Hákonarsonar, Noregskonungs, sem við það eignaðist Bessastaði eftir hann og aðrar eigur hans.

Landnáma segir að Ingólfur Arnarson hafi gefið Ásbirni Özzurarsyni, frænda sínum, allt Álftanes. Bessastaða er fyrst getið í Sturlungu, þá í eigu Snorra og hann hafði þar bú.

Árni Óla: Blárra tinda blessað land, bls. 22, Bókfellsútgáfan, 1949.
Sextánda öld
1501 Enskir kaupmenn brutu upp Bessastaðakirkju og rændu úr henni konungssköttum. Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 13, Iðunn, 1980.
1502 Torfi í Klofa drepur Lénharð fógeta á Bessastöðum, að Hrauni í Ölfusi. Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 14, Iðunn, 1980.
1510 Menn Ólafs Diðrikssonar, Bessastaðafógeta, voru á yfirreið austur í sveitum og tveir þeirra féllu í bardaga við heimamenn á Breiðabólstað í Fljótshlíð í kjölfar ágreinings. Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 136, Iðunn, 1980.
1514 Enskir kaupmenn drápu Svein Þorleifsson, umboðsmann konungs á Bessastöðum og ellefu fylgismenn hans. Rændu konungsskipi með allri áhöfn. Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 43, Iðunn, 1980.
1522 Týli Pétursson, sem taldi sig hafa Ísland að léni úr hendi konungs, tók Hannes Eggertsson hirðstjóra höndum, braut upp kirkjuna „og rændi og ruplaði kirkju utan og innan, bæði sköttum konungs og fé Hannesar og annarra manna.“

Í desember varð mikið vestanveður á SV-landi. Átta skip brotnuðu á Álftanesi og á Bessastöðum féll stofa til grunna.

Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 63, Iðunn, 1980.
1532 Mikill ófriður hafði verið milli þýskra og enskra kaupmanna um vorið og í stórbardaga sló víða í höfnum á SV-landi. Í júní  var mest mannfall þegar Þjóðverjar og kóngsmenn af Bessastöðum fóru að enskum í Grindavík. Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 87, Iðunn, 1980.
1539 Hirðstjóri konungs, Kláus frá Marvitsen, og fulltrúi hans á Bessastöðum, Diðrik frá Mynden, frömdu rán og spellvirki á Klaustrinu í Viðey. Brutu upp hirslur og rændu því fémætu sem þeir fundu ásamt skreið og kvikfénaði, auk þess að þeir börðu fólk.

Diðrik fógeti var drepinn í ágúst sama ár í gististað í Skálholti (bls. 115).

Kláus van der Marvitsen var svo sviptur embætti með alþingisdómi, „fundinn sekur um lögbrot og illvirki, og dæmdur rógberi og óbótamaður“ (bls. 123).

Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 112, Iðunn, 1980.
1546 Mannskæð sótt gekk um landið; fimmtíu manns jarðaðir á Álftanesi og sjötíu að Bessastöðum. Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 146, Iðunn, 1980.
1550 Talið er að Kristján skrifari, fógeti á Bessastöðum, hafi verið frumkvöðull aftökunnar á Jóni biskupi Arasyni og sonum hans með samþykki fyrirmanna í Skálholti. Jón Helgason: Öldin sextánda (I), bls. 178, Iðunn, 1980.
1553 Getið er um að tveir menn hafi strokið úr haldi á Bessastöðum árinu áður. Brutust úr járnum og komust út um ónhúsið. Þeir höfðu báðir komið að vígi Kristjáns skrifara. Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 40, Iðunn, 1981.
1555 Bessastaðasamþykkt, „gerð af helstu mönnum“, þrengir að klerkastéttinni og skerðir kirkjuvaldið, t.d. fornt dómsvald kirkjunnar. Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 57, Iðunn, 1981.
1561 Höfuðsmaður konungs, Páll Stígsson, leggur það til við hann að Íslendingum verði bannað að selja öðrum en konungi brennistein. Ráðlagði einnig að konungur tæki sér einkrétt til allra lýsiskaupa á Íslandi.

Þetta varð, að ákvörðun konungs, í mars 1562 (bls. 86) auk þess sem hann sló eign sinni á brennisteinsnámurnar í Mývatnssveit (bls. 91).

Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 82, Iðunn, 1981.
1563 Páll Stígsson höfuðsmaður, færði allar jarðir á Suðurnesjum og Innnesjum úr eigu Skálholtskirkju undir konung, að hans boði.

Páll Stígsson sá með eigin augum „hversu almúgafólk er mjög lítið skikkað, siðað og vanið“ til kristilegrar kirkjubreytni. Fyrirskipaði því aðgreiningu karla og kvenna við kirkjugöngur, setti reglur um lútherskt knéfall og fleira.

Höfuðsmaðurinn skrifaði nýtt áminningarbréf til alþýðunnar um kirkjusiði árið 1565 með ítarlegri fyrirmælum um að „umsnúast og klæðast þeim nýja manni“ (bls. 102).

Bessastaðanes (eða Álftanes) er á þessum tíma kallað Kóngsnes.

Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 96, Iðunn, 1981.

Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 97, Iðunn, 1981.

Ben. Gröndal: Dægradvöl, bls. 11, útg. M&M, 1965.

1566 Hirðstjóraannáll greinir frá því að Páll Stígsson hafi dáið á Bessastöðum og verið grafinn fyrir framan altarið í Bessastaðakirkju „hvar yfir hans gröf er stór líksteinn af marmara, sem ekki á sinn líka á öllu Íslandi…“

Páll var að ríða fram á Álftanes þegar hann hleypti hesti sínum í forað (hlandfor) hjá Lambhúsum og drukknaði. „Páll Stígsson var strangur maður og refsingasamur, íhlutunarsamur og harðdrægur, dró arðsamar jarðeignir undir konung og knúði alþingi til þess að samþykkja langadóm“.

Hinrik Krag, nýr höfuðsmaður á Bessastöðum, hreppti lögbók úr eigu hálfbróður síns og forvera, Páls Stígssonar. Bókina hafði Grímur Skúlason, Skálholtsprestur, verið fenginn til að skrifa handa æðstu mönnum (bls. 106).

Ben. Gröndal: Dægradvöl, bls. 6, útg. M&M, 1965.

Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 110, Iðunn, 1981.

1570 Nýr höfuðsmaður á Bessastöðum, Jóhann Bockholt varð fyrir árás skraddara staðarins á jólanótt, sem hugðist rota hann með staf þar sem höfuðsmaðurinn lá í rekkju sinni. Skraddarinn sýndi af sér ýmsa vonsku þann vetur og var m.a. valdur að dauða 16 ára gamals smásveins höfuðsmannsinns. Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 125, Iðunn, 1981.
1578 Fógeti höfuðsmanns á Bessastöðum, Benedikt Pétursson, var fundinn sekur um tvíkvæni og ranga tíundargerð. Kom í ljós að honum látnum. Jón Helgason: Öldin sextánda (II), bls. 143, Iðunn, 1981.
Sautjánda öld
1601 Á Öxarárþingi um sumarið, skrifuðu landsmenn konungi ávarp þar sem kvartað var m.a. um athafnir Jóhanns Bockholts, höfuðsmanns á Bessastöðum. Höfuðsmaðurinn neitaði um innsigli landsins á bréfið og reyndi að koma í veg fyrir að því yrði komið á konungsfund. Umkvartanirnar snerust um að erlendir menn (þ.m.t. höfuðsmaður) hafi hafist til valda á Íslandi án þess að þekkja til landslaga og álögur séu meiri en lög leyfa. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 10, Iðunn, 1966.
1606 Nýskipaður höfuðsmaður, danski sjóliðsforinginn Herluf Daa, sendi eftir Jóni lögmanni Jónssyni á Þingeyrum á sinn fund. Lögmaður reið suður og lét tjalda yfir sig hjá kirkjugarðinum á Bessastöðum. Höfuðsmaður og lögmaður sátu lengi saman að drykkju en um morguninn kom í ljós að lögmaðurinn hafði kafnað í tjaldi sínu. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 21, Iðunn, 1966.
1617 Mannskæð bólusótt gekk um landið með miklu manntjóni. Við Garðakirkju voru jarðaðir minnst þrjátíu og fimm manns sem dóu úr sóttinni, en fimmtíu á Bessastöðum. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 49, Iðunn, 1966.
1618 Konungur sendi tvo danska umboðsdómara með herskipi til Bessastaða, þar sem þeir höfðu aðsetur á kostnað konungs. Þeir skyldu rannsaka stjórnarfar og embættisrekstur. Miklar klaganir voru á hendur höfuðsmanninum en ýmsar ráðstafanir hans voru ekki í samræmi við reglur. Umboðsdómararnir dæmdu ekki um sakir höfuðsmanns, heldur sendu skýrslu til konungs um embættisferil hans á Íslandi. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 51, Iðunn, 1966.
1619 Friðrik Friis, annar umboðsdómaranna, var um vorið skipaður höfuðsmaður á Íslandi þegar Herluf Daa var sviptur embættinu vegna afglapa.

Nýsmíðuð, stór og háreist kirkja á Bessastöðum hrundi til grunna í ofsaveðri sem gekk yfir.

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 53, Iðunn, 1966.
1620 Ný kirkja með torfveggjum og torfþaki reist, og notaðir til smíðinnar viðir úr foknu kirkjunni.

Nýr höfuðsmaður skipaður; Holgeir Rósinkrans, sjóliðsforingi.

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 54, Iðunn, 1966.
1627 Hirðstjóraannáll segir frá því að Rósenkrantz höfuðsmaður hafi komið til Bessastaða í öndverðum júní. Þegar hann heyrði um rán Tyrkja í Grindavík sem upphófst 12. júní, stefndi hann kaupförum úr Hafnarfirði og Keflavík inn í Seyluna þar sem hans eigið skip lá. Höfuðsmaðurinn lét búast til varnar á sjó og landi, og lét byggja virki (skans). Þangað voru færðar þær feltbyssur sem til voru. Virkið var mjög lítið og kallað „virkisnefna“.

Bændur munu hafa verið kvaddir til virkishleðslunnar og fallbyssur þangað dregnar sem voru heima á Bessastöðum. Safnað var liði um Nesin og haldinn vörður dag og nótt. Allir aðkomumenn á Bessastöðum voru kyrrsettir, meðal annars þrír Frakkar sem kunnugir voru skotvopnum, og Jón Indíafari, sem hafði verið skytta á herskipum Danakonungs. Ránsmenn skutu úr byssum sínum þegar þeir nálguðust á tveimur skipum og var þeim svarað með fallbyssuskotum úr virkinu og af hirðstjóraskipinu. Eftir að víkingarnir gátu bjargað öðru skipi sínu sem hafði strandað á grynningum við Löngusker, drógu þeir sig burt.

Hirðstjóri steig á bak hesti sínum þegar sást til víkingaskipanna. Hann reið fram og aftur um tún og móa ásamt sveinum sínum og mörgum „hinna betri manna“, þeir héldu stöngum á lofti og létu líta út fyrir að þar færi mikið, vígbúið lið. Ræningjarnir munu ekki hafa látið hræðast af þessu. Þeir munu þó hafa vikið skipunum undan fallbyssuskotunum og þá strandað öðru skipinu. Eftir að það náðist á flot héldu þeir á brott en skutu á leið sinni einu skoti upp á land á Seltjarnarnesi.

Ben. Gröndal: Dægradvöl, bls. 4, útg. M&M, 1965.

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 65, Iðunn, 1966.

Jón Helgason: Tyrkjaránið, bls. 24, Iðunn, 2. prentun 1983.

1633 Ólafur Pétursson, fógeti á Bessastöðum, hélt úti fiskiduggu um sumarið, sem hann hafði látið smíða. Um haustið seldi hann hana dönskum manni.

Norskættaður sjóliðsforingi, Pros Mundt, tók við höfuðsmannsembættinu af Holgeiri Rósinkrans (bls. 79).

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 78, Iðunn, 1966.
1639 Höfuðsmaður hefur landið á leigu og hirðir af því ýmis gjöld, auk afraksturs af búskapnum á Bessastöðum. Hann geldur konungi 800 kýrverð á ári (kýrverð = fjórir ríkisdalir á þessum tíma). Þá hefur höfuðsmaður umboðsmann á Bessastöðum og leigir frá sér sýslur og lén. Álitið að hreinar tekjur höfuðsmannsins af landinu nemi árlega um 750 kýrverðum. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 90, Iðunn, 1966.
1644 Pros Mundt, höfuðsmaður, féll í sjóorrustu við Láland um haustið og eftir það fór Bessastaðafógeti, Jens Söffrensson, með umboð konungs um hríð. Hann hafði aðeins föst árslaun, 250 dali auk viðurværis. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 106, Iðunn, 1966.
1649 Danskir menn stálu skreið á Eyrarbakka í aprílmánuði. Bessastaðafógeti fór með liðsafla, tók skipið og handsamaði skipverja. Fór með til Bessastaða, lagði skútunni á Seylunni en færði mennina í járn. Staðarböðullinn var settur til að gæta þeirra Fyrirliði ránsmanna slapp úr haldinu og komst í skip vestanlands.

Ákveðið var að skipa að nýju höfuðsmann sem skyldi fá allar fastar tekjur konungs á leigu fyrir 3.200 dala árlegt afgjald. Norskur aðalsmaður, Hinrik Bjálki, skipaður í embættið. Hann sór konungi trúnaðareiða á Þingvöllum, þangað sem hann lét flytja þrjár koparfallbyssur frá Bessastöðum vegna hyllingarinnar. Byssurnar fluttar aftur til síns heima þar á eftir. Skotið allt að sjötíu skotum þegar drukkið var minni Friðriks III, kóngs.

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 108, Iðunn, 1966.
1662 Eftir erfðahyllingu Friðriks konungs III, efndi Hinrik Bielke til veglegs gestaboðs á Bessastöðum. „Fallbyssur þrumuðu, bæði á sjó og landi, þrjár í senn, og flugeldum var í sífellu skotið á loft, en slíkt er mjög fáséð hér á landi.“ Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 141, Iðunn, 1966.
1663 Tómas Nikulásson fógeti bar upp ósk frá Hinrik Bjálka um að sérstakar álögur yrðu settar á landsmenn svo kaupa mætti herskip og gera út við Ísland til að verjast mögulegu strandhöggi tyrkneskra víkinga. Englendingar og Hollendingar höfðu í sáttmála við Tyrki, heimilað þeim frjálsa ferð um höfin. Prestastefna Brynjólfs biskups á Öxarárþingi hafnaði skattkröfunni og sögðust ekki vilja varpa þyngri byrðum á fátækan almúgann en þegar á honum hvíldi. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 145, Iðunn, 1966.
1665 Tómas Nikulásson, fógeti á Bessastöðum, drukknaði við sjöunda mann fram undan Melum í Melasveit. Var á leið að Einarsnesi á Mýrum á skútu en ætlaði þaðan landleið á Snæfellsnes og síðar á Vestfirði „að knýja fé af fjáðum mönnum.“ Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 152, Iðunn, 1966.
1667  Friðrik konungur III sendi hingað Otto Bielke með stórt stríðsskip sem hét Oldenborg. Það lá svo á Engeyjarsundi. Tilefnið var orðrómur um að Enskir hyggðust hertaka Ísland, en Danir áttu í stríði við þá.

Hollenskt Indíafar, Het Wapen van Amsterdam [„Gullskipið“] strandaði á Skeiðarársandi. Otti Bjálki, danskur flotaforingi sem sat þennan vetur á Bessastöðum, skipaði að allur varningur sem bjargaðist úr skipinu skyldi fluttur til sín. Strandgóssið væri vogrek og konungsfé. Gefið er í skyn að lítið skili sér á Bessastaði og lítið jafnvel þaðan til konungs.

Ben. Gröndal: Dægradvöl,bls. 5,  útg. M&M, 1965.

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 155, Iðunn, 1966.

1668 Otto Bielke lét Suðurnesinga gera skans í nesinu fyrir norðan Bessastaðatún og lét færa þangað nokkur fallstykki af járni. Haustið áður skikkaði hann alla sýslumenn á landinu til þess að leggja peninga til byggingar skansins.

Skansinn var lítill; tuttugu málfaðmar á hvorn veg og tveggja mannhæða hár. Otti Bjálki hafði svo með sér burt af landinu mikið af virkisskattinum sem lagður var á, ásamt strandgóssinu úr Indíafarinu.

Ben. Gröndal: Dægradvöl,bls. 5,  útg. M&M, 1965.
1683 Konungur skipaði nýjan landfógeta, með búsetu á Bessastöðum. Danskur maður, Kristófer Heidemann, með 400 ríkisdala árslaun. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 185, Iðunn, 1966.
1684 Eftir breytingar á stjórn landsins sem ákveðnar voru 1683, skipaði Kristján V konungur stiftamtmann í stað höfuðsmanna og hirðstjóra áður. Fyrir valinu varð launsonur kóngs á sjötta ári.

Jón Hreggviðsson frá Fellsöxl í Skilmannahreppi, strauk úr haldi á Bessastöðum, en hann var borinn því að hafa myrt Sigurð Snorrason böðul (bls. 188).

Landfógetahjónin flýðu Bessastaði þegar barn þeirra andaðist skyndilega í vöggu, og í sama bili slokknuðu þar öll ljós (bls. 189).

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 186, Iðunn, 1966.
1688 Nýr embættismaður skipaður; amtmaður. Hann skyldi annast dómgæslu hérlendis og stjórngæslu að því leyti sem landfógeti annaðist hana ekki. Amtmaðurinn var fulltrúi stiftamtmanns, sem var tíu ára gamall. Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 195, Iðunn, 1966.
1690 Klemens Bjarnason úr Strandasýslu var dæmdur á bál á Öxarárþingi vegna kukls og forneskju. Dönsku valdsmennirnir á Bessastöðum áfrýjuðu dómnum til konungs, sem þyrmdi lífi hins sakaða en gerði hann útlægan af Íslandi um aldur og ævi. Dregið hafði úr galdrabrennum fram að þessu en með þessu fór að hilla undir lok þeirra.

Kaupmenn höfðu ekki lengur allar Íslandstekjur á leigu. Danska stjórnin ákvað uppboð og Heidemann landfógeti bauð hæst í þær, rúma 5.700 dali. Árið eftir framseldi hann leiguna kaupmönnum í Hólminum (bls. 202).

Jón Helgason: Öldin sautjánda, bls. 199, Iðunn, 1966.
Átjánda öld 
1701 Matjurtagarðar eru sagðir fáir að heitið geti á Íslandi, helst þó á Bessastöðum og biskupssetrunum. Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 13, Iðunn, 1960.
1714 Samtals færðu átta fálkafangarar 88 fálka til Bessastaða og fengu greidda fyrir þá 440 ríkisdali. Tilgreint er hvað keypt var af fóðri fyrir fálkana og vaðmál til aðbúnaðar. Samanlagður kostnaður af fálkunum er sagður á áttunda hundrað ríkisdala. Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 48, Iðunn, 1960.
1721 Nýtt hús er sagt í smíðum á Bessastöðum, ætlað landfógeta, stiftamtmanni og amtmanni. Húsið er 35 álna langt og 12 álna breitt. Danskir handverksmenn voru hingað sendir til byggingarinnar en Íslendingar hafðir þeim til aðstoðar. Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 68, Iðunn, 1960.
1724 Í júní, rétt fyrir Jónsmessu, lést Appolónía Schwartzkopf á amtmannssetrinu á Bessastöðum, með tortryggilegum hætti.  Grunur um manndráp beindist einkum að Hólmsmæðgum.

Tvö Hamborgarskip komu inn í Hafnarfjörð og sköpuðu mikinn ótta um að þar færu sjóræningjar. Fuhrmann amtmaður lét flytja brott bækur, skjöl og meðfærilegar eigur, þar til í ljós kom að skipverjar fóru með friði (bls. 80).

Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 78, Iðunn, 1960.
1725 Prófastur á Breiðabólstað, sem hafði verið skipaður umboðsdómari í „Svartkoppumálinu“, sýknaði Hólmsmæðgur eftir að skipaður meðdómari hans , Hákon Hannesson, sýslumaður Rangæinga, hafði sagt sig frá málinu. Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 86, Iðunn, 1960.
 172? Fuhrmann amtmaður á Bessastöðum tók arf eftir Guðmund ríka Þorleifsson í Brokey. Amtmaður sótti arfinn vestur; þrjár skjóður með peningum, rúmfatnað og dýrgripi. Allt flutt á fjórum hestum suður og sett í skemmu á Bessastöðum. Skemman brann nóttina eftir en peningarnir munu hafa gengið allir í Schwartzkopf-málið. Árni Óla: Blárra tinda blessað land, bls. 29, Bókfellsútgáfan, 1949
1745 Pingel amtmaður vék Kristjáni Drese landfógeta frá embætti vegna drykkjuskapar og sjóðþurrðar, sem talin var nema nálega hálfu þriðja þúsundi ríkisdala. Drese, sem gegnt hafði landfógetastörfum í sex ár, hafði verið ákærður í lögréttu á Öxarárþingi fyrir „vonda hegðun, hemjulausan drykkjuskap og óreiðu í emb ætti“. Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 152, Iðunn, 1960.
1749 Mikil garðrækt er sögð hjá Kristjáni Pingel, amtmanni á Bessastöðum. Þar ræktað kál, rófur ýsmar kryddjurtir og svo mikið af sykurertum að nægir á borð amtmanns vetrarlangt. Þar eru stikilsberjarunnar sagðir hafa borið ávöxt. Á Bessastöðum og víðar rækti menn sjálfir fræ handa sér.

Niels Horrebow mældi hnattstöðu Bessastaða; 64°6‘ norðurbreiddar og 25°vesturlengdar frá London (bls. 174).

Skúli Magnússon, sýslumaður Skagfirðinga var skipaður landfógeti (bls. 174).

Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 173, Iðunn, 1960.
1751 Skúli Magnússon þróar hugmyndir sínar með Níels Horrebow á Bessastöðum um verksmiðjur, fiskiduggur og nýja búskaparhætti í landinu. Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 181, Iðunn, 1960.
1752 Skúli fógeti kom til landsins með duggur og efnivið í verksmiðjubyggingar. Ungur maður, Dannenberg, sem ráðinn var til að veita ullarverksmiðjunum forstöðu, var fyrst um sinn á Bessastöðum og skyldi byrja vefnað þar.

Hefja átti trjárækt á Bessastöðum. Settar niður nokkrar ungar víðiplöntur, sem drápust þó á fyrsta sumri. Thodd, stiftamtmaður, lét gera sáðreit á Sjóbúðarflöt. Lét sækja tað til áburðar í reitinn til Vífilsstaða og það flutt á vetrum á snjóalögum og ísum. Sáði byggi, baunum og kúmeni í akurinn. Um miðja 20. öld mátti enn sjá sjálfsáið kúmen víða um nesið, meðfram girðingum og víðar.

Árni Óla: Blárra tinda blessað land, bls. 26, Bókfellsútgáfan, 1949
1753 Skúli fógeti og Magnús Gíslason amtmaður gengust fyrir töku þingvitna í öllum kaupstöðum landsins um verslunarhætti Hörmangara. Þeir voru sakaðir um að vera valdir að hungursneyð í landinu. Jón Helgason: Öldin átjánda I, bls. 196, Iðunn, 1960.
1758 Fyrri hluta sjötta áratugar 18. aldar var skilað að Bessastöðum 100-150 fálkum á ári. Árið 1758 fengust aðeins tæplega 40, þar af örfáir hvítir en þeir voru eftirsóttastir.

Rauð jarðepli gáfu af sér uppskeru á Bessastöðum, sögð hafa sprotti dável. Fyrstu jarðeplin sem ræktuð voru á Íslandi. Rantzau greifi var helsti hvatamaður jarðeplaræktarinnar og Friðrik Hastfer (kallaður Hrúta-baróninn) sáði. Skúli fógeti hafði kynnt sér álit sænska grasafræðingsins Karls Linné um að jarðepli væru ekki ræktanleg hérlendis (bls. 230).

Jón Helgason: Öldin átjánda, bls. 229, Iðunn, 1960 .
1761 Bygging stórhýsa úr höggnum steini að hefjast á Bessastöðum og í Nesi við Seltjörn. Sagt er að þegar árið 1759 hafi verið hafist handa um að losa grjót í Fossvogi í bygginguna á Bessastöðum og það flutt á gömlum sexæringi að lendingu þar. Árið 1760 var grjótinu ekið hveim á vagni, sem hesti var beitt fyrir. Sumarið 1761 var fjöldi manna í efnisflutningum til Bessastaða og byrjað að grafa fyrir grunni hins nýja húss, en grafa þurfti átta eða níu álnir niður. Duggan Friðriksvon kom sama vor með kalk í byggingarnar og tveir múrarar komu til þess að vinna að steinsmíði og veggjagerð; Jóhann Georg Berger og Þorgrímur Þorláksson.

Magnús amtmaður gerir sýslumanni Árnessýslu að fela dugandi bændum að smala afrétti og reka 24 naut að Gufunesi, til fóðrunar fálkum á útsiglingu frá Íslandi.

Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 10, Iðunn, 1961.
1763 Magnús amtmaður leitaði fallegra íslenskra hunda til að senda utan, að boði stiftamtmanns. Tveir hundar voru valdir til framsiglingar, þó þeir þættu „ekki jafnfallegir og skyldi“. Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 17, Iðunn, 1961.
1766 Smíði Bessastaðastofu lokið og amtmaður fluttur inn. Áætlanir um kostnað stóðust illa, en jafn mikið grjót fór í grunninn einan og ætlað var í alla veggina. Byggingarkostnaður 4.300 ríkisdalir. Sá galli er á, að tvisvar kom fram þakleki sem ekki varð lát á þó þakið væri tjargað tvisvar þetta sumar.

Magnús Gíslason amtmaður lést á Bessastöðum í nóvember, aðeins þremur mánuðum á eftir konu sinni. Sagður merkur maður, sem átti þátt í nálega öllum framfaramálum á Íslandi frá því um 1750 (bls. 34).

Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 32, Iðunn, 1961.
1770 Nýr stiftamtmaður skipaður, Lárus Andrés Thodal. Fyrsti stiftamtmaðurinn sem flyst til landsins og hefur búsetu á Bessastöðum. Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 52, Iðunn, 1961.
1774 Thodal stiftamtmaður uppskar fimm tunnur af góðu byggi og tvær af lakara um haustið, eina tunnu af höfrum og aðra af kartöflum. Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 97, Iðunn, 1961.
1779 Um það leyti er Lambhús byggt og Rasmus Lievog settist þar að sem stjörnumeistari. Síðar bjó þar lektor skólans. Ben. Gröndal: Dægradvöl, bls. 11, útg. M&M, 1965.
1781 Norski stúdentinn Rasmus Lievog hefur gert stjörnumlingar, grennslast eftir skekkju segulnálar og mælt sjávarföll. Einnig gert veðurathuganir þrisvar á dag og stundum um nætur undangengin tvö ár. Allt þetta þrátt fyrir að dregist hafi að byggja stjörnuturn eða athugunarstöð. Sagt er frá því að reist hafi verið íbúðarhús handa Lievog, ræst fram mýri og hlaðinn garður kringum túnið. Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 142, Iðunn, 1961.
1784 Thodal stiftamtmanni var skipað að hafa viðbúnað til að veita viðtöku fernum hérapörum sem send voru með fálkaskipinu um sumarið. Hann skyldi sleppa tvennum pörum í Botnsdal en hinum í Viðey eða Engey. Gera svo stjórninni í Kaupmannahöfn grein fyrir afdrifum dýranna. Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 156, Iðunn, 1961.
1785 Hérarnir sem hingað voru sendir með fálkaskipinu eru flestir taldir dauðir, sennilega lent í tófugini. Þó hafi einn sést á árinu lifandi.

Nýr stiftamtmaður skipaður í stað Thodals, von Levetzov, sem áður hafði ferðast nokkuð um Ísland (bls. 170).

Stiftamtmanni var falið að sjá um byggingu nýs skólahúss og kennarabústaða í Reykjavík fyrir Latínuskólann. Svokallaður Hólavöllur varð fyrir valinu til byggingar húsanna, uppi á brekkunni vestan við Tjörnina (bls. 176). Hinn nýi skóli var vígður með viðhöfn árið 1786, kostnaður við gerð hans varð tvöfalt meiri en áætlað var (bls. 183).

Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 156, Iðunn, 1961.
1786 Illt varð fljótlega milli nýs stiftamtmanns og Viðeyjarfeðga (Skúla landfógeta og Jóns sonar hans). Levetzov svipti þá báða embætti og sakaði um sjóðþurrð. Stiftamtmaður var sagður hafa haft hug á að fá Viðey til ábúðar en kjálka landfógetanum niður á Bessastöðum. Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 180, Iðunn, 1961.
1787 Eftir illindi og málarekstur, tók Skúli magnússon við landfógetaembættinu að nýju en frávikning aðstoðarfógetans, sonar hans, skyldi standa fyrst um sinn.

Dönsku stjórnarskrifstofurnar úrskurðuðu að stiftamtmaður og biskup skuli skrifa nöfn sín í sömu línu við undirritun í gerðabók sýnódalréttar. Levetzov hafði krafist þess að biskup skrifaði línu neðar en hann sjálfur (bls. 185).

Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 182, Iðunn, 1961.
1788 Levetzov  skrifaði áskorun til íbúa Suðuramtsins að gefa sig fram til landvarna ef ófrið bæri að höndum, en hingað hafði frést um væringar með Svíum og Rússum. Bestu undirtektirnar við útboðinu urðu á Álftanesi þar sem 203 menn buðu sig til landvarna, búnir 173 spjótum og stjökum, 29 tinnubyssum og einu skylmingasverði. Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 195, Iðunn, 1961.
1790 Fyrsti Íslendingurinn var skipaður í embætti stiftamtmanns; Ólafur Stefánsson amtmaður á Innra-Hólmi. Hann skyldi hljóta þriðjungi lægri laun en Levetzov, 1.000 ríkisdali. Meðal síðustu embættisverka Levetzovs var að skipa fyrir um uppskrift dánarbús Skúla Magnússonar og að því yrði komið í örugga vörslu, en hann hafði frétt að Skúli lægi hættulega veikur. Sú fyrirhyggja varð til lítils því Skúla batnaði sóttin.

Ólafur stiftamtmaður fór til Viðeyjar og tók 8.000 dali úr fjárhirslu landfógetaembættisins og fékk Tómasi Meldal amtmanni til varðveislu. Fór þess á leit við stjórnina að Skúla Magnússyni yrði skipaður aðstoðarmaður við embættisverkin þar sem hann væri ekki lengur fær um nauðsynleg ferðalög (bls. 201).

Jón Helgason: Öldin átjánda II, bls. 199, Iðunn, 1961.
1792
Nítjánda öld 
1809 Fallbyssurnar voru sóttar úr skansinum eftir boði Jörgensens (Jörundar hundadagakóngs) og fluttar á Arnarhól, þar sem gert hafði verið virki. Ben. Gröndal: Dægradvöl, bls. 5, útg. M&M, 1965.
1842-1846 Gluggi settur á þak kirkjunnar yst við turninn að norðanverðu, einhvern tíma á þessu árabili. Ben. Gröndal: Dægradvöl, bls. 10, útg. M&M, 1965.
1892 Hluti loftsins í kórnum í kirkjunni féll niður. Smiður gerði við eftir föngum en lýsti þverbitunum sem lágu milli veggjanna svo, að þeir væru hálf alin á hvern veg, en hefðu verið fúnir langt inn. Ben. Gröndal: Dægradvöl, bls. 9, útg. M&M, 1965.

 

Myndband um Bessastaðakirkju

http://www.youtube.com/watch?v=Mhqfnj4eOpg&list=HL1341436966&feature=mh_lolz

Forsetabíllinn R-1

Embætti forseta Íslands varðveitir uppgerðan bíl af gerðinni Packard One-Eighty, árg. 1942. Embættið eignaðist hann árið 1945 og hann var í notkun þess um nokkurra ára skeið þar til hann var loks seldur. Löngu síðar fannst bíllinn nær ónýtur en ákveðið var að ráðast í að gera hann upp í samstarfi Þjóðminjasafnsins og embættis forseta. Það var þrautin þyngri, því boddíbreyting var gerð á bílgerðinni aðeins þetta eina ár og því örðugt að fá íhluti. Endurbyggingin tók allmörg ár en henni tókst að ljúka þrátt fyrir margháttaða örðugleika meðan á henni stóð. Bíllinn er með skráningarnúmerið R-1 eins og upphaflega. Númersplatan er af mjög sérstakri gerð og R-ið stendur fyrir „Ríkisstjóri“.

Bíllinn er með 8 cylindra línuvél og hann er af lengri gerð, en tvær stærðir voru í boði. Sagan segir að sárafáir slíkir séu til í nothæfu ástandi í heiminum í dag. Hér er því um sérstakan dýrgrip að ræða – enda er hann meðhöndlaður sem slíkur.

Ljósm. Júlíus Ó. Einarsson, 17. júní 2010

Ein athugasemd á “Bessastaðir á Álftanesi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s